13.04.1929
Neðri deild: 44. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

16. mál, fjárlög 1930

Magnús Jónsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs á fimtudaginn kl. 41/2 síðdegis, og nú er kominn laugardagur. Jeg hefi nú síðan skrifað niður þó nokkuð marga punkta undir hita orustunnar, sem jeg ætlaði mjer að athuga nánar í ræðu minni. En nú eftir friðarræðu hæstv. forseta, þar sem hann óskaði eftir því, að menn væru bæði góðorðir og gagnorðir, þá verð jeg nú líklega að hverfa frá að halda, eins og jeg ætlaði, 2–3 tíma ræðu, og það hreint ekki með sem vægustum orðum. En jeg ætla nú að verða við tilmælum hæstv. forseta og hlaupa aðeins yfir örfáa punkta, og það með fáum og vægum orðum til þess þó að falla ekki algerlega frá orðinu.

Jeg ætla þá fyrst að víkja fáeinum orðum að hv. þm. Ísaf. Hv. þm. bæði byrjaði og endaði sína ræðu í skraddarafaginu, þar sem hann var að tala um brækur hæstv. forsrn. og hvernig þær færu honum. En brækur hv. þm. sjálfs eru nú alleinkennilegar; þar er sín skálmin úr hvoru efni og sín með hvorum lit. Hv. þm. var bæði með og móti hæstv. stj. Hann rjeðist að vísu af allmiklu forsi á stj., en hvarf brátt frá því og fór að skamma Íhaldsflokkinn. Þetta var afareinkennileg ræða. Það var eins og hv. þm. gleymdi því fljótlega, sem hann hafði ætlað sjer, en það var að halda sjónleik með því að þykjast vera að skamma stj. En svo kom það, sem inni fyrir bjó, þegar hann fór að skamma hv. 1. þm. Skagf. og aðra íhaldsmenn. Þetta mun áreiðanlega þykja mjög einkennileg ræða, ef hún sýnir sig í Alþt. eins og hún var haldin. Hv. þm. talaði um það, að stj. væri mótfallin breyttri kjördæmaskipun, og Framsóknarflokkurinn yfirleitt. En þá er það því undarlegra, að þessi hv. þm. og jafnaðarmenn yfirleitt skuli vilja styðja þessa stj. Og það er því undarlegra, sem þetta er frá sjónarmiði hv. þm. undirstöðuatriði allra annara mála. Og þar sem þetta er svo mikilsvert atriði, þá ætti hv. þm. varla að geta verið með stj. vegna þess, hvað sem öðrum málum líður.

Jeg skal ekki mikið fara út í þann „móral“, sem lýsti sjer í því, að hv. þm. sagði, að jeg hefði lofað hæstv. núv. stj. Jeg sýndi í ræðu minni, að stj. væri óspilunarsöm á fje ríkisins, ranglát og hlutdræg. Jeg skil ekki „móral“ þessa hv. þm., ef þetta er lof.

Jeg skal svo ekki að sinni víkja meira að þessum hv. þm. En jeg geymi þá punkta, sem honum voru ætlaðir. Ef þessi hv. þm. kemst á fætur og lætur sjá sig hjer áður en jeg lýk máli mínu, má vera, að jeg komi að þeim síðar.

Þá var það ræða hv. 2. þm. Reykv. (HV), sem jeg þurfti nokkuð að athuga. En það er nú nokkuð erfitt, þar sem þessi hv. þm. er ekki heldur staddur hjer nú. Þessi hv. þm. er fjórði maðurinn, sem hefir komið fram með drjúgar dylgjur út af fyrirspurn, sem jeg gerði til hæstv. forsrh. út af framkvæmd á tekju- og eignarskattslögunum. En þessi hv. þm. gleymdi nú fljótlega stund og stað og kom með langan fyrirlestur um skattsvik o. fl. Af hlífð við þennan hv. þm. verð jeg helst að gera ráð fyrir því, að þennan hv. þm. hafi verið að dreyma, þar sem hann líka hjelt ræðu sína um hánótt, og haldið að hann væri staddur á bæjarstjórnarfundi eða niðri í Bíó og væri þar að hlusta á fyrirlestur Magnúsar V. Jóhannessonar. Annars þykir mjer betra að svara þessu í sambandi við það, sem jeg þarf að athuga í ræðu hæstv. forsrh. Þá sagði hv. þm., að það fyrsta, sem þyrfti að gera, væri að bæta kjör verkalýðsins. Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, að kjör verkalýðsins hefðu stórbatnað á síðustu áratugum, og miklu meira en kjör nokkurra annara stjetta, Og þetta er rjett. En það er mjög einkennilegt að heyra hv. jafnaðarmenn tala um bætur á kjörum verkalýðsins. Þær umbætur, sem þeir sjá, eru innifaldar í því einu, að byggja þurfi hús fyrir þá, koma upp ellitryggingum og þess háttar. En þeir sjá aldrei, að sú eina umbót, sem nokkru nemur og að haldi getur komið, er að styrkja svo og efla atvinnu vegina, að þeir verði færir um að borga meira kaup. Hitt er altsaman smávegis, sem vel þarf að gæta að og getur komið við hliðina á hinu. En bættur atvinnurekstur er og verður ávalt undirstaðan. Og á því, hvernig tekst að umbæta hann, velta kjör verkalýðsins. Það er því ljóst, hver mótsögn er í því fólgin hjá hv. jafnaðarmönnum, er þeir þykjast vilja bæta kjör verkalýðsins, en vilja hinsvegar koma atvinnuvegunum á knje með óbærilega háum sköttum og koma að öðru leyti fram sem kaldrifja fjendur í garð atvinnuveganna.

Hæstv. forsrh. virtist vera mjög glaður yfir ýmsu í minni ræðu. Það er nú viðurkent, að hæstv. forsrh. er ákaflega vel lyntur, svo vart er nokkuð það til, sem getur komið honum út úr hans góða skapi. Hann er ánægður með alt, og jafnvel það að vera í þessari dæmalausu stjórn. Hæstv. forsrh. var glaður yfir því í fyrra, að hv. 1. þm. Skagf. sagði þá, að hann hefði tvö andlit, og áleit, að þm. með því vildi líkja sjer við þann vitra rómverska guð, sem sá bæði fram og aftur. En hæstv. forsrh. játaði þó, að hv. 1. þm. Skagf. mundi vera farinn að ryðga í goðafræðinni. Skaut þar upp nokkurri sjálfsþekking hjá honum. Nú gladdist hæstv. forsrh. yfir því, að jeg hjelt í upphafi umr., að það væri ekki mikill eldsmatur í þetta sinn. Svo var það í raun og veru, að mjer virtist vera miklu minna um eldsneyti en í fyrra. En eftir að hafa heyrt og sjeð öll þau sprek, sem kastað hefir verið á glæður stj. af ýmsum hv. þm., þá verð jeg að taka það aftur, að minna sje á að taka en í fyrra. Jeg vildi í lengstu lög halda mjer við þá veiku von, að sú “kritik“, sem hæstv. stj. fjekk á sig hjer í fyrra, hefði orðið til þess að bæta hana. Og jeg held, að snörp „kritik“ frá stjórnarandstæðingunum geti heft hverja stj. frá að gera ýms afglöp. En þessar 30 klt. umr. hafa ákaflega mikið veikt þá trú mína, að stj. hefði farið heldur batnandi.

Jeg vil þá víkja nokkuð að framkvæmd skattalaganna í Rvík.

Það er hinn mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh., ef hann hefir haldið, að jeg væri með fyrirspurn minni að finna að skattstjóranum. Hann er víst mjög duglegur maður; hæstv. dómsmrh. lýsti ætt hans og eiginleikum. En með því er auðvitað lítið sagt. Jeg get vel trúað, að hann sje samviskusamur og skyldurækinn; en jeg leyfi mjer að efast mjög um, að hann sje fremri fyrv. skattstjóra, sem er einn af mestu dugnaðar- og skarpleikamönnum á landinu. Og það er vissulega ekkert last um hinn nýja skattstjóra, þó sagt sje, að hann muni ekki að svo komnu vera eins fær og Einar Arnórsson. Jeg spurði aðeins um lagaheimildir fyrir þessum skýrslukröfum skattstjórans; þær er ekki að finna í útsvarslögunum eða tekju- og eignarskattslögunum, og hvergi annarsstaðar. Ef þetta er eins nauðsynlegt og stj. segir, verður hún að skaffa sjer heimild til að láta gera það.

Mjer var sagt, að hinn nýi fjmrh. (EÁ) hefði svarað þessu atriði í ræðu minni. Jeg hefi fengið skrifaða punkta úr því, sem hann sagði, og skilst, að þó hann talaði ekki lengi, þá hafi hann verið að reyna að koma því inn hjá mönnum, að jeg væri að ganga erindi skattsvikara í Reykjavík hjer á Alþingi, en mundi þó hafa annað þarfara að gera. En hæstv. fjmrh. hefir ekkert fyrir sjer í þessu. Jeg efa ekki, að í jafnstórum bæ eins og Reykjavík vilji menn ekki taka silkihönskum á skattsvikum. Hví skyldi jeg ekki vilja, að stóratvinnurekendur mjer í Reykjavík fengju þann skatt, sem þeir eiga að bera lögum samkvæmt? Jeg vil, að allir fái þann skatt, sem þeim ber. Jeg spurði aðeins um heimildina og held, að stj. hafi látið skattstjórann gera þetta í heimildarleysi. Það er ekki leyfilegt að krefja skattþegna um frekari skýrslu, nema grunur sje um, að ekki hafi verið rjett fram talið. Þegar því allir eru krafðir um viðbótarskýrslu, þá er það sama og að segja, að allar framtalsskýrslur manna sjeu grunsamlegar. Og að strika út allar skuldir, sem ekki er gerð nánari grein fyrir, er sama sem að segja, að allar þær skuldir sjeu upplognar. Þetta kalla jeg ósæmilega framkvæmd laganna. Eftir útsvarslögunum er aftur á móti aðeins heimilt að krefja hvern mann upplýsinga um sinn eiginn fjárhag, en ekki annara manna, sem eiga hjá honum. Hæstv. fjmrh. hefði mátt spara sjer allar dylgjur um það, að jeg gengi hjer erindi skattsvikara í Reykjavík.

Eins er það með úrskurð stj. út af skattsvikum, ef upp komast; þá á að greiða hina sviknu skattupphæð margfaldaða með áratölunni. Þetta brýtur í bág við refsiákvæði tekjuskattslaganna. Samkv. þeim má leggja á þá menn, sem svíkjast undan skatti, alt að 10-faldri upphæð hans; en hjer er í úrskurðinum aðeins farið eftir árafjölda. Hæstv. ráðh. kvað hafa talið þetta vægan úrskurð. Jeg er ekkert glaður yfir því, þó að þessi úrskurður ráðh. sje vægur. Jeg bið ekki um neina vægð; bara um rjettan úrskurð. Þetta mildar ekkert minn hug gagnvart úrskurðinum. Jeg er á móti honum, af því jeg tel hann algerlega rangan. Út af þessu atriði um tekjuskattinn komst jeg að því að svara ræðu hæstv. fjmrh., en nú sný jeg mjer aftur að hæstv. forsrh.

Hann sagði um nafnafalsanirnar í „Esju“-áætluninni, að það væri að vísu smámál, en þó væri rjett að breyta þeim staðarnöfnum, sem útlendir „kokkar“ hefðu sett, til rjetts íslensks máls. En hjer er ekki um afbökuð nöfn að ræða. Ísafjörður er t. d. jafnrjett íslenskt nafn og Skutulsfjarðareyri. Það var miklu meiri ástæða fyrir Norðmenn, þegar þeir voru að koma af höndum sjer aldönskum bæjanöfnum; t. d. eins og ef Reykjavík hefði verið kölluð Kristjánsvík. En hjer hjá okkur er aðeins um að ræða alíslensk nöfn, sem ekki eru sett af dönskum skipskokkum, heldur íslenskum mönnum. Þetta er of mikið hjegómamál til þess að hæstv. ráðh. þurfi að vera að eyða kröftum sínum til þess. Þar sem hann hefir á þessu þingi borið fram frv. um það, að hlutaðeigandi íbúar bæjar- eða sveitarfjelags greiði atkv. um, hvort nafnaskifti skuli fram fara, þá álít jeg það rjetta leið, ef á annað borð er verið að skifta sjer af þessum hjegóma. En það á ekki að breyta staðanöfnum eftir óákveðnu fálmi ráðh., sem „Esju“-áætlunin ber vott um.

Hæstv. forsrh. taldi sjer það til lofs, að hann hefði einu sinni verið með í því að breyta nöfnum manna í fjárlagafrv. og afnema ættarnöfn, en jeg verð að telja það eitt af leiðinlegri hneykslum, sem gerst hafa á Alþingi, að vera að uppnefna menn þannig. Má t. d. nefna Vilhelm Vilhelmsson fyrir V. Bernhöft, Jakob Jakobsson fyrir Jakob Thorarensen skáld, Jón Jónsson fyrir Jón Aðils, Bogi Jónsson fyrir Bogi Th. Melsted, o. s. frv. Jón Aðils hafði þó keypt sitt ættarnafn, og var þannig löglega að því kominn. En þrátt fyrir það þóknaðist hæstv. ráðh. að hafa það að engu og uppnefna hann Jón Jónsson.

Má með sanni segja, að hæstv. ráðh. sje í þessu mjög ólíkur sínum föður. Jeg man eftir því , að maður nokkur, sem var í nöp við hann, fann upp á því að nefna hann Þórhall Björnsson í grein, sem hann skrifaði á móti honum. Jeg minnist þess, að biskupinn sál. svaraði honum aftur með stuttri en skarplega skrifaðri grein, og hjelt því þar fram, að nöfn manna væru löghelguð. (Forsrh.: Þar var um breytingu á föðurnafninu að ræða). Já, það var fremur lítilsvert, aðeins munur á stafsetning, og finst mjer mikill munur á því og brjála nöfnum á mönnum og seilast svo í fornhelg staðanöfn í áætlun Esju; á bak við það er að nokkru leyti strákskapur, sem full ástæða er til að átelja.

Þá vil jeg minnast á eitt atriði, sem jeg skaut fram í fyrri ræðu minni í hálfgerðu gamni, út af hlutdrægni stj. í embættaveitingum, en verð þó nú að athuga það nánar, vegna þess svars, sem hæstv. ráðh. gaf. Jeg gat þess, að jeg hefði heyrt, að það stæði til að veita presti símastjórastöðu. Hæstv. forsrh. svaraði því svo, að hann hefði sjálfur verið símastjóri og prestur í nokkur ár, og skildi jeg svar hans þannig, að þetta stæði til. Ef svo væri, þá er sannarlega ástæða til að minnast betur á það. Vitanlega nær það ekki nokkurri átt að skipa í símritarastöðu ólærðan mann í þeim efnum. Hæstv. forsrh. segist sjálfur hafa verið símastjóri, en gerir ekki greinarmun á því að annast 3. flokks talsímastöð eða símastjórastöðu á ritsímastöð. Starfsfólkið við símann er lakast launaða stjettin í landinu. Eina von símamannanna, sem heldur þeim við starfið, er sú, að þeir kunni að fá betri stöðu síðar. En ef svo á að svifta þá þeirri von og tíðka það, að einhverjir menn, sem aldrei hafa komið nærri símastörfum, fái veitingu fyrir bestu stöðunum við símann, þá er það skiljanlegt, þó að einhverjir verði óánægðir. Þetta nær engri átt, að menn úr öðrum embættum geti komist að slíkum störfum og gert þeim, sem þar hafa setið við lítil laun, erfiðara fyrir að vinna sig upp í þær stöður, sem betur eru launaðar. Jeg fer ekki langt út í samband stjórnarflokksins við sósíalista, sem hæstv. ráðh. kom að í ræðu sinni. Um það verður rætt á öðrum vettvangi, og vona jeg, að hæstv. stj. fái nóg um það að heyra, þegar hún fer að svara til ábyrgðar á gerðum sínum gagnvart kjósendum.

Hæstv. forsrh. er vel fróður í Sturlungu; Mjer dettur í hug það, sem þar er sagt um Böðvar Ásbjarnarson. Var svo talið, að hann rjeði meiru en hinn, sem fyrir var talinn. Var um það sagt í skopi, að hann sæti fyrir aftan hann á hestinum, en hjelt þó um taumana. — Það er líkast því, sem einhver sitji fyrir aftan hæstv. stj. og haldi um stjórnartaumana.

Þá er jeg kominn að hæstv. dómsmrh. Jeg hefi skrifað margt niður hjá mjer honum til andsvara, en jeg ætla að verða við óskum hæstv. forseta og verð því að fella niður að mestu efni svars míns. Hæstv dómsmrh. flutti hjer afarlanga ræðu, — jeg held þá lengstu ræðu, sem haldin hefir verið á Alþingi síðan það var endurreist. Hitt vil jeg ekki um segja, hvort mannorðsþjófar fyrri alda, svo sem Hvamm-Sturla, hafi einhverntíma haldið lengri ræðu.

Hæstv. dómsmrh. hafði hina frægu bláu bók í höndunum. Það er þægilegt og veitir honum sterka aðstöðu að vera búinn að prenta fyrirfram þau gögn, sem hann hefir til varnar sínum máistað. En ekki er að tala um, að andstæðingarnir fái að lesa þennan leynipjesa, fyrri en að eldhúsdegi loknum. Jeg hefi þó sjeð nokkur skjöl viðkomandi ýmsum af þeim málum, sem um hefir verið rætt. En það eru einkum 2 mál, sem hæstv. ráðh. hefir lesið upp úr: „Tervani“-málið, sem ráðh. snjeri upp í „Júpiters“-mál, og svo Shell-málið. En jeg verð víst mjög að stytta ræðu mína, enda eru fáir þm. viðlátnir í d.

í „Tervani“-málinu tók hæstv. dómsmrh. upp á þeirri einkennilegu aðferð, að í stað þess að sætta sig við dóm hæstarjettar í málinu og forsendur hans, las hann upp skjöl í öðru máli eftir málaflutningsmann, sem hann hefir oft reynt að svívirða, en þurfti nú á orðum hans að halda til varnar sínum málstað. En eins og hv. þm. Borgf. tók fram, þá væri gaman að vita, hvort hæstv. ráðh. vildi taka tillit til orða þessa sama málaflutningsmanns í öðru máli, sem nú er fyrir hæstarjetti. — Jeg hefi hjer útdrátt úr skjölum „Júpiters“-málsins, og sjest á þeim, hversu fráleitt það er að byggja á skjölum málaflutningsmanns í sókn málsins, sem dómurinn sjálfur tók ekki til greina. Það var annars dálítið einkennilegt, að hæstv. dómsmrh. skyldi taka upp vörn fyrir „Júpiter“, af því að sjálfur hefir hann svo mikið talað um landhelgisbrot íslenskra togara. Og það var dálítið broslegt, að í þessari sömu ræðu var hann að núa hv. 2. þm. G.-K. því um nasir, að togari, sem hann á, hefði verið tekinn við ólöglegar veiðar í landhelgi í Garðsjó. En hjer stendur einmitt mjög líkt á; togari Kveldúlfs var sýknaður í undirrjetti, en dæmdur í hæstarjetti, eins og Júpiter. Það væri gaman að hafa varnarskjölin í málinu um „Egil Skallagrímsson“ og vitna í þau á sama hátt og hæstv. dómsmrh. hefir hjer vitnað í málsskjöl Lárusar Jóhannessonar í Júpíters-málinu. Í máli Egils Skallagrímssonar var aðeins um líkur að ræða, þar sem ekki var fullvíst, hvort það var hann eða annar togari, sem sást í landhelgi; en um Júpiter var ekki að villast; hann þektu allir. Síðan þessir tveir menn fóru að starfa saman hjer á Alþingi, hæstv. dómsmrh. og hv. 2. þm. G.-K., hefir hæstv. ráðh. altaf verið að núa hv. þm. því um nasir, að hann væri einn af eigendum í því togarafjelagi, sem hefði átt þennan landhelgisbrjót. Afstaða hæstv. dómsmrh. gagnvart þessum tveimur málum o. fl. ber vott um þá dæmalausu rjettvísi, sem hann hefir innleitt hjer á landi. Svo langt er hann kominn í þessari iðju, að svo má að orði kveða, að nú sje ekki til á Íslandi rjettvísi nema innan gæsalappa.

Þá vil jeg minnast lítillega á Shell-málið. Hæstv. dómsmrh. er nú horfinn frá því, sem hann byrjaði á í því máli, og vill nú, að það hverfi fyrir öðru. Hann byrjaði á ábyrgðarlausu hjali hjer á eldhúsdegi í fyrra um, að Englendingar stæðu á bak við þetta mál og að stærð olíugeymanna við Skerjafjörð væri miðuð við það, að veita aðstoð erlendum hernaðarþjóðum hjer við land. Nú er hann hættur að tjalda með þessari yfirvarpsástæðu. Nú reynir hann aðeins að halda því fram, að h. f Shell á Íslandi sje ólöglegt fjelag. Og hæstv. ráðh. vill ekki taka til greina dóm hæstarjettar fyrir því, að fjel. sje löglega stofnað. Síðan sá dómur fjell hefir hæstv. ráðh. farið að rifja upp öll gögn í málinu, til þess að kveða sjálfur upp dóm í því og reyna að ógilda dóm hæstarjettar. Hæstv. dómsmrh. hefir reynt að blása það upp í eitthvert stórmál, að Björgúlfur Ólafsson læknir hafi skorast undan að gefa svör í rjettinum, þegar hann var spurður. En hann þegir yfir því, að dómarinn leyfði honum að skorast undan, og sýndi með því, að spurningar þessar voru óþarfar og málinu óviðkomandi. En ef farið er yfir málið, kemur skýrt fram, hvernig það liggur fyrir. Hæstv. dómsmrh. lætur fyrst fara fram „eftirgrenslan“ — líkt og njósnari sje sendur út af örkinni. — Slíkur maður gat varla komið fram nema sem njósnari „prívat“. En til þess valdist góður maður, Hermann Jónasson núv. lögreglustjóri í Reykjavík. Hann gaf skýrslu um athuganir sínar, sem var í ýmsum atriðum hrakin með rjettarrannsókn á eftir. Þegar Hermann Jónasson var skipaður til að framkvæma þessa „eftirgrenslan“, hefir hæstv. dómsmrh. sjerstaklega ætlað honum að finna eitthvað til þess að rjettlæta fleipur ráðherrans um afskifti erlends valds af Shell-málinu. í erindisbrjefi því, sem stj. fær Hermanni Jónassyni, dags. 19. jan. 1928, stendur þetta:

„Að lokum er yður falið að rannsaka fjármagn þessara fjelaga og alt, sem bendir til þess, að fyrirtækin væru sniðin eftir þörfum erlendra þjóða, sem fyrir tilverknað þessara fjelaga eða aðstandenda þeirra kynnu að lá of mikil völd yfir atvinnulífi þjóðarinnar, jafnvel svo hættulegt væri fyrir sjálfstæði landsins“.

Maðurinn, sem framdi þessa rannsókn, lenti sýnilega strax í vandræðum og komst brátt að raun um, að þetta var ein af hinum alþektu skýjaborgum hæstv. dómsmrh., en af því að honum var sjerstaklega falið að rannsaka þessa hlið málsins, gat hann ekki komist hjá því að minnast á þetta í skýrslu sinni. Hann segir: „Það er oftast talsvert erfitt að skera úr því, hvað menn ætla sjer; hin dýra reynsla verður oft að skera úr því. Svo er um fyrirtæki þessa fjelags; það er erfitt að segja um það með vissu, hvert það stefnir. Þó tel jeg, ef það sannast, að þær ástæður, sem stjórnendur fjelagsins færa fram fyrir stærð olíugeymanna og notkun „tanka“-skipsins, eru ekki á rökum reistar, þá sjeu talsvert miklar líkur fram komnar fyrir því, að eitthvað annað en ódýr rekstur og hagkvæm verslun, miðuð við þörf landsmanna, búi á bak við stærð fyrirtækisins og fyrirkomulag, því að jeg geri tæpast ráð fyrir, að ætla þurfi, að allir forgöngumenn fyrirtækisins hafi stórlega misreiknað sig. En hvort ástæðurnar, er stjórnendur færa fram, eru á rökum reistar, það verða sjerfræðingarnir á því sviði að segja um“.

Þetta er síðasta lífsmarkið með þessari uppfundningu hæstv. dómsmrh., og eftir þetta er allur krafturinn settur á það að sanna, að hlutafjeð væri ekki íslensk eign. Það vita nú allir, hvernig sá leikur fór. Dómur hæstarjettar var á þá leið, að fjeð væri löglega innborgað og hlutafjeð íslenskt.

Jeg vil víkja að því með nokkrum orðum, hvernig skýrsla þessa eftirgrenslunarmanns hæstv. dómsmrh. stóðst rjettarprófin. Þegar hann er leiddur fyrir dómarann til þess að staðfesta skýrslu sína, kemur meðal annars þetta fram í vitnisburði hans: „Vitnið tekur jafnframt fram, að við upplestur skýrslunnar hafi það ekki tekið eftir nokkru því atriði, sem það minnist, að rangt sje haft eftir. Þá tekur vitnið fram, að þar sem standi í skýrslu hans „jeg fjekk þegar þær upplýsingar af samtali mínu við hr. Hallgr. Tulinius, að hlutafjeð væri í raun og veru ekki innborgað“ o. s. frv., beri ekki að skilja á þann veg, að hr. Tulinius hafi sagt, að hlutafjeð væri óinnborgað, heldur hafi vitnið dregið þessa ályktun af samtali þeirra, sjerstaklega af þeim upplýsingum, sem komi fram í næstu setningu: „Því hann skýrði mjer svo frá o. s. frv.“ — Nú er farið að slá úr og í og reyna að útskýra það á allra handa máta, að skakt hafi verið tekið eftir.

Þó koma þessi vandræði eftirgrenslunarmannsins enn betur fram síðar í rjettarprófunum: „Vitnið kveður sig minni, að það sje rjett, að það hafi aldrei spurt Björgúlf lækni að því, hvort hlutafjárframlag hans væri innborgað, heldur hafi það annaðhvort spurt um það, hvar hann hafi fengið peningana til þess að leggja í fjelagið, eða hvað miklir þeir hafi verið. Þá minnir vitnið það fastlega, að Björgúlfur hafi sagt, að hann væri ekki farinn að leggja neina peninga fram enn, og þegar vitnið síðan bar það fram, að í tilkynningunni til hlutafjelagaskrár stæði, að hlutafjeð væri innborgað, þá minnir vitnið, að Björgúlfur hefði þau ummæli, að þetta væri bygt á misskilningi vitnisins, því í tilkynningunni myndi standa, að hlutafjeð ætti að greiðast inn, þegar stjórnin krefðist. Þegar þeir þar á eftir ræddu um það, hvar Björgúlfur fengi fjeð, minnir vitnið, að hann (Björgúlfur) hafi notað í samtalinu orðið „mundi“ — sagt, að hann „mundi“ fá fjeð lánað. Skildi vitnið það þannig, að lánið væri ófengið“.

En það er ekki nóg með það, að eftirgrenslunarmaðurinn veiki skýrslu sína með þessum eilífu efasemdum sjálfs sín um, að hann hafi farið rjett með, heldur upplýsist það að lokum ofan á alt annað, að hann hefir ekki skrifað neitt á staðnum: „Skýrslu um samtal sitt við yfirh. kveðst vitnið eigi hafa bókað samtímis á staðnum nje skrifað neitt hjá sjer, en tekur fram, að í samtali sínu við hr. H. Tulinius hafi það skrifað nokkra punkta niður hjá sjer, einkum tölur. Skýrsluna um samtalið við yfirheyrða kveðst vitnið hafa bókað einhvern næstu daga eða sama dag, en getur ekki ákveðið það núna. Vitnið kveðst ekki hafa borið skýrslu sína undir neinn hlutaðeiganda, áður en hann gekk frá henni“.

Hæstv. dómsmrh. hefir látið svo mörg og stór orð falla um það, að vitnisburður sjómannanna á „Trausta“ væri einskis virði, af því að þeir hefðu ekki skrifað neitt hjá sjer, að mann rekur í rogastans, þegar maður heyrir, að eftirgrenslunarmaður hans sjálfs hafi ekki skrifað neitt niður hjá sjer til að styðja minni sitt við.

Hæstv. dómsmrh. var að lesa upp úr skýrslu eftirgrenslunarmannsins, til þess að reyna að gera Björgúlf lækni tortryggilegan, og því las jeg þetta upp, svo að það sæist, að hlið hans sjálfs er engu síður tortryggileg eða, ef menn vilja það heldur, skýrsla Hermanns Jónassonar, því að hún sýnir greinilega, að hann hefir farið fulllangt í því að gera skýrslu sína eftir því, sem hann vissi, að vilji hæstv. dómsmrh. var. Það er alt annað mál, þó að dómarinn neyddi Björgúlf ekki til að svara þeim spurningum, sem lögmaðurinn lagði fyrir hann, enda koma þessar spurningar ekkert málinu við, en sýna aðeins, hvernig harðvítugir málaflutningsmenn beita sjer til þess ýtrasta til þess að ná sjer niðri á þeim, sem yfirheyrður er. Þeir eru vanir að þaulspyrja vitnin, til þess að reyna að setja þau út af laginu og koma þeim í bobba. En dómarinn hefir hjer talið of langt gengið.

Dómur hæstarjettar sýnir, að þetta fjelag er löglegt. íslenska ríkið setur ýms skilyrði, sem hvert fjelag verður að fullnægja, er hjer vill fá að starfa sem íslenskt fjelag, en hvaðan því koma peningar og hvort þeir eru vel eða illa fengnir, kemur málinu ekki við. Um það hafa engar reglur verið settar. Það hefir farið fyrir hæstv. dómsmrh. eins og veiðimanni, sem hefir mist lax úr neti. Hann ætti því sem minst um þetta mál að tala, því að það verður ekki til annars en að rifja upp ófarir hans sjálfs. Hann ætti að þegja um þessa misnepnuðu árás sína á hv. 1. þm. Skagf. og bíta hana í sig, á sinn hátt eins og hann hefir þagað í hel það, sem hann hafði ofsagt um fyrirætlanir Englendinga í sambandi við þetta fjelag.

Hæstv. dómsmrh. gat ekki setið á sjer að svara því, sem jeg hafði sagt út af gerðum skattstjórans hjer í Reykjavík, og kom honum það þó ekkert við. Það er annars leiðinlegt, að þessi hæstv. ráðh. skuli ekki hafa vit á við kýrnar, sem rata á sinn eiginn bás. Hæstv. forsrh. svarar því einu, sem að honum er beint, en hæstv. dómsmrh. svarar öllu, hvort sem það snertir hann nokkuð eða ekkert. Hann ratar aldrei á sinn bás, þessi hæstv. ráðh.

Jeg veit ekki, hvort jeg á að fara að nenna því að tala um kirkjumálanefndina. Jeg held ekki. Hæstv. dómsmrh. fanst það ekki lýsa miklum trúarlegum áhuga hjá mjer, að vilja láta bæta launakjör prestanna. En jeg sný ekki aftur með það, að löggjafarvaldið getur ekkert betra gert fyrir kirkjuna en að bæta svo kjör prestanna, að þeir geti gefið sig alla að starfi sínu. Löggjafarvaldið skapar aldrei spámenn, heita trúmenn eða siðferðislega sterka menn. Sá kraftur verður að koma annarsstaðar að. Alþingi getur aðeins skapað ytri kjörin.

Þá fór hæstv. dómsmrh. að skýra frá afrekum kirkjumálanefndarinnar og gaf það í skyn, að hún hefði fundið upp púðrið á sínu sviði. Taldi hann það fyrst, að hún hefði fundið út, hvernig hægt væri að byggja ódýrt. Það verður gaman að sjá þær till. n., er þar að lúta, en jeg er hræddur um, að þetta reynist hjóm eins og fleira. Því er nú ver og miður. Hvað það snertir að gefa söfnuðunum tækifæri til að losna við þá presta, sem óánægja er með, skal jeg ræða síðar á sínum tíma. En það er tvíeggjað sverð. Það getur orðið til þess, að söfnuðirnir losi sig við óhæfa presta, eins og ætlast er til, en það getur líka orðið til þess, að þeir losi sig við bestu mennina, þá spámenn, sem kunna að vera í prestsþjónustu. Það er ekki víst, að þeir, sem eru djarfastir að reka guðs erindi á jörðunni, komi sjer altaf best hjá meiri hluta manna. Annars svaraði hv. 1. þm. Skagf. hæstv. dómsmrh. vel upp á þessa „skandala“-presta, sem hann var að tala um, og það var ilt, að hann skyldi flytja sína ágætu ræðu í fámenninu kl. 7–9 að morgni, því að hana hefðu sem flestir þurft að heyra.

Hæstv. dómsmrh. tók það sem dæmi upp á óhlutdrægni sína, að jeg ætti mína forfrömun honum að þakka. Um þetta rjettlætisverk hæstv. dómsmrh. er það að segja, að þetta var í fyrsta skiftið, sem ráðh. fór aðeins að hálfu leyti eftir till. viðkomandi deildar háskólans. En þetta er of persónulegt til þess að jeg geti farið að ræða það.

Það er átakanlegt. hversu hæstv. dómsmrh. er glaður, þegar hann fær að tala um fatasnagana í mentaskólanum, Það er alveg eins og hann sje búinn að setja sína eilífu sáluhjálp í veð fyrir þessum snögum. Hann heldur daglega ræður um þá, skrifar um þá hverja blaðagreinina á fætur annari, býður blaðamönnum upp í skóla til að horfa á þá, o. s. frv. Og nú boðar hann nýtt afrek. Hann ætlar sem sje að dubba upp á tugthúsið. Það er hvorki meira nje minna. Fyrst lýsir hann yfir þessu hjer í þinginu, svo ætlar hann að skrifa um það í „Tímann“ og síðan væntanlega að bjóða bæði blaðamönnum og þm. að koma og horfa á verk sín. En hann ætlar þó ekki að láta gera við alla klefana í tugthúsinu, heldur ætlar hann að láta 1–2 bíða, til þess að bera því vitni, hvernig þetta var í tíð íhaldsstj. Með þessu hefir hæstv. dómsmrh. gefið svo skarpa lýsingu á sjálfum sjer, að enginn getur betur gert. Hann getur ekki látið fara fram aðgerð á einu húsi án þess að setja upp auglýsingu um, hvað hann hefir gert. En nú vill svo vel til, að það er ekki frekar íhaldsstj., sem ber ábyrgð á því, hvernig tugthúsið er, heldur en framsóknarstj., sem á undan henni var. Og varla mun hæstv. dómsmrh. lúka öllu því, sem ógert er enn hjer á landi, meðan hann er við stj., þó að afkastamaður sje. Og ætli honum þætti því rjettmætt, að honum yrði kent um það, sem þá kynni að verða eftir? Jeg efast um það. En hæstv. ráðh. ætti bara að skilja þessa tvo klefa eftir sem dæmi upp á vinnubrögð sín. Hann getur hvort sem er ekkert gert án þess að vera altaf að auglýsa það og hæla sjer. Jeg man ekki betur en að íhaldastj. hafi dubbað upp á gagnfræðaskólann á Akureyri á sínum tíma, en hins minnist jeg ekki, að hafa sjeð það nokkurstaðar auglýst, enda hefir engin stj. fundið upp á því fyrr en nú, að bjóða mörgum vitnum til að horfa á verk sín eða að skilja eftir af verkefnum sínum til auglýsingar.

Tíminn líður óðum, svo að jeg ætla að hlaupa yfir ýmsa punkta, sem jeg hefi skrifað hjá mjer. Aðeins ætla jeg að minnast að lokum á þau ummæli hæstv. dómsmrh., að jeg hafi verið að syngja hræsninni lof. Því fer fjarri, að jeg hafi gert nokkuð í þessa átt, því að jeg álít, að hræsnin sje einn andstyggilegasti eiginleiki, sem nokkur maður getur haft. En hitt er satt, að hæstv. dómsmrh. er svo lágt niðri, að hann nær ekki einu sinni upp í hræsnina. Hlutdrægni hans er svo mikil, að hann nær ekki upp í það að geta skreytt sig með skammaryrðinu hræsnari. (Forseti hringir). Var hæstv. forseti að hringja menn inn í deildina? (Forseti BSv: Nei, jeg var að víta síðustu orð þm.).

Rjettvísin hefir vanalega verið mynduð með sverð og vogarskálar. Hjá hæstv. dómsmrh., sem hefir komist svo langt að setja rjettvísina í gæsalappir og er á góðum vegi með að gera orðið dómsmálaráðherra að meiðyrði, hefir aldrei borið á öðru en sverðinu. Hann notar sverðið eitt, heggur og heggur, en hefir alveg gleymt vogarskálunum. Mjer kemur í hug það, sem einn fyndinn borgari sagði, þegar hann hafði heyrt fyrstu eldhúsdagsræðu hæstv. dómsmrh. Það var þetta: Frá Hriflu ertu kominn. Til Hriflu ættirðu aftur að hverfa.