13.04.1929
Neðri deild: 44. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

16. mál, fjárlög 1930

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hann var eiginlega sjerstaklega hógvær og beindi ekki öðru til mín en smáaðfinslum út af frv. um nöfn bæja og kaupstaða og nafnabreytingunum í Epjuáætluninni. Jeg verð að segja, að jeg taldi mig vera þarna í mjög góðum fjelagsskap, þar sem jeg hafði heimspekideild háskólans mjer við hlið, og hún var öli samþykk þessu „nafnafalsi“, sem hv. þm. kallar. Hvað því viðvíkur, að jeg hefði átt að halda trygð við guðfræðideildina og leita heldur umsagnar hennar, þá hafði jeg nú í þessu tilfelli meiri trú á heimspekideildinni og hjelt mig því við hana.

Hv. 4. þm. Reykv. þarf jeg fáu að svara. Hann sagði, að núv. stj. hefði gert meira fyrir bændur en verkamenn, og kann það rjett að vera. Núv. stj. hefir það hlutverk fyrst og fremst að reisa við landbúnaðinn, en hefir jafnframt sýnt verkamönnum fulla sanngirni, og mun áreiðanlega halda því áfram. Stj. hafa borist tvenskonar umsóknir frá verksmiðjunni í Krossanesi, önnur um innflutning verkamanna og hin um kaup á síld. Hvað innflutningi verkamannanna viðvíkur, þá hefir stj. ekki gert þar neitt nema í góðu samkomulagi við menn, sem standa mjög næm hv. 4. þm. Reykv., og ætti honum því að vera vel kunnugt um þetta atriði. Hin umsóknin, um það að leyfa verksmiðjunni að kaupa síld, um hana er það að segja, að málið var lagt fyrir hv. sjútvn. og hún svaraði með brjefi, sem endaði með svofeldum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Að öðru, leyti telur nefndin, að hjer sje um mái að ræða, sem öllu fremur heyri undir utanríkismálanefnd en sjávarútvegsnefnd“.

Þetta gat stj. fallist á, að væri rjett, og átti því tal um þetta við utanríkismálanefnd, eins og sjálfsagt var. Hv. 4. þm. Reykv. hefir sjálfur undirritað brjefið sem ritari hv. sjútvn., og ætti honum því að vera mætavel kunnugt um allan gang málsins.

Um landssjóðsvinnustofuna er það að segja, að stj. hefir látið smíða þar margt eða alt af þeim brúm, sem nú er verið að gera. En annars hefir stj. á þessu sviði á prjónunum víðtækar breyt., sem síðar munu verða kunnar.

Um söluna á Willemoes þarf jeg ekki margt að segja. Jeg býst við, að ekki verði vjefengt, að full heimild hafi verið til þess að gera þetta, og á þá að átelja þingið sjálft fyrir söluna, en ekki stj. Skipið var í olíuflutningum, sem nú eru lagðir niður af stj. hálfu, og auk þess er nú orðin sú breyt. á þeim flutningum, að skipið er orðið með öllu óhæft til þeirra hluta, vegna tankanna. Það er gamalt og ekki sniðið eftir kröfum nútímans í þessum efnum. Þó að ef til vill hefði mátt fá hærra verð fyrir það erlendis, þá var það skoðun stj., að ekki gæti komið til mála að selja það út úr landinu, ef nokkur möguleiki væri á því að láta það sigla áfram undir íslenskum fána sem íslenskt skip með íslenskri skipshöfn. Var mjög vel við eigandi, að Eimskipafjelagið tæki þetta skip, og var öll stj. samþykk þessari ákvörðun og einnig því, að láta fjelagið fá góð kjör. Nú siglir skipið áfram undir íslenskum fána og íslenskir menn vinna á því, og mun öllum það vel líka, enda kom það fram hjá hv. 4. þm. Reykv., að hann vildi alls ekki láta selja skipið út úr landinu.

Hv. þm. spurðist fyrir um strandferðaskipið nýja. Þar er því til að svara, að ein teikning hefir legið í stjórnarráðinu síðan í sumar, en í október í haust kom uppástunga um aðra teikningu, og það er sú teikning, sem hv. þm. segir, að sje 25 ár á eftir tímanum. Nielsen framkvæmdarstjóri Eimskipafjelagsins hefir látið uppi álit sitt um þær, og leggur hann mjög mikið á móti annari þeirra, þeirri, sem síðar kom.

Hvað innflutningi á erlendum mönnum viðvíkur, þá hefir stj. tekið upp þann sið, að snúa sjer til þeirra manna og fjelaga, sem eiga hagsmuna að gæta á því sviði, og leita umsagnar þeirra. Ef um iðnaðarmenn er að ræða, og það er það algengasta, þá er farið til iðnfjelaganna, en ef það eru algengir verkamenn, þá til Alþýðusambands Íslands. Þurfi að endurskoða löggjöfina um þetta mál, þá er jeg reiðubúinn til samvinnu við hv. 4. þm. Reykv. og aðra um það.

Við síldarbræðsluverksmiðjuna vill stj. hafa sem bestan undirbúning. Kostnaðurinn verður sennilega kringum 1 milj. kr. til þess að byrja með, en ennþá er ekki búið að ganga frá þeim lánum, sem til þarf. Stj. er samt búin að ráða menn til þess að standa fyrir verksmiðjunni, og er það gert í þeirri fullu vissu, að úr þessu geti orðið.

Núv. stj. er það fullkomlega ljóst, á hvern hátt og eftir hvaða mælikvarða fulltrúar verkamanna dæma verk hennar og framkvæmdir. Út af aðstöðu þessara manna er það auðsjeð, að leiðirnar hljóta að skiftast að meira eða minna leyti fyr eða síðar og hvor flokkur fari sína leið, og við sjáum til, hvenær það verður.