13.04.1929
Neðri deild: 44. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

16. mál, fjárlög 1930

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. forseti (BSv) mælti hjer í þessari deild nokkur orð til hv. þdm. í morgun um það, að best væri að menn lengdu ræður sínar ekki um of, svo að hægt væri að hraða eldhúsverkunum sem mest, og er auðvitað sjálfsagt að taka tillit til þessara orða hans. Þar sem hæstv. forseti nú er í stjórnarflokknum, og hann talar eflaust fyrir munn hans, þá finst mjer rjett að benda á það, að af hálfu hæstv. stj. og hennar fylgismanna hefir ekkert verið reynt til þess að stytta umr., nema síður sje. Hv. 1. þm. Reykv. bar t. d. fram fyrirspurn til hæstv. forsrh., og hæstv. forsrh. svaraði henni mjög skýrt og greinilega, en svo halda báðir hinir ráðh. langar ræður um þetta efni, og síðan kemur heill fyrirlestur um sama efni frá hv. 2. þm. Reykv., sem jeg að sjálfsögðu tel til fylgismanna hæstv. stj. Jeg vildi benda á þetta til þess að sýna, að það eru ekki einasta við stjórnarandstæðingarnir, sem höldum hjer uppi umr., heldur hinir ekki síður, og er þá sökin beggja. Svar hæstv. forsrh. var alveg fullnægjandi, svo að þetta var alveg óþarfi.

Síðan jeg hjelt mína fyrri ræðu hjer á þessum eldhúsdegi, hafa þrír jafnaðarmenn tekið til máls. Það virðist svo, að þeir vilji að nokkru leyti átelja hæstv. stj., en um leið skora þeir á hana að fylgja nú enn betur fram stefnu jafnaðarmanna en áður. Sá fyrsti þeirra, hv. 2. þm. Reykv., byrjaði á því að þakka hæstv. stj. fyrir að koma málum jafnaðarmanna í gott horf. Síðan taldi hann upp síldareinkasöluna, vökulögin, samvinnufjelag Ísfirðinga og skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu í 2 kjördæmi. Þetta tók hv. þm. sjerstaklega fram, að hún hefði gert fyrir jafnaðarmenn. Jeg minnist þess núna, að þegar skifting Gullbringu- og Kjósarsýslu var hjer til umr. í fyrra, þá ljet hæstv. forsrh. uppi þá skoðun, að skifting kjördæmisins snerti hag bænda, væri hagsmunamál þeirra og fyrir þá gerð, og að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi væri líka gert fyrir bændur í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Nú stendur hv. 2. þm. Reykv. upp og þakkar fyrir þessa lagasetningu og segir, að hún sje gerð til þess að þóknast jafnaðarmönnum. Þetta finst mjer benda á það, að hæstv. stj. hafi slegið hjer tvær flugur í einu höggi, þar sem hún gerir bændum í Gullbringu- og Kjósarsýslu þennan mikla greiða, og fær svo þakkir frá jafnaðarmannaforingjanum, hv. 2. þm. Reykv., hjer í deildinni fyrir vikið. (LH: Hann vanþakkar um leið). Já, hann vanþakkar sumt og gleymir sumu. Þar sem hv. þm. V.-Sk. segir, að hann vanþakki um leið, þá á hann sennilega við þá ótalmörgu bitlinga, sem jafnaðarmenn hafa fengið í tíð núv. stj. bæði innan þings og utan. Hv. þm. hefir þótt það vanta, og jeg tek undir það með honum. Þetta er einmitt tækifæri til þess að þakka. Nú verða jafnaðarmenn að þakka fyrir öll þau bein, sem þeim hafa fallið í skaut. Hv. 2. þm Reykv. þakkaði fyrir Hafnarfjarðarkjördæmið og sagði, að jafnaðarmenn hefðu þegið það frá framsóknarmönnum, en hann gleymir öllu hinu. Nú býst jeg við, þegar bæði jeg og hv. þm. V.-Sk. höfum bent honum á þetta, að hann bæti úr þessu næst. Um þessa bitlinga er það að segja, að einum flokksbróður hv. 2. þm. Reykv. í mínu kjördæmi var farið að ofbjóða þetta svo mjög, að hann kom fram með till. á þingmálafundi þar austur frá um það, að þm. væri bannað að taka við bitlingum af hæstv. stj. Hv. þm. Ísaf. er sannkallaður bitlingafræðingur þingsins. Hann hefir haft laun fyrir að athuga bitlinga og samið skýrslu um þetta starf sitt, sem svo hefir verið notuð til árása á fyrv. stj. Í þessari skýrslu sinni telur hann upp ýmislegt, og þar á meðal borgun til afgreiðslumanna Eimskipafjelagsins. Hann reynir svo að telja hinum óþroskaðri hluta flokksbræðra sinna trú um, að þetta sjeu ríkisgjöld, og afgreiðslumennirnir hafi þegið bitling. Þetta hefir haft þau áhrif, að einn flokksbróðir hv. þm. Ísaf. hefir haldið því fram í blaði, að jeg og annar maður til í Vestmannaeyjum höfum þegið bitling, þar sem við erum afgreiðslumenn Eimskipafjelagsins þar. Þetta nær vitanlega engri átt.

Hæstv. dómsmrh. kemur ekki enn í deildina, en nú er ekki hægt að teygja tímann lengur með að bíða eftir honum, og verð jeg því að svara nokkrum atriðum í ræðu hans út af áfengisversluninni.

Jeg verð að minna hæstv. ráðh. á, að í ádeilu minni út af afskiftum hans af áfengisversluninni var jeg ekki að bera hönd fyrir höfuð þeirra starfsmanna verslunarinnar, sem til brottrekstrar höfðu unnið, heldur hinna, sem saklausir voru sviftir atvinnu sinni. Þá vil jeg sömuleiðis minna hæstv. ráðh. á, að jeg var ekki að bera í bætifláka fyrir hinar miklu útistandandi skuldir eða aðra óreiðu, sem kann að hafa verið á versluninni, heldur var jeg að benda á, hversu mjög hæstv. ráðh. var hlutdrægur í öllum sínum afskiftum af versluninni, þegar hann þóttist vera að hreinsa þar til, þar sem hann ljet þá sitja í stöðum sínum, sem mest höfðu gert sig brotlega. Hæstv. ráðh. mintist á, að fyrir nokkru hefði komið fram frv. í Ed. um skifti á forstjóra við áfengisverslunina, en að frv. þetta hafi verið felt. Þetta mun rjett vera, og jeg minnist þess, hve mikla áherslu hæstv. ráðh. lagði á það, meðan hann var aðeins þm., að koma Mogensen fyrv. forstjóra áfengisverslunarinnar frá stöðu sinni. Aftan í frv. þetta var hnýtt tollhækkun á vínanda til meðala, og átti sú hækkun víst að ginna bindindismenn þingsins til fylgis við það, en eigi að síður var frv. felt, og hin fyrirhugaða tollhækkun komst ekki á. Hinu takmarkinu, að koma Mogensen frá áfengisversluninni, hefir hæstv. ráðh. nú náð, en þó með því móti að kaupa hann frá stöðunni með því að veita honum lyfsalaleyfi hjer í Reykjavík. Þegar hæstv. dómsmrh. og sumir flokksmenn hans hafa stundum verið að tala um eyðslu, hafa þeir haldið því fram, að á sama stæði, hvort ríkissjóður borgaði þetta og þetta beint, eða að það lenti á einstaklingum þjóðfjelagsins; eyðslan væri hin sama. Út frá þeirri röksemdaleiðslu hygg jeg, að sá pappírssparnaður, sem náðst hefir með því að koma Mogensen frá áfengisversluninni, muni verða dýrkeyptur, því að landsmenn verða að margborga hann fyrir fjölgun apótekanna hjer, því að frá viðskiftalegu sjónarmiði liggur það í hlutarins eðli, að það er síst hvöt til þess að hafa lyfin ódýrari, þótt lyfjabúðunum fjölgi. Er því með fjölgun lyfjabúðanna beinlínis ýtt undir það, að lyfin hækki í verði. Verður því niðurstaðan sú, að fólkið fær að borga brúsann, hinn hugsaða sparnað við forstjóraskifti áfengisverslunarinnar.

Jeg sje nú enga ástæðu til að eltast við upptalningu hæstv. dómsmrh. um ýmislegt snertandi hina bættu stj. á áfengisversluninni, eins og t. d. skiftin á endurskoðendunum og slíka smámuni, þar sem líka hv. 1. þm. Skagf. hefir gert allmiklar aths. við þann kafla ræðu hans.

Hæstv. dómsmrh. gat þess, eins og líka sjá má í ritgerð hins nýja forstjóra, að hinar miklu birgðir verslunarinnar muni hafa stafað af því meðal annars, hve talhlýðinn hinn fyrri forstjóri hafi verið við hjerlenda umboðssala. Þetta getur vel vefið rjett, því að það vita allir, sem til verslunarrekstrar þekkja, að einmitt talhlýðni getur komið manni til þess að kaupa inn meira af vörum en skyldi. Annars þykist jeg vita, að þessi andúð hæstv. ráðh. gegn umboðssölunum stafi meðal annars af því, að þeir sjeu ekki neitt sjerstaklega vel sjeðir hjá hæstv. stj., enda þótt innlendir sjeu. Hinn nýi forstjóri áfengisverslunarinnar mun nú farinn utan í verslunarerindum fyrir fyrirtækið, og má vel vera, að honum verði margt og mikið ágengt í þeirri ferð. En þó geri jeg ekki ráð fyrir, að hægt verði fyrir hann að komast af án milliliða, og verði svo, eins og jeg fastlega geri ráð fyrir, þá fæ jeg ekki sjeð, að á nokkurn hátt sje betra að nota erlenda milliliði heldur en milliliði, sem eru búsettir í landinu sjálfu. Að minsta kosti virðist það frá hagfræðilegu sjónarmiði ekki geta verið álitamál, að nota beri þá innlendu, til þess fyrst og fremst að koma í veg fyrir, að fje það, sem til þeirra gengur, fari út úr landinu, og ennfremur til þess að hægt sje að láta greiða af því tolla og skatta til ríkissjóðsins.

Þá talaði hæstv. ráðh. töluvert um afstöðu sína til áfengismálsins og gerði grein fyrir því, hvers vegna stj. gerði nú engar kröfur til þess, að fækkað væri útsölustöðum Spánarvínanna. Eins og hv. dm. eflaust muna, benti jeg á það í fyrri ræðu minni, að kröfurnar um fækkun útsölustaðanna hefðu alveg þagnað við það, að núv. stj. komst í meiri hl. Hefir því farið um þær eins og svo mörg önnur „prógram“-mál hæstv. stj., að þeim hefir verið stungið svefnþorn.

Í sambandi við afstöðu sína til áfengismálsins gat hæstv. ráðh. þess, að til þess að fullnægja samningunum við Spánverja yrði að hafa vínin í sómasamlegu ásigkomulagi vegna neytendanna. En það var einmitt þetta, sem jeg var að átelja við hæstv. ráðh., þar sem hann hafði látið það viðgangast að hafa vínin svikin. Hjer vildi nú hæstv. ráðh. fara að dæmi hins nýja forstjóra, að eigna hinum fráfarandi forstjóra dálítið af blöndunarheiðrinum. Það má nú vel vera, að þetta „kjótl“ hafi byrjað hjá honum, en það var víst, að það var þá ekki nema í mjög smáum stíl. Annars ber þess að gæta, hvort blöndunin hafi verið í þeim stíl, að hið eiginlega „kvalitet“ vörunnar hafi breytst eða ekki. Nú er það víst, að sú blöndun, sem átt hefir sjer stað síðan núv. forstjóri tók við versluninni, hefir verið þannig, að blandað hefir verið saman: Madeira, Portvíni, Wermouth og einhverri dýrari tegund til viðbótar. Hafa hin upphaflegu gæði þessara víntegunda því alveg breytst. Er því hjer um hrein svik og vörufölsun að ræða.

Þá vildi hæstv. ráðh. halda því fram, að umbætur þær, sem hann hefði gert á áfengislöggjöfinni, hefðu dregið mjög úr áfengisnautn í landinu. Um þetta skal jeg ekkert deila við hæstv. ráðh., en þó er mjer næst að halda, að setja megi spurningarmerki aftan við það, hve árangurinn af öllu þessu brambolti hans hefir verið mikill.

Í þessu sambandi fanst hæstv. ráðh. viðeigandi að tala um mikinn drykkjuskap í Vestmannaeyjum. Var slíks ekki nema von úr þeirri átt, úr því að jeg sem þm. Vestm. fór að tala um þessi áfengismál. Jeg tek mjer það nú alls ekki nærri, þó að hæstv. ráðh. hafi gert Vestmanneyinga að umtalsefni hvað þetta snertir, því að jeg er þess fullviss, að bindindisstarfsemi er þar síst lakari en víða annarsstaðar á landinu. Enda munu þeir á engan hátt vera drykkfeldari en aðrir landsmenn.

Þá sagði hæstv. ráðh.; að Vestmannaeyingar færu öðrum frekar út í skip, sem kæmu frá útlöndum, til þess að fá sjer áfengi, og væru þar oft druknir og settu með því blett á landið í augum útlendinga. Jeg hugsa nú að hæstv. ráðh., sem svo mjög er vanur ferðalögum, viti það ofurvel, að oft er glatt á hjalla seinasta daginn áður en skipin koma til Reykjavíkur. Af landfræðilegum ástæðum verður það því á leiðinni milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, sem menn halda kveðjusamsætið.

„Blett á landið í augum útlendinga“, sagði hæstv. ráðh. Sá ætti nú að tala um, að menn settu blett á landið í augum útlendinga. Jeg veit ekki, hver hefir sett meiri blett á það í augum útlendinga á millilandaskipunum en útsendari einn, sem hæstv. ráðh. sendi fyrst til Vestmannaeyja, og átti víst að heita löggæslumaður, en var ekkert annað en njósnari um inngang og útgang Vestmannaeyinga. Þessi maður gerði sjer og landi sínu þann sóma, eitt sinn þegar Lyra kom til Vestmannaeyja, að slá mannaumingja, sem hann hitti um borð í skipinu, svo að hann var alblóðugur eftir. Þennan sóma gerði þessi ágæti löggæslumaður hæstv. ráðh. landi sínu þá í augum útlendinga. Jeg held því, að það sje best fyrir hæstv. ráðh. að tala sem minst um, að menn setji blett á landið í augum útlendinga, þegar útsendarar hans, sem eiga að gæta laga og siðferðis í landinu, haga sjer svona. Annars skal jeg geta þess, að tollþjónn þessi ef nú farinn úr stöðu sinni og að því er sagt er kominn til útlanda á vegum hæstv. ráðh. En í stað hans er kominn annar maður, sem að öllu leyti er mjög kurteis maður í framgöngu og verður þar af leiðandi miklu meira ágengt í starfi sínu en hinum. En svona var sá fyrsti, að við Vestmannaeyingar urðum að bera kinnroða fyrir framkomu hans.

Í sambandi við skyldur þær, sem hæstv. ráðh. sagði, að stj. hefði gagnvart Spánverjum um ágæti vínanna, sagði hann, að nú væri unnið að því að kaupa inn góð og ósvikin vín, en í sömu andránni sagði hann, að hann fengi ekki sjeð, hvers vegna ekki mætti brugga og blanda vín hjer eins og erlendis, og hann bætti því við, að hið útlenda firma, sem átti vörumerki það, sem sett var á hina nafnfrægu Guðbrandarblöndu, mætti þakka fyrir að fá svo góða auglýsingu. Þvílík röksemdafærsla! Annars gæti jeg vel trúað, að næsta ráðstöfun hæstv. dómsmrh. til þess að minka rekstrarkostnað áfengisverslunarinnar verði sú, að hann láni sinn mikla bruggara suður á Spán eða Portugal. Má þá vera, að verslunarhúsið fái ástæðu til þess að njóta góðs af bruggunarhæfileikum hans. En hvað það snertir, að verslunarhúsið eigi að vera þakklátt fyrir auglýsinguna, þá virðist mjer, ef í alvöru á að tala, að nær hefði verið að ná sáttum við það með því að láta það vita, að svikin hefðu verið gerð af fáfræði, en ekki af löngun til þess að svíkja.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það hefðu aðallega verið íhaldsmenn, flokksbræður mínir, sem neytt hefðu þessa drykkjar, og virtist mjer það skína í gegn hjá honum, að þess vegna hefði lítið gert til, þó að drykkurinn væri svikinn. Og sje nú þetta svo, þá vil jeg átelja þennan ósóma ennþá meir, því að það þykir altaf hin mesta varmenska að svíkja menn í drykk, og það er gamalla manna mál, að sá, sem svíkur mann í drykk, muni svíkja fleira. En haldi nú hæstv. ráðh., að hinn svikni drykkur komi eingöngu niður á íhaldsmönnum, þá er jeg hræddur um, að hann sje nokkuð nærsýnn, því að jeg er ekki grunlaus um, að einhverjir flokksbræður hans slæðist með í hópinn.

Jeg fer nú að láta útrætt um þetta mál, svo fremi, sem hæstv. ráðh. gefur ekki tilefni til meiri umr. um það. Jeg hefi talið mjer skylt að benda á og átelja það mikla ranglæti, sem haft hefir verið í frammi gagnvart þeim mönnum, sem starfað hafa við áfengisverslunina og ekkert hafa til sakar unnið. Enda hefir enginn hv. dm. orðið til þess að mæla ranglætinu bót nema hv. þm. Ísaf., sem þakkaði ráðh. fyrir óhæfuverkin, og jeg er hissa, ef þessi hv. þm. getur talið, að það hafi verið rjett að hrekja frá starfi sínu saklausa menn; menn sem stóðu; alveg lýtalaust í stöðum sínum og áttu því fullan rjett á að vera óáreittir, eins og hverjir aðrir heiðarlegir þegnar þjóðfjelagsins.

Þessir menn voru með öllu klandurlausir og áttu heimtingu á því, eins og aðrir borgarar, að vera eigi ofsóttir og sviftir stöðum sínum, meðan þeir höfðu ekkert það fyrir sjer gert, sem kom í bága við skyldur þeirra og lög landsins.

Það er svo að heyra, sem hæstv. dómsmrh. viti ekkert um reglugerð þá, er hann braut, er hann rak þessa menn úr stöðum sínum. Þessi reglugerð um sölu og veitingar vína er frá 18. júlí 1922 samkv. tilskipun 31. maí 1922. Þar segir í 5. gr. um útsölu vínanna:

„Rjettur til slíkrar forstöðu skal veittur fyrir þann tíma, sem tilskipunin 31. maí gildir, og fellur burt, ef forstöðumaðurinn fer ekki nákvæmlega eftir ákvæðum reglugerðar þessarar og gildandi laga um söluna“.

Sú eina ástæða, sem gat verið fyrir rjettmæti frávikningar þessara manna, hlaut því að vera sú, að þeir hefðu ekki farið eftir gefnum reglum. En því er ekki til að dreifa. Frávikningin er af bláberri hlutdrægni sprottin og engu öðru. Það sjest best á því, hverjir tóku við.

Jeg vil geta þess um útsölumanninn í Vestmannaeyjum, að þegar Alþingi vildi ekki sinna þeim tilmælum bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum að leggja útsöluna þar niður, þá stytti hann útsölutímann að mun, eftir ósk bæjarstjórnar, án þess að honum bæri nokkur skylda til. Þegar hann fór frá versluninni, var ekki nóg með, að hann skuldaði engan eyri, heldur átti hann inni, eftir því sem fyrv. forstjóri áfengisverslunar segir. Þessi maður, sem hafði staðið svo prýðilega í stöðu sinni, var rekinn, en vildarvinur og flokksbróðir hæstv. dómsmrh. tekinn í staðinn. Engin kæra hefir nokkru sinni komið yfir því, að hinn fyrv. útsölumaður. Sæmundur Jónsson, hafi nokkru sinni brotið settar reglur. En þó að eftirmaður hans sje reglumaður, sem jeg efast ekki um, að menn þeir, er hæstv. dómsmrh. hefir sett í þessar stöður, sjeu allir, þá hefir honum þó orðið sú ávirðing á í starfinu, að hæstv. dómsmrh. þyrfti ekki svo mikils við til að reka manninn, ef hann væri pólitískur andstæðingur hans.

Hæstv. dómsmrh. hafði engar varnir fram að bera í vínfölsunarmálinu, sem heldur var ekki að vænta. Hann sagði að fölsunin væri „positivur galli“. Jeg vil nú þýða þetta á íslensku og segja, að hún hafi verið stórfeld vörusvik, og ekkert annað.

Jeg hefi nú eytt lengri tíma en jeg hafði ætlað mjer til að lýsa undrunum „undir hinni nýju stjórn“, vegna þess, að hæstv. dómsmrh. fór að draga ýms óskyld atriði inn í umr., eins og er hann fór meðal annars að tala um drykkjuskap í Vestmannaeyjum o. fl. En í fám orðum sagt eru ráðstafanir hans í þessum málum svo hlutdrægnisfullar, að úr hófi keyrir.

Jeg mintist á hið svokallaða „Ohm“ mál og spurði hæstv. ráðh., hvaða reglur væru lagðar til grundvallar um upphæð bjarglauna, þegar varðskip ríkisins björguðu skipum. Jeg benti á þann mismun, er mótorbát, 16–18 smálesta, sem bjargað var norður á Siglufirði, var gert að greiða 2000 kr. í bjarglaun, en belgiskur togari, er „Þór“ bjargaði, slapp með 3000 kr. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg telji, að bjarglaunin fyrir vjelbátinn hafi verið of há, því að jeg álít rjett að greiða bjarglaun sanngirnislega Hæstv. ráðh. sagði, að vera mætti, að jeg vildi taka laun fyrir björgun mannslífa, en hann vildi ekki gera það. En vitanlega kemur ekki til mála að blanda því saman, hvort hið opinbera sendir skip til að bjarga mannslífum eða hvort varðskipin draga skip af grunni þar, sem lífum manna er engin hætta búin. Þannig sendi Jón heitinn Magnússon „Þór“ norður í höf í langt ferðalag til að leita að enskum togara, samkv. tilmælum enska ræðismannsins, og datt engum í hug að taka peninga fyrir þann leiðangur. Nú segir hæstv. dómsmrh., að varðskip ríkisins megi ekki taka fje fyrir að bjarga erlendum skipum. Nú er svo til ætlast, að nýja varðskipið verði útbúið með björgunartækjum. Er það þá meining hæstv. ráðh., að þótt þetta varðskip verði að fara langar leiðir um strandvarnartímann til að draga erlent skip af grunni, að eigi megi taka neitt eða sama sem ekki neitt fyrir það? Jeg kalla 3000 kr. sama sem ekki neitt fyrir að bjarga togara frá fyrirsjáanlegri tortímingu. Stundum getur verið að ræða um björgun á lífi manna og skipinu sjálfu, en oftast aðeins um björgun á dauðum verðmætum, sem útlend vátryggingarfjelög bera ábyrgð á. Ætlar hæstv. dómsmrh. að gefa þessum útlendu vátryggingarfjelögum allan björgunarkostnaðinn, að undanteknum einhverjum vasapeningum handa skipshöfnunum? Þetta vildi jeg fá upplýsingar um, ekki vegna þess, sem hefir gerst, heldur vegna þess, sem getur gerst.

Hæstv. dómsmrh. vildi ekki, að varðskipin tækju björgunarlaun, vegna þess að þau væru eign hins opinbera. Það er rjett, að sú venja gildir um herskip. En nú eru íslensku varðskipin engin herskip. Vátryggingarfjelögin erlendu geta verið glöð yfir þessari stefnu hæstv. dómsmrh., en jeg held satt að segja, að landhelgissjóður megi ekki við því að missa af sanngjörnum bjarglaunum. Og þó að þakklæti vátryggingarfjelaganna sje mikilsvert, held jeg, að við myndum halda sóma okkar óskertum, þó að við tækjum sanngjörn bjarglaun fyrir að bjarga erlendum skipum úr strandi.

Ástandið er í þessu efni ólíkt hjá oss og öðrum þjóðum. Íslendingar leggja tiltölulega mikið í kostnað við byggingu og úthald varðskipa sinna. Sá kostnaður hlýtur að verða þungbær í framtíðinni, eins og hæstv. dómsmrh. hefir líka lagt áherslu á. Hinsvegar eru hjer erlend skip svo hundruðum skiftir við strendur landsins. Ef einhverju þessara skipa hlekkist á, getur svo farið, að varðskipin verði að láta af nauðsynlegum störfum til að liðsinna þeim, og það tjón, sem af slíkum frátöfum varðskipanna getur hlotist, getur verið óútreiknanlegt. Jeg sje því ekki, að það geti orðið þjóðarálitinu til hnekkis, þótt varðskip ríkisins taki sanngjörn bjarglaun.

Þá fór hæstv. ráðh. að tala um þyngdarpunktinn í „Óðni“. Jeg spurði hæstv. ráðh. vegna árása hans á fyrv. stj. út af þessu atriði, hvort það væri rjett, að sami verkfræðingurinn, er stóð fyrir smíði „Óðins“, væri ráðinn til að standa fyrir byggingu hins nýja strandvarnarskips, og hvort satt væri, að hann hefði verið sæmdur fálkaorðunni 1. des. síðastl. fyrir unnin afrek. Þessu reyndi hæstv. ráðh. að snúa sig út úr með því áð segja, að hjer myndi vera átt við Nielsen framkvæmdarstjóra. Jeg hjelt nú, að hæstv. ráðh. ættu að vera í minni orðaskifti út af þessu máli, bæði hjer og í hv. Ed. Hæstv. ráðh. hefir sjálfur margsinnis látið fyrv. stj. sæta ákúrum fyrir það, að hún hafi ekki ráðið direktör Nielsen til að standa fyrir smíðinni á „Óðni“. Svo þegar jeg spyr um manninn, sem stóð fyrir þeirri smíði, þá segir hæstv. ráðh., að það hafi verið Nielsen! Auðvitað veit jeg, að hæstv. ráðh. hefir skilið, við hvern jeg átti, enda þótt honum hafi þótt betra að látast misskilja mig. Hann veit það vel, enda þótt hann kynoki sjer við að kannast við það, að það var direktör Brorsen, sem stóð fyrir byggingu „Óðins“ og ráðinn hefir verið til að standa fyrir smíði hins nýja varðskips og hlotið hefir þá viðurkenningu, er jeg gat um áður. Jeg er hvorugt að átelja. En jeg spyr: Hvað verður nú úr öllu moldviðrinu, sem þyrlað var upp gegn fyrv. stj. og útgerðarmönnum út af smíði „Óðins“, þegar hæstv. ráðh. ræður sama mann til að standa fyrir smíði hins nýja skips, og sæmir hann heiðursmerki?

Þegar hæstv. ráðh. var að svara mjer og hv. þm. Borgf. út af fjáraustri stj., sem allir vita að er mikill, þótt menn viti ekki enn, hve mikill hann er, nefndi hann nafn eina málaflutningsmanns hjer í bænum, Jóns Ásbjörnssonar, er hann sagði, að tekið hefði 5000 kr. fyrir að flytja mál fyrir undirrjetti, og hefði stj. blöskrað svo, að hún hefði ráðið fastan málaflutningsmann, Stefán Jóh. Stefánsson, til annars málaflutnings fyrir sig. Jeg tel skylt að upplýsa þetta mál nokkru nánar, þar sem upphæðin, sem tilgreind er, er allhá, en engin skýring fylgir frá hálfu hæstv. ráðh., heldur varpaði hann þessu fram til að sýna, hve íhaldsmenn væru gráðugir í landsfje; jeg vil því gefa nokkrar skýringar á þessu máli. Upphæðin, sem hæstv. ráðh. nefndi, er að vísu rjett, en þótt um undirrjettarmál sje að ræða, er valdast hvernig á stendur.

Það mál, sem hjer um ræðir, var hafið af Íslandsbanka á hendur landsstj., og á rót sína að rekja til ágreinings vegna gengis á gulli því, sem bankinn er skyldur að afhenda ríkinu samkv. lögum nr. 6, 31. maí 1921. Þar segir svo í 3. gr. laganna, að bankinn skuli vera skyldur til að selja ríkissjóði það af gullforða sínum, er hann þarf eigi til tryggingar eigin seðlum sínum, með nafnverði. Nú hefir ástandið breytst og risið upp deila um það, hvað nafnverð sje. Ríkið hefir þegar tekið við allmiklu af gullforða þessum. Varð það að samkomulagi, að stj. greiddi það, sem hún teldi sjer skylt, en bankinn áskildi sjer hinsvegar rjett til að leita til dómstólanna, til þess að fá mismuninn greiddan. Með leyfi hæstv. forseta vil jeg lesa upp 3. gr. laganna í heilu lagi:

„Íslandsbanka er skylt að selja ríkissjóði með nafnverði það af gullforða sínum, er hann þarf eigi til tryggingar eigin seðlum sínum, og má hann því eigi láta neitt af forða þessum af hendi, nema hann hafi áður boðið hann til kaups með áðurnefndu verði og ríkissjóður neitað að kaupa. Eigi má Íslandsbanki heldur á neinn annan hátt binda þennan forða þannig, að ríkissjóður geti eigi fengið hann, er hann losnar úr seðlatryggingunni.

Allur gullforði bankans skal geymdur í Reykjavík og vera háður eftirliti ríkisstjórnarinnar, samkv. þeim reglum, sem um það hafa gilt.

Þetta er sú lagagrein, sem hjer ræðir um, og eftir henni þóttist bankinn eiga hjá ríkinu 200 þús. kr. Út af þeirri upphæð var stefnt. Jón Ásbjörnsson varði málið fyrir ríkisstj. Eins og hv. þdm. sjá, var þetta óvenju stórt mál og snerist í raun og veru um miklu meira en þær 200 þús. kr., sem bankinn krafðist sjer til handa. Það var í rauninni hreint „princip“- mál. Landið á enn eftir að veita viðtöku miklu gulli frá bankanum, og úrslit málsins eru því stórt fjárhagsatriði einnig í framtíðinni. Ríkið hefir nú unnið málið fyrir undirrjetti, en kemur nú til úrskurðar hæstarjettar, hver sem úrslitin kunna að verða. Hefir það verið falið sama málafærslumanni, eða málafærslufirma, og áður.

Fyrir þessar 200 þús. kr. er gjaldið 5 þús. kr., sem hæstv. dómsmrh. nefndi, alveg samkv. taxta málafærslumannafjelagsins. Og jeg skil ekki, hvernig hæstv. ráðh. getur ætlast til, að farið væri undir taxta. Það er varla hægt að ámæla málafærslumönnum, þó að þeir vilji fá kaup sitt greitt eftir taxta eins og aðrar stjettir þjóðfjelagsins.

Nú hefir hæstv. stj. ráðið nýjan málaflutningsmann, sem jeg ætla, að hæstv. dómsmrh. nefndi Stefán Jóhann Stefánsson. Hvernig hefir það gefist? Jeg skal ekki fara langt út í þá sálma, en þó vil jeg minna á mál ríkisstj. gegn fyrv. sýslumanni í Barðastrandarsýslu. Af þeim 138 þús. kr., sem stj. gerði kröfu til fyrir hönd ríkissjóðs, hefir hún ekki fengið sjer tildæmdar nema 65 þús. kr. Af undirrjettardóminum er svo áð sjá, sem þetta stafi af ófullkomnum undirbúningi málsins. Skal jeg ekkert fullyrða um það. hvort þau missmíði eru stj. að kenna eða viðkomandi málafærslumanni. Eitt er víst, að vegna ófullkomins málatilbúnaðar fást aðeins 65 þús. kr. í stað 138 þús. kr.

Þá vil jeg spyrja hæstv. dómsmrh., hvort umræddur málafærslumaður sje ráðinn fyrir fast kaup, eða fái vinnu sína greidda eftir taxta. Vænti jeg að hæstv. ráðh. svari þessu.

En þessa skýringu tel jeg nægilega til að sýna, að stj. hafi ekki breytt til batnaðar með því að ganga framhjá Jóni Ásbjörnssyni, þó að hæstv. ráðh. hafi þótt greiðslur til hans nokkuð háar.

Það er mála sannast, að hver maður lærir svo lengi sem hann lifir; það heyrði jeg síðast á ræðu hæstv. ráðh. um landhelgismálin. Jeg hefi áður rætt þau mál við hann. Nú finn jeg, að skilningur hans hefir þroskast, síðan honum óx þekking og reynsla í þessum efnum, og er það að vonum.

Hæstv. ráðh. var að hrósa sjer af því, að hann hefði verið mildur við skipstjórana á varðskipunum. Jeg vil ekki draga af honum þann heiður, sem hann á skilinn, en ekki fanst mjer aðstaða hans gagnvart kaupgreiðslum til skipstjóranna í fyrra o. fl. bera vott um sjerstaka velvild í þeirra garð. En það er gott, ef hæstv. ráðh. hefir líka breytt aðstöðu í þessu efni, því að skipstjórarnir hafa unnið til góðs eins. En ekki kalla jeg það neina sjerstaka dánumensku, þó að hæstv. ráðh. ljeti vera að hrekja þá út í málaferli við einstaka menn. Jeg sje ekki, að skipstjórunum komi það nokkurn skapaðan hlut við, þó að einhverjum manni einhversstaðar á landinu verði það á að móðga hæstv. dómsmrh. í stuttu máli: Jeg efast um, að hæstv. ráðh. sje þessum mönnum eins góður og hann lætur í veðri vaka. En það gleður mig, ef svo er.

Jeg tók það fram, að kynning hæstv. dómsmrh. af landhelgisvörnunum myndi hafa aflað honum nokkurs þroska, enda hlaut svo að fara um svo skynsaman mann sem hæstv. ráðh. er, þegar hann gætir sín. Hann talaði um „rómantík“ í landhelgisvörnunum. Það er að vísu nokkuð óvanalegt orð í þessu sambandi, en jeg skil samt, hvað hæstv. ráðh. átti við. Hann sagði, að það „ideella“ í strandvarnamálinu væri, að togararnir hættu að fara inn fyrir landhelgislínuna, og að eftir því sem gæslan batnaði, myndu færri togarar verða teknir. Jeg er sömu skoðunar, en hæstv. ráðh. hafði áður annað álit í þessu efni. Þá vildi hann meta skipstjórana eftir því einvörðungu, hve marga togara þeir tækju. En hitt er alveg rjett, sem hann sagði nú, að tilviljun getur ráðið miklu um það, hve margir togarar eru teknir.

Í svari sínu til hv. þm. Dal. talaði hæstv. ráðh. um dönsku landhelgisgæsluna og vildi bera blak af henni. Hann vildi láta taka tillit til ástæðna og sagði, að dönsku skipin væru illa fallin til landhelgisgæslunnar. Í sambandi við þetta get jeg vitnað í þau orð, sem jeg ljet falla í Ed. 1925, þegar rætt var um, að landhelgissjóður tæki til starfa. Jeg gat þess þá, að landhelgisgæsla dönsku varðskipanna væri oft vanþökkuð. Hún hefir oft verið leyst af hendi eftir bestu föngum, þó að hinu beri síst að neita, að hún hafi stundum verið rjettilega átalin.

Að lokum vil jeg taka undir það með hv. þm. Dal., að mjer virðist framkoma hæstv. stj., eftir að yfirlýsingarnar komu fram á síðasta Albingi ekki hafa verið nærri svo skýlaus gagnvart Dönum sem æskilegt hefði verið. En söguna má rekja lengra aftur í tímann um óhreinlega framkomu hæstv. dómsmrh. gagnvart þeirri sömu þjóð. — Vil jeg því minna á þau ummæli, sem hæstv. ráðh. ljet dönsk blöð hafa eftir sjer eftir kosningarnar 1927. Hæstv. ráðh. er spurður, hverjir muni mynda stj. á Íslandi. Og hann gefur í skyn, að íhaldsmenn og jafnaðarmenn muni helst renna saman og mynda stj. Þetta vildi hann láta Dani ímynda sjer. Og þó eru gildar ástæður til að ætla, að hann hafi þá vitað til fulls, hversu fara myndi. Það er nokkurnveginn víst, að honum hefir þá verið sambandið við jafnaðarmenn jafnvakandi í huga og þegar hann var gerður út af þeim fyrst árið 1923 til að vinna atkvæði bændanna.

Af viðtölum þeim, er hæstv. dómsmrh. hefir átt við danska blaðamenn síðastliðið sumar, og hv. þm. Dal. hefir skýrt frá, virðist mega ætla, að hann hafi naumast gefið rjetta mynd af viðhorfinu hjer á landi til sambandsmálsins. Ummælin verða tæplega skilin svo, að hæstv. ráðh. vilji láta Dani álíta, að mikill sjálfstæðisandi sje nú í íslensku þjóðinni. Hæstv. ráðh. sagði, að viðhorfið til Dana væri breytt og gamli andinn væri horfinn. Og sá gamli andi sagði hann, að hefði verið sá, að hata þessa frændþjóð okkar. Jeg held, að þetta sje ekki rjett. Um það get jeg vel borið sem gamall sjálfstæðismaður. Um hæstv. ráðh. hefi jeg að vísu heyrt, að hann hafi verið mikill Danahatari fyr á árum. Og því get jeg trúað. En sjálfstæðismennirnir gömlu munu yfirleitt ekki hafa hatað Dani, þó að þeir vildu heimta rjett okkar allan úr höndum þeirra.

Um það verður eigi deilt, að hæstv. dómsmrh. hefir reynt að varpa á fyrirspurn hv. þm. Dal. kátlegum blæ. Hann gefur dönskum blaðamönnum ranga hugmynd um íslenskt stjórnmálalíf og aðra en honum var skylt að gera.

Jeg ætla ekki að fara að svara þeim ásökunum, sem hæstv. dómsmrh. bar fram á hendur hv. þm. Dal. um afstöðu hans til sjálfstæðismálanna. Hv. þm. Dal. getur svarað fyrir sig. En heldur þykir mjer kynlegt að telja t. d. einokun á áburði meðal mestu sjálfstæðismála þjóðarinnar. Hæstv. ráðh. sagði, að þjóðin hefði ekkert til hv. þm. Dal. að sækja í sjálfstæðismálunum. Þetta eru óverðug ummæli. Hv. þm. Dal. hefir ávalt staðið framarlega í þeim málum og komið fram með fullri einurð gagnvart Dönum.

Þá skal jeg minnast á það, sem gerðist í lögjafnaðarnefndinni. Borgbjerg fulltrúi danskra jafnaðarmanna — jeg vil undirstrika það, að hann er fulltrúi jafnaðarmanna — ber fram fyrirspurn út af 6. gr. sambandslaganna. Hæstv. dómsmrh. svarar. Og hverju svarar hann? Hann segir, að þetta mál sje ekki ofarlega á baugi með þjóðinni. Hann er að reyna að ýta málinu til hliðar og láta hinn danska fyrirspyrjanda fá ranga mynd af afstöðunni hjer. Og þó var alveg sjerstök ástæða til að gefa skýr svör, af því að það var fulltrúi danskra jafnaðarmanna, sem spurði. Danskir jafnaðarmenn hafa, eins og kunnugt er, lagt fram fje til þess að hafa bein áhrif á íslenskar kosningar og íslenska stjórn. Slíkum mönnum á íslensk stj. fyrst og fremst að gefa skýr svör.

Við eigum ekki að hata Dani. En við eigum að halda fast á skýlausum rjetti okkar og draga enga dul á það. Og það er ekki rjett af hæstv. dómsmrh. að gera lítið úr þeim meðal þjóðarinnar, sem vilja halda fast við fullveldismál vor. Um engan sjálfstæðismann má segja, að við höfum ekkert til hans að sækja í þeirri baráttu. — Í þeirri baráttu er engum góðum Íslendingi ofaukið.