27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. (Jón Jónsson):

Háttv. 4. landsk. hefir nú mælt fyrir brtt. sínum. Þetta bar nú nokkuð á góma í n., en þó við sæjum, að sumar þessar brtt. væru að ýmsu leyti rjettmætar, sáum við ekki ástæðu til þess að fallast á, að bætt yrði nýrri deild við hinn fyrirhugaða banka. Jeg lít svo á, að smábýlin kringum kaupstaðina, er hv. þm. ber svo fyrir brjósti, sjeu ekki svo illa stödd, að það þurfi að setja upp sjerstaka lánsstofnun vegna þeirra. Hvað snertir ræktun þar, þá er það sama og með sveitirnar, að hægt mun að fá lán úr ræktunarsjóði til að rækta smábletti kringum kauptúnin. Ræktunarsjóðurinn hefir lánað til slíks og mun framvegis gera það. Fæ jeg því ekki sjeð, að ástæða sje til að taka það til athugunar í nýrri löggjöf. Hvað viðvíkur lánum, er þessi býli þurfi að fá til lengri tíma, þá hafa þau miklu betri aðstöðu til þess að ná til veðdeildar Landsbankans heldur en sveitirnar, og er því síður þörf að gera sjerstakar ráðstafanir þeirra vegna. Og hvað bústofnslánadeildina snertir í þessu sambandi, þá býst jeg við, að þessi býli kringum kaupstaðina hafi aðeins kýr, eitthvað lítilsháttar, og geti því altaf fengið lán til þeirra hluta annarsstaðar. Að öllu þessu athuguðu sje jeg ekki ástæðu til þess að fara að koma upp sjerstakri lánsstofnun fyrir þessi býli, meðan þau geta notið góðs af ræktunarsjóðnum. Enda er það mál ekki svo vel undirbúið, að nokkurt vit sje í því að taka það upp í þessa löggjöf. Nú hefir líka hæstv. atvmrh. lýst því yfir, að það liggi fyrir að rannsaka þessi mál, og má þá ræða þau frekar að þeirri athugun lokinni. Sjerstaklega vil jeg taka fram, að jeg tel alveg óhæfilegt að ætla þessum smábýlum stórum betri lánskjör en sveitunum, eins og lagt er til í till. hv. 4. landsk.

Út af því, er hv. þm. sagði um það, að almenn menning væri meiri í kaupstöðum en í sveitum, vil jeg taka það fram, að jeg lít svo á, að öll menning sje miklu þjóðlegri í sveitunum, og a. m. k. hafa þær verið skjólgarður ísl. tungu. Og þó að kaupstaðirnir hafi hin síðari árin tekið miklum framförum í þessum efnum og öll menning þar hafi færst í þjóðlegra horf, þá verð jeg þó að álíta, að hinni ísl. menningu sje betur borgið í sveitunum.

Hitt, sem hv. þm. sagði, um að þungamiðja þjóðlífsins ætti því aðeins að vera í sveitunum, að sveitirnar hefðu fólksafla til þess, er að nokkru leyti rjett, en að nokkru leyti ekki. Það er fallvalt að hlaupa eftir því, hvernig ástatt er þetta og þetta árið. Það verður að miða við það, sem á að vera undir eðlilegum kringumstæðum. Og þá á þungamiðjan tvímælalaust að vera í sveitunum, enda mun það í bráð og lengd reynast farsælast fyrir þjóðina í heild.

Jeg ætla að víkja örfáum orðum að aldursforseta deildarinnar, hv. 1. þm. G.-K. Það er að mörgu leyti erfitt, að mæla gegn honum. Hann er gamall og reyndur bankastjóri og hefir mikla þekkingu á bankamálum, en jeg verð að segja, að heldur fanst mjer anda kalt frá honum til þessarar stofnunar, og jafnvel til búnaðarins yfirleitt. Hv. þm. hjelt því fram, að ekki væri mikil þörf á nýrri veðlánastofnun, af því að það mundi vera orðið lítið til að veðsetja í sveitunum. Jeg hefi því miður ekki sjeð neinar skýrslur um þetta efni. Hv. þm. er sjálfsagt fróðari um þetta en jeg, en jeg er ansi kunnugur í minni sveit. Þar eru 30 jarðir og hlutar þeirra alveg óveðsettir. Og ef jeg lít í kringum mig í hjeraðinu yfirleitt, er hlutfallið mjög svipað, og svo mun víðar um landið, sem betur fer.

Hv. þm. hjelt því fram, að það mundi mega leggja niður veðdeildina, en vjek þó að því, að Landsbankanum verði fyrirskipað að setja upp sjerstakan veðdeildarflokk, sem beint láni bændum. Hv. þm. er þá kominn inn á það, að bændur þurfi veðdeild. (BK: Það er samkomulagstillaga). Það er gott og blessað, en jeg fæ ekki sjeð, ef hv. þm. á annað borð felst á þörfina, hvað er betra að fyrirskipa Landsbankanum að setja upp nýjan flokk sjerstaklega handa búnaðinum en að láta Búnaðarbankann hafa veðdeild. (BK: Hvar eru peningarnir?). Jeg hefi enga trú á, að veðdeildarbrjef Búnaðarbankans seljist ver en veðdeildarbrjef Landsbankans. Jeg, skil ekki það álit manna, að minna seljist Vaxtabrjef, sem eingöngu eru seld fyrir landbúnaðinn, en hin, sem seld eru til almennra lána, þegar í báðum tilfellum er ábyrgð ríkissjóðs á bak við, þar sem líka ríkinu er gert að skyldu að kaupa nokkuð af vaxtabrjefum Búnaðarbankans. Hvernig þessi lán eiga að vera dýrari, fæ jeg ekki skilið, en jeg játa það, að jeg er ekki bankafróður maður.

Hv. þm. talaði um, að viðlagasjóður væri grálega leikinn með því að ætla að nota hann sem stofnfje. Viðlagasjóður var upphaflega ætlaður til að borga með halla, en það hefir hann bara ekki gert. Hv. þm. lýsti honum ekki fagurlega, hann væri meira og minna í óvissum skuldabrjefum og öðru rusli. Þá er þeim mun minni eftirsjón að honum. Hv. þm. sagði, að sjóðurinn hefði átt að vera til hjálpar í hallæri. Jeg býst ekki við, að það geti orðið, þegar svona er komið fyrir honum. eins og hv. þm. lýsti, enda erum við smám saman að koma okkur upp bjargræðissjóði, sem þegar nemur einni miljón og á fyrir sjer að stækka.

Hv. þm. sagði, að viðlagasjóður væri að sumu leyti lánaðar til nytsamra starfa í sveitum landsins. Það er satt; þetta kemur alloft fyrir. En það yrði miklu minni þörf á þeim lánum, ef hægt væri að vísa á dálítið öflugan, sjálfstæðan búnaðarbanka.

Mjer fanst hv. þm. tala mjög kuldalega um búfjárveðin. Hann taldi búpeninginn ekki veðhæfan. Búpeningur er að vísu ekki svo góð trygging sem vera ætti, en jeg held, að bankarnir hafi oft lánað gegn því, sem ekki er tryggara en lausafje. Það er svo fyrir að þakka, að skepnufall er hreinasta undantekning, og ef við gætum búið betur um fóðurbirgðatryggingarnar, er það mikil bót, einkum þegar komnir eru búfjártryggingarsjóðir, eins og nú er komin löggjöf um. Enginn getur neitað því, að það er mikil þörf slíkra lána til aukningar bústofninum.

Hæstv. forsrh. fór svo rækilega inn á þetta, að jeg hefi þar engu við að bæta. Jeg ætla samt að víkja að brtt. hv. þm. um að lækka laun bankastjóranna. Jeg er í raun og veru sammála hv. þm. um það atriði, en jeg vildi samt ekki flytja brtt. um það, af því að mjer finst frv. ekki svo gallað, að það taki því að tefja fyrir framgangi þess með slíkum brtt. Einnig finst mjer óviðfeldið, að bankastjórar Búnaðarbankans sjeu ver launaðir heldur en bankastjórar Landsbankans. Það er ástæðulaust að setja Búnaðarbankann skör lægra, enda er ákaflega mikið komið undir því, að góðir menn fáist í stjórn hans. Hinsvegar mundi Búnaðarbankinn fylgja með, ef laun Landsbankastjóranna yrðu lækkuð.

Hv. 5. landsk. sagðist hafa talað um þetta í landbn., og hann hefir auðvitað óbundið atkvæði um að leggja til, að veðdeildin verði feld í burtu. Jeg vjek að því áðan, sem hv. þm. sagði um áhættuna, og benti á, að það fylgir því altaf vandi að greiða mönnum aðgang að lánum, en við því er ekkert að gera. Hv. þm. minti á, hvernig farið hefði fyrir útibúinu á Selfossi. Jeg er ekki vel kunnugur því, en jeg hygg, að þar hafi alveg sjerstök atvik verið að verki. Þá var sjerstaklega óheppilegt árferði, í stríðslokin, og auk þess höfðu bændur þar um slóðir ráðist í mikil fyrirtæki, sem urðu þeim miklu dýrari en nokkurn óraði fyrir, til dæmis Skeiðaáveituna, og stuðluðu að stórfeldri skuldasöfnun í hjeraðinu.