13.04.1929
Neðri deild: 44. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg býst við, að hv. 2. þm. G.-K. hafi fengið áminningu hjá sínum mönnum eftir ræðu sína í gler, því að nú stilti hann skap sitt mun betur og viðhafði munnsöfnuð, sem nærri því var samboðinn manni, sem ekki þurfti að vera götudrengur. Jeg geri ráð fyrir, að hann hafi fengið svipaðar þakkir í sínum herbúðum eins og Mbl. fær fyrir meðferðina á móðurmálinu. Fyrst vil jeg snúa mjer að því, er hv. þm. reyndi til að niðra löggæslumönnunum og svívirða þá. Sú framkoma er í fullu samræmi við framkomu íhaldsins gagnvart þessum mönnum. Blöð þeirra hafa ekki lint látum með að uppnefna þá og hrakyrða á allan hátt fyrir að gera skyldu sína. Í þessu sambandi vil jeg minnast á sögu eina, sem borist hefir út um bæinn, og menn, sem munu vera nákomnir hv. þm., hafa borið út. Það var sagt, að einn þessara löggæslumanna hafi verið við skyldustörf á þjóðvegi hjer í nærsveitunum og hafi þá bulla nokkur ráðist á hann og misþyrmt honum. Um leið og jeg get þess, að þetta er alveg tilefnislaust, vil jeg geta þess, að yfir þessu máli skemtu íhaldsmenn sjer vel, og var það líka í fullu samræmi við þeirra sómatilfinningu, en þjóðin hefir andstygð á slíku siðferði. Alment er talið, að þessi lygasaga hafi komið upp í Kveldúlfi og að menn nákomnir hv. 2. þm. G.-K. hafi hælst um, að einn af starfsmönnum þessa fyrirtækis hafi ráðist á löggæslumanninn. Þetta bendir á, að ofstopamenn af þessu tægi hafi viljað beita ofbeldi við löggæslumennina, en ekki þorað það. En þessi mótþrói hv. 2. þm. G.-K. og hans flokksbræðra orsakast af því, að þeir þola ekki, að lögin nái til þeirra, sökum þess að þeir hafa getað sveigt lögin nokkurnveginn eftir eigin vild meðan íhaldið fór með völd. Það vita allir, að þessir menn vilja grafa undan lögum og rjetti í landinu og gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til að forða fyllibyttum frá sektum; en þeir verða nú að þola, að lögin nái til þessara fylgismanna sinna. Jeg býst líka við, að hv. þm. verði ekki sigurreifur, þegar hann heyrir, að í dag og í gær voru 16 bílstjórar sektaðir, þótt hann og hans menn hafi verið að reyna að draga þá undan vendi laganna. Hv. þm. er reiður yfir því, að jeg hafi sent honum sneiðar fyrir drykkjuskap, en þegar hann og hans líkar taka málstað ofdrykkjumannanna og uppnefna löggæslumennina og svívirða, þá sanna þeir þar með, að ekki eru þeir svo hreinir sem skyldi. Hv. þm. mintist á, að jeg hafi talað um ölæði í þingveislum, en jeg hefi oft verið þar og sýnt það, að jeg kann að gleðjast í hófi með glöðum, og meira að segja hefi jeg oft fylgt góðglöðum andstæðingum heim úr slíkum veislum. Annars verð jeg að játa það, að mjer þykir það mikill ljóður á ráði hv. þm. að geta ekki haldið veislu án þess að fara yfir það stig, sem sæmilegt er; eins og t. d. í samkvæmi, sem haldið var í fyrra. — Þá mintist hv. þm. á Tervani-málið, en það er nú dautt mál, því að menn hafa þegar sjeð, hver hafði þar á rjettu að standa. Annars verð jeg að geta þess, að þessi „homopathia“, sem jeg tók upp, að láta íhaldið berjast við sjálft sig, hefir gefist vel, því að varla geri jeg ráð fyrir, að þessi íhaldslögfræðingur hafi tekið upp á því að flytja rangt mál fyrir peninga. Mjer hefði þó ekki dottið í hug að leiða þetta vitni í neinu máli öðru en þessu, sem íhaldið hefir gert að æsingarmáli. Þegar jeg hefi lesið upp álit þessa íhaldslögfræðings, verður flokkur hans annaðhvort að játa, að hann sje ómerkur orða sinna eða að flokkurinn fari með rangt mál.

Jeg tek því skýrt fram, að þetta vitni er ætlað íhaldsmönnum einum, það er að segja, þeim æstustu. Aðrir þurfa þess ekki við. Jeg ætla þá að segja frá þessu aftur í sem stystu máli.

Fyrst er það, að undirrjetturinn í Hafnarfirði slær því föstu, að málið sje rangt eins og íhaldsmenn hafi flutt það. Hæstirjettur er í miklum vafa, en dæmir þó Júpiter í sekt, og þetta nafa þeir hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. G.-K. reynt að afsaka sjer í vil. Þeir finna, að það er hættulegi að leggja annað mái á líkum grundvelli undir dóm almenningsvitundarinnar, þegar á bak við stendur annarsvegar sýkna og hinsvegar hikandi dómur. Þar við bætist, að sá maður, sem á aðalblað íhaldsins, hefir, eins og jeg las upp, leitt rök að því í fyrsta lagi, að báturinn var svo hörmulega illa útbúinn, að það út af fyrir sig var til minkunar, í öðru lagi, að mennirnir voru bæði heimskir og ósannsöglir, og í þriðja lagi staðfestir þessi íhaldsmaður það, sem öllum var kunnugt, að frágangurinn á sönnunum þessa manns var þess eðlis, að því fleiri sem hefðu vitað um þetta, því ákveðnari var dómurinn um hv. 1. þm. Skagf.

Því er ekki að neita, að landhelgisgæsla okkar gengur hart að nágrannaþjóðunum að því leyti, að sektir eru háar, enda er sterk tilhneiging hjá nágrannaþjóðunum til þess að rökmeta alla dóma í þessu efni og dómamir eru krufðir til mergjar af hinum hæfustu mönnum. Þegar hefði verið farið að meta slíkan dóm um Tervani-málið, þá hefði naglamenningin komið fram í sinni fullu nekt, og afleiðingin orðið sú, að okkar tiltölulega góðu, uppvaxandi strandgæslu hefði verið blandað saman við hinn óheyrilega naglaskap skipshafnarinnar á varðbátnum Trausta.

Allir menn, sem eitthvað þekkja utan Íslands, geta verið samdóma um, að ekki hefði staðið sterk almannavitund á bak við dóm eins og Tervani hefði fengið, þegar rök málsins hefðu verið rædd í sjerfræðiritum stórþjóðanna og í enska og þýska þinginu.

Það kom mjög illa við hv. þm., að jeg hafði lesið upp brjef, ekki frá enska utanríkismálaráðh., heldur frá enska ræðismanninum í Reykjavík. Jeg býst ekki við, að það verði tekið alvarlega, sem hv. þm. vildi láta þingheim trúa, að brjefið væri falsað. Það lítur út fyrir, að hv. 2. þm. G.-K. sje ekki kunnugur nema glæpamannabókfærslu, ef hann álítur, að slík skeyti frá ensku stj. sjeu fölsuð. Það sannar skoðun mína um gáfnafar og mentunarástand þessa hv. þm.

Hv. þm. hefir tekið út úr rjettu samhengi það, sem jeg sagði um músaholuna, sem hv. þm. Borgf. liti á veröldina úr, og bæði misheyrt og misskilið. Annars gat hann ekki annað en dreymt setningar sínar. Hitt er annað mál, að jeg álít ekki álitlegt fyrir jafnlitla þjóð og við Íslendingar erum að gera Bretum rangt til. Þó að Bretar sjeu nógu miklir drengir til að vernda smáþjóð, sem kemur vel fram, er hitt ekki víst, að þeir sýni samúð þjóð, sem kemur bersýnilega illa fram. En það er auðvitað öðru máli að gegna, ef við erum meiri en Bretar. Annars held jeg, að hugtökin í heimspólitíkinni sjeu nokkuð óljós fyrir ýmsum flokksbræðrum hv. þm. Einn þeirra fór fyrir skömmu til Englands til þess að semja um kaup á nýjum togara, og hann undraðist það, að allir skyldu ekki drúpa höfði, þegar hann gekk framhjá, bara af því hann væri einn af eigendum Kveldúlfs. Hann bjóst við, að frægð sín hefði flogið til Englands og að honum yrði tekið eins og fyrirbrigði, ef hann lyti svo lágt að koma þangað.

Hv. þm. spurði mig, hvort jeg vildi gefa Júpiter upp sakir. Mjer skildist hv. þm. fyrst og fremst fallast á, að Júpiter hefði verið ranglega dæmdur, og í öðru lagi virtist hann ekki vera í minsta vafa um mátt minn og vilja til þess að taka á mig allra manna syndir. Það er nú oflof, því að jeg get til dæmis ekki tekið á mig neitt af syndum íhaldsmanna. Ef Júpiter hefir verið ranglega stefnt til dóms og hann ranglega dæmdur, verða íhaldsmenn sjálfir að bæta fyrir það. Það er bara einn maður í sögu heimsins, sem hefir tekið allra manna syndir á sínar herðar, og það er of mikið lof, ef hv. þm. gerir ráð fyrir, að jeg taki á mig þennan litla part af syndabyrði heimsins, sem þó er svo óttalega stór.

Þegar hv. þm. ætlaði að sanna, að hann ætti að hafa leyfi til að tala um landhelgismál, var hann mjög hikandi, enda gleymdi hann alveg einu atriði, sem skiftir miklu máli, nefnilega sinni eigin aðstöðu til landhelgisgæslunnar. Jeg skal fyrst nefna ömmufrv. Því verður ekki neitað, að frammistaða hv. þm. í því máli færði okkur heim sanninn um, að hv. þm. vill opna íslenskum togurum leið til að geta fiskað í landhelgi. Jeg vil í þessu sambandi minna á hv. þm. Snæf. Ef íhaldsmenn hefðu heimspekilegar flokksástæður fram að færa til að vera á móti því máli, ættu þær ástæður líka að ná til hv. þm. Snæf. En hann var með frv., af því að hans eigið kjördæmi, einkum þorpin, bíða allra þorpa mest tjón af ágangi landhelgisþjófanna. Þess vegna sannar framkoma hv. þm. Snæf., að þeir, sem vilja, að landhelgisgæsla sje góð, eru með frv.; hinir eru á móti því. Þetta er svo viðurkendur sannleikur, að það dettur engum skynsömum Reykvíking í hug að álíta annað en að hv. 2. þm. G.-K. vilji, að togarar hans sópi fiskinum, hvar sem hann er að fá. Hinsvegar býst jeg við, að hv. þm. vilji heldur, að öðru jöfnu, taka fiskinn utan landhelgi en innan. Jeg geri ráð fyrir, að hv. d. fái innan skamms tækifæri til að sjá, hvort hv. þm. hefir sjeð að sjer síðan í fyrra, og jeg trúi ekki öðru en að hv. d., sem hefir sýnt svo mikla fórnfýsi að vilja leggja til nýtt skip til að verja landhelgina betur, sinni slíku frv.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði svikið mínar hugsjónir, þar sem jeg hefi ekki reynt að koma fram afnámi sendiherraembættisins í Kaupmannahöfn. Jeg álít hægt að komast af án sendiherra í Kaupmannahöfn. En er þetta mál svo mikið stórmál, að það sje gerandi að „Kabinet“-spursmáli? Því hefi jeg aldrei gert ráð fyrir, þar sem allir vita, að meir en helmingur Alþingis vill hafa sendiherra í Kaupmannahöfn. Spánarsendiherrann hefi jeg ekkert með að gera. En fyrst hv. þm. álítur, að mjer beri að setja himin og jörð á hreyfingu til þess að leggja niður sendiherraembættið í Kaupmannahöfn, vil jeg benda honum á, hvað fyrv. ráðh., hv. 3. landsk. (JÞ), var gleyminn í 4 ár um stærsta samgöngumálið, járnbrautarmálið. Það kvað svo ramt að, að hann gerði hreint ekkert fyrir það öll þessi ár, þrátt fyrir fyrri afskifti.

Mjer þykir að vissu leyti vænt um, að hv. 2. þm. G.-K. skuli vera orðinn mannúðarmaður. Þó að það tilefni, sem hann velur sjer, sje ekki þýðingarmikið, er það þó nokkurs virði, ef um almennan umbótamann væri að ræða. En það er ekki til meira mannúðarleysi en fiskimönnunum á togaraflotanum er sýnt. Það er hvergi, sem menn eru píndir jafnlengi svefnlausir og úrvinda af þreytu, og hvergi, sem mönnum er jafngrimmilega kastað frá vinnunni, þegar þeir eru orðnir gamlir. Hv. 2. þm. G.-K. hugsar ekki um annað en að útníða mönnunum, meðan þeir eru í fullu fjöri. Þegar þeir biðja um svefntíma, sem þó er styttri en vísindin krefjast, neitar hv. þm. Auk þess er vart hægt að hugsa sjer ömurlegra líf en þessir menn eiga, meðan þeir njóta þeirrar dásemdar að hafa vinnu. (ÓTh: Hvernig stendur á því, að allir ungir menn sækjast eftir þessari atvinnu?). Það er gott, að hv. þm. reynir ekki að bera á móti mannúðarleysinu. Það eru til námur svo neðarlega, að innri hiti jarðarinnar er þar svo mikill, að mennirnir geta ekki unnið nema fjórðung stundar á dag. En kaup er borgað svo hátt, að menn vinna það til að vera í þessu jarðneska helvíti. Það er ekki ósennilegt, að menn vegna fátæktar og neyðar fari í vinnu til hv. 2. þm. G.-K., þá vinnu, sem er langómannúðarlegust á Íslandi. Mennirnir fá kaup, sem þeir geta dregið fram lífið fyrir, en svo er þeim kastað burtu strax og þeir fara að slitna. Í þessu efni er rjett að gera eina litla undantekningu. Það fjelag, sem einn af þm. Reykjavíkurbæjar er forstjóri fyrir, hefir látið reisa 2–3 hús fyrir sína verkamenn. Hann hefir þar sýnt eftirbreytnisvert mannúðarmerki, bara í of litlum stíl. En það er dæmalaust, að maður, sem ekur í mörgum einkabílum og kaupir reiðhesta og lifir í vellystingum praktuglega (ÓTh: Er ráðh. að lýsa sínum eigin lifnaðarháttum?) fyrir. sveitadropa útþrælkaðra verkamanna, að hann skuli vera að tala um mannúð. Það orð ætti hv. 2. þm. G.-K. að strika út úr sinni orðabók. Nei, það er ekki jeg, sem níðist á verkamönnum. Það er hv. 2. þm. G.-K. og hans stjettarbræður.

Þá skal jeg víkja að þeim mikla glæp, að stj. skyldi semja við 2 bestu læknana, sem við eigum, í sambandi við berklavarnirnar. Það átti að tryggja berklasjúklingum sem besta hjálp, sem um leið yrði hin ódýrasta fyrir landið. Og þetta segir mannúðarpostulinn að sje kúgun! Hann gætir þess ekki, að það er landið sem borgar. Það er engin höfuðsynd, þó að sá, sem borgar, fái að velja lækninn. Hv. þm. ætti engan að láta heyra þessa endemis fjarstæðu. Svona er alstaðar farið að á spítölum og í sjúkrasamlögum. Heldur hv. þm. til dæmis, að þegar landsspítalinn er kominn á stofn, fái hver og einn að krukka í sjúklingana? Eða hvernig færi, ef berklasjúklingur frá Ólafsvík ætti að fara á Vífilsstaðahælið? Ætti þá læknirinn í Ólafsvík að fara með honum? Þetta er jafnheimskulegt hjá hv. þm. og það er mikil hræsni.

Mjer finst það bera vott um svolitla sómatilfinningu hjá hv. þm., að hana reynir að draga í land af ummælunum, sem hann hafði uppi á Akranesi. Hann segist hafa viljað hnekkja því, þegar jeg sagði, að samkomulagið væri gott á milli mín og skipstjóra á varðskipunurn. Jeg, sem er annar aðilinn, veit vel, hvernig samkomulagið er. Og jeg hefi fengið ákúrur fyrir að vera of góður við skipstjórana, að bjóða þeim upp í Norðtungu. En hlið hv. þm. er þá hlið skipstjóranna og þetta er sagt í hópi þeirra, sem hann segir, að vilji mig pólitískt feigan, en annars sagði þm. blátt áfram, að þeir vildu drepa mig. (ÓTh: Þarna voru ýmsir þingmenn viðstaddir. Getur hæstv. ráðh. fengið einn einasta þeirra til að votta með sjer?). Jeg þarf engin vottorð. Jeg veit nógu mikið um þetta mál. Jeg hefi ekki reynt að pína skipstjórana á þeim grundvelli, að orð þeirra væru sönn. Ef jeg hefði trúað þessum hv. þm., þá hefði jeg látið mennina hreinsa sig af þessum ummælum. En jeg ber of litla virðingu fyrir 2. þm. G.-K. til þess. Hinsvegar hefði jeg kunnað vel við, ef skipstjórarnir hefðu frábeðið sjer alt sáluhjálparsamlag við þennan mann, sem ber þeim slíkar svívirðingar á brýn. Ef jeg fyrirlít hv. þm. út í ystu æsar, get jeg tortrygt þessi ummæli, en hafi jeg snefil af tiltrú til hans, get jeg búist við, að einhver neisti sje sannur í þeim.

Að síðustu vildi hv. 2. þm. G.-K. sanna mannúð sína á því, að hann hefði ekki rekið burt brotlega skipstjórann. En þm. hefir játað í blaðagrein alt annað um málið, nefnil. að skipstjórinn sje aflakló og þess vegna hafi hann haldið stöðunni. En svo var hv. þm. að dylgja um það, að jeg hefði keypt brotlegan mann undan hegningu. Jeg vil skora á hv. þm. að kæra mig fyrir þetta. Ef hv. þm. kærir mig nú þegar í dag ekki fyrir lögreglustjóranum hjer í Reykjavík, hr. Hermanni Jónassyni, þá lýsi jeg því yfir, að háttv. 2. þm. G.-K. er opinber ósannindamaður að þessu. Þá virtist það koma illa við háttv. 2. þm. G.-K., að jeg hafði fyrirskipað í vetur rannsókn á rekstri steinolíuútibús landsverslunarinnar á Seyðisfirði. Stjórninni hefir nú verið legið mjög á hálsi fyrir það að hafa ekki fyrirskipað slíka rannsókn. En hið sanna er, að jeg hafði enga kæru fengið um rekstur þessa útibús. Um það vissi jeg ekkert annað en að jeg hafði sjeð blaðaskammir út af því. Og endurskoðendur landsverslunarinnar, sem eru tveir íhaldsmenn hjer í bænum og eru báðir prýðilega skylduræknir menn, höfðu enga umkvörtun gert nje bendingu gefið til mín um, að þörf væri rannsóknar. Hefði slíkt þó verið bein skylda þeirra, ef nauðsynlegt var að rannsaka eitthvað.

Mjer skilst nú, sem þessum ræðum muni vera lokið í bili. Stendur nú fyrir dyrum þingveisla sú, sem hv. 1. þm. G.-K. lýsti svo fagurlega. óska jeg öllum góðs fagnaðar þar, þótt jeg telji ekki nauðsynlegt, að þm. skili þó í þann himneska fögnuð, sem hv. talaði um. Jeg býst við að verða forfallaður að sækja þessa veislu. (ÓTh: Heyr!). Jeg trúi því vel, að hv. þm. álíti sjer auðveldara að þjóna lund sinni í þingveislunni, ef jeg verð þá staddur í öðrum landsfjórðungi.