15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg mun hafa þessa ræðu mun styttri en jeg hafði ætlað mjer og hefði haft ástæðu til, því að enda þótt umr. þessar hafi verið sjálfsagðar og nauðsynlegar, þá hafa þær ekki haft þær verkanir, sem heimili að hafa þær miklu lengri. Mjer eru það mikil vonbrigði, að hæstv. atvmrh. skuli ekki hafa fallist á þá bendingu, sem jeg gaf honum um skipun formanns bankaráðs Landsbankans, því að jeg fór ekki fram á annað en það, að stj. tæki tillit til hagsmuna bankans, þannig að stærsti skuldari bankans væri ekki um leið forstjóri hans. Þetta er fyllilega rjettmæt bending, og jeg er þess fullviss, að þótt hæstv. ráðh. taki þessu nú fjarri, þá muni hann, þegar hann hugsar betur um þetta, fallast á, að hjer er um sjálfsagða kröfu að ræða. Að öðru leyti hefi jeg ekki fleira að segja við þennan hæstv. ráðh. að sinni, en til hæstv. dómsmrh. er jeg neyddur til að beina nokkrum orðum.

Eitt var gleðilegt við andsvar hæstv. dómsmrh. til mín, það, að hann leitaðist ekki við að jafna framkomu sinni og ráðsmensku með varðskip ríkisins við framkomu og ráðsmensku fyrv. stj. Þetta er sjálfsagt hyggilegt, því að áður voru skipin einungis notuð til aukaferða, ef brýnasta nauðsyn krafði, svo sem ef þurfti að flytja sjúka menn eða þvílíkt. Það er ekki að undra, þótt vörn ráðh. hafi verið í ljelegra lagi, enda á hann erfitt að koma við nokkrum verulegum vörnum í þessu máli. Það er alkunnugt, að varðskipin hafa af núv. dómsmrh. verið notuð í algerlega óþarfar snattferðir hvað eftir annað, svo að þráfalt hafa þau beinlínis orðið að vanrækja starf sitt af þeim sökum. Hæstv. ráðh. mintist á þrjár ferðir, sem hann taldi þarfar og sjálfsagðar, og hefir sennilega ímyndað sjer, að þar með væri hann búinn að hreinsa sig af því ámæli, sem hann rjettilega hefir hlotið af þessari ráðsmensku. En mikill óskapa barnaskapur! Þessar þrjár ferðir eru minstur hluti allra þeirra ótölulegu snattferða, sem ráðh. hefir notað varðskipin til, svo að þótt þessar þrjár ferðir hafi verið rjettmætar, þá er það lítil afsökun. En nú voru þessar ferðir lítt nauðsynlegar, a. m. k. sumar þeirra. T. d. hefði Þórarinn á Hjaltabakka sjálfsagt komist áleiðis, þótt hann hefði farið landveg, svo að sú ferð verður að teljast með öllu óþörf, og enda þótt togari hafi verið tekinn í þeirri ferð, þá sannar það heldur ekkert, því annars hefði varðskipið sennilega tekið fleiri en einn togara og landhelgin verið betur varin án þessarar ferðar, og það er aðalatriðið. Sama er að segja um ferðina eftir póstmálanefndarmönnunum; hún var alóþörf. Önnur ferðin, sem ráðh. mintist á, þegar sóttur var sjúklingur vestur á Ísafjörð og fluttur hingað suður, getur vel verið afsakanleg, því vel má vera, að svo hafi staðið á, að engin skipsferð hafi fallið um það leyti. En þetta er svo lítið brot af öllum þeim ferðum, sem varðskipin hafa verið látin fara að nauðsynjalausu, að þessi vörn ráðh. verður hinn aumlegasti kisuþvottur.

Þá gat ráðh. um ferð, sem farin var vegna uppreisnar í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þessi ferð var alóþörf, vegna þess að ekki var um neina uppreisn að ræða. Þó nú svo hefði verið, að rannsóknardómaranum hefði þótt útlitið uggvænlegt eftir að hann var búinn að æsa hugi manna með hlutdrægri rannsóknaraðferð þá gat ekki komið til mála að senda herskip þangað, einungis vegna hræðslu dómarans. Hræðslustingur sendisveina dómsmrh. á ekki að gefa tilefni til snattferða varðskipanna.

Þá vildi ráðh. afsaka framferði sitt út af Borgarnesförinni í sumar með því að segja, að hann hafi með því viljað leyfa skipverjunum að taka út sumarfrí. Þessi vörn ráðh. er frámunalega ljeleg, því ef þetta hefði nú verið tilgangurinn, þá hefði verið lítið vit í því að láta háseta allra skipanna hafa frí samtímis, því þar með var landhelgisgæslan lögð niður þann tíma. Mjer hefði fundist, að það hefði verið nægilegt að taka „Fyllu“ eina til Borgarnesferðarinnar. Þar var nóg farrými fyrir alla gestina og öllum þörfum þeirra fullnægt. En ráðh. hefir sennilega ekki þótt sín mikilmenska nóg, að hafa ekki nema eitt skip. Jeg hjelt, að varðskipin hefðu nóg starfa um þetta leyti árs, því einmitt júní og júlí er mest þörf góðrar lanhelgisgæslu. Þá veður fiskurinn grunn í Faxaflóa og togarar halda sjer við landhelgina, tilbúnir að skjótast inn, ef færi gefst og þeir halda sig óhulta. Sama sagan gerist á miðunum fyrir Vestfjörðum. Ráðh. getur alls ekki varið sig með því, að skipin hafi ekkert að gera á þessum tíma; slíkt eru firrur einar. Nei, ráðh. getur með engu móti afsakað það reginhneyksli, sem hann framdi með þessari nafntoguðu Borgarnesför. Sama er að segja um Norðurlandsferðina 1927 og fjölmargar aðrar snattferðir skipanna á síðastliðnum árum, svo sem Vestfjarðaferðina á síðastliðnu hausti o. fl. o. fl.

Til þess að leiða athygli hv. þdm. frá kjarna málsins og til þess að sýna lit á vörn, þá lagði hæstv. dómsmrh. fyrir mig þrjár spurningar. Í fyrsta lagi: Hvort jeg sem forstjóri togarafjelags vissi mig saklausan af því að láta skip það, sem jeg veiti forstöðu, fiska í landhelgi. Jeg svara þessu skýlaust og skilyrðislaust játandi, og jeg skora á hæstv. dómsmrh. að spyrja skipstjóra mína og skipshafnir um það, hvort svo sje ekki. Og jeg veit ekki til, að skip mitt hafi nokkurn tíma veitt í landhelgi. Við höfum fiskað minna en mörg önnur fjelög á ísfiskveiðum, að því er sumir telja vegna þess að við ekki fiskum í landhelgi; okkur er raun að vita önnur skip veiða miklu betur með því að þeim helst uppi að veiða í landhelgi. Því meiri raun er okkur að því, þegar við, ofan á þetta, erum settir á bekk með landhelgisbrjótum og veiðiþjófum.

Önnur spurningin var sú, hvort jeg vildi fylgja „ömmufrumvarpinu“ svonefnda. Það er undir því komið, hvort jeg álít það til bóta og hvort það sje líklegt til að draga úr landhelgisveiðum íslenskra togara. Ef það yrði til þess að jafna aðstöðu þeirra togaraskipstjóra, sem lögum landsins vilja hlýða, og hinna, sem virða þau að vettugi, þá álit jeg mikið við það unnið. En besta ráðið til að fyrirbyggja landhelgisveiðar er aukin og vel starfrækt gæsla. Jeg hygg, að fáir þm., utan ef til vill hv. þm. Snæf., hafi send forstjóra skipanna jafnmörg skeyti um að togarar væru að fiska í landhelgi og jeg. Jeg hefi eytt ekki allfáum símtölum um þetta efni til ráðuneytisins. Um þetta getur hæstv. ráðherra fengið upplýsingar í ráðuneytinu eða hjá skrifstofustjóra þar.

Þriðja fyrirspurnin var um það, hvort jeg hefði selt erlendum sökudólg botnvörpu. Til þess að svara þessari spurningu, verð jeg að gefa skýrslu um gang málsins alt frá upphafi, til þess að mál þetta verði að fullu upplýst.

Haustið 1927 var enskur togari sektaður fyrir ólöglegan umbúnað veiðarfæra innan landhelgi. Ekki var um ólöglegar veiðar að ræða, en þar sem sami skipstjóri hafði áður verið dæmdur fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi, þá voru nú dæmd af honum afli og veiðarfæri. Aflinn var síðan seldur daginn eftir að dómur fjell, en veiðarfæri voru seld 7–8 dögum síðar, á auglýstu uppboði. Morguninn, sem veiðarfærin áttu að seljast, kom ræðismaður Englendinga til mín og bað mig að bjóða í veiðarfærin fyrir Axel Ketilsson, sem ekki gat verið viðstaddur við uppboðið. Jeg lofaði honum að gera þetta og bauð í veiðarfærin. Áður en uppboðinu lauk kom Axel Ketilsson, og ljet jeg að sjálfsögðu skrifa hann fyrir boðinu, eins og um hafði verið talað, og var hann skráður sem hæstbjóðandi að veiðarfærunum í uppboðsbókinni. Önnur eða meiri afskifti hafði jeg ekki af þessu uppboði. Menn gera oft hver öðrum þann greiða að bjóða í á uppboði, en láta þá jafnaðarlega skrifa þá fyrir boðunum, sem kaupa. Þennan sjálfsagða greiða munu flestir veita hver öðrum. Nú getur hæstv. dómsmrh. sjálfur dæmt um, hvort jeg hefi selt erlendum sökudólg veiðarfæri. Jeg vil neita því harðlega og vísa því heim til föðurhúsanna. Jeg hefi ekki gert annað í þessu máli en það, sem hver góður borgari telur ekki eftir sjer að gera fyrir samborgara sína, ef kringumstæður heimta.

Jeg hefi nokkrum sinnum gert kunningjum mínum þennan greiða, og álíka oft þegið hann af öðrum. Þetta var auðvitað blásið upp af pólitískum andstæðingum mínum þar á staðnum, og sumir sögðu meira að segja, að jeg hefði grætt 1–2 þús. kr. á sölunni, sem vitanlega voru helber ósannindi. Þetta skip kom svo inn aftur eftir 3–4 daga, og þá seldi Axel Ketilsson því veiðarfærin. Jeg get svo bætt því við, að hjer í Reykjavík og víðast hvar annarsstaðar á landinu er venjan sú, að uppboð á veiðarfærum sekra botnvörpunga fer fram um leið og é aflanum, og veiðarfærin fara þá jafnskjótt um borð í hinn sektaða togara. Á Ísafirði er það venja hjá núv. bæjarfógeta, og var einnig í tíð hv. 2. þm. Árn., að bjóða ekki upp veiðarfærin fyr en eftir viku frá dómsuppkvaðningu, en hin aðferðin hefir þrifist hjer í Reykjavík undir handarjaðrinum á hæstv. dómsmrh., og ætti hann því ekki að finna ástæðu til að víta sölu á veiðarfærum annarsstaðar, þegar þessi linkind er sýnd hinum seku undir hans handleiðslu.

Væru veiðarfærin ekki seld, þá mundi ríkissjóður missa miklar tekjur. Ef landhelgisbrjótarnir fá þau ekki aftur, þá verður ekkert úr þeim og þeir mundu setja hjer upp veiðarfæralager, sem þeir gætu altaf gripið til. Veiðarfærin af þýskum togurum eru þannig gerð, að við Íslendingar getum alls ekki notað þau og kaupum þau aldrei til þess að nota þau sjálfir, og enskir togarar hafa líka þannig löguð veiðarfæri, að þau eru lítils virði fyrir okkur.

Hv. þm. Ísaf. mintist einnig á þetta mál, og hefi jeg þá svarað honum nú um leið. Hitt undraði mig alls ekki, þó að hann og hans flokkur vilji styðja hæstv. stj. og sje henni altaf innan handar, því að þar kemur altaf greiði greiða mót.

Hæstv. dómsmrh. talaði um vinnuna á togurunum og sagði, að það væri þrælavinna og að veran þar væri jarðneskt helvíti, en það hlýtur að vera af ókunnugleika, að hann viðhefir þessi orð. Mjer er vel kunnugt um það, að það er miklu ljettari og reglubundnari vinna á togurunum heldur en á línuveiðurum, og menn á togurunum hafa betri aðbúnað og reglulegri svefn heldur en á lóðaskipum. Sjómönnum er það vitanlegt, að langerfiðast er að vera á línuveiðurum og vjelbátum, því að þar er oft ekki hægt að láta menn hafa nema 2–3 tíma svefn á sólarhring viku eftir viku. Þess vegna er alt umtal um þessa óskaplegu vinnu á togurunum ekkert nema gaspur hins ókunnuga en fljótfærna manns.

Jeg vil vænta þess, að hæstv. dómsmrh. láti niður falla þessar snattferðir varðskipanna, því að hann hlýtur að hafa orðið var við það, að þær mælast illa fyrir úti um land og er altaf illa tekið, og nú þegar við fáum tvö fullkomin landhelgisgæsluskip, þá vil jeg óska þess, að þau verði ekki notuð til annars en að verja landhelgina.

Jeg vil að síðustu benda hæstv. dómsmrh. á það, hvað það getur verið hættulegt að viðhafa slíkar getsakir og sögur eins og hann gerir oft. Jeg varaði hann við því hjer í minni fyrri ræðu, og vil endurtaka það. Þá var áheyrandi hjer á pöllunum sá maður, sem hafði átt tal við mig um skipin, sem voru í landhelgi við Öndverðanes, og þær getsakir, sem menn gerðu út af því í sambandi við kaupdeiluna síðustu, þær getsakir eiga rót sína að rekja til gróusagna og getsaka hæstv. dómsmrh. á þinginu 1926. Áheyrandinn viðurkendi, að jeg hefði rjett eftir. Jeg finn enn á ný ástæðu til að benda hæstv. dómsmrh. á það, að hann verður að vanda sínar gróusögur betur, ef ekki á að hljótast verra af, en helst leggja þær niður.