15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg skildi hv. þm. N.-Ísf. svo, að hann teldi það ekki forsvaranlega eyðslu að senda varðskipin á milli hafna með menn, sem eru veikir eða í almennum erindum, og að nú væri gert miklu meira að þessu heldur en í tíð íhaldsstj. Jeg vil þá benda hv. þm. á það, að hv. 1. þm. Skagf. fór einu sinni með einn velmetinn flokksbróður sinn í nólitískan leiðangur norður í Skagafjörð og tók þá varðskipið Fyllu til þeirra ferðar. Jeg ætla þó alls ekki að áfella hv. 1. þm. Skagf. fyrir þetta. Það getur vel verið, að Fylla hafi átt erindi þangað, og þá var ekkert við það að athuga, þó að þessi hv. þm., sem þá var ráðh., og annar maður til tækju sjer far með henni. Jeg tek aðeins þetta dæmi, en get ekki verið að fara í neina lúsaleit í dagbókum skipanna til þess að tína upp svona ferðir, en þá gæti vel verið, að töluvert kæmi í leitirnar. Það er þó sennilega rjett, að meira sje farið af svona ferðum nú en áður, en það stafar þá af því, að núv. stj. lætur framkvæma miklu meira af þjóðfjelagslegum athöfnum. T. d. varð annað varðskipið að fara 2–3 ferðir vestur á Patreksfjörð vegna sjóðþurðar Einars Jónassonar og endurskoðunarinnar á embættisfærslu hans. Hæstv. fyrv. stj. hafði áður sent mann til þess að rannsaka hjá þessum sýslumanni, og varð sú rannsókn víst talsvert ódýrari. Maðurinn, sem var einn ungur lögfræðingur í bænum, kostaði sig sjálfur að hálfu leyti, en fjekk svo leyfi til að gera „spekulationir“ fyrir sjálfan sig um leið í fjelagi við Einar Jónasson. Árangurinn af endurskoðuninni varð enginn og sýslan sat eftir með sinn ófæra starfsmann. Það er auðvitað ekki vandi að eyða litlu í eftirlit, þegar það er ekki neitt, eða jafnvel verra en ekki neitt. Sparsemi fyrv. stj. kom aðallega fram í því, að láta ekki endurskoða hjá sýslumönnum landsins í meira en 10 ár, en hún tók það ekki með í reikninginn, hvað þjóðin hefir liðið við þetta. Hv. þm. N.-Ísf. virðist ekki enn hafa áttað sig á því, að með auknum framkvæmdum verður maður að leggja á sig meira erfiði og meiri kostnað. Núv. stj. er að láta fara fram endurskoðun hjá öllum sýslumönnum, og henni miðar svo vel áfram, að eftir 2–3 mánuði verður búið að endurskoða hjá þeim öllum, og tvisvar hjá þeim, sem byrjað var á. Það getur auðvitað vel verið, að hv. þm. N.-Ísf. skilji ekki þörfina, sem er á þessu, en þjóðin krefst þess, að þessir starfsmenn hennar fái þetta nauðsynlega og sjálfsagða aðhald, en það kostar auðvitað talsvert fje og fyrirhöfn.

Jeg skal taka annað dæmi. Nú er verið að vinna að 4 stórbyggingum í Árnessýslu, sem eru Vinnuhælið, 2 smjörbú og Laugarvatnsskólinn. Hv. þm. ætti að geta gert sjer í hugarlund, að þegar verið er að koma upp þessum stofnunum, þá verður að fá sjerfróða menn í hverri grein til þess að koma þangað að líta eftir og hafa yfirstjórn þessara verka. Það voru farnar margar ferðir austur með ýmsa búnaðarforkólfa frá Búnaðarfjel. Ísl., húsameistara ríkisins, landlækni og marga fleiri. Benedikt Gröndal hitaleiðslufræðingur varð að fara margar ferðir austur að Laugarvatni, þegar verið var að hagnýta jarðhitann þar, og varð það auðvitað nokkuð kostnaðarsamt. Það er eflaust rjett, að núv. stj. eyðir töluvert meiru fje í slík ferðalög heldur en áður var gert, en það stafar þá af hinum miklu og þarflegu framkvæmdum, sem hún hefir ráðist í. En einmitt af því að vegamálastjóri og aðrir sjerfræðingar í þjónustu landsins hafa aðgang að bifreiðum, sem landið á, þá verður þetta eftirlit svo ódýrt sem unt er. Aftur á móti var íhaldsstjórnin alveg athafnalaus í þessum efnum og sá aldrei ástæðu til þess að hreyfa sig, og ættu flokksmenn hennar því ekki að gorta af sparseminni, því að í þessu efni var hún afleiðing ódugnaðarins.

Af því að hjer er um fjármál að ræða, þá er rjett að benda á það, að hv. þm. N.-Ísf. er gamall fjármálamaður. Hann stóð fyrir útibúi Landsbankans á Ísafirði og fór það svo laglega úr hendi, að það varð að gefa eftir 1 milj. kr. á einu ári af því fje, sem hann hafði lánað út, og meira síðar. Þetta fje lánaði hann ekki einungis í óviturlegar framkvæmdir, heldur jós hann því líka alveg hóflaust í pólitíska samherja sína, og með þessari ógætni sinni og illu stjórn hefir hann stofnað þessum landshluta í beinan fjárhagslegan voða. Ef þessi hv. þm. hefði haft nokkra sómatilfinningu og borið skyn á alment velsæmi, þá hefði hann átt að grafa sig niður og fela sig í sínum eigin skugga eftir þetta alt saman og aldrei að bjóða sig fram til þess framar að taka að sjer umboð fyrir það opinbera. En það er svo fjarri því, að hann hafi skilið þetta. Honum finst það eins og ekki neitt, þó að meira en tvær milj. hafi farið þarna í súginn. Hann skoðar sig eflaust sem afarmikinn fjármálamann og eina af helstu máttarstoðum þjóðfjelagsins. Jeg ætla alls ekki að halda því fram, að hann hafi gert þetta beinlínis viljandi, en hann skorti bæði fjármálavitið og dómgreindina, sem slíkur maður þarf að hafa, en þegar hann fer nú eigi að síður fram á vígvöllinn, þá er það auðsjeð, að hann vantar fleira af því, sem dugandi menn þurfa að hafa.

Þá talaði hv. þm. um landhelgisgæsluna. Þá er rjett að benda á það, að eftir því sem jeg hefi frjett, þá komst hans eigið skip í eitthvert klandur út af því, að það stóð í óleyfilegu loftskeytasambandi við mann á Ísafirði. Hvaða meining var með þessu sambandi við skipið, veit jeg ekki, en svo mikið kvað að því, að símstjórinn sá sjer ekki annað fært en að taka í lurginn á þeim, sem að stóðu, og það bar þann árangur, að nú er það aðeins rekið sem launpukur, ef því er þá ekki alveg hætt. Mjer þætti gaman, ef hv. þm. vildi skýra frá því, hverskonar launpukur þetta var og í hvaða tilgangi það var gert. Hv. þm. vill ef til vill halda því fram, að það hafi verið gert til þess að efla landhelgisgæsluna.

Það gladdi mig stórlega, þegar hv. þm. sagði, að sitt eigið skip væri ákaflega frómt og færi aldrei inn fyrir landhelgislínuna, en hann gaf heldur leiðinlega lýsingu á sjálfum sjer, þegar hann fór að tala um tilfinningar sínar þegar hinir syndaselirnir væru að koma inn við og við með ólöglegan afla og mikinn gróða af því. Þá sagði hann að færi nú að fara um sig. Jeg get ekki sagt, að jeg geti dáð það siðgæði, sem þá kom fram í orðum hv. þm. Hann var ákaflega hryggur yfir þessu og fann til söknuðar yfir því, að hans útgerð skyldi ekki fá þetta verðmæti. Það er alveg eins og ef nábúi hans væri búinn að stela 3 sauðum og hann fyndi þá ekki til meðaumkunar. heldur gremju yfir því að hafa ekki sjálfur þetta stolna ket í sinni tunnu. Þetta er ekki einungis hlægilegt, heldur hreint og beint andstyggilegt og getur gefið hugmynd um það. hverskonar húsmunir eru í sálarherbergjum hv. þm. Það virðist einmitt vera vald freistinganna, sem grípur hv. þm., þegar keppinautamir koma inn með illa fenginn afla, og þetta vald grípur hann þeim heljartökum, að hann fær naumast viðnám veitt og játar eymd sína og spillingu hjer í þinginu.

Þá vildi hv. þm. þvo sig alveg hvítan af því að hafa hjálpað sekum togurum til þess að ná aftur í upptæk veiðarfæri. Honum fórst þetta samt ekki betur en svo, að hann játaði hreinskilnislega, að hann hefði gert þetta. Hann sagðist að vísu hafa gert þetta fyrir kunningja sinn, en þessi kunningi hans var einmitt að ganga erindi hinna erlendu veiðiþjófa og hann gat ekki valið sjer prýðilegri aðstoðarmann til þessara starfa en hv. þm. N.-Ísf. Hv. þm. hefir ef til vill haldið, að þessi maður ætlaði að nota vörpuna fyrir teppi á gólfið hjá sjer, því að ekki var hægt að nota hana til þess að veiða með henni, eftir því sem hv. þm. hefir haldið fram. Sú varð nú samt raunin á, að þessi erlendi veiðiþjófur kom aftur eftir 3–4 daga og fjekk þá upptæku veiðarfærin að nýju með aðstoð hv. þm. N.-Ísf. og vina hans. Hefði þetta verið einhver óvalinn dóni, þá var ekkert hægt við því að segja, en þegar það er einn hv. þm., sem lætst vera mjög vandlátur með alla landhelgisgæslu, þá er alt öðru máli að gegna. Þetta framferði hans verður ekki varið og er honum í alla staði til skammar, og kjósendur hans kunna honum eflaust litlar þakkir fyrir.

Þá hafði einhver skáldmæltur náungi skotið því að hv. þm., að jeg hafi sagt eftir skipstjórunum á varðskipunum, að minst væri að gera við landhelgisgæsluna í júlí. Jeg sagði, að minst væri að gera í júní, en júlí nefndi jeg ekki á nafn.

Þá treysti hv. þm. sjer ekki til að svara því, sem jeg sagði um starfsmennina á varðskipunum, enda held jeg nánast sagt, að það væri naglaskapur eða naglamenning að vera að telja eftir þeim þennan eina frídag og þá litlu skemtun, sem þeir fengu í þessari oft nefndu Borgarnesför, þar sem þeir líka vinna nærfelt alla helgidaga ársins án þess að nokkurt tillit sje tekið til þess. Jeg fyrir mitt leyti tel þá því vel að þessu komna, og það gladdi mig, að þeir höfðu ánægju af ferðinni. Mun jeg því sjá svo til, að skipshafnir beggja varðskipanna fái tilsvarandi frídag næsta sumar, og mun yfirleitt sjá svo til, ef jeg hefi framvegis yfir skipunum að segja, að skipverjarnir fái síst minni frí hjer eftir en hingað til, og mun jeg í því efni ekkert skifta mjer af því, hvað slíkir menn sem hv. þm. N.-Ísf. segja, því að jeg hefi aldrei orðið var við annað en að dómgreind hans væri mjög ljeleg í öllum siðferðislegum málum. Að jeg legg mig niður við að svara honum, er ekki fyrir það, að jeg í raun og veru telji hann svara verðan, heldur af því, að hann bergmálar margt af því, sem honum færari menn hafa komið með áður og ekki verið leiðrjett þá.

Þá fór hv. þm. með vísvitandi ósannindi, þegar hann var að dylgja um bað, að hæstv. forsrh. hefði samið við íslenska togara um það, að þeir mættu vera í landhelgi, þegar hann leysti kaupdeiluna í vetur. Er slíkt þakklæti lítil uppörvun fyrir ráðh. eða eftirmenn hans til þess að hjálpa útgerðarmönnum út úr ógöngunum, þegar þeir lenda í þeim næst, eins og hann gerði í vetur, þegar launin eru ekkert annað en upplognar dylgjur og rógur. Sýnir slíkt þakklæti, hve ómögulegir þeir menn eru, sem hæstv. forsrh. hefir með framkvæmd sinni skorið niður úr hengingarólinni.