15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

16. mál, fjárlög 1930

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi talað einu sinni áður við þessar eldhúsdagsumr. og varpaði þá engum hnútum að hæstv. stj. Jeg spurði aðeins um alvarlega hluti og bað um alvarleg svör.

Sumir líta svo á, að eldhúsdagurinn, sem svo er kallaður, sje aðeins dagur hnútukastsins, en þar er jeg á annari skoðun. Jeg lít þvert á móti svo á, að þá eigi þm. að fá upplýsingar um ýmsa hluti, sem stj. hefir framkvæmt, án þess að farið sje út í persónulegar deilur.

Þegar hæstv. dómsmrh. svaraði ræðu minni, þá virtist mjer hann sjerstaklega láta sjer ant um hnútukastið, og sjerstaklega virtist hann njóta þeirra ummæla sinna, að jeg hvíldi á hinum dönsku brjóstum Íslandsbanka. Hv. þm. er nú auðvitað ljóst, að jeg er skipaður af íslenskri stj. í bankann til þess að gæta íslenskra hagsmuna gegn erlendum hagsmunum. Eða með öðrum orðum, það er þveröfugt við það, sem ráðh. heldur fram. Eins og hv. þm. mun kunnugt, er jeg skipaður af ríkisstj. til þess að gæta íslenskra hagsmuna í bankanum. (Dómsmrh.: Hver skipaði bankastjórann?). Eru því ummæli þessa hæstv. ráðh. um, að jeg sje danskur þjónn í bankanum, svo mikil fjarstæða, að furða er, að maður í ráðherrastöðu skuli hafa þau um hönd. Auk þess vita nú allir, að bankastjórarnir eru allir íslenskir menn, og hinna erlendu áhrifa gætir þar því raunverulega að engu. Auðvitað veit hæstv. ráðh. þetta alt saman, en hitt er annað mál, að honum þykir þetta fara vel í hnútukastinu. Læt jeg svo útrætt um þetta atriði, enda er jeg sannfærður um, að það eru ekki hnúturnar, sem lifa lengst í stjórnmálalífinu, og þó þær sjeu eitraðar með köflum, þá eru þær oft verri fyrir þann, sem sendir þær, en fyrir þann, sem þær skella á.

Mun jeg þá snúa mjer að ræðu hæstv. ráðh. að öðru leyti. Í síðustu ræðu mintist jeg á erlendu landhelgisgæsluna og sýndi að gefnu tilefni fram á, að hún væri slælega rekin. Ráðh. tókst ekki að hrekja þetta. Jeg gat þess, að hið danska strandvarnarskip hefði legið inni hjer á Reykjavíkurhöfn 1926 68 daga og árið 1927 yfir 80 daga. Þessir landlegudagar skipsins eru teknir upp eftir „Ægi“, tímariti, sem gefið er út af einum af opinberum starfsmönnum stj. Svo ekki er ástæða til að ætla, að hjer sje farið með rangt mál. Sömuleiðis gat jeg þess í síðustu ræðu minni til samanburðar, hve marga togara varðskipin hefðu tekið á árinu 1927, og er rjett að minna á það enn, þar sem svo langt er orðið síðan jeg talaði síðast. Óðinn tók 36, Þór 4 en Fylla 1. Bendir þetta mjög alvarlega á, hve lítils virði hin danska landhelgisgæsla er, samanborið við þá íslensku, og ætti þetta einmitt að vera nægilegt til þess að sýna hæstv. ráðh. það ljóslega, hve nauðsynlegt það er, að við drögum öll okkar mál frá Dönum í okkar hendur. Af þessum samanburði á dönsku og íslensku landhelgisgæslunni getum við nokkurn veginn gert okkur í hugarlund, hve mikinn skaða við munum búnir að bíða við það, að landhelgisgæslan var áður eingöngu á danskri hendi. Þetta sýnir ljóslega, að ekkert hefir verið eins holt fyrir vora þjóð eins og sjálfstæðisbaráttan, sem hæstv. dómsmrh. hefir altaf gert mjög lítið úr, enda aldrei tekið neinn þátt í henni sjálfur.

Þá sagði hæstv. ráðh., að við ættum ekki að varpa áhyggjum okkar í landhelgisvörnunum upp á erlend skip. Þetta er alveg rjett hjá hæstv. ráðh , en mjer skilst, að við eigum heimtingu. á, að hinar dönsku landhelgisvarnir hjá okkur sjeu í lagi, þar sem við greiðum svo mikið fyrir þær. Má hæstv. ráðh. því ekki gefa yfirlýsingu um það í sambandslaganefndinni, að hinir leiðandi menn í landinu sjeu ánægðir með landhelgisvörnina, enda þótt varðskipið liggi fulla 80 daga á einu ári inni á Reykjavíkurhöfn. En ef hinir leiðandi menn í landinu eru orðnir svo sljóir, að þeir í raun og veru telji slíka gæslu sem þessa fullnægjandi af hendi Dana. Þá eru þeir ekki lengur í samræmi við vilja þjóðarinnar í þessum efnum, og verður þá að fá nýja leiðandi menn. Menn, sem skilja hvað þjóðin vill og fara eftir vilja hennar.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um hina gömlu dönsku auðmýkt í þessu sambandi, en jeg verð nú að segja, að eftir ummælum hæstv. ráðh. við dönsku fulltrúana í sambandslaganefndinni, þá virðist mjer ekki laust við, að þar bóli ekki svo lítið á hinni nýju íslensku auðmýkt í garð Dana.

Jeg er að sjálfsögðu sammála hæstv. dómsmrh. um það, að við eigum að leitast við að lifa í friði við sambandsþjóð okkar, Dani, eins og við hverja aðra þjóð, enda hef jeg ekki í einu orði hallmælt dönsku þjóðinni hjer á Alþingi eða annarsstaðar. Það, sem jeg hefi risið gegn og jafnan mun rísa gegn, er hinn gamli danski yfirráðaandi, sem svo oft virðist vera að reka upp höfuðið. Annars er það næsta merkilegt, hve geysimikla virðingu hæstv. ráðh. virðist bera fyrir þessum litla kanónubát, „Fyllu“, að ekki skuli mega gagnrýna starf hans hjer án þess að ráðh. hlaupi upp til handa og fóta til varnar. Það kemur ekki eins við hjarta hæstv. ráðh., þegar erlend blöð eru að draga dár að oss og landi voru og kalla það „danska hjálendu“ o. fl. því um líkt. Viðkvæmnin er meiri, þegar verið er að gagnrýna landhelgisvarnir „Fyllu“. Jeg er þess nú fullviss, að hæstv. ráðh. mætti eiga von á meira fylgi í landinu, þó að hann væri einarðari við kanónubátinn, en bæri hönd fyrir höfuð þjóðarinnar þegar verið er að óvirða hana erlendis.

Þá var hæstv. ráðh. að tala um „rómantiska“ stefnu í landhelgisgæslunni. Jeg veit hreint og beint ekki, hvað hæstv. ráðh., meinar með þessu. Líklega á hann þó við það, að togararnir fari ekki inn í landhelgina, heldur sje þeim haldið fyrir utan hana. En ráðið til þess er fyrst og fremst það, að skinin sjeu tekin þegar þau eru að ólöglegum veiðum í landhelgi. Því að þá láta hin sjer annars víti að varnaði verða. En ef til vill ætlar hæstv. ráðh. að halda því fram, að „Fylla“ hafi unnið undir hinni „rómantisku“ stefnu í landhelgisgæslunni, þegar hún tók aðeins einn togara á meðan „Óðinn“ tók 36. Annars held jeg, hvað sem þessari „rómantisku“ stefnu hæstv. ráðh. líður, að þá verði sú stefna altaf ofan á, að best sje, að sem flestir landhelgisbrjótar sjeu teknir, því af engu hafa þeir eins mikinn beyg og því, og það yrði þá einnig væntanlega þrautaráðið til þess að halda sem flestum fyrir utan landhelgina, þegar fram í sækir.

Þá sagði hæstv. ráðh., að „Fylla“ væri sjaldan hjer inni á Reykjavíkurhöfn nú. En af hverju ætli það sje? Það er áreiðanlega ekki vegna ummæla hæstv. dómsmrh., heldur er það sökum þess, að hún hefir fengið skipun frá dönskum stjórnarvöldum um að halda sjer betur að landhelgisgæslunni en hún hefir gert undanfarið, vegna gagnrýni þeirrar, sem gæsla hennar hefir fengið í blöðunum. Þetta hefst upp úr því að vera einarður og segja rjett til um það, sem aðfinsluvert er.

Þó að jeg hafi hjer að framan minst á hinar erlendu landhelgisvarnir, þá var það engan veginn svo, að það ætti að vera aðalefni ræðu minnar. Vil jeg þá fyrst víkja nokkrum orðum að hæstv. dómsmrh. út af ummælum hans um sambandslögin. Eins og kunnugt er, lofaði stj. í fyrra, undir umræðum um sambandsmálið, að vinna að því að skapa fylgi hjá þjóðinni fyrir uppsögn sambandslaganna 1943. Fyrir því spurði jeg hæstv. stj., og þá sjerstaklega hæstv. dómsmrh., því að hann mun aðallega hafa mætt á þingmálafundum í sumar af stj. hálfu, hvers vegna stjórnin hefði ekki á þessum fundum skýrt hv. kjósendum frá því, sem gerst hefði í málinu á þinginu 1927. Þetta átti stj. að gera samkv. loforði sínu um að vinna fyrir málið hjá þjóðinni. Og því meiri nauðsyn var að skýra þjóðinni frá þessu, þar sem síðustu úrslit málsins heyra beint undir kjósendurna, og 3/4 hlutar allra atkvæðisbærra manna í landinu þurfa að greiða atkvæði með málinu, og 3/1 af hinum greiddu atkvæðum þurfa að vera með sambandsslitum. Það, sem því fyrir mjer vakti, var að fá hæstv. stj. til þess að beita áhrifum sínum í málinu. En hverju svarar svo hæstv. dómsmrh.? Hann svarar einungis því, að menn tali ekki um þetta mál, af því að allir viti, hvað þeir vilji í því. En jeg vil nú spyrja: Er óhætt að reiða sig á, hvað menn vilja í þessu máli? Jeg er mjög efinn í því, af þeirri einföldu ástæðu, að jeg geri alveg eins ráð fyrir, að sumum mönnum sje ekki fyllilega ljóst, hvað þeir vilja í þessum efnum. Enda væri slíkt ekkert undarlegt, þegar sjálft stjórnarblaðið veit hvorki upp nje niður í málinu. Í síðasta blaði „Tímans“ er grein, sem heitir Endurskoðun. Þar segir svo: — „Þótti honum orðið „endurskoðun“ óviðeigandi og taldi of vægilega til orða tekið. En fyrir sjónum ótruflaðra manna verður slíkt aðeins togdráttur um orð. Það segir sig sjálft, að „uppsögn“ verður að fara á undan endurskoðun“. Í blaðinu kemur fram svo lítill skilningur á málinu, að það heldur, að fyrst verði að segja samningnum upp og endurskoða hann svo á eftir. Það veit því ekki minstu vitund, hvað hjer er um að ræða. Þar sem það er vitanlegt, að stjórnarblaðið er innblásið af hæstv. dómsmrh., er vitanlega miklu hættulegra, að það skuli vera orðið svona ruglað í málinu. Annars virðist auðvitað alt benda í þá átt, að hæstv. ráðh. viti hvorki til nje frá í þessu máli, þar sem hann gat farið að tala um tóbakseinokun, síldareinokun og einkasölu á tilbúnum áburði í sambandi við það og kallaði þessi mál sjerstakleg sjálfstæðismál. Hvað þessi einokunarmál hæstv. ráðh. snertir, þá er jeg fyllilega þeirrar skoðunar, að grasið myndi gróa alveg eins þó að áburðurinn væri seldur í frjálsri samkepni. Um síldareinkasöluna ætla jeg ekki að fara að tala nú. Jeg gerði það allítarlega í fyrra og benti þá á, að með því fyrirkomulagi, sem á henni væri, næði hún alls ekki þeim tilgangi, sem henni væri ætlað að ná, nefnilega þeim tilgangi að takmarka vöruna, sem á markaðinn færi, af þeirri einföldu ástæðu, að vjer ráðum ekkert við það, sem fiskað er fyrir utan línuna. Annars vísa jeg til þess, sem jeg hefi áður sagt um einokunina. Jeg sje ekki, að hæstv. dómsmrh. hafi rjettlætt í þessum umr. ummæli sín í sambandslaganefnd, síst þau, að málið væri ekki ofarlega á dagskrá hjá þjóðinni. Jeg tel slík ummæli óheppileg bæði út á við og inn á við, svo að jeg ekki taki dýpra í árinni.

Mjer virtist hinn leiðandi þráður í ræðu hæstv. dómsmrh. vera þessi: Skiftu þjer ekki af þessu máli; það kemur þjer ekki við. Jeg mun sjálfur sjá fyrir því. En eftir framkomu hans hingað til þarf hann að sýna betri skil en hann hefir gert, ef jeg á að treysta honum í þessu efni.

Sannleikurinn er sá, að við framkomu hæstv. dómsmrh. í þessu máli finst, mjer hin ríka tilhneiging hans til að stinga þessu máli svefnþorn hættulegust. Stj. lofar í fyrra að vinna að uppsögn samningsins, en á fundum úti um landið á eftir forðast hæstv. stj. að minnast á málið. Þetta er ákaflega óheppilegt og hættulegt. Þetta er mál, sem allur landslýður verður að fylgjast með og á heimtingu á að verða fræddur um, og því er það skylda hæstv. stj. að útbreiða þekkingu á því og undirbúa menn til rjettrar afstöðu áður en til úrslita kemur. Það væri fullkomin þörf á að stofna fjelög í þessu skyni í hverjum hreppi á landinu.

Jeg hefi neyðst hjer til að fara inn á ýms atriði vegna ræðu hæstv. dómsmrh. En sjerstaklega beindi jeg þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvernig á því stæði, að haft væri eftir honum í erlendum blöðum, að gert væri aðeins ráð fyrir endurskoðun sambandslaganna. Sama kemur fram í „Tímanum“ 1. des. og víðar.

Hæstv. forsrh. sagði, að um þetta mál ætti ekki að ræða á eldhúsdegi. Jeg get ekki sjeð, að sá dagur eða dagar sjeu það vanhelgari en aðrir dagar, að ekki megi ræða þetta mál. Hæstv. stj. hefir sjálf í þessum umr. talað um ýms mál, sem hafa þýðingu út á við. Og árangurinn af þessum umr. hefir orðið sá, er mjer þykir mestu máli skifta, að hæstv. forsrh. hefir lýst yfir því, að hann haldi fast við yfirlýsingu flokks síns í fyrra. Þessi yfirlýsing hæstv. forsrh. var mjer mikið gleðiefni. Jeg skil hana svo, að hæstv. forsrh. vilji vinna að uppsögn sambandslaganna 1943. Er ekki svo? (Forsrh.: Jú). Það gleður mig, að hin erlendu blöð skuli hafa farið rangt með í þessu efni. En þá kemur önnur spurning: Hvers vegna flytja dönsk blöð slíkar frjettir? Það hlýtur að stafa af því, að blöðin vilji fela fyrir heiminum, hvaða skoðanir eru hjer uppi um þetta mál. Þetta er þá aðalkjarni þess, sem komið hefir fram í umr. þeim, er spunnist hafa út af þessu máli. Ummæli hinna dönsku blaða eru röng og hæstv. forsrh. vill standa við yfirlýsingu sína í fyrra um að segja sambandslögunum upp 1943.

Jeg vil enda þessi orð mín á því að ítreka það, að nauðsynlegt er, að þjóðin verði frædd sem mest og best um málið, og jeg vil mælast til þess, að sjálft stjórnarblaðið flytji eigi eftirleiðis svo rammskakkar fregnir um málið eins og 1. des. og nú síðast. En yfirlýsing hæstv. forsrh. sýnir, að Tíminn er í algerðri andstöðu við stj. um þetta mál.