15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Sigurðsson:

Þótt jeg standi upp, er það ekki ætlun mín að taka þátt í almennum eldhúsdagsumr., enda eru, þær nú orðnar svo langar, að varla er á þær bætandi. En það er skýrsla næstv. atvmrn. um afskifti stj. af frystihúsmálum Skagfirðinga, sem knýr mig til þess að taka til máls.

Hv. 1. þm. Skagf. mun hafa gert að umræðuefni framkomu stj. í þessum einum og lagt henni mjög til ámælis. Jeg var þá veikur, er það gerðist. — Til þess að hnekkja þessum ummælum hv. þm. (MG) las hæstv. forsrh. upp brjef og símskeyti, og mun það alt hafa verið rjett, það sem það náði, en af því ýmsu var slept, varpaði þetta röngu ljósi yfir þetta mál. Til þess að mönnum skiljist, hve ósæmilega hefir verið að farið í þessu máli, vil jeg rekja gang þess nokkuð ger, því að hann er að mörgu leyti merkilegur og lærdómsríkur.

Haustið 1926 mun sr. Sigfús Jónsson, formaður Kaupfjelags Skagfirðinga, hafa hreyft því við S. Í. S., að Skagf. ljeki hugur á að koma sjer upp frystihúsi. Jafnframt mun því hafa verið hreyft af stjórn Sláturfjelags Skagfirðinga, hvort ekki mundi tiltækilegt, að fjelögin rjeðust í frystihúsbyggingu fyrir Skagfirðinga. Stjórnir beggja þessara fjelaga höfðu þá með sjer fund og var kosin 5 manna nefnd til þess að undirbúa frystihúsmál Skagfirðinga.

Þessi nefnd bar svo fram sínar till. og var á einu máli um það, að þessi tvö fjelög mynduðu með sjer fjelagsskap, Frystihúsfjelag Skagfirðinga. Þessar till. eru svo lagðar fyrir fulltrúafund beggja fjelaga og samþ. af hvorum fyrir sig, og síðan fyrir sameiginlegan fund, sem bæði fjelögin hjeldu í fyrri hluta des. 1927.

Daginn eftir var haldinn aukafundur í sýslunefnd Skagafjarðarsýslu. Var oddvita þar heimilað að taka 60 þús. kr. viðlagasjóðslán handa Sláturfjelaginu og Kaupfjelaginu, og ennfremur heimilað að taka 20 þús. kr. lán handa kaupmönnum þar á staðnum, ef þeir rjeðust í byggingu frystihúss, en það hafði komið í ljós, að þeir gátu ekki orðið með fjelögunum.

Þetta frystihúsbyggingarmál virtist hafa fengið allan þann undirbúning heima í hjeraði, sem hægt var, bæði til þess að lánin fengjust og sömuleiðis báðum fjelögunum trygð umráð frystihússins.

Svo er það 5. jan. 1928, þá ritar sýslumaður Skagafjarðarsýslu brjef, þar sem hann sækir um viðlagasjóðslán og sendir útdrátt úr aukafundargerð sýslunefndar. Þetta brjef hverfur, og hefir ekki hafst upp á því í stjórnarráðinu; en þetta vitnaðist ekki fyr en í marsmánuði, og þá sendir sýslumaður ennþá afrit af samþykt sýslunefndar. En þá vill svo slysalega til, að það er skrifað utan á brjefið til fjármálaráðherra, í staðinn fyrir til atvinnumálaráðherra, og mun jeg víkja að því síðar, hvaða afleiðingar þetta hefir haft. Auk þess mun bæði sýslumaður Skagafjarðarsýslu og síra Sigfús Jónsson hafa átt tal við ráðherrana um málið; sýslumaður mun hafa átt tal við fjmrh., en síra Sigfús Jónsson tjáði mjer, að hann hefði talað um þetta erindi við atvmrh. Svo er ekki að orðlengja þetta; þetta líður og bíður, þar til komið er fram í apríl, og ekkert svar kemur frá stjórnarráðinu. Þegar svo Sigfús Jónsson sjer, að ekkert gengur, þá mun hann hafa slegið upp á því, hvort kaupfjelag Skagfirðinga geti þá ekki fengið lánið sjerstaklega. Hann sendi, 13. apríl, skeyti til atvmrh., þar sem hann spyrst fyrir um það, hvort kaupfjelagið geti fengið lánið. Jú, það er ekkert til fyrirstöðu með það, stjórnin tilkynnir kaupfjelaginu svo að segja um hæl, að það geti fengið lánið. Þar með er vitanlega Sláturfjelaginu bægt frá. En svo voru ýmsir hinna gætnari manna í Kaupfjelaginu, sem þótti það nokkur áhætta, að það væri eitt um lántökuna, og þess vegna skrifaði Sigfús Jónsson stjórn Sláturfjelags Skagfirðinga og óskaði samvinnu um frystihúsbygginguna. Erindi Sigfúsar Jónssonar var lagt fyrir aðalfund Sláturfjelags Skagfirðinga 30. apríl, sem kýs nefnd í málið, og sú nefnd leggur einróma til, að Sláturfjelagið verði með Kaupfjelaginu um frystihúsið, með því skilyrði, að Sláturfjelagið eigi sem svarar 1/3 af /húsinu, fengi 1/3 af viðlagasjóðsláninu og ennfremur leggi til einn mann af þremur í stjórn frystihússins. Þessu tjáði Sigfús Jónsson sig fúsan að ganga að fyrir Kaupfjelagsins hönd. Fyrir varúðar sakir símar þó Sigfús Jónsson til stjórnarinnar seinni fundardaginn, 1. maí, og spyr, hvort nokkuð sje í veginum fyrir því, að Sláturfjelag Skagfirðinga verði meðeigandi í frystihúsinu. Atvmrh. er ekki heima, en dómsmrh. svarar á þessa leið: Kaupfjelagið fær ekki frystihúslánið, ef Sláturfjelagið verður meðeigandi. — Þegar þessi tilkynning kom, þá þótti fullsýnt, að ríkisstj. ætlaði sjer að gera það, sem í hennar valdi stæði, til þess að þessi tvö bændafjelög gætu ekki komið upp frystihúsi í sameiningu, sem hefði orðið hjeraðinu stórkostlegur hagnaður. öllum samningum var þess vegna slitið, enda er svo komið, að annað húsið er svo að segja fullgert, en hitt komið vel á veg.

Þegar litið er yfir sögu þessa máls, hlýtur öllum að vera það ljóst, að bændum hefir yfirleitt verið hugleikið, að samvinna tækist milli fjelaganna, bæði um byggingu, eign og umráð frystihússins. En því verður ekki heldur neitað, að það er eins og bæði sýnileg og ósýnileg öfl sjeu að verki til að hindra þetta fyrirtæki. Fyrst byrjar með því, að lánbeiðnin hverfur og hefir ekki til hennar spurst, hvernig sem leitað er. Svo er það, að næsta lánbeiðni fer til fjmrn., og lítur helst út fyrir að þar hafi enginn verið, sem hafi haft framtak til að beina erindinu til rjetts viðtakanda, atvmrh. Annars verð jeg að segja það, að það fer að verða nokkuð örðugt fyrir almúgamenn að fá málefni sín afgr. í stjórnarráðinu, ef slíkur sljóleiki verður ráðandi sem þarna sýnist vera, því að það er svo um flesta alþýðumenn, að þeim er ekki kunnugt um verkaskiftingu í ráðuneytunum. Það er líka svo, að hvorki atvmrh. nje fjmrh virðast rumska við það, þótt við þá sje talað í síma og þeir spurðir um málið. En strax og Kaupfjelagið eitt út af fyrir sig biður um lán, þá vaknar hæstv. stj. og þá er lánsloforð á reiðum höndum.

En þetta, að lánbeiðnin skyldi send fjmrh., voru einu rökin, sem jeg heyrði hæstv. atvmrh. færa fyrir því, að hann hefði ekki tekið til greina beiðni sýslufjelagsins um lán, og mjer er satt að segja spurn: Heldur hæstv. atvmrh., að nokkur maður trúi því, sem kynnir sjer gang þessa máls, að þetta sje ástæðan? Nei, jeg trúi því ekki. Ástæðurnar eru virkilega alt aðrar, og jeg hefi sterka ástæðu til að ætla, að ástæðurnar væru þær, að sláturfjelagsmennirnir eru yfirleitt viðurkendir andstæðingar hæstv. stj., og mun vera litið svo á, að slíkum fjelagsskap þurfi að koma fyrir. Þó verð jeg að játa það, að hæstv. dómsmrh. gengur töluvert ákveðnara að verki í þessu efni, því að það liggur við að segja, að það sjeu hrein og bein þrælatök, sem þar eru notuð. Hann segir: Nei, þið fáið ekki lánið, ef Sláturfjelagið er með. Jeg get hugsað mjer, að hæstv. ráðh. álíti, að hann með þessu gangi á milli bols og höfuðs á Sláturfjelaginu, því að frystihúslaust geti fjelagið ekki verið, og þá geti Kaupfjelagið haft líf þess í hendi sjer. Ákafi stj. í þessu máli virðist vera svo mikill, að það er ekkert tillit tekið til þess, að Sláturfjelagið hefir um langt skeið verið meðlimur í S. Í. S., ennfremur að Sláturfjelagið er hreint sölufjelag, sem hefir haft það verkefni í milli 20–30 ár að selja afurðir bænda, og hefir borgað árlega svo skiftir hundruðum þúsunda í beinhörðum peningum til viðskiftamannanna, og loks má benda á það, að það er heldur ekki tekið tillit til þess, að bændafjelögin óska yfirleitt eftir samvinnu í þessu efni, vegna þess að það er hjeraðsbúum miklu hagkvæmara. En með þessari tvískiftingu baka fjelögin sjer stórkostleg útgjöld, og loks má minna á það, að þegar Sláturfjelagið er ekki lengur með, þá verður afleiðingin sú, að það er lakari trygging, sem í boði er fyrir láninu; það liggur í hlutarins eðli.

Hæstv. forsrh. hefir raunar látið þess getið, að hæstv. dómsmrh. væri ekki rjettur aðili í þessu máli, sagði, að það hefði ekki heyrt undir hann; það hefði frekar átt að snúa sjer í fjarveru sinni til fjmrh. En jeg verð að segja það því viðvíkjandi, að þá hefði hæstv. dómsmrh. átt að láta þess getið í viðtali við síra Sigfús Jónsson. Annars er þess varla að vænta, að óhrekkvísir menn vari sig á því, að maður í stj. landsins gefi yfirlýsingar fyrir stj. hönd í máli, sem ekki heyrir undir hann. Mjer er raunar sagt, að hæstv. dómsmrh. hafi verið að reyna að hlaupa frá því, að hann hafi gefið slíka yfirlýsingu. Jeg get ekki neitað því, að mjer væri forvitni á að heyra hans eigin yfirlýsingu í þá átt, að hann hafi ekki haft áðurgreind ummæli við síra Sigfús Jónsson á Sauðárkróki þann 1. maí. Það er að minsta kosti svo, að það munu vera nóg vitni að skýrslu síra Sigfúsar Jónssonar, og þá hlýtur annarhvor þeirra að hafa sagt ekki rjett frá; jeg hygg að minsta kosti, að það verði örðugt að fá Skagfirðinga til að trúa því, að síra Sigfús Jónsson sje sá seki. Annars get jeg sagt hæstv. stj. það, að þessi tilraun hennar til að drepa Sláturfjelag Skagfirðinga hefir haft alveg gagnstæð áhrif; það hefir orðið til þess að þjappa bændum fastar saman. Fulltrúaráðið samþykti í haust, að fjelagið rjeðist í að byggja frystihús, en lokaþátturinn í viðskiftum Sláturfjelagsins og ríkisstj. er ennþá ótalinn. Stj. Sláturfjelagsins taldi rjett að gefa hæstv. atvmrh. tækifæri til þess að bæta fyrir nokkuð af því ranglæti, sem fjelagið hafði orðið að þola, og fól þess vegna ennþá okkur þm. Skagf. að sækja um 30 þús. kr. lán, gegn ábyrgð sýslunefndar Skagafjarðarsýslu. Svar hæstv. atvmrh. var neitandi; lánið fæst ekki. Ástæðan, sem tilfærð er fyrir þessari neitun, hún er sú, að S. Í. S., sem beiðnin var send til umsagnar, neitar að segja nokkuð um málið, af því að undirbúningurinn hafi ekki farið fram í samráði við það — S. í. S. Allir geta nú sjeð af þessu, að það er engin ástæða til að neita um lánið, þótt Sambandið leiði hjá sjer að dæma um málið. Jeg vil líka spyrja: Hvernig fer hæstv. stj. að því að ráða fram úr lánveitingum handa fjelögum, sem ekki eru í Sambandinu? Ekki fara þau að leita til S. Í. S. um undirbúning eða fyrirsagnir um það, hvernig þau eigi að búa sig undir sín fyrirtæki. En þrátt fyrir það, þó að þetta svar segi ekki nokkurn skapaðan hlut annað en það, að Sambandið vill ekki skifta sjer af málinu, þá notar þó hæstv. atvmrh. þetta sem ástæðu til þess að synja fjelaginu um lánið. Annars verð jeg algerlega að mótmæla því, að Sambandið sje nokkur yfirstjórn í þessum málum. Í skilyrðunum fyrir lánveitingum til frystihúsa er Sambandið ekki nefnt á nafn, og það getur þess vegna ekki haft neina úrslitaþýðingu hvað þetta snertir. Það er líka hægt að hugsa sjer það, að Sambandið notaði sjer þessa aðstöðu til að útiloka keppinauta, en það er með öllu óþolandi, þegar um það er að ræða að veita fje af hinu opinbera.

Jeg vil nú ekki gera ráð fyrir, að Sambandið sje þátttakandi í þeirri ofsókn gegn Sláturfjelagi Skagfirðinga, sem jeg hefi hjer gert að umtalsefni. Sú skýrsla, sem jeg hefi hjer með gefið um málið, veit jeg ekki betur en að sje rjett í alla staði. Framkoma hæstv. stj. í þessu máli er alveg óþolandi; það er, svo að segja, stungið undir stól sameiginlegu erindi frá þessum tveimur fjelögum, sem er í þágu þeirra beggja. Erindinu er ekki sint. En þegar kemur fram erindi frá öðru fjelaginu, þá er því lofað láni, og svo þegar þessi tvö fjelög eru komin á góðan rekspöl með að bræða sig saman og stjórnir beggja fjelaganna eru komnar niður á ákveðinn samkomulagsgrundvöll, kemur hæstv. stj. og segir: Nei, þið getið ekki fengið að vera saman. — Ef þetta eru ekki ósvífin, ranglát og óþolandi afskifti af málum hjeraðsbúa, þá veit jeg ekki, hvað á að nefna það. Því er ekki að neita, að það hafa heyrst talsvert háværar raddir bæði innan þings og utan um ofsóknir hæstv. stj. gagnvart pólitískum andstæðingum, — en hjer er stj., sem telur sjer það til gildis að vera bændastj., en hefir þó reynt að kúga fjölmennan hóp bænda, og meira að segja samvinnufjelag, og neitar því um stuðning frá hinu opinbera, — það er ómögulegt annað en að telja slíkt mjög vítaverða framkomu.