15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

16. mál, fjárlög 1930

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal byrja á því að svara hæstv. forsrh. að því leyti, sem ræða hans snertir mig. Hv. samþm. minn mun vera maður til að svara þeim hnútum, er til hans var beint.

Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. geti flækt málið fyrir mönnum hjer, þar sem menn eru því ókunnir. En Skagfirðingar munu ekki gleyma svörum stj. Þeir muna það, að kaupfjelagsstjórinn var látinn tala við stj. í síma, og þeir muna svarið, sem hann kom með. Norður þar leikur enginn efi á, hverju var svarað. Skagfirðingar munu trúa því, að síra Sigfús hafi sagt satt frá samtali sínu. Jeg hefði gaman af að sjá hæstv. ráðh. sannfæra Skagfirðinga um, að síra Sigfús hafi farið með ósannindi á fundinum. — Það skiftir ekki máli, þó umsókn hafi komið fyrst frá Kaupfjelaginu. Það, sem máli skiftir, er það, hvernig málið lá fyrir þegar það átti að afgerast, 1. maí. Jeg ætla ekki að fara að karpa um þetta hjer, en nyrðra mun jeg ekki gleyma því, að hvorugur hæstv. ráðh. vill kannast við sitt svar.

Það er hlægilegt að halda því fram, að það hafi eitthvað að þýða, hvort heldur brjefið kom í atvmrn. eða fjmrn. Það er ekki eins og það hafi farið í skakka heimsálfu, þó það hafi borist til fjmrn. Það var þó aldrei nema niður einn stiga að fara til að komast á rjettan stað. Jeg hefi starfað í 14 ár í stjórnarráðinu. Þá var það síður, að strax og brjefin voru opnuð og það kom í ljós, að utanáskriftin var ekki rjett, þá var þeim strax komið til rjetts viðtakanda. Það er spánnýr siður, ef þeim er nú ekki komið til skila.

Hæstv. ráðh. var að guma af, að hann hefði verið að reyna að tryggja samvinnu bænda í Skagafirði. Það er nú helst. Hann hefir ekkert gert til þess. Hann hefði þá átt að bæta fyrir brot embættisbróður síns, hæstv. dómsmrh., er hann fjekk upplýsingar um svör hans, og veita lánið. En af því hefir ekki orðið. S. Í. S. á ekki að vera neinn yfirráðherra, og hæstv. ráðh. verður að taka afstöðu til málsins, þó S. í. S. neiti að svara. Hann getur ekki látið svo, sem hann geti ekkert afgert í málinu af því að Sambandið neitar að taka afstöðu til þess. Jeg sje ekki ástæðu til að eyða frekari orðum að þessu máli. Það liggur áreiðanlega ljóst fyrir mönnum norður þar.

Um yfirreiðir hv. samþm. míns skal jeg ekki tala; þar mun hann svara fyrir sig sjálfur. En mjer hefir samt skilist, að hann hafi fulla heimild til að ríða sínum eigin hestum um sitt eigið hjerað. (Forsrh.: Sú heimild hefir ekki verið vjefengd). En hún hefir verið gerð að umtalsefni, og veit jeg ekki í hvaða skyni.

Um svar hæstv. forsrh. við fyrri ræðu minni get jeg verið stuttorður. Hefi jeg litlu að svara. Þegar hann talaði um póstgöngurnar, þá vildi hann láta till. einungis standa á ábyrgð nefndarinnar, er hann þyrfti ekki að svara fyrir. En þegar hann svaraði hv. þm. Ísaf., þá mintist hann á þessar till. sem framtíðarlausn þessa máls. — Hann staðfesti það, er jeg hafði sagt um byggingar- og landnámssjóð. Hann er ekki tekinn til starfa ennþá og hefir ekki fengið nema 50 þús. kr. Hinsvegar veit jeg, að 100 umsóknir um lán úr sjóðnum liggja fyrir.

Þá verð jeg að svara hv. 2. þm. Reykv., þó hann sje ekki viðstaddur. Jeg hætti við það í fyrri ræðu minni, af því hann var þá heldur ekki við, en nú get jeg ekki dregið svarið lengur, því að eftir þessa ræðu er jeg dauður. Hann var í illu skapi þessa nótt, og má segja, að hann atyrti alt og alla, jafnvel sína eigin flokksbræður. Hann byrjaði með því að vaða upp á hæstv. forseta á mjög óviðurkvæmilegan hátt. Út af því vil jeg taka það fram fyrir mitt leyti, og býst jeg þar við að tala fyrir munn allra stjórnarandstæðinga, að! hæstv. forseti hefir reynst mjög rjettsýnn og óhlutdrægur. Hann er kunnur að beita valdi sínu með kurteisi. — Hv. þm. hjelt því fram, að vegna kröfu hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Skagf. um aukin framlög til samgöngubóta á landi, hafi orðið að hækka skattana. Með því viðurkennir hann, að það hafi hafst fram fyrir forgöngu íhaldsmanna. Afstaða okkar í fyrra til stj. var sú, að við vildum fá henni næga skatta, til þess að ríkisbúskapurinn gæti orðið hallalaus. En til þess þurfti ekki jafnmiklar álögur og lagðar voru á þjóðina í fyrra. Það hefir reynslan þegar sýnt. Hv. þm. var að tala um, að stj. hefði svikið það samkomulag, er orðið hefði með henni og jafnaðarmönnum í fyrra um skattamálin. Það verður að vera þeirra eigin fjölskyldumál, en jeg tók eftir því, að hæstv. forsrh. svaraði þessu ekki. Jeg veit ekki, hvort það er rjett, að það hafi verið samningsrof hjá hæstv. stj. að innheimta ekki skattaukann, en bar sem hv. þm. er ekki reiðari en hann er út úr þessu, þá gæti jeg best trúað, að hann hefði sjálfur svikið sína eigin skattastefnu.

En úr því hv. þm. óð svo upp á sína eigin stj. og eigin flokksmenn, þá var ekki að furða, að hann fyndi sig knúðan til að ráðast á okkur íhaldsmenn. Jeg skal ekki fara eins langt út í það og jeg hefði gert, ef hann hefði verið viðstaddur. Hann fór m. a. mjög hörðum orðum um fyrv. skattstjóra. Var það mjög óviðeigandi, þar sem hann getur á engan hátt borið hönd fyrir höfuð sjer. Annars er óþarfi að fara út í það. Það er öllum kunnugt, að hann er svo merkur maður, að hv. þm. sjálfur kemst þar ekki með tærnar, er hann hefir hælana.

Hv. þm. mintist á Shell-fjelagið. Það má kalla okkur, mig og hv. þm., olíukóngana hjer í deildinni. En jeg verð þó að játa, að hans konungsríki er ólíkt stærra en mitt. Hann er umboðsmaður fyrir fjelag með undir 70 milj. kr. höfuðstól, en mitt fjelag hefir einungis 1/2 milj. kr. höfuðstól. Það væri því ef til vill rjettara að nefna hann olíukeisara, olíupáfa eða olíusoldán. Jeg hjó eftir því, að hv. þm. sagðist altaf hafa vitað, að það væri ekki til neins fyrir hæstv. dómsmrh. að fara með lögsókn á hendur fjelaginu. Hann bygði það á því, að jeg hefði undirbúið stofnun fjelagsins og væri svo góður lögfræðingur, að þar hlyti alt að vera rjett gert. (Dómsmrh.: Þetta hlýtur að vera misskilningur hjá hv. þm.). Þetta er ekki misskilningur. En hitt verð jeg að segja, áð jeg á ekki heiðurinn af því að hafa undirbúið fjelagsstofnunina. Það hefir verið sagt, að hv. þm. hafi einmitt staðið á bak við árásina á Shell-fjelagið. Þar er þá einungis um samkepni að ræða, því hann mun gjarnan vilja vera einn um hituna.

Hv. þm. vildi leiða það út úr 31. gr. h/f-laganna, að erlendir menn hefðu töglin og hagldirnar í Shell-fjelaginu. Jeg er ekki viss um, að skilningur hans á lögunum sje rjettur, en hitt er jeg viss um, að Íslendingarnir hafa altaf nægileg vopn í höndum til að ráða fjelaginu. Þeir geta neitað að taka sæti í stj. fjelagsins. Afleiðingin af því verður sú, að fjelagið verður að leysa upp, því ísl. menn verða að vera í stj. þess samkv. lögum. Nei, þetta er bara blekking; hún kemur að engu haldi, en sýnir þó innræti þessa hv. þm. Honum finst ekki nóg að ráða yfir fjelagi, sem er 140 sinnum stærra en Shell, en græðgi hans er svo takmarkalaus, að hann vill gleypa alt með húð og hári.

Þá var hv. þm. að tala um, að jeg hefði hafnað, þegar jeg var ráðh., boði frá B. P. um að byggja olíugeyma. Hann mun þar eiga við það, að jeg vildi ekki leggja út í að byggja olíugeyma fyrir ríkisreikning. Það var heldur engin fjárveiting í þessu skyni í fjárlögum, enda ekki fje fyrir hendi. Það var að vísu hægt að fá lán, en skuldirnar sýndust þá nægar fyrir.

Þá var hv. þm. að tala um það, að tekjuskattslögunum hefði verið breytt með reglugerð. En jeg vil bara segja það, að ekki er unt að breyta lögum með reglugerð. Fari reglugerð í bága við lögin, verður hún að víkja fyrir lögunum. Þá var og hv. þm. að tala um skattinnheimtuna hjer í Reykjavík og hve regla sú, er útsvörunum er skift niður eftir, væri slæm. Þetta kemur okkur hjer ekkert við. Það eina, sem jeg hefi talað um viðvíkjandi þessu, og sem jeg stend við, er það, að jeg álít, að strax eigi að prenta á eyðublöðin allar þær spurningar, sem svara ber, í stað þess að þurfa að vera að krefja fólk svars síðar.

Þá þarf jeg að víkja nokkrum orðum að hæstv. dómsmrh. Síðast er hann svaraði mjer, hafði fundur staðið svo lengi, að hann var fremur stuttorður, svo jeg get einnig verið það. Meðal annars var hann að tala um það, að mig vantaði þann hærri skilning á friðun Þingvalla. Jeg verð að játa það, að mig vantar það að geta skilið, hvers vegna þarf endilega að banna sauðfjárrækt í því hjeraði, sem er allra hjeraða best til slíkrar ræktunar fallið. Og mjer þykir leitt, að hæstv. ráðh. skuli ekki vera svo góður kennari, að hafa getað kent mjer að skilja þetta, hvorki þegar það var til umr. í fyrra hjer í þinginu nje í starfi okkar í Þingvallanefnd.

Hæstv. ráðh. hefir, eins og jeg hefi áður tekið fram, neitað því, að við sig hafi verið talað frá Sauðárkróki um frystihúsmálið, og hann hefir ennfremur neitað því, að sjera Sigfús hafi talað við sig og spurt um það, hvort Sláturfjelag Skagfirðinga gæti verið með í frystihúsbyggingunni sem eigandi. Einnig hefir hæstv. ráðh. neitað því, að hann hafi synjað þessa. Mjer fanst nú samt þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. nokkuð dræm, rjett eins og hann væri ekki alveg öruggur. Hann sagði, að ekkert skriflegt væri til um þetta og ekki heldur neitt símskeyti. En hæstv. ráðh. verður að gæta að því, að aðalatriði þessa máls er það, hvort hann hafi í raun og veru neitað, og í sambandi við þetta skiftir því miklu máli, hvort símtal hefir átt sjer stað.

Um Hnífsdalsmálið skal jeg ekki ræða mikið. Vil aðeins endurtaka það, er jeg sagði í minni fyrri ræðu, og það er ekki sanngjarnt að heimta, að fyrv. stj. lyki við málið á 2–3 mán., þegar núv. stj. hefir þurft til þess 17 mán. Hæstv. ráðh. sagði ennfremur, að jeg hefði gert mig að verjanda í málinu. Þetta er ekki rjett. Það var öðru nær. Það var sjálfur rannsóknardómarinn, er skipaði mig verjanda. Hæstv. ráðh. getur því ekki áfelt mig fyrir það, að jeg varð við því.

Þá sagði hæstv. ráðh., að jeg hefði verið að afsaka Einar Jónasson fyrv. sýslumann Barðstrendinga. Þetta er ekki rjett. Það eina, sem jeg sagði, var það, að stj. gengi merkilega illa að fá dóm fyrir því, er þessi maður skuldaði ríkissjóði. Hæstv. ráðh. sagði svo, að þetta væri fyrv. bæjarfógeta, Jóhannesi Jóhannessyni, að kenna. En hvernig stendur þá á því, að stj. áfrýjaði ekki, því það var Einar sjálfur, sem áfrýjaði? Og fyrst stj. áfrýjaði ekki sjálf, þá getur hún ekkert frekar unnið í þessu máli. En nýtt mál getur hún höfðað.

Um Brunabótafjelagssjóðþurðina sagði hæstv. ráðh. sitthvað. En hann nefndi þó ekki aðalatriðið, sem er sá samningur, er gerður hafði verið milli hæstv. forsrh. og umboðsmanns hins seka manns, en sem hæstv. dómsmrh. gerði svo að engu.

Hvað Seyðisfjarðarútibúið snertir, sagðist hæstv. dómsmrh. að vísu hafa heyrt talað um, að þar myndi vera einhver sjóðþurð, en hann hefði aldrei fengið neina kæru því viðvíkjandi. Það er undarlegt, að hann skuli leyfa sjer að halda slíku fram, eftir að skýrsla um þessa sjóðþurð hefir legið fyrir þinginu í landsreikningunum í 2 undanfarin ár. Hinsvegar vita allir, að hæstv. ráðh. fylgir ekki þeirri reglu að taka ekki fyrir nema þau mál, sem eru sjerstaklega kærð fyrir honum. Tilgangur minn var að sýna fram á það, að hæstv. ráðh. ljeti lögin ekki ganga jafnt yfir alla, og það er nú staðfest með skýrslu ráðh. sjálfs.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hæstirjettur hefði litið svo á í Shell-málinu, að sannanir þess, að fjelagið væri útlent, hefðu ekki verið nógu sterkar, og því hefði það verið sýknað. Hjer snýr hæstv. ráðh. alveg við sannleikanum, því það er ávalt venja að taka svo til orða í dómum sem þessum eins og hæstirjettur gerir í þessum dómi. Nei, það hefir verið fullkomlega sannað, að fjelagið er fyllilega löglegt. Hæstv. ráðh. sagði, að af þessum málsúrslitum væri það ljóst, að breyta þyrfti hlutafjelagalögunum, svo að þau næðu tilgangi sínum. Það var leitt, að hæstv. ráðh. skyldi ekki sjá þetta fyr. Og hvers vegna ber hann þá ekki fram frv. um að breyta þeim? Að lokum var hæstv. ráðh. kominn í slík vandræði í röksemdaleiðslu sinni, að hann gat ekki svarað neinu, en sagði, að það mundi rjettast að skjóta málinu fyrir guðsdóm. Jeg get vel skilið það, að hæstv. ráðh. vilji fresta þessu sem lengst og að hann vildi gjarnan losna við að fást við mig í þessu máli. (Dómsmrh.: Heldur hv. þm. máske, að hann komist aldrei til himnaríkis?). Það er nú sagt, að það sjeu margar vistarverur hinumegin, en eftir nýjustu kenningu býst jeg samt við því, að við hittumst þar. En bæði er það, að jeg get búist við, að hann hafi mörgu að sinna, er þangað kemur, og svo er jeg ófús til þess að veita honum áfrýjunarfrest þangað til við erum dauðir. Jeg efast um, að hæstv. ráðh. hafi þá mikið til að borga með eða eigi innstæður hinumegin. Gæti jeg best trúað, að hann yrði gjaldþrota þar og að ekkert verði af honum að hafa til að greiða fyrir það, er hann hefir hjer ilt gert. En geti hann sett tryggingu fyrir því, má vera, að jeg veiti honum gjaldfrest.

Hæstv. ráðh. sagði, að jeg hefði gefið B. P. leyfi til þess að starfa hjer. Þetta er rjett, og jeg get ekki talið það neina goðgá, enda hugsa jeg, að hæstv. ráðh. sje alveg á sama máli. Jeg hefi heyrt, að hann sje mjög mikill vinur aðalforstjóra B. P. og hafi jafnvel gist hjá honum í 1/2 mánuð í einni utanferð sinni, Hann sagði, að B. P. gæti ekki stækkað nema það fengi til þess sjerstakt leyfi. En jeg er ekki viss um, að það verði svo erfitt að fá þau hjá hæstv. stj. Því bæði er nú þessi vinskapur milli forstjórans og hæstv. dómsmrh., og auk þess er aðalmaður fjelagsins hjer, hv. 2. þm. Reykv., ekki neitt sjerstaklega illa sjeður hjá stj. Mjer er sem jeg sjái hæstv. ráðh. neita honum um frekari leyfi, er hann kemur með makt og miklu veldi, hafandi líf stj. í hendi sjer.

Viðvíkjandi því, er hæstv. ráðh. sagði um vitnisburð Lárusar Jóhannessonar í Tervani-málinu, skal jeg geta þess, að hann hefir engan vitnisburð gefið í því máli, en hann hefir varið svipað mál. En eins og hæstv. ráðh. veit, gerir málafærslumaðurinn ekki annað í slíkum tilfellum en að telja alt það upp, er getur verið skjólstæðingi hans til málsbóta. En hæstv. ráðh. má ekki gleyma því, að meðan málið var fyrir hæstarjetti, fór fram ný rannsókn í því, og hefði hann því viljað vera óhlutdrægur í þessu máli, var það skylda hans að geta þess, er þá kom í ljós.

Þá talaði hæstv. ráðh. mikið um þessa hómópataaðferð sína. Hómópatar munu vera sömu mennirnir, sem stundum eru kallaðir skottulæknar, en það þýðir lítt lærður læknir. Það verður því að skilja orð hæstv. ráðh. svo, að hann telji sig fara að í þessu máli eins og lítt lærður læknir, og get jeg með ánægju tekið undir það. Hvað snertir það, að hæstirjettur dæmdi Júpiter í sekt, en ekki fangelsi, þá stafar það af því, að hann skilur bókstaf laganna svo, að honum sje það heimilt. En hæstv. ráðh. virðist skilja lögin öðruvísi. En hann verður að gæta að því, að það er dómstólanna að skýra lögin, en ekki dómsmrh. Þess vegna hefir hæstv. ráðh. enga heimild til þess að segja, að þetta sje röng lögskýring hjá hæstarjetti. Hann getur vitanlega haft sína skoðun á þessu, en það hefir enga þýðingu.

Það, sem hæstv. ráðh. sagði út af veislum í sambandi við byggingu Óðins, mun hafa átt að vera endurgjald gagnvart því, er hv. þm. Borgf. sagði í ræðu sinni. (Dómsmrh.: Jeg hefði ekki minst á það nema að gefnu tilefni). Jeg held því fast fram, og veit það reyndar alveg, að það sje sami maðurinn, sem á að sjá um byggingu hins nýja strandvarnaskips, og sá, er sá um byggingu Óðins. Er það maður, sem heitir Brorsen. Hefði því hæstv. ráðh. verið sæmra að hafa hægt um sig í því máli.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri rangt að bera saman skuldir landsverslunarinnar og skuldir áfengisverslunarinnar. En jeg var ekkert að bera þær saman, heldur sagði jeg aðeins, að það mætti bera það saman, hvorar virtust meiri. Og jeg get sagt ráðh. það, að þegar fyrv. fjmrh. (MK) fól mjer að innheimta þessar skuldir, setti hann engin skilyrði fyrir því, að það mætti ekki sjást, hvaða skuldir þetta væru.

Jeg verð að þakka hæstv. ráðh. fyrir það, er hann sagði, að íhaldsstj. hefði verið sparsöm. (Dómsmrh.: Já, á eftirlit). Sagði hann, að þetta sæist best á því, hve lítið hefði verið gert. En jeg þarf ekki annað en að vísa til þeirra framkvæmda, er áttu sjer stað 1926, til þess að sýna, að þá var meira gert en nokkru sinni áður.

Þá á jeg ekki eftir að svara öðrum en hv. þm. Ísaf. (HG). Hann var að tala um þjóðrækni mína og virtist ekki telja hana á marga fiska. En jeg verð að segja það, að mjer finst það fara heldur illa í munni aðalnjótanda danska gullsins að bregða öðrum um óþjóðrækni. Hefi jeg heyrt, að þessi hv. þm. hafi farið víða um lönd til þess að fá meira. Jeg veit nú ekki, hvort það er rjett, en þetta virðist þó benda til þess, að hann sje ekkert á móti því að lifa af erlendu fje. Hv. þm. var eitthvað að minnast á gamla mynd í Speglinum, sem jeg man vel eftir. En jeg man líka eftir annari, og undir henni stóðu þessi orð: „Alt á að seljast“. Og undir myndinni af honum stóð minnir mig: „Fem Kroner“, og átti víst að sýna, hvað hann kostaði í dönskum peningum. Annars var þessi hugmynd, er hann dró út af þessari Spegilmynd, svo klúr, að það er ósæmilegt að nota hana. En hún minti mig á aðra sögu, nefnilega söguna um samfarir Hrúts og Unnar. Virtist mjer mega skilja hv. þm. svo, sem hann vildi líkja samförum sinum við stj. við hjónaband þeirra. En allir vita, hvernig því lauk.

Annars var hv. þm. mjög hortugur og heimtufrekur við hæstv. stj. En hæstv. forsrh. svaraði honum, að hann skyldi ekki vera með þennan rembing, því hann meinti ekkert með því. Til skýringar þessu kom hæstv. forsrh. með dæmisöguna um kúna og skjóluna. Virtist stj. vera kýrin í sögunni, en hv. þm. maðurinn með skjóluna. Þetta á því eflaust að þýða það, að hæstv. ráðh. segir við hv. þm.: Þú mátt koma með þína venjulegu skjólu, jeg skal reyna að fylla hana, en farir þú að koma með heilt uxahöfuð, get jeg ekki fylt það. Eða með öðrum orðum: Þú skalt fá mjólk eins og jeg get frekast látið þig fá, en þú mátt ekki heimta meira. Er gott að vita það, að hæstv. forsrh. skoðar sig sem mjólkurkú jafnaðarmanna og lofar að vera þeim dropsæll. Með þessu er sambandinu rjett lýst.

Þá var hv. þm. Ísaf. að skamma fyrv. skattstjóra, en jeg greip þá fram í fyrir honum og sagði, að það væri óviðeigandi að vera að ráðast á fjarverandi menn. Annars finst mjer það ekkert undarlegt, þó hann vinni sjer meira inn heldur en hv. þm., því að jeg veit, að hann vinnur meira á morgnana, áður hv. þm. kemur á fætur, en þm. vinnur allan daginn. (HG: Veit hv. þm. nokkuð um mína fótaferð?). Já, því það sýnir sig stundum, að ekki er hægt að halda fundi snemma, vegna þess að hv. þm. er þá ekki kominn á fætur. Það er því ekki nema eðlilegt, að Einar Arnórsson hafi hærri laun en hv. þm., því verður er verkamaðurinn launanna.

Einnig talaði sami hv. þm. um bein skrifstofustjóranna og vildi kenna íhaldsstj. um það. En jeg vil í þessu máli upplýsa hv. þm. um það, sem jeg þó hygg, að hann viti, að flestir þeirra hafa haft þessi störf með höndum í mörg ár, og hafa gegnt sumum þessum aukastörfum í alt að 20 ár. Svo segir hv. þm., að íhaldsstj. eigi sök á þessu. Það virtist þó heldur draga niður í honum, þegar honum var sagt, að núv. stj. hjeldi þessu áfram, en sagði þó eitthvað á þá leið, að eiginlega væri það ámælisvert.

Meðal þeirra tekna, er hann tilfærði mjer, taldi hann ferðakostnað við embættiseftirlit. Þetta er algerlega rangt: Það er ómögulegt að færa slíkt til tekna. Það er því fyllilega rjettmætt, er stjórnarblaðið Tíminn segir, að ríkisgjaldanefndin fari með falskar tölur. (HG: Það er tekið fram í skýrslunni, hvað eru laun og hvað er kostnaður). Þegar hv. þm. las þetta upp, taldi hann þennan ferðakostnað með laununum, svo það lítur helst út fyrir, að hann viti ekki, hvað hann hefir sjálfur skrifað. En til hvers er verið að skrifa þetta svona, ef það á ekki að vera til þess að villa? Jeg fæ ekki skilið, til hvers annars það ætti að vera.

Annars virtist það ekki vaka fyrir hv. þm. að standa upp til að ávíta hæstv. stj., heldur til hins, að reyna að svala sjer á Íhaldsflokknum og beina árásum gegn honum, Það var eins og hv. þm. hjeldi, að þessi flokkur sæti ennþá við stj., og hann óttaðist mjög, hversu voldugur hann er. Þessi flokkur er svo fjölmennur, að það er full von, að hv. þm. sje smeykur og reyni því að ráðast á gerðir hans í tíma og ótíma.

Jeg þykist nú hafa svarað hv. þm. Ísaf. nægilega.