15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Sigurðsson:

Af því að jeg þurfti að svara hæstv. atvmrh., hefði mjer þótt skemtilegra, að hann væri nærstaddur. En úr því svo er ekki, mun jeg ekki fara mikið út í ræðu hans.

Hæstv. atvmrh. neitaði því, að komið hefði umsókn til stj. frá Sláturfjelagi Skagfirðinga um lán til kælihúsbyggingar á Sauðárkróki. Þetta veit jeg með vissu, að hann segir gegn betri vitund, því að í skjölum, sem legið hafa í atvinnumálaráðuneytinu, hefi jeg sjeð umsókn vegna Frystifjelagsins, þ. e. Kaupfjelag og Sláturfjelag Skagfirðinga. Þess vegna fór jeg með rjett mál í fyrri ræðu minni, er jeg fullyrti, að legið hefði fyrir umsókn um lánið frá báðum þessum fjelögum, en frá hinu skýrði jeg líka, sem ekki er heldur neitt launungarmál, að hæstv. stj. sinti ekki að neinu leyti þessari umsókn fjelaganna.

Þá gerði hæstv. forsrh. og sömuleiðis embættisbróðir hans, hæstv. dómsmrh., að umtalsefni afskifti mín af samvinnu- og fjelagsmálum nyrðra.

Ræða hæstv. dómsmrh. um þetta efni var, eins og við mátti búast, samsafn af rangfærslum og beinum ósannindum, og skal jeg svo ekki rekja hana frekar að sinni.

Jeg get vel skilið heift hæstv. ráðh. og stjórnarblaðanna í minn garð út af afskiftum mínum af þessum málum. Í mörg ár hefir hæstv. dómsmrh. og leiguritarar hans hlaðið níði og svívirðingum á þá samvinnumenn, er staðið hafa utan sósíalista- eða Framsóknarflokksins og sem starfað hafa að samvinnumálum. Hæstv. dómsmrh. hefir á allan hátt reynt að telja mönnum trú um, að íhaldsmennirnir í samvinnufjelögunum væru vargar í vjeum eða úlfar í sauðahjörð.

Árangur þessarar iðju hæstv. dómsmrh. hefir án efa orðið sá, að margir góðir drengir hafa dregið sig í hlje eða fjarlægst samvinnufjelögin og að samvinnumenn utan núverandi stjórnarflokks hafa vaknað til umhugsunar um, hvort ekki væri ástæða til að stofna og starfrækja eigið samvinnufjelag. Skagfirðingar hafa ekki látið sitja við hugsunina eina saman, heldur stofnað sitt eigið kaupfjelag á Sauðárkróki. En þegar svona er komið, þykir stjórnarráðinu málið ætla að snúast á aðra sveif en það hefði kosið, því að íhaldsmenn mátti nota til þess að bera byrðarnar með öðrum, þó að þeir væru ekki til annars nýtandi. Það var því ekki æskilegt, að þeir færu að stofna sitt eigið kaupfjelag.

Af því, sem á undan var gengið, hefði mátt vænta þess, að stjórnarblöðin og hæstv. dómsmrh. syngju lofsöngva, þegar jeg og mínir líkar vikju úr þeim samvinnufjelögum, er hann hefir mest dálæti á, svo að hjörðin yrði hreinræktuð sósialistaframsóknarhjörð. En það var eitthvað annað; í stað gleðisöngva hefir hljómað heiftarsöngur um svik, flokkssvikara og annað því líkt. Við vorum skammaðir og okkur úthúðað fyrir að vera í þessum fjelagsskap, en við vorum líka skammaðir fyrir það að fara úr fjelaginu. Af þessu má sjá, að það er örðugt fyrir íhaldsmenn að gera svo stjórnarliðinu líki. Jeg er þó ekki að kvarta, hvorki fyrir mig eða fjelaga mína. Þessar kveðjusendingar frá hæstv. dómsmrh. og hans verkfærum hafa glatt mig innilega, því að þær hafa verið mjer bending um, að jeg hafi gert rjett.

Ef hæstv. dómsmrh. væri jafnant um vöxt samvinnustefnunnar hjer í landi eins og hann lætur, þá mundi hann gleðjast yfir því, að þeim mönnum fjölgaði, er þá stefnu aðhyllast. Hitt er aukaatriði, hvort fjelögin, t. d. í Skagafirði, eru 4 eða 5, ef stuðningsmönnum stefnunnar fjölgar að mun við breytinguna. En ekki einu sinni á þessu sviði er hann heill og sannur.

Sannleikurinn er sá, að hæstv. dómsmrh. er ánægður með vöxt og þroska samvinnuhreyfingarinnar á meðan þau nýju fjelög skríða undir hans pólitíska verndarvæng. En þegar svo verður ekki, þá umhverfist þessi samvinnufrömuður.

Hæstv. forsrh. sagði, að jeg hefði sundrað bændunum í Skagafirði. Þetta er ekki rjett. Það er hann, og þó sjerstaklega samherji hans, hæstv. dómsmrh., er hafa unnið það verk og með því meðal annars að varna Sláturfjelagi og Kaupfjelagi Skagfirðinga að starfa saman að frystihúsbyggingunni, og ennfremur með hlutdrægni sinni og ofsóknum á hendur Sláturfjelagi Skagfirðinga. Og til þess að verja Sláturfjelagið falli, voru þar um sýsluna stofnuð víðtækari verslunarsamtök en áður þektust. Og þó að hæstv. dómsmrh. færi lítilsvirðandi orðum um þessi verslunarsamtök og segði, að það mundu vera 2–3 menn í hverjum hreppi, sem að þeim stæðu, þá get jeg sagt honum það, að undirtektirnar hafa verið það góðar, að jeg er vel ánægður með minn hlut.

Þessi verslunarsamtök eru nauðvörn Skagfirðinga til þess að bjarga fjelagsmálum sínum úr því öngþveiti, er hæstv. stj. hafði með afskiftum sínum leitt þau út í.

Fyrir 80 árum sýndu Skagfirðingar — með norðurreiðinni —, að þeir nálega einir bænda höfðu manndóm til að mótmæla ákveðið kúgunartilraunum þáv. stj. Síðastliðið haust sýndu skagfirskir bændur enn, að þeir beygja sig heldur ekki fyrir ofsóknum eða kúgunartilraunum núv. stj.

Annars var öll sú skýrsla, er hæstv. dómsmrh. þóttist vera að gefa um fjelagsmál Skagfirðinga, í einu orði sagt tómur ósannindavefur og til þess eins að sneiða hjá öllum sannleika. Og á þau atriði, sem máli skifta, forðaðist hann beinlínis að minnast. Hann gengur t. d. alveg framhjá því höfuðatriði, sem jeg gat um í fyrri ræðu minni, að fyrir mánaðamótin apríl og maí kom brjef frá Sigfúsi Jónssyni kaupfjelagsstj. með tilmælum til Sláturfjel. um samvinnu milli fjelaganna. Þetta erindi var lagt fyrir aðalfund Sláturfjel. 30 apríl og 1. maí 1928. Og á þeim aðalfundi kaus Sláturfjel. aukanefnd, sem lagði í einu hlj. til, að Sláturfjel. yrði með í byggingunni með þeim skilyrðum meðal annars, að Sláturfjelagið fengi 1/3 af byggingarláninu frá viðlagasjóði með Kaupfjelaginu, eins og hugsað hafði verið frá öndverðu. Þessu tjáði Sigfús Jónsson sig samþykkan. En þessa góðu samvinnu fyrirbyggir svo hæstv. dómsmrh. með svari sínu til síra Sigfúsar, er jeg gat um í fyrri ræðu minni. Að vísu reyndi hæstv. dómsmrh. í ræðu sinni í kvöld, mjer til mikillar undrunar, að neita því, að hann hefði átt tal við síra Sigfús Jónsson kaupfjelagsstjóra þ. 1. maí síðastl. um væntanlegt frystihúslán Kaupfjelagsins og samvinnu fjelagsins við Sláturfjelagið. En þegar hann var þannig að reyna að bjarga sjer út úr þessu, gætti hann ekki þess, að hann um leið stimplaði síra Sigfús Jónsson sem ósannindamann, en jeg er sannfærður um, að það er ekki síra Sigfús Jónsson, heldur dómsmrh. sjálfur, sem fer hjer með ósannindi, og meira að segja vísvitandi ósannindi. Enda skautst það fram í ræðu hans, að samtal þetta hefði átt sjer stað, því að hann sagði eitthvað á þá leið, að það væri óvenjuleg aðferð, sem hjer hefði verið höfð, að láta duga, að síra Sigfús talaði í síma um jafnstórt mál, í stað þess að senda símskeyti. En við sveitamennirnir eigum því að venjast, að menn standi við töluð orð engu síður en skrifuð, og jafnvel þó að þeir standi ekki augliti til auglitis á meðan samtalið fer fram. En að því er hæstv. dómsmrh. viðkemur, þá virðist vissara hjer eftir að fá svör hans skrifleg, svo að þeir, sem þurfa að leita til hans, eigi ekki á hættu að vera gerðir að ósannindamönnum.

Jeg ætla þá að láta máli mínu hjer með lokið. Og þó að hæstv. dómsmrh. bæti einni klukkustund enn við ræðulengd sína í þessum umr. til þess eins að endurtaka þær svívirðingar, sem hann hefir haft um mig og aðra íhaldsmenn, er stutt höfum samvinnustefnuna, þá mun jeg láta mjer það í ljettu rúmi liggja og hirði ekki um að svara því frekar en jeg hefi nú gert, enda er jeg nú dauður.