15.04.1929
Neðri deild: 45. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

16. mál, fjárlög 1930

Haraldur Guðmundsson:

Við eldhúsumr. fyrir helgina vjek jeg nokkrum fyrirspurnum til hæstv. stj., og sjerstaklega til hæstv. forsrh. Jeg sje enga ástæðu til að þakka svörin; þau voru bæði fá og ófullnægjandi. Hæstv. ráðh. láðist líka algerlega að svara þremur af fyrirspurnunum. Jeg spurði meðal annars um það, hvort stj. hefði orðið við áskorun Sþ. í þál. frá í fyrra um að nota heimild til lántöku til þess að fullgera landsspítalann fyrir 1930. Hæstv. ráðh. svaraði þessu engu. Sömuleiðis upplýsti hann ekkert um það, hvað bygging spítalans liði. Í öðru lagi spurði jeg, hvort stj. ætlaði eigi að láta birta skrá yfir töp og eftirgjafir bankanna. Hefði verið full ástæða til, að eigi þyrfti að inna hæstv. stj. eftir þessu. Þetta er svo sjálfsögð krafa og í samræmi við fyrri orð hæstv. ráðh. Hjer er um gífurlegar fjárhæðir að ræða og ráðsmensku, sem þjóðin öll hefir fengið að súpa seyðið af. Ráðherrar hafa upplýst, að eftirgjafir og töp bankanna nemi um 20 milj. króna, og er vant að sjá hvað stj. getur gengið til að hindra, að skýrsla þar um komi fram í dagsins ljós. Við þessu galt hæstv. stj. engin svör. Vill hún halda þessu öllu leyndu fyrir þjóðinni, sem brúsann borgar? Í þriðja lagi spurði jeg, hvort það væri satt, að stj. hefði greitt Landsbankanum þriggja milj. kr. framlag, á þann hátt, að sömu þrjár milj. hafi verið teknar að láni hjá bankanum sjálfum. Hæstv. forsrh. gaf engar upplýsingar um, hvort hviksaga þessi væri sönn eða ekki. Jeg bið hv. þm. að festa þessar svaraleysur ráðh. í minni.

Þá sýndi hæstv. forsrh. nokkurn lit á því að svara þrem öðrum atriðum. Jeg spurðist fyrir um það, hvort ríkisstj. hefði í hyggju að taka upp einkasölu á steinolíu, eða gera ráðstafanir í þá átt. Í fyrra bar jeg fram áskorun í þáltill.-formi þessa efnis, en fyrir einhverja óskiljanlega ráðsmensku hæstv. forseta komst hún ekki á dagskrá fyr en á síðasta degi þingsins, og náði því eigi afgreiðslu. Máttu menn þó skilja það, að hjer var að ræða um stórmál, sem varðar að ákaflega miklu leyti vjelbátaútveg alls landsins, og er því slíkt tómlæti um þetta mál með öllu óverjandi. Hæstv. forsrh. svaraði eitthvað á þá leið, að óviðeigandi væri að tala um þetta nú, þar sem nú væri komin fram þáltill. um þetta efni. Jeg veit ekki, hvað hæstv. forsrh. kallar almennar kurteisisreglur í þessari hv. deild, en jeg skil varla, að það brjóti í bág við almenna kurteisi og velsæmi, þótt rifjaðar sjeu upp athafnir eða öllu heldur athafnaleysi hæstv. stj. í þessu máli sem öðrum. Hvað þáltill. snertir, þá er jeg fyrsti flm. hennar, svo að ef það er óviðeigandi að tala um hana, kemur sú óviðeigandi háttsemi fram við sjálfan mig fyrst og fremst. Þingið og þjóðin eiga heimting á því að fá að vita ger um ráðsmensku stj.

Viðvíkjandi tóbakseinkasölunni sagði hæstv. ráðh., að jeg ætti síst að spyrja um það mál, með því að jeg ætti sæti í milliþingan. Í skattamálum, sem hefði átt að athuga það mál og flytja frv., ef nefndin teldi það ráðlegt. Hæstv. ráðh. veit þó vel, að það varð að samkomulagi milli meiri hl. n. og fyrv. fjmrh., að n. skyldi ekki flytja frv. um einkasölu á tóbaki, með því að stj. ætlaði að gera það. Mun það hafa vakað fyrir ráðh., að n. yrði klofin í málinu. Það gegnir því furðu, að hæstv. stj. skuli ekki hafa flutt frv. um þetta á þinginu nú, heldur skuli Alþýðuflokksmaður verða að taka það upp. Ennþá furðulegra verður þetta, þegar litið er til fyrri afstöðu Framsóknarfl. og hæstv. stj. til þessa máls.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að tala meira um þessi atriði og get snúið mjer að öðru.

Jeg get ekki komist hjá að taka lítillega til athugunar tvær staðhæfingar hæstv. forsrh. Hann sagði, að það væri skoðun sín, að þungamiðja hins pólitíska valds hjer á landi ætti að vera í sveitunum. Hæstv. ráðh. ljet ekki svo lítið að færa rök að þessu, heldur ljet nægja að tilkynna deildinni hátíðlega, að þetta væri skoðun sín. En mjer er nú spurn: Hvers vegna á þungamiðjan að vera í sveitunum? Eru sveitamenn betur færir til að hafa forystu í stjórnmálum landsins á hendi? Hví skyldu bændur sjálfkjörnir til að skipa öndvegi hins pólitíska valds? Nú býr þó vel helmingur þjóðarinnar við sjó og í kaupstöðum, og fæ jeg ekki sjeð, að sá hluti þjóðarinnar sje nokkru miður þroskaður eða áhugasamur um stjórnmál en hinn, sem í sveitunum býr. Mjer þykir það því gegna hinni mestu furðu, að nokkur ráðh. skuli leyfa sjer að viðhafa slík orð. Þau eru firra ein. Og það er ósamboðið hæstv. ráðh., að bera slíkt fram fyrir hv. deild. Skilyrði lýðveldis er jafn rjettur allra manna.

Að lokum fór hæstv. ráðh. nokkrum orðum um stefnu Framsóknarflokksins í þjóðmálum. Efa jeg ekki, að ráðh. hefir þar skýrt nokkurn veginn rjett frá. Hann ljet svo um mælt, að hin pólitíska köllun flokksins væri sú, að vera milliflokkur milli þess, sem hann kallar öfgaflokkana til beggja handa. Pólitík flokksins sje sú ein, að stýra „á milli öfganna“, fara einskonar bil beggja. Jeg býst við, að þetta sje mjög nærri því, sem hæstv. ráðh. hugsar. Mjer hefir fundist upp á síðkastið, sem þessi skoðun hafi ráðið mestu um stefnu og aðgerðir ráðh. En það er auðfundin lausn vandamála, ef vandinn er sá einn, að vera altaf mitt á milli; það er álíka þrekvirki og að helminga beina línu. En hvort þessi aðferð er líkleg til að finna sannleikann, rjetta úrlausn málanna; það er alt annað mál. Reynslan sýnir og hefir sýnt, að slíkt er afarsjaldgæft. Það er einungis slembilukka, ef menn rata á það rjetta með þvílíku hátterni. Jeg sje svo ekki ástæðu til að víkja fleiri orðum að hæstv. stj.

Það lítur út fyrir, að ýmsir hv. þm. hafi notað eldhústækifærið til að gera einskonar eldhúsdag að mjer. Mjer er næstum óskiljanlegt þetta hátterni mannanna, svo hógvær, blíður og ljúfur sem jeg hefi verið, nema ef vera skyldi það, að þeir þurfi að þjóna lund sinni. Hv. þm. Vestm. sló því fram, að það sæti síst á mjer eða öðrum jafnaðarmönnum að láta mikið, því það væri alkunnugt, að við lifðum mestmegnis á dönsku gulli. Í sama streng tóku hv. 2. þm. G.-K. og hv. 1. þm. Skagf., ef jeg man rjett. Jeg sje nú ekki ástæðu til að fjölyrða um þessar ásakanir, en skal þó taka það fram, að við jafnaðarmenn, hjer sem annarsstaðar, erum í nánu samstarfi við flokksmenn okkar, jafnaðarmenn um allan heim. Þeir hafa styrkt fjelagsskap okkar með fjárframlögum, alveg eins og við höfum lagt fje til starfseminnar í öðrum löndum. En hver maður veit, að í sambandi við þessi fjárframlög er ekki um hinar minstu kvaðir eða kröfur að ræða. Enda segir það sig sjálft, þar sem flokkar jafnaðarmanna berjast hvarvetna gegn drotnunarstefnu, hernaðarbrölti og valdagræðgi stærri þjóða. Berjast fyrir rjetti smáþjóðanna gegn stórþjóðunum. Annars situr það síst á íhaldsmönnum hjer að tala um erlent fje í sambandi við kosningar. Allir vita, að meðal íhaldsmanna eru margir, sem draga fram lífið sem leiguleppar erlends peningavalds, auðmjúkir þjónar erlendra ágengra fjepúka. Sömuleiðis er það alkunnugt, að stórkostlegt erlent fjármagn er falið undir nöfnum íslenskra manna, og sumra ekki lágt settra í íhaldsflokknum. Það er og alkunnugt, að margir íhaldsmenn á þingi eru illu heilli þangað komnir fyrir tilstilli og tilhjálp þessa erlenda peningavalds, sem umbun fyrir þjónkun þeirra.

Þá vjek hv. 2. þm. G.-K. að mjer nokkrum orðum og brigslaði mjer um yfirdrepskap og hræsni. Jeg vil svara honum því, að það þarf ærið blygðunarleysi til þess að slíkur maður sem hann skuli dirfast að bera öðrum þdm. slíkt á brýn. Það er meira blygðunarleysi og ósvífni en hægt er að þola þeim hv. þm. ofan á alt annað. Þessi háttv. þm. hefir talað manna hæst um nauðsyn fullkominnar landhelgisgæslu, bæði á fundum úti um land og nú síðast við eldhúsdagsumræðurnar, þar sem hann hefir reynt að gera hv. þdm. skiljanlegan hinn brennandi áhuga sinn fyrir landhelgisvörnunum. Það þarf meira en meðalbrjóstheilindi til þess að haga sjer þannig. Í fyrsta lagi er það sannað, að þessi hv. þm. hefir annaðhvort beinlínis leyft eða í öllu falli liðið skipstjóra sínum að veiða með botnvörpu í landhelgi, á miðum þeirra manna, sem síðan, illu heilli, hafa kosið hann á þing. En þetta er ekki nóg. Þessi hv. þm., sem hefir þennan brennandi(!) áhuga fyrir landhelgisvörnunum, hann hefir sjálfur allra manna besta aðstöðu til þess að stuðla að því, að þær komi að haldi og gæslan komist í það horf, sem fullnægjandi má teljast. Jeg hefi bent hv. þm. á það, hvernig þetta megi verða. Hann er forstjóri eins stærsta togarafjelags landsins og auk þess formaður í fjelagi botnvörpuskipaeigenda hjer í bæ. Ekkert væri nú auðveldara fyrir hann en að leggja blátt bann fyrir, að skipstjórar hans veiddu í landhelgi nokkru sinni. Í öðru lagi ætti hann sem formaður í fjelagi útgerðarmanna að fá aðra útgerðarmenn til hins sama. Mjer þætti ekki ólíklegt, að það mætti takast, ef hv. þm. beitti sjer öfluglega fyrir því. Og hann gæti gert meira. Hann gæti lagt fyrir skipstjóra og skipshafnir sínar að kæra tafarlaust hvern þann útlendan eða innlendan togara, sem sæist að ólöglegum veiðum. Ef þetta væri gert og togaraflotinn íslenski sýndi þann drengskap að hjálpa til að verja mið smábátaútvegsins, þá væri landhelgin fyrst varin til fulls. En hvers vegna hefir hv. þm. ekki viljað reyna þetta? Hví hefir hann, með þennan „brennandi áhuga“, ekki gert alt, sem í hans valdi stóð, til þess að leggja máli þessu lið. Hann hefir svarað því einu til, að ógerlegt væri að svíkjast þannig aftan að erlendum stjettarbræðrum sínum; það væri meiri ódrengskapur en ætla mætti íslenskum sjómönnum og útgerðarmönnum. En einkennilegt mætti það heita, ef íslenskum togaraeigendum og skipstjórum ætti fremur að renna blóðið til skyldunnar við erlenda veiðiþjófa heldur en íslenskan smábátaútveg og íslenskt rjettarfar. Jeg vil nú spyrja: Getur deildin lengur lagt mikið upp úr þessum „brennandi áhuga“ hv. 2. þm. G.-K.?

Mjer finst það bæði grátlegt og skoplegt í senn, að Íhaldsflokkurinn skuli ekki hafa fundið annan heppilegri talsmann landhelgisgæslunnar hjer við eldhúsdagsumr.

Þá viðurkendi hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), að hann hefði boðið í veiðarfæri ensks landhelgisbrjóts á Ísafirði, til þess að útvega honum þau aftur. Þetta kallaði hann einungis greiða, sem engir góðir borgarar teldu eftir sjer að gera hver öðrum. Jeg verð nú að telja þetta í mesta máta viðsjárverða greiðasemi, að hjálpa útlendum veiðiþjófum til þess að brjóta landslög hjer. Slík greiðasemi verður aldrei virt honum til sæmdar, hvorki af þingi nje þjóð. Hún er honum og flokki hans til hinnar mestu vansæmdar, og fer því ekki illa á því, að flokkurinn hefir teflt þessum þm. fram með hv. 2. þm. G.-K. til þess að tala máli landhelgisvaranna í þessari hv. deild.

Þá vil jeg snúa mjer að hv. 1. þm. Skagf. Ef mark skyldi taka á orðum hans, þá hefir hv. 2. þm. Reykv. verið heppinn að vera ekki viðstaddur, þegar þm. Skagf. flutti ræðu sína á eldhúsnótt. Gaf hann ótvírætt í skyn, að hann mundi verða mjög vondur við þennan hv. þm. (2. þm. Reykv). En jeg er nú ekki viss um, að þessum hv. þm. hefði brugðið stórum, þótt hv. 1. þm. Skagf. hefði brýnt eitthvað raust sína.

Þá vil jeg biðja hv. þdm. að leggja sjer vel á minni ummæli hv. 1. þm. Skagf. út af orðum mínum og hv. 2. þm. Reykv. um Shell-fjelagið, sem kallað er íslenskt. Við höfðum upplýst, að hlutafjenu væri skift svo haglega niður, haglega fyrir útlendingana, að hinir erlendu hluthafar hefðu h. u. b. 2 atkv. á móti 1 atkv. Íslendinga. Þessu svaraði hv. 1. þm. Skagf. á þá leið, að hann væri ekki viss um, að þetta væri rjett, að útlendingar hafi haft þennan meiri hluta atkv. í fjelaginu. Einhverntíma hefði nú þessi hv. þm. tekið djarflegar til orða, enda þýðir þetta orðalag einungis það, að rjett sje sagt frá atkvæðafjölda útlendinganna í fjelaginu, að útlendir hluthafar hafi þar gífurlegan meiri hluta. Auðvitað dettur engum skynbærum manni í hug að efast um þetta, en það er þó nokkurs virði að fá slíka viðurkenningu frá formanni fjelagsins. Ummæli hans eru bein sönnun þess, að hann hefir lánað erlendu stórgróðafjelagi nafn sitt til þess að stofna og starfrækja gróðafyrirtæki hjer á landi, sem íslenskt kallaðist, til þess að geta notið sömu rjettinda og íslenskt væri. Hvað samanburðinn á British Petroleum Co. og Shell snertir, þá ætti það að vera öllum ljóst, að hjer er um tvent ólíkt að ræða. Annað fjelagið, B. P., hefir engin rjettindi hjer nema til að leigja stöðina, sem það nú hefir. Ef það vill auka við sig, þarf það að fá nýtt leyfi og nýjan lóðarsamning. Hitt fjelagið, Shell, hefir rjettindi hjer sem íslenskt fjelag og stendur því ólíkt betur að vígi. Af þessu getur sýnilega stafað stórkostleg hætta fyrir þjóðfjelagið, auk þess sem útlendum gróðafjelögum er opnuð leið hjer á landi í framtíðinni til að kaupa sjer leppa, því að óefað verða ýmsir íhaldsmenn til að feta í fótspor dómsmálaráðherra flokksins, ef einhver vill bjóða í þá.

Þá fyltist hv. þm. heilagri vandlætingu yfir því, hve klúr jeg hefði verið í samlíkingum mínum í síðustu ræðu minni. Hv. þm. orðaði það þannig, að jeg hefði verið að tala um vissa flík o. s. frv. Sannleikurinn var sá, að jeg talaði um röndóttar buxur og íturvaxna ganglimi hæstv. forsrh. Jeg get ekki skilið, hvað er klúrt við þetta. Það finst víst engum, nema ef til vill hv. þm. Í sambandi við þetta dettur mjer í hug talsháttur, sem er gagnstæður við, að alt sje hreinum hreint, sem sje, að alt sje óhreinum óhreint. Þeir, sem hafa sjálfir saurugan þankagang, geta af öllu fundið tilefni til klúrra og klámkendra hugsana. Jeg hefði alls ekki látið mjer sæma að tala um samfarir Hrúts og Unnar hjer í hv. deild, og engum hefir getað flogið sú saga í hug af tilefni ræðu minnar, nema þeim, sem hafa samskonar hugarfar og hv. 1. þm. Skagf. virðist hafa.

Hv. þm. sagði ennfremur, að jeg hefði verið að skamma Einar Arnórsson fyrv. skattstjóra í minni fyrri ræðu. Það gerði jeg alls ekki; jeg tilgreindi aðeins þær tekjur, sem hann hafði fengið úr ríkissjóði árið 1926. Jeg veit ekki, hvar er rjettur vettvangur til þess að tala um útgjöld ríkissjóðs, ef ekki hjer, og væri undarlegt, ef menn mættu óátalið bruðla fje ríkissjóðs svo hóflaust eins og þessi hv. þm. gerði í sinni ráðherratíð. Jeg talaði um það eitt, hvort nokkurt vit væri í því að hlaða svona miklum störfum á einn mann, en jeg vjek ekki að því með einu orði, að Einari Arnórssyni væri vansæmd að því að taka við þessu fje, eða að hann hafi fengið það á óheiðarlegan hátt. Jeg tel víst, að ekkert sje við það að athuga frá laganna hlið.

Hv. þm. fór svo að tala um mína fótaferð í þessu sambandi og gerði samanburð á dugnaði mínum og fyrv. skattstjóra. Jeg verð einu sinni enn að segja honum það, að jeg mun hjer eftir sem hingað til telja öðrum það algerlega óviðkomandi, hvenær jeg fer á fætur og á hvaða tíma dagsins jeg vinn mín störf. Það mun sannast, að þegar verk manna verða dæmd, þá verður litið á störfin, en ekki á hitt, á hvaða tíma dags þau eru unnin. Jeg er heldur ekki í efa um það, að þegar dæmt verður um mig og hv. 1. þm. Skagf., þá verður litið á störfin, en ekki fótaferðina. Og aumt er að geta af engu hælt sjer nema fótaferðinni, þegar morguninn er notaður í þjónustu erlendra auðhringa.