17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Starf fjvn. hlýtur að verða mun ánægjulegra en ella, þegar svo stendur á sem nú, að rekstur ríkisbúskaparins hefir verið mjög góður síðastl. ár, árferðið sem stendur ágætt og góðar horfur framundan.

En góðærinu fylgir að sjálfsögðu bjartsýni og djarfhugur um að hrinda til framkvæmda ýmsu því, sem talið er, að til nytsemda horfi. Þetta kemur glögt í ljós nú, bæði hjá hv. stj., að því leyti, að tekjur og gjöld í frv. því, sem fyrir liggur, eru ætluð hvort fyrir sig nær 700 þús. kr. hærri en hæst hefir verið áður, 1928, og eins í þeim mikla aragrúa af erindum, sem fyrir liggja um styrk og fjárframlög til margvíslegra hluta. Er upphæðin, sem farið er fram á í þessu skyni, samtals óhemju mikil.

Þegar svona er ástatt, hlýtur það að verða hlutverk fjvn. að halda aftur af og stilla í hóf útgjöldum ríkissjóðs. Því fyrst og fremst eru ríkistekjurnar ærið takmarkaðar, þótt vel ári, en hinu er þó örðugra við að gera, hversu fljótlega skipast oft veður í lofti um árferði, og því óvarlegt að byggja mjög á útliti líðandi stundar.

Þegar nú svo fer, að fjvn. þarf að fara að draga úr eða mæla móti mörgum þeim fjárbeiðnum, sem fyrir liggja, vill oft fara svo, að starf hennar verður ekki eins þakklátt og ella mundi. Og oftast mun n. fá þann dóm víða frá, að hún sje fremur lítt sanngjörn eða víðsýn í till. sínum. Býst jeg við, að svo fari enn, því að hún hefir að minstu leyti getað mælt með þeim fjárbeiðnum, sem fyrir liggja.

Nú er frv. lagt þannig fram, að gjöldin eru áætluð 11126000 kr. og tekjurnar ámóta, eða h. u. b. 50 þús. kr. hærri. Er hvor hliðin fyrir sig um 700 þús. kr. hærri en nokkru sinni fyr, eins og jeg tók fram áður. Enda fara tekjur yfirleitt vaxandi síðasta tímabil frá ári til árs, að óbreyttri tekjulöggjöfinni.

Það er nógu fróðlegt að bera saman nokkrar útgjaldagreinar fjárlagafrv. 1926 og 1930, sem sýna nokkuð, hvar breytingarnar koma helst fram á þessu 5 ára tímabili.

Sá samanburður verður þannig:

Gjöld

Skv. 7. gr. (Vextir og afborganir)

—10. gr. (Ráðun., ríkisfjeh., hagstofa,

utanríkismál o. fl.)

— 11. gr. (Dómgæsla, lögreglustjórn o.fl.)

— 12. gr. (Heilbrigðismál)

— 13. gr. (Samgöngumál)

— 14. gr. (Kirkju- og kenslumál)

— 15. gr. (Vísindi og listir)

— 10. gr. (Verklegar framkv.)

— 17. gr. (Alm. styrktarstarfsemi)

— 18. gr. (Eftirlaun og styrktarfje)

— 1926 1930 Mism. h.u.b.

Kr. 2030000 Kr. 1295000 ÷ 740000

— 270000 — 369000 + 100000

— 668000 — 854000 + 190000

— 591000 — 689000 + 100000

— 2233000— 3617000 + 1380000

— 1254000— 1467000 + 213000

— 200000 — 282000 + 82000

— 493000 — 1299000 + 800000

— 458000 — 674000 + 216000

— 158000 — 204000 + 46000

Fleiri greinar nefni jeg ekki, enda má nokkuð sjá á þessu yfirliti, hvert stefnir. Þó vil jeg taka það fram, að þetta yfirlit er bygt á frv., sem lögð eru fyrir, og gefur því ekki nákvæma mynd, hvorki af fjárlögum nje ríkisreikningi þessara ára, en þessar tölur sýna þó ljóslega stefnu Alþingis í fjármálunum. Stærstu breyt. hafa orðið á þrem greinum. Vextir og afborganir lækka um nær 8/4 milj. kr., en til samgangna og verklegra framkvæmda hefir framlagið vaxið á þessu tímabili um nær 2 milj. 200 þús. kr. Og í fyrirliggjandi fjárlagafrv; eru upphæðir þessara tveggja gr. ætlaðar fullum 700 þús. kr. hærri en nokkru sinni fyr. Er í raun rjettri ánægjulegt að vita það, að meginhlutinn af útgjaldahækkuninni lendir á þeim tveim greinum, sem varið er til samgangna og verklegra framkvæmda. Veit jeg, að allir munu sammála um það, að það sje hin mesta nauðsyn að hækka framlög til þessara hluta, eftir því sem föng eru á.

Skal jeg þá víkja nokkru nánar að starfi n. í nál. er gerð grein fyrir skoðun og stefnu hennar um áætlun teknanna, þeirri, að henni beri að haga þannig, að hún verði mjög varleg. Skal jeg ekki endurtaka það, sem í nál. segir, en vitna aðeins til þess, sem þar er sagt. Nú komst n. að þeirri niðurstöðu, að tekjur mætti telja mjög gætilega áætlaðar, þótt hækkaðar væru í heild um 650 þús. kr., eins og hún leggur til. Hinsvegar kom það í ljós við nánari athugun, og sumpart að fengnum nýrri upplýsingum en fyrir lágu er fjárlagafrv. var samið, að ýmsa gjaldliði varð einnig að hækka, og suma stórlega, ef áætlunin átti að geta talist sennileg. Nema þær útgjaldahækkanir nærfelt 400 þús. kr., sem n. þannig leggur til, en í raun og veru eru þær hækkanir ekki annað en leiðrjettingar í þá átt, sem sýnilegt er, að útgjöldin muni reynast. Er þá samt eftir að ætla fyrir útgjöldum þeim, er sjálfsögð mega teljast í sambandi við alþingishátíðina 1930. Vil jeg um það efni vísa til þess, er n. segir í áliti sínu, en aðeins vekja athygli hv. þdm. á því, að fyrir þessari útgjaldahækkun er engin upphæð tiltekin.

Þegar það er athugað, að óhjákvæmilegar gjaldaleiðrjettingar námu 400 þús. kr. auk þess, sem þyrfti að ætla fyrir ótilteknum kostnaði við alþingishátíðina, er það bersýnilegt, að n. hafði engan veginn rúmar hendur, og varð því að takmarka mjög till. sínar um aukin útgjöld. Enda varð aðalniðurstaðan af starfi n. sú, að eftir hennar till. mundi verða um 155 þús. kr. tekjuafgangur á frv., sem að hennar áliti mundi síst of mikill til þess að mæta þeim sjálfsögðu útgjöldum, sem ekki er ætlað fyrir í fjárlagafrv. og sem jeg hefi áður minst á. Vænti jeg þess, að hv. d. geti fallist á þá nauðsyn, er n. virðist á því að sýna sem mesta varúð í því að hækka útgjöldin, þótt eðlilega hljóti skoðanir manna nokkuð að skiftast um þær einstöku till., er fyrir liggja, bæði frá n. og einstökum þm.

Þá ætla jeg að víkja að einstökum brtt. n., og er þá fyrst tekjuhliðin.

1. brtt. n. er að hækka fasteignaskattinn úr 240 þús. kr. í 250 þús. kr. Þetta er nokkurnveginn fastur skattur, sem breytist ekki að öðru en því, sem fasteignaverð hækkar árlega við nýbyggingar og umbætur ýmsar á fasteignum. Fara þær umbætur altaf vaxandi og hefir hækkun skattsins undanfarið numið um 10 þús. árlega. Skattur þessi var sl. ár 260 þús. kr., og má því telja sæmilega varlegt að áætla hann 250 þús. kr. fyrir árið 1930, eins og n. leggur til.

2. brtt. n. lýtur að því að hækka tekju- og eignarskatt úr 1050000 kr. Í 1100000 kr. Það er ekki ljett að áætla þennan tekjulið svo að ekki geti skeikað allmiklu, því að hann er ætíð mjög bundinn við árferði og afkomu landsmanna. Þannig reyndist þessi tekjuliður árið 1925 nærfelt 21/2 milj. kr., en árið 1927 varð hann ekki nema rúmar 800 þús. kr., svo að það er altaf nokkuð óvíst að ákveða hann löngu fyrirfram. En með hliðsjón af því, að nú er útlit fyrir mikið góðæri, aflabrögð það sem af er árinu alveg óvenjulega mikil, og tekju- og eignarskatturinn 1930 byggist á afkomu þessa árs, taldi n. ekki óvarlegt, þótt skatturinn væri áætlaður 1100000 kr.

Þá er 3. brtt. um hækkun á bifreiðaskatti, og er hún gerð að till. vegamálastjóra. Skattur þessi fer árlega hækkandi, þótt það hafi ekki verið tekið til greina við áætlanir um þennan tekjulið undanfarið. Eftir skýrslum vegamálastjóra voru 1. júlí síðastliðið 820 bifreiðar á skattskrá, og hafði bifreiðum þá fjölgað um 200 frá því árið áður. Síðan hefir bifreiðum fjölgað hlutfallslega meira, og eru ekki horfur á öðru en að sú fjölgun verði áframhaldandi. Af þeim ástæðum þótti n. varlegt að áætla bifreitaskattinn 60 þús. kr. fyrir árið 1930, þar sem bifreiðaskattur síðastliðið ár nam 58 þús. kr.

4. brtt. n. er sú, að hækka útflutningsgjaldið um 75 þús. kr., eða úr 1000000 kr. upp í 1075000 kr. Jeg vil geta þess, að meðaltal 4 síðustu ára nemur 1150000 kr., og með það fyrir augum telur n. mjög varlegt að ætla útflutningsgjaldið 1075000 kr.

Þá kem jeg að 5. brtt., að hækka tóbakstollinn um 100 þús. kr. Þessi tekjuliður hefir verið nokkuð breyti legur, enda hefir sölufyrirkomulag tóbaksins einnig breytst, og því ekki rjett að gera samanburð á liðnum yfir langan tíma. En síðustu tvö árin hefir þessi tekjuliður numið meira en 1 milj. kr., eða 1020000 kr., og hefir farið hækkandi á undanförnum árum. N. áleit þennan tekjustofn því mjög öruggan og telur till. varlega, að hækka tóbakstollinn um 100 þús. kr., eða úr 850 þús. upp í 950 þús. kr.

Þá er 6, brtt. n., að aðflutningsgjald hækki úr 160000 kr. í 200000 kr. N. álítur þetta mjög örugt, þar eð meðaltal síðari ára hefir numið 230000 kr. og engar líkur eru fyrir því, að þessi tekjuliður rýrni, heldur fari hækkandi, eins og hann hefir gert undanfarin ár.

Kem jeg þá að 7. brtt., um hækkun vörutolls, að fyrir 1250000 kr. komi 1350000 kr. Jeg vil aðeins taka það fram, að meðaltal þriggja síðustu ára nam 1400000 kr. og síðastliðið ár var vörutollurinn 1635000 kr. Að vísu varð nokkur breyt. á vörutollslöggjöfinni síðastl. ár, en hún gengur í þá átt, að telja verður till. n. öruggari en ella mundi.

Þá er 8. brtt. n. um að verðtollurinn hækki úr 1325000 kr. upp í 1500000 kr. Þar hefir breyt. orðið á löggjöfinni, svo að ekki er gott að gera samanburð við undangengin ár, en síðastliðið ár nam verðtollurinn 1669000 kr. Eins og menn muna, var verðtollurinn hækkaður á síðasta þingi, en sú hækkun kom ekki fram nema á nokkrum hluta síðastl. árs. Með það fyrir augum verður till. n. að teljast mjög gætileg. Síðasta ár var mjög gott, og hefir það vitanlega mikil áhrif á verðtollinn. En þá má gera ráð fyrir því, að innflutningur á verðtollsvörum verði mikill 1930 í sambandi við alþingishátíðina. Vona jeg, að hv. þdm. geti fallist á þessa till.

Þá er 9. brtt., að hækka tekjuáætlun víneinkasölunnar um 75 þús. kr., eða upp í 450 þús. kr. Það má vel vera, að hv. þdm. þyki þessi till. n. óvarleg, ef miðað er við meðaltal þriggja síðustu ára, sem ekki er nema 350 þús. kr. En n. leit svo á, að örugt Væri að ætla, að umsetning verslunarinnar yrði mikil 1930, vegna þess, að þá yrði mikið um gesti og ýmsan mannfagnað. Ennfremur má taka tillit til þess, að enda þótt meðaltal síðari ára á tekjum einkasölunnar hafi verið lágt, stafaði það að nokkru leyti af því, að sum árin voru birgðir einkasölunnar auknar að miklum mun, en önnur stefna mun þar nú upp tekin í því efni. Að þessu athuguðu áleit n., að þessi till. væri síst of há.

Þá hefi jeg lauslega minst á till. n. til tekjuauka, en vísa að öðru leyti í álit n., sem jeg býst við, að hv. þdm. hafi kynt sjer, og sje jeg því ekki þörf á því að endurtaka það, sem þar stendur.

Hið sama get jeg tekið fram um till. n. til aukinna gjalda, að jeg mun aðeins fara um þær fáum orðum, en vísa í nál. til frekari skýringar á einstökum atriðum.

10. brtt. n. lýtur að því, að alþingiskostnaður hækki um 25 þús. kr. Telja má víst, að Alþingi verði stefnt saman til aukaþings á Þingvöllum sumarið 1930, og er því óhjákvæmilegt að hækka þennan kostnað. En þar eð þetta aukaþing mun varla standa lengur en 2–3 daga, áleit n. að 25 þús. kr. hækkun yrði nægileg.

Þá er 11. brtt. um að hækka gjaldaliðinn til skattvirðinga um 40000 kr. Fyrir árslok 1930 á að fara fram endurmat á öllum fasteignum í landinu, og þar sem það hlýtur að leiða af sjer mikinn kostnað fyrir ríkið, var sýnilegt, að þennan lið varð að hækka til mikilla muna. Hinsvegar er vitanlegt, að mikill hluti starfskostnaðar við fasteignamatið hlýtur að falla á yfirstandandi ár, og taldi n. því, að sennilega yrði nóg að hækka þennan lið um 40 þús. kr.

Tvær næstu brtt. n., 12.–13. brtt., eru bundnar við að hækka styrki til læknisvitjana. Fyrir þessum hækkunum eru allgreinileg rök í nál., og tel jeg nægilegt að vísa til þess. Þó get jeg aðeins minst á það, að Borgarfjarðarhreppur hafði áður þennan styrk, 300 kr., en síðar fluttist læknissetrið í hreppinn og fjell hann þá niður. Nú er læknirinn aftur fluttur upp á Hjerað, og virðist því sanngjarnt, að hreppurinn fái þennan styrk.

Þá kemur að 14. brtt. n., að setja inn aftur aths. um það, hvaða svæði augnlæknar þeir, er styrks njóta til ferðalaga, eigi að ferðast um. Aths. hafði fallið niður í frv. stj., en n. þótti rjettara að láta aths. haldast, til þess að tryggja, að læknarnir hefðu viðdvöl a. m. k. á einum eða tveim stöðum í hverri sýslu, svo að almenningur hefði kost á að færa sjer ferðalög augnlækna í nyt.

Þá er næsta brtt. um styrk til Jóns Kristjánssonar nuddlæknis í Reykjavík. Um þetta er allgreinileg skýrsla í nál. Leggur n. til, að þessum lækni sje veittur 1200 kr. árlegur styrkur, en hann sje þá bundinn sömu skilyrðum og styrkur til tveggja annara sjerfræðilækna hjer, að lækni þessum sje skylt að kenna læknanemum við háskólann og hinsvegar að veita fátæku fólki læknishjálp ókeypis á tilteknum stað, ekki sjaldnar en tvisvar á viku. Ennfremur er þess getið í nál., að þessi styrkur skuli ganga til greiðslu á vöxtum og afborgunum af láni, sem viðkomandi læknir hefir úr viðlagasjóði; eru þau skilyrði tekin upp eftir bendingu frá lækninum sjálfum.

Þá er 17. brtt. um aukinn styrk til geðveikrahælisins á Kleppi. Vil jeg geta þess, að n. hefir komið saman um að taka þá till. aftur til 3. umr., eftir ósk hæstv. stj. Ætla jeg þá ekki að fara fleiri orðum um hana.

Þá er 18. brtt. n. Er hún um að veita heilsuhælinu í Kristnesi 7500 kr. styrk til ýmsra umbóta þar. Stjórnarnefnd hælisins sendi langt og ítarlegt erindi, þar sem hún gerir grein fyrir því, að það vanti sitthvað, sem til nauðsynlegra umbóta horfi, og hún fer fram á 21 þús. kr. fjárveitingu samtals til að bæta úr þeim göllum, sem taldir eru í erindinu. Fjvn. sendi þetta erindi til landlæknis, og samkv. ákveðnum till. frá honum, þá varð það niðurstaða n. að veita hælinu 7500 kr. til ýmsra endurbóta við hælið, og það er, held jeg, tekið nokkuð skýrt fram í nál., hvað það er, sem n. telur rjett að bæta þar úr, og jeg ætla líka rjett að lesa hjer upp, með leyfi hæstv. forseta. Það er:

1. Til útbúnaðar 2–3 herbergja

á efsta lofti . . 1300 kr.

2. Til að byggja hænsna- og

svínahús ………. 1500 —

3. Til að kaupa vatnsdælu

(til vara) ……… 700 —

4. Til að kaupa háspennu-

ketil ……………… 2000 —

5. Til lagfæringar á um-

hverfi hælisins…… 2000 —

Alls 7500 kr.

Það sjest á þessu að vísu, að n. hefir ekki treyst sjer til að veita alla hina umbeðnu upphæð. Það er ekki nema fullur þriðjungur þess, sem farið var fram á, en það er í fullu samræmi við till. og skoðanir landlæknis, sem n. ber þetta fram, og hún væntir, að þessi styrkur bæti úr bráðustu þörfum, sem þarna eru.

Þá er 19. brtt. Það er hækkun á liðnum, sem veittur er samkv. launalögum á kostnaði við vegalagningar, og er ekkert um það að segja; það er aðeins leiðrjetting og því alveg sjálfsögð breyting. Hafði dýrtíðaruppbótin af vangá fallið úr upphæðinni.

Sama er að segja um næstu tvær brtt., 20. og 21., það er aðeins leiðrjetting á skekkju, sem kom fram á launum vegamálastjóra og aðstoðarmanns, sem sjálfsagt er að setja rjett í frv.

Þá er 22. brtt. Hún lýtur að því að hækka liðinn til aðstoðarmanna og mælinga um 4000 kr. Er þar aðeins um leiðrjettingu að ræða, því að það er auðsjeð, að ekki verður komist af með minni greiðslu en n. leggur til, því að það er vitanlegt, að fyrirhuguð störf eru með langmesta móti, og nægir því ekki að hafa lægri upphæð en áður hefir þurft að greiða, því þessum lið eru greidd laun tveggja aðstoðarmanna meðal annars, og síðustu tvö árin hefir þessi kostnaður numið fullum 20 þús., svo að sýnilegt er, að þessi liður verður heldur of lágur en of hár, þótt samþ. verði till. n., sem jeg tel sjálfsagt.

Þá kem jeg að 23. brtt. Það er kostnaður, sem ætlaður er til slitlags á akvegum. Er liður þessi hækkaður jafnt og tilsvarandi tekjuliður, sem jeg gat um áðan. En n. vildi í sambandi við það benda á, að hún telur sanngjarnt og rjett, að þessum skatti sje varið til slitlags á þjóðvegum í þeim hjeruðum, þar sem skatturinn fellur til, en hitt sje ekki rjett, að nær öllum skattinum sje varið til þess að leggja slitlag á vegina næst Reykjavík, heldur komi það jöfnum höndum um hjeruðin, þar sem skatturinn fellur til.

Þá er 24. brtt. n., um að tillög til akfærra sýsluvega hækki um 5 þús. kr. Þessi till. kom frá vegamálastjóra, en mjer skilst, að fyrir vangá hafi hún ekki verið tekin í stjfrv., og held jeg, að ekki þurfi að fjölyrða mjög um hana; bæði er gerð allítarleg grein fyrir henni í nál., og hinsvegar er víst hv. þdm. mjög vel kunnugt um þær miklu kröfur, sem gerðar eru frá sýslunum um að fá aukin framlög af þessum lið, og þykir n. ástæða til að hækka hann lítils háttar. Og þar sem hjeruðin verða að leggja fram helming á móti, lítur n. svo á, að tiltölulega mikill hagnaður verði að þessu fjárframlagi. Hefi jeg svo ekkert frekar um þetta að segja, en vonast eftir, að hv. þdm. fallist á þessa brtt. n.

Þá er næst 25. brtt., sem lýtur að því að hækka tillagið til sýsluvega sjóða upp í 65 þús. kr. Þar er aðeins um leiðrjettingu að ræða, því að það er auðsjeð af þeim skýrslum, sem lágu fyrir n. frá vegamálastjóra, að það verður ekki komist af með minni upphæð, því að þessi framlög eru lögbundin og miðuð við framlög hjeraðanna, og eftir fyrirliggjandi skýrslum er sýnilegt, að þessi upphæð verður það minsta, sem í reyndinni þarf óhjákvæmilega að greiða til þessara vegagerða.

Þá er 26. brtt. n. Hún er um að „gististyrkur“ sje lækkaður úr 4 þús. kr. niður í 3 þús. kr. Eins og menn vita, þá hefir um alllangt skeið verið veittur styrkur ábúendum á afskektum stöðum við þjóðvegi, og hefir sá styrkur síðustu árin numið 3 þús. kr. og skiftingin farið fram eftir ákveðnum reglum. En í gildandi fjárlögum var þessi liður hækkaður um 1 þús. kr., en það var með sjerstöku tilliti til þess, að 1 þús. kr. átti að verja til að hjálpa ábúandanum á Bakkaseli í Öxnadal til að gera þar eitthvað byggilegra. En nú hefir ríkissjóður keypt þessa jörð, og þar verður að sjálfsögðu, eftir því sem n. hefir kynt sjer, bygt upp á kostnað ríkisins nú í sumar, og þá verða að sjálfsögðu hvorki borgaðar út þessar 1 þús. kr., sem ætlaðar voru ábúandanum í gildandi fjárlögum, nje heldur er ástæða til að setja þennan styrk í það fjárlagafrv., sem hjer er um að ræða, svo að þess vegna leggur n. til, að styrkurinn sje lækkaður um 1 þús. kr., en ætlast hinsvegar til, að styrkurinn sje greiddur til sömu staða og áður, og hefði máske verið rjettara að taka það fram í nál., en n. hefir þó ekki gert það, en hún ætlast sem sagt til, að það verði á sama grundvelli og undanfarið, að öðru leyti en því, að þessi 1 þús. kr. byggingarstyrkur fellur niður,

Þá kemur 27. brtt. n., um hækkun til nýrra símalagninga. Í nál. er gerð allítarleg grein fyrir þeim till. n., og vil jeg þess vegna að mestu leyti vísa til þess, sem þar er sagt, án þess að vera að endurtaka það hjer nema lítillega. Vil jeg aðeins drepa á það, að eins og nál. ber með sjer, hefir landssímastjóri lagt til, að upp í fjárlög sjeu teknar 537 þús. kr. til að byggja nýjar símalínur fyrir, en þar sem stj. þó ekki hefir treyst sjer til að ganga lengra en að veita 300 þús. kr., þá sá n. það, að ef ekki yrði hægt að leggja meira en 300 þús. kr. til símalagninga, en þó hinsvegar farið eftir till. landssímastjóra, þá mundi þessi upphæð, sem veitt er, ganga öll til einnar símalínu, sem sje Suðurlandslínunnár. Það er svo, eins og sjá má, að fyrstu þrjár till. frá landssímastjóra ganga allar til hennar; þær eru til samans 300 þús. kr. Þetta þótti n. dálítið harðir kostir gagnvart öðrum hjeruðum, sem mikla þörf hafa fyrir nýjar símalínur, að þetta lenti alt þarna á einn stað, ekki síst vegna þess, að á undanfarandi árum, 1928 og ’29, fer ekki óverulegur hluti af símalagningafje einmitt til þessarar sömu línu. Þess vegna var það, að n. fór fram á það við landssímastjóra, hvort ekki mætti minka þetta tillag að þessu sinni, svo að nokkuð yrði notað í öðrum hjeruðum, en hann hjelt fast við þá till., að nauðsynlegt væri að ljúka við þessa línu og til þess þyrfti þessar 300 þús. kr., enda kæmi þessi lína ekki að fullu gagni fyr, og því rjett að leggja áherslu á að ljúka við hana. En hins vegar kvað hann sjer kært, ef n. vildi leggja til, að hækkað yrði tillagið til símalagninga, svo að hægt væri að leggja símalínur víðar, og benti þar t. d. á línuspottann frá Dalvík til Siglufjarðar, og að óhjákvæmilegt væri að tvöfalda þá línu. Það varð því niðurstaðan hjá n., að hún treysti sjer ekki að breyta till. landssímastjóra gegn hans ákveðnu mótmælum. En til þess að hægt sje að bæta úr brýnustu þörf annarsstaðar, leggur hún til að hækka tillagið til símalagninga yfir höfuð um 50 þús. kr., og vil jeg vísa til þess, sem um þetta mál er sagt í nál., sem er nokkuð greinilegt, og geri jeg ráð fyrir, að hv. þdm. hafi þegar kynt sjer það.

Þá er 28. brtt. aðeins um það, að aths. er flutt úr 13. gr. í 23. gr., og verður gerð nokkur grein fyrir því síðar.

29. brtt. n., um það að hækka um 5 þús. kr. framlög til símaeftirlitsstöðva, er aðeins leiðrjetting, bygð á því, að n. sá það af skýrslum, sem fyrir lágu, að sá liður mundi verða hærri í reyndinni en áætlað er, og það byggist á því, að þessum stöðvum fjölgar árlega úti um land; t. d. bættust við 24 nýjar stöðvar árið sem leið, og því sjálfsagt, að rekstrarkostnaðurinn hækkar við fjölgun stöðvanna. Það þýðir þess vegna ekkert annað en að áætla kostnaðinn nokkum veginn eins og sjáanlegt er, að útgjöldin hljóta að reynast.

Þá kemur 30. brtt., sem er dálítil fyrirkomulagsbreyting. Vitamálaskrifstofan hefir að undanförnu haft með höndum ýmsan undirbúning um hafnarmannvirki; hún hefir gert mælingar, samið kostnaðaráætlanir og gert uppdrætti, og þessi störf hafa árlega farið vaxandi, vegna þess að meira og meira er að þessum framkvæmdum unnið. Þessi undirbúningsstarfsemi í vitamálaskrifstofunni kostar vitanlega mikla vinnu og allmikið fje, en þetta er alt fært á grein, sem nefnd er vitamál. Nú hefir vitamálastjóri stungið upp á, að þessari fyrirsögn sje breytt, og hefir n. fallist á, að það sje rjett, og leggur til, að hún verði: Vitamál og hafnargerðir —, en leggur þá jafnframt til, að ýmsar fjárveitingar til bryggju- og hafnarbóta sjeu færðar af 16. gr. yfir í 13. gr. í sambandi við þetta, og þessar þrjár smátill. n. lúta að þessu formsatriði, sem jeg vona, að hv. d. geti fallist á, að sje eðlilegt.

Þá er 33. brtt. n. Hún er um það að hækka tillagið til að reisa nýja vita um 20 þús. kr., upp í 80 þús. kr. Það hefir á undanförnum þingum legið fyrir till. um það, að nauðsynlegt væri að koma upp vita nálægt Horni á Hornströndum og sýnt fram á þá nauðsyn, sem á því væri vegna allra siglinga milli Norðurlands og Vesturlands. Áætlaður kostnaður við að byggja þennan vita við Horn er eitthvað fullar 80 þús. kr., en þar í er að vísu kaup á eyðijörð, sem þarf að byggja upp, en sú eyðijörð hlýtur að vera lítils virði og er svo talið af vitamálastjóra, að hún muni fást fyrir lítið verð. Þetta vitastæði hefir verið rannsakað, bæði að því er snertir staðinn og kostnaðinn. Það er ætlast til, að það verði nokkuð sterkur viti — 50000 kerta —, sem standi þarna skamt austan við Hornbjarg, í svonefndri Látravík. N. hefir fyrir sitt leyti fallist á þá skoðun, að þann vita ætti að reisa næst, en þá þarf að hækka tillagið til vitabygginga, og gerir hún það því að till. sinni, að tillagið verði fært upp í 80 þús. kr. og væntir, að sú upphæð muni nægja, þótt raunar áætlað sje, að vitinn muni með öllu kosta 83 þús.

Þá er 34. brtt. n., sem er um það, að liðurinn „Ýmislegt“ verði hækkaður um 10 þús. kr. Fer n. fram á þá hækkun vegna þess, að vitamálastjóri hefir óskað eftir því og sýnt fram á, að það væri nauðsynlegt, að ríkið keypti ýmisleg áhöld, sem notuð yrðu bæði við bryggjugerðir og framkvæmdir á ýmsum hafnarmannvirkjum, sem, eins og jeg tók fram áðan, færast mjög í vöxt. Hefir hann sjerstaklega nefnt kafarabúning, fallhamar, lyftivjel, hrærivjel o. fl. og farið fram á, að 20 þús. kr. væru veittar til að útvega þessi nauðsynlegu tæki. N. viðurkennir, að það væri rjett og æskilegt að kaupa smám saman þessi áhöld og tæki, eftir því sem þörf væri á, en hún treystir sjer þó ekki til að þessu sinni að mæla með hærri upphæð í þessu skyni en 10 þús. kr., og leggur því til, að þessi liður sje hækkaður um þá upphæð, með það fyrir augum, að verja megi 10 þús. kr. til kaupa á allra nauðsynlegustu tækjum.

Þá kem jeg að 35. brtt., sem er í fleiri liðum, og vil jeg geta þess, að það er að vissu leyti ekki alveg rjett, sem stendur hjer fyrir ofan, að þetta sjeu alt nýir liðir, sem hjer er farið fram á. Þeir eru nýir í þessari grein, en það eru ýmsir þeirra, sem áður hafa staðið í 16. gr., en eru nú færðir í 13. gr. Ætla jeg fyrst að víkja að a-liðnum, um að veitt sje til bryggjugerða og lendingarbóta alt að 1/3 kostnaðar, gegn 2/3 annarsstaðar að, enda sje það fje fyrir hendi og stjórnarráðið samþykki áætlun, 26500 kr. Þar leggur n. til, að sá liður, sem í fjárlagafrv. stendur, 12 þús. kr., sje hækkaður upp í 25500 kr., og er í nál. gerð grein fyrir því, hvernig n. hugsar sjer, að þessu fje sje varið; ætla jeg lítilsháttar að drepa á það.

Það er þá fyrst, að fyrir n. lá erindi um bryggjugerð í Ólafsfirði, og fylgdi því erindi kostnaðaráætlun og uppdráttur af verkinu. Þar er um endurbyggingu á bryggju að ræða, sem hefir skemst og að nokkru leyti eyðilagst, en sem óhjákvæmilegt er að byggja upp aftur. Þessi kostnaðaráætlun, sem er glögg og skýr, mun nema um 25 þús. kr., og fanst n. óhjákvæmilegt að mæla með því, að ríkið greiddi 1/3 af þessum áætlaða kostnaði, eða 8 þús. kr.

Næst er till. um að veita til bryggjugerðar í Flatey á Skjálfanda 1/3 kostnaðar. Það er endurveiting, sem stendur í þessa árs fjárlögum, og fer jeg því ekki frekari orðum um hana.

Þá er till. n. um styrk til bryggjugerðar á Hofsósi, 5500 kr. Fyrir n. lá beiðni um þennan styrk ásamt lýsingu og kostnaðaráætlun vitamálastjóra um þetta mannvirki, er sýnir, að verkið muni kosta á 17. þús. kr, Er það till. n., að til þessa verks verði veittur 1/3 kostnaðar, eða 5500 kr.

Enn lá fyrir n. erindi frá hreppsnefnd Akraneshrepps um að ríkið styrkti umbætur á bátalegunni í Lambhúsasundi. Eins og menn vita, þá er afarmikið um bátaútveg á Akranesi, og hefir hann farið stórvaxandi hin síðustu árin. Hinsvegar er höfnin þar mjög ótrygg, og er stór nauðsyn að bæta þar um. Eru hafnarbæturnar hugsaðar svo, að leggja 4 botnstrengi úr járnkeðju um þvert sundið, sem bátarnir gætu legið við. N. var að sjálfsögðu ekki fær um að dæma, hversu tryggilegt þetta fyrirkomulag mundi reynast. En það hefir verið reynt í Vestmannaeyjum undanfarið, með besta árangri. Taldi n. því sjálfsagt, að ríkið styrki þessa öryggisviðleitni. Málaleitun þessari fylgdi greinileg lýsing á mannvirkinu, og er kostnaður áætlaður 51 þús. kr. Telur n. rjett að styrkja þetta að 1/3 kostnaðar, en leggur til, að styrknum verði skift á 2 ár, 8500 kr. hvort árið. Samtals nema þessar upphæðir til bryggjugerða og lendingarbóta 25500 kr., og er það 13500 kr. hærra en gert var ráð fyrir í frv.

B-liður till., til lendingarbóta í Gerðum í Garði, er ekki nýr liður, heldur er hann fluttur frá 16. gr. og í 13. gr. Þarf jeg ekki að fara fleiri orðum um það.

C-liður er aftur á móti nýr, 3500 kr. til að dýpka Snepilrás, lokaveiting. Þetta er kunnugt mál hjer á þingi og hefir verið veitt til þess áður. Er nú svo komið, að hægt er að ljúka verkinu, ef till. verður samþ. Leggjum við til, að veittur verði helmingur kostnaðar, í samræmi við það, sem áður hefir verið veitt, og með það fyrir augum, að hjer er um óvenjulega erfitt verk að ræða, en kraftlitlir menn, er að því standa.

Þá held jeg, að ekki sjeu fleiri brtt. frá n. hendi við þennan kafla fjárlaga.frv., og læt jeg því staðar numið að sinni, því um brtt. einstakra þm. mun jeg ekki tala fyrir n. hönd fyr en flm. hafa gert grein fyrir þeim.