27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg hefi ekki haft tök á því að vera við umr. í dag, en mjer er sagt, að hv. 3. landsk. hafi haft orð á því, að hann sæi eftir viðlagasjóði inn í Búnaðarbankann; að hv. þm. væri, sem sagt, sárt um að breyta til með þann sjóð frá því, sem nú væri. Mjer þykir það ekki undarlegt, þótt hv. þm. hafi minst á þetta, því að við höfum áður átt tal saman um það, og jeg skal gjarnan játa það, að jeg tel hv. þm. hafa þó nokkuð til síns máls. En eftir því sem jeg hefi betur kynt mjer yfir höfuð starfsemi viðlagasjóðs, þá hefi jeg ekki sjeð ástæðu til þess að setja mig á móti því, að hann væri látinn renna inn í Búnaðarbanka Íslands, fyrst og fremst af því, að jeg tel sjóðinn muni verða í framtíðinni eins vel og jafnvel betur varðveittan þar og að hann geti eins unnið alþjóð gagn þar eins og hann hefir gert. Mjer hefir sem sje virst, við nánari athugun, að meðferðin á viðlagasjóði hafi, einkum upp á síðkastið, ekki verið eins góð og æskilegt hefði verið, og í rauninni er við því að búast. Það er Alþingi, sem venjulega ákveður, til hvers skuli notað það handbæra fje, sem til er á hverjum tíma og er ekki æfinlega sett í trygga staði. Það vill brenna við, þegar þurft hefir að veita lán í einhverja vafasama staði eða þá, sem mjög mikil tvísýna hefir verið um, hvort þeir gætu greitt lánin aftur, að þá hefir niðurstaðan orðið sú, að veita þau lán úr viðlagasjóði, og það mun koma á daginn, að hann hefir tapað og mun tapa töluvert miklu fje á þann hátt. Vitanlega má koma því svo fyrir, að hann fái það fje greitt aftur, en það kemur þá á ríkissjóð.

Nú er á ferðinni í fjárlögum ákvæði um það að gera nýjar ráðstafanir um ýms lán, sem veitt hafa verið úr viðlagasjóði, og er fyrirsjáanlegt, að hann hlýtur að tapa mjög miklu fje. Mjer virðist því svo, ef haldið verður áfram á þessari braut, að annaðhvort tapi hann mjög miklu fje, eða þá að ríkissjóður verði að bæta honum það upp, sem hann tapar. Jeg hefi þá trú, að viðlagasjóður komi þarna að fullkomnum notum fyrir þjóðfjelagið, þar sem hann verður settur, og þar er hann tryggari fyrir skakkaföllum heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er á honum.