17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg vil þakka hv. fjvn. fyrir starf hennar, því þrátt fyrir það, þó að jeg hefði kosið, að það hefði gengið greiðara, þá verð jeg að játa, að þar var mikið verk að vinna. Ýmiskonar fjárbeiðnum og umsóknum fer fjölgandi með ári hverju og það verður æ erfiðara fyrir fjvn. að pæla í gegnum alla þá skjalabunka og taka ákvörðun um, hvað gera skuli. Jeg verð að líta svo á, að yfirleitt beri till. n. vott um, að hún vilji fara gætilega. Það eru tiltölulega fáar till. hennar, sem hægt er að segja um, að sjeu gersamlega óþarfar. Jeg játa fúslega, að ekki væri hjá því komist að hækka gjaldahlið fjárl., og yfirleitt get jeg fallist á flestar þær hækkanir, er n. flytur. Þá hefir n. hinsvegar til að jafna hallann tekið það ráð að hækka tekjubálkinn. Nú er það svo, að sá tími, er fjárlögin eiga að gilda um, er svo langt framundan, að engu er hægt um það að spá, hvernig árið muni reynast, og það þýðir ekki mikið að deila um, hvort þessi eða hinn liðurinn sje of hátt eða lágt áætlaður. En jeg geri ráð fyrir, að verði slæmt árferði 1930, þá sje hæpið, að áætlunin fái staðist. En hinsvegar vil jeg ekki halda því fram, að hún sje sjerstaklega óvarleg.

Jeg skal að öðru leyti ekki fara út í einstakar brtt. Jeg vil mega vænta góðrar samvinnu við hv. fjvn. og vona, að hún haldi þeirri stefnu, er hún hefir tekið upp, að veita ekki aðgang að fjárlögunum óþörfum útgjöldum. Eins vænti jeg góðrar samvinnu við hv. deild, að hún afgreiði frv. greiðlega og vinni að því, að því verði skilað tekjuhallalausu. Í frv. er óvenjumikið fje ætlað til ýmiskonar verklegra framkvæmda og þarfra fyrirtækja, og ættu hv. þm. því fremur að geta neitað sjer um að knýja fast á með fjárbeiðnir, er beðið geta eða eru að meira eða minna leyti óþarfar.