17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

16. mál, fjárlög 1930

Haraldur Guðmundsson:

Jeg hefði gjarnan viljað tala nokkuð um frv. alment, því eins og venja er til, þá er fremur lítið gert að því við 1. umr. En jeg býst þó við að sleppa því að mestu. Þó að jeg hafi ritað undir nál. fyrirvaralaust, þá eru það þó allmörg atriði, sem jeg ekki er samþykkur og hefi óbundnar hendur um, þegar til atkvgr. kemur. Skal jeg að sinni aðeins minnast á tvær till. n.

í frv. áætlar stj. tekju- og eignarskatt 1050000 kr. Þetta færir n. upp í 1100000 kr. Þessa hækkun byggir n. á niðurstöðu 3 síðustu ára og horfum um gott árferði. En hvorki í frv. eða í till. er gert ráð fyrir, að stj. neyti heimildarinnar til að heimta inn tekjuskattsviðaukann. Þessu er jeg gersamlega ósamþykkur. Jeg lít svo á, að skattinn beri að áætla með það fyrir augum, að þeirrar heimildar verði neytt.

Í frv. er gert ráð fyrir tekjum af skólagjöldum, 15000 kr. Jeg er einnig andvígur þessum lið og mun greiða atkv. með brtt. á þskj. 348, frá hv. 2. þm. Reykv., um að fella hann niður, og þá líka aths. við 14. gr. B. VII.

Það eru að sjálfsögðu margir aðrir liðir, sem mjer þætti ástæða til að tala nokkuð um, en sem jeg mun þó ekki gera að sinni.

Undir þennan kafla fjárl. falla nokkrar brtt., sem jeg er aðalflm. að eða meðflm. Er það þá fyrst brtt. á þskj. 345, II., sem jeg og hv. þm. Borgf. flytjum. Ef hv. þdm. líta í fjárlfrv. stj. og bera það saman við fjárlfrv. fyrri ára, þá munu þeir sjá, að aftan við 3. lið 10. gr. er bætt nýjum málslið, sem er gengismunur á upphæðunum í 8. gr. og 10. gr. III. 1–3, samtals 25 þús. kr. Jeg verð nú að álíta, að sjálfsagt sje, að allar þær upphæðir, sem greindar eru í fjárlögunum, sjeu taldar í ísl. kr., því niðurstaða fjárl. verður þó altaf að sjást í ísl. krónum. Í frv. stj. fyrir 1930 er brugðið út af þessu. Þar eru laun sendiherra og kostnaður við meðferð utanríkismála og ríkisráðskostnaður færður eins og það væri ísl. kr., en 5. liðurinn upplýsir, að þar er átt við danskar kr. Till. okkar hv. þm. Borgf, er því sú, að þessu verði breytt og að sú raunverulega upphæð verði talin í hverjum lið í ísl. krónum og 5. liður feldur niður. Þetta breytir 10. gr. ekkert að efni til, en veldur aftur á móti efnisbreyt. á 8. gr. hvað snertir borðfje konungs. Það er að upphæð 60 þús. kr. og er þar að sjálfsögðu átt við ísl. krónur, en sú venja hefir verið upp tekin í fullu heimildarleysi að greiða þetta í dönskum krónum. Þessu ætlast hæstv. stj. og fjvn. til, að enn sje fylgt, eins og sjá má af 5. lið 10. gr. III. Nú erum við hv. þm. Borgf. og jeg sömu skoðunar um þetta og í fyrra og leggjum til, að þessu verði breytt, svo að allar greiðslur fjárl. sjeu taldar í ísl. kr. og gengisuppbót af borðfje konungs þar með feld niður.

Þá á jeg aðra brtt. á þskj. 345, IV. ásamt hv. 3. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Ísf., um að veita Ólafi Stefánssyni á Ísafirði 3000 kr. upp í kostnað við að leita sjer lækninga í París við krabbameini í vjelinda. Vil jeg leyfa mjer að skýra hv. þdm. frá tilefni þessarar till. Jeg og meðflm. mínir lítum svo á, að hjer standi alveg sjerstaklega á. Saga málsins er sú, að þessi maður fjekk í fyrra sumar meinsemd í hálsinn og leitaði þá til læknis á Ísafirði. Mun læknirinn hafa litið svo á, að ef ekki væri aðeins um lítilfjörlega hálsveiki að ræða, þá væri krabbi í vjelindanu. En slík meinsemd hefir verið talin alls ólæknandi til þessa, og alls engin tök eru á að lækna hana hjer á landi. Áleit læknirinn rjettast að gera ekki manninn óttasleginn eða vonlausan, meðan ekki væri alveg fullvíst, að um krabbamein væri að ræða; ráðlagði hann því manninum að skola hálsinn, fara vel með sig og vera vongóður. Leið svo sumarið og batnaði manninum ekkert. Fór hann þá hingað suður og hittir hjer lækni, sem segir honum afdráttarlaust, að hann hafi krabbamein í vjelindanu, og hafi það hingað til verið talið ólæknandi. Spurði Ólafur þá lækninn að því, hvort það væri fullvíst, að ekki fengist lækning á þessu. Gaf læknirinn honum þau svör, að það væri talið nær ólæknandi og hjer væru engin tök á að lækna það, en þó væri í París læknir nokkur, er tekist hefði að hjálpa mönnum í þessu. Maðurinn sá, að ekki var nema um tvent að gera, að halda að sjer höndum og bíða dauðans hjer heima, eða reyna að ná til þessa læknis. Með hjálp góðra manna tókst honum að komast til París. Kostnaðurinn við þessa ferð varð mikill. Mun hann hafa greitt lækninum ca. 40 þús. frakkneska franka. Alls mun kostnaðurinn hafa verið um 10 þús. ísl. kr. Þegar maðurinn kemur heim aftur, líður honum nokkru betur. En svo versnar honum aftur í vetur, og var að lokum komið svo, að hann kom engum mat niður. Var hann þá fluttur hingað suður og tókst að víkka vjelindað nokkuð. Líður honum nú nokkuð betur, en þó er alveg óvíst um bata. Maður þessi er efnalaus, svo að það er víst, að ef hann verður ekki styrktur neitt, verður hann að leita á náðir hins opinbera.

En það, sem jeg vildi sjerstaklega benda á í þessu sambandi og álít að styðji það, að þessi maður fái styrk, er það, að hjer stendur alveg sjerstaklega á. Maðurinn hefir enga von um að fá bata hjer á landi, en nokkra, ef hann getur komist til þessa erlenda læknis. Það er ekki nema um tvent fyrir hann að ræða: Annaðhvort að bíða dauðans eða komast til útlanda. Hvort ferð á læknisfund mundi bera tilætlaðan árangur, er ekki gott að segja um. Jeg vil leyfa mjer að benda hv. þdm. á það, að flestir þeirra, er lækningu fá hjer heima, eru meira og minna styrktir af opinberu fje; ríkið leggur stórfje til lækna og sjúkrahúsa. Er því ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að styrkja þá eitthvað til utanferða, er ekki geta fengið lækningu hjer heima. Jeg skal geta þess, að umsókn þessi var send landlækni til umsagnar og staðfesti hann það, sem jeg hjer hefi sagt, í öllum greinum og gerði það að till. sinni til fjvn., að þessum manni væru veittar 3000 kr. Er það sú upphæð, er jeg hefi tekið hjer upp í till. mína.