17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Jeg hefi ekki mörg orð að segja til þess að lýsa afstöðu fjvn. til hinna ýmsu brtt. Þær eru ekki margar og sumar þeirra hafa verið teknar aftur. Jeg sje líka, að sumir hv. flm. eru ekki viðstaddir, og því minni ástæða að fjölyrða um till. þeirra.

Fyrsta till. er um skólagjöldin, að þau falli niður. Það er nú búið að flytja þetta mál á mörgum þingum, svo að það er engin ný bóla. Það hefir verið rætt áður, og sje jeg ekki ástæðu til að taka upp þær umr., en afstaða fjvn. er sú, að meiri hl. hennar vildi ekki fallast á brtt. En fyrir þinginu liggur nú frv., sem mundi breyta þessu atriði, ef það yrði samþ., og finst n. ástæða til að bíða og sjá, hvernig því reiðir af.

Næsta till. er þess efnis, að breyta III. lið 10. gr. Hv. flm. láta svo um mælt, að till. þeirra orsaki ekki efnisbreyt. á 10. gr.; upphæðin breytist ekki, heldur sje rjettara að hafa þetta í íslenskum krónum. N. játar að vísu, að brtt. skifti ekki miklu máli fyrir niðurstöðu 10. gr., en þó má hugsa sjer, að þetta geti haft veruleg áhrif. Eins og allir vita, eru peningar okkar ekki fastir, og ef svo færi, að krónan hækkaði, sem er vilji ýmissa þingmanna, mundi þetta hafa þau áhrif, að hækka útgjöldin. Jeg er ekki að spá neinu, en bendi aðeins á, að þessi möguleiki er hugsanlegur, einkum frá sjónarmiði þeirra hv. þm., sem halda fast fram hækkun krónu okkar, svo sem er um hv. flm. Niðurstaðan í n. varð sú, að meiri hl. hennar leggur á móti brtt. Jeg skal þó taka fram, að þetta er ekkert höfuðatriði fyrir n. Hinsvegar gat hv. aðalflm. um það, að till. breytti að nokkru 8. gr., því að ef hún yrði samþ., þá fjelli niður gengismunur af konungsmötu. Jeg held, að ekki sje annað sjáanlegt en að sú gengisupphæð sje veitt í fullri heimild þingsins, þar sem hún hefir verið samþ. á hverju ári, enda er ekki nema eðlilegt, að gengismunurinn sje greiddur sem einskonar dýrtíðaruppbót, eins og gerist hjá öðrum embættismönnum ríkisins.

Þriðja till. er tekin aftur, en 4., 5., 6. og 7. till. hníga allar að því sama. Þær fara sem sje fram á, að ríkið veiti sjúkrastyrk nokkrum mönnum, sem þurfa að fara utan til þess að leita sjer læknishjálpar. N. sjer ekki annað en að eitt verði yfir þessar till. að ganga. Það er ekki auðgert að gera upp á milli þessara sjúkdómstilfella, og meiri hl. n. komst að þeirri niðurstöðu, að samþykt þeirra mundi draga óþægilegan dilk á eftir sjer, og því ekki rjett að gefa fordæmi í þessa átt. Það er að vísu erfitt að mæla á móti slíkum styrkjum til manna, sem eru hjálparþurfar, en n. gat þó ekki sjeð sjer fært að verða við þessu, af því að sjáanlegt er, að mikill fjöldi manna mundi þurfa líka hjálp og ríkið mundi ekki geta hjálpað þeim öllum. Enda álít jeg, að ef fært er að hjálpa þeim, þá sje óheppilegur dómstóll fyrir það hjer á Alþingi, því að gögn í einstökum tilfellum gætu aldrei verið lögð svo fyrir þingið, að víst væri, að úrskurður þess yrði rjettlátur. Það væri þá miklu rjettara að taka til einhverja upphæð í þessu skyni og fá svo sjerstaka menn, læknisfróða, til að fjalla um styrkveitingarnar. Jeg vil benda á, að þetta segi jeg frá mínu eigin brjósti, en ekki fyrir hönd n.

Fyrir 8. till. hefir ekki verið mælt, og mun jeg bíða eftir, að hv. flm. tali fyrir henni.

9. till. fer fram á, að hækkað verði framlag til Öxnadalsvegarins um 5000 kr. Meiri hl. n. leit svo á, að nú væri veitt svo mikið fje til vegagerða yfirleitt, að hann treysti sjer ekki til að mæla með þessu. Er það tillaga vegamálastjóra, að unnið verði þarna fyrir 10 þúsund krónur. Verður upphæðinni varið til viðgerðar á verstu köflunum frá Bægisá fram Öxnadalinn. Er von um, að leiðin Öll geti orðið fær til bráðabirgða. Og nú í sumar komanda verður bygð brú yfir Öxnadalsána. Jeg dreg það ekki í efa, að gott væri að geta veitt meira fje til þessa vegar. En þess ber að gæta, að þörfin er víða fyrir hendi, og enda brýnni. En nú verður sem sagt bygð þarna brú og vegakaflar lagaðir, og verður þá allmikil vinna framkvæmd þarna. (BSts Það er ekki farið fram á þetta vegna atvinnunnar). En það er nú gott að haga svo framkvæmdum ríkisins, að vinnukrafturinn notist sem best. N. leggur þó ekki á móti þessu af því, að það sje ekki þarfur hlutur að gera þetta, heldur af því, að ekki er hægt að gera alt í einu, en þörf á framkvæmdum víða brýnni en hjer.

Þá er það 12. till. á sama þskj., nýr liður til byggingar vita á Selvíkurnefi við Siglufjörð. Um þetta hefir ekkert legið fyrir fjvn. Er henni því ókunnugt um þetta. En eftir því, sem hv. flm. till. hefir upplýst, þá hefir vitamálastjóri lagt á móti þessum vita og telur, að hann verði að skoðast sem hafnarviti eingöngu, en ekki nauðsynlegur vegna almenningsþarfa. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, er hjer aðeins um innsiglingarvita á höfnina að ræða. Jeg er nú ekki svo kunnugur, að jeg viti fyrir víst, hvar Selvík er, en eftir till. vitamálastjóra leggur n. á móti því, að upphæð þessi verði veitt.

Þá á jeg eftir að minnast á 11. till. á sama þskj. Hún er frá hv. 1. þm.

S.-M. og er að upphæð 12 þús. kr. Á hún að vera til loftskeytastöðvar í Papey, með miðunartækjum, að því tilskildu, að samningar takist við búanda þar um hóflegt starfrækslugjald. N. hafði þetta til athugunar og boðaði landssímastjóra á sinn fund til þess að fá álit hans. Áleit hann, að stöð þessi yrði svo dýr í starfrækslu, að hann treysti sjer ekki til að mæla með því að hún yrði bygð nú, enda þótt hann viðurkendi, að þarft gæti verið að hafa stöð þarna. Síðan hefir þessu verið breytt og farið fram á ódýrari stöð. Hefir þetta ekki verið borið undir landssímastjórann að nýju. En afstaða fjvn. er sú, að hún treystir sjer ekki til að mæla með 12 þús. kr. fjárveitingu til þessa, enda lítur hún svo á, að ef landssímastjóri álítur það nauðsynlegt, að þessi stöð gangi fyrir öðrum, þá er heimilt fyrir hann að láta reisa hana af því fje, sem gengur til nýrra símalagninga. — Hefi jeg svo ekki fleira að segja fyrir hönd n. að sinni.