17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

16. mál, fjárlög 1930

Benedikt Sveinsson:

Hv. frsm. fjvn. hefir nú gert grein fyrir því, hvers vegna sú n. vill hækka styrk til akfærra sýsluvega úr 40 upp í 45 þús. kr. Hitt er aftur á móti ekki ljóst, hvar hún ætlast til, að sú hækkun komi niður. Það er engin skýrsla gefin um það, hverjar sýslur eigi að njóta þeirrar hækkunar. Með því að mitt kjördæmi hefir farið mjög varhluta af styrk til sýsluvega, en þörf er mikil fyrir hann þar, þá vil jeg beina því til hv. samgmn. og vegamálastjórnarinnar, að allríflegum styrk verði varið af fje þessu til þess að leggja akfæran veg frá Kópaskeri um Sljettu til Raufarhafnar. Norður-Þingeyingar hafa bæði lagt fje og fyrirhöfn í það að gera þennan veg. Hafa þeir nú lagt og rutt hálfa leið, eða út undir Sigurðarstaði á Sljettu, svo að fara má á bifreiðum besta hluta ársins. Er þá eftir að leggja veg þaðan yfir Raufarhafnarheiði til Raufarhafnar. Leggja hjeraðsmenn nú mikinn hug á að koma fram vegagerð þessari, enda er þeim hin mesta nauðsyn að fá veg þennan sem allra fyrst, því að um þennan kafla hjeraðsins er nú veglaust með öllu. En fátæku sýslufjelagi er það ofvaxið að koma þessu verki fram styrklaust, og mæli jeg því eindregið fram með þeim óskum hjeraðsmanna, að vegamálastjórnin veiti þeim sem ríflegastan styrk af sýsluvegafjenu. Og í því trausti greiði jeg atkv. með fyrnefndri hækkun á þessum lið.

Þá vildi jeg minnast á 26. brtt. hv. fjvn., um það, að lækka þann lið, gististyrk, úr 4 þús. niður í 3 þús. kr. Þessi styrkur er veittur bændum, sem búa á afskektustu býlum við erfiða og hættulega fjallvegi eða óbygðir. En hv. frsm. fjvn. upplýsti, að þessi lækkun stafaði af því, að bygt hefði verið upp í Bakkaseli og bóndinn þar verði því ekki framvegis styrktur. Ljet hann í ljós, að þetta væri ekki gert til þess að draga úr styrk til annara þeirra bænda, sem búa á þessum afskektu stöðum. En nú vil jeg upplýsa það, að dregið hefir verið mjög úr styrk þeim, er bóndinn á Hrauntanga hefir haft. Hrauntangi er á Axarfjarðarheiði miðri. Og svo örðugt er að búa þar, að það má teljast ógerlegt án styrks, enda hefir jörð þessi legið í eyði öðru hverju og stundum mörg ár samfleytt. Bær þessi er á einhverjum lengsta fjallvegi landsins og þörfin því brýn, að hann fari ekki í auðn. Ábúandinn er fátækur maður, sem haldist hefir við í þessu harðindabæli vegna styrks þess, er hann fjekk, sem var fyrir 2–3 árum 600 kr. En nú hefi jeg fengið brjef frá þessum bónda og tjáir hann mjer í því, að 1927 hafi styrkurinn verið lækkaður niður í 350 kr., og síðastl. ár hefir hann enn verið lækkaður niður í 250 kr. Skilur bóndinn, sem vonlegt er, ekkert í, hverju þetta sætir. Býst hann við að verða að hætta búskap þarna, ef leiðrjetting fæst ekki á þessu. Sýnir það best, hvernig þarna er að búa, því nú er þó einmuna góðæri. Hvernig mun það þá vera, þegar veðrátta harðnar, svo að jafnvel ægir bændum í lágsveitum, eins og mörg dæmi eru til hjer á landi. Jeg hefi reynt að ná tali af vegamálastjóra til þess að fá að vita, hvernig á þessari lækkun stendur, en mjer hefir ekki tekist það. Skora jeg því á hv. form. samgmn., að hann sjái um, að rjettur verði hlutur þessa manns og að þetta verði leiðrjett. Vænti jeg og, þegar skýring er fengin á þessu, að bóndanum verði bættur upp styrkur undanfarandi áratveggja.

Þá er jeg meðflm. að 8. brtt. á þskj. 345, um það, að uppbót verði veitt Friðriki pósti Jónssyni vegna langvinnrar heilsubilunar, er hann hefir hlotið af ofreynslu í póstferðum, 3000 kr. Samskonar till. hefi jeg flutt áður, fyrir tveimur árum. Flaug hún þá í gegnum Nd., en var feld í Ed. Hygg jeg, að það hafi stafað af ókunnugleika, því að hjer í deildinni, þar sem nóg var kunnugra manna til að gefa þær upplýsingar, er nauðsynlegar voru, vanst henni ærið fylgi. Jeg býst nú enn við, að þessi till. muni ganga greiðlega gegnum þessa hv. deild og þurfi því ekki að mæla langt mál fyrir henni. Friðrik hefir gegnt póstferðum frá 1903 til 1928. Hann hefir annast póstflutning frá Grenjaðarstöðum að Víkingavatni. Er þá yfir Tunguheiði að fara, sem er ein af erfiðustu fjallvegum þessa lands, sökum snjóþyngsla, brekkna, gljúfra, þvergilja og margvíslegrar mannhættu. Er henni helst að líkja við Seyðisfjarðarheiði, Heljardalsheiði eða aðrar slíkar, sem illræmdar eru. Þegar jeg flutti till. mína í fyrra skiftið, hafði jeg og lagði fram vottorð frá fjórum læknum, sem vottuðu, að heilsuleysi Friðriks pósts stafaði af langvarandi áreynslu, vosbúð og þreytu. Lá hann í 8 vikur eftir eina slíka ofraun í póstferð. Munu vottorð þessi enn vera geymd hjer meðal skjala Alþingis, þótt jeg hafi þau nú eigi handa í milli, en jeg veit, að margir hv. þm. muna eftir þeim.

Um leið og jeg skírskota til áðurgreindra vottorða frá læknunum, óska jeg, að hv. þd. endurveiti nú þessar 3000 kr., sem fram á er farið. Pósturinn hefir að vísu sótt um hærri fjárhæð, en þótt jeg telji hann maklegan þess, er hann fer fram á, þá hefi jeg þó eigi talið þá umsókn hans vænlega til framgangs. En hjer er stilt svo í hóf um fjárhæðina, að hún ætti greiðlega fram að ganga.