17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

16. mál, fjárlög 1930

Sveinn Ólafsson:

Jeg veit ekki, hvort jeg hefi heyrt rjett það, sem hv. frsm. sagði, en jeg held þó, að hann hafi lagt á móti brtt. minni, nr. XI. á þskj. 345 við þennan kafla fjárl. Fjárveitingin er til loftskeytastöðvar í Papey með miðunartækjum. Satt að segja kom mjer það á óvart að fá slík mótmæli, en hitt furðar mig þó meira, að hv. frsm. byggir mótmæli sín einkum á því, að landssímastjóri hafi ekki treyst sjer til að mæla með þessari till. Jeg hefði frekar getað búist við því, að hv. fjvn. hefði snúið sjer til forstjóra veðurstofunnar, fyrst hún fór að leita annara ráða. En forstjóri veðurstofunnar og vitamálastjórinn hafa lagt með þessari fjárveitingu, og landssímastjórinn einnig að vissu leyti, þótt ekki leggi hann kapp á þessar framkvæmdir. Það er skiljanlegt, þó hann leggi ekkert kapp á þetta. Það verður ekki sjerstaklega til tekjuauka fyrir landssímann, sem ekki er vonlegt. Þessi till. er ekki flutt í þeim tilgangi, heldur vegna þeirra mörgu manna, sem lengi hafa eftir þessu beðið með þögn og þolinmæði og þráfaldlega þurfa að leita til eyjarinnar í sjávarháska og aðvara um þarfir sínar. Jeg verð að minna á það, að hjer er farið fram á lítilfjörlega almenningshjálp í einu af tekjuauðugustu hjeruðum landsins fyrir ríkissjóð, í hjeraði, sem engar fjárveitingar fær til hafnarvirkja, lendingarbóta, vita eða annars, sem sjómenn varðar. Hafnirnar góðu og lendingarnar hefir náttúran lagt til og vitabyggingar þarna eru látnar bíða meðan aðrir landshlutar fá sína vita. Til þessa hjeraðs er ekkert fje heldur lagt til vega og samgöngubóta á landi, svo teljandi sje, þó að önnur hjeruð fái tugi eða jafnvel hundruð þúsunda kr. til slíkra framkvæmda, enda þótt þau greiði 10 sinnum minna fje í ríkissjóð en Suður-Múlasýsla, og gætir lítillar sanngirni í þvílíkri úthlutun fjárins.

Um þessar slóðir, við Papey, fer nálega 1/6 hluti af þeim fiskibátum, sem til eru á landinu. Í Suður-Múlasýslu einni voru 1927 179 bátar neðan við 12 smálestir, auk nokkurra stærri skipa, og er það meiri bátafjöldi en í nokkru öðru hjeraði. Gullbringu- og Kjósarsýsla og Ísafjarðarsýslur báðar koma næstar með bátatölu, og eru þó mun lægri. Fyrir útgerðarmenn á þeim slóðum, sem till. mín ræðir um, er ekkert gert í fjárlfrv. því, sem fyrir liggur; þess vegna bjóst jeg við, að till. yrði sýnd sú nærgætni, að lofa henni mótspyrnulaust að koma undir atkv.

Þessi fjárveiting, sem till. mín fer fram á, er því skilyrði bundin, að samningar takist milli ráðh. og búanda í Papey um hóflegt starfrækslugjald við loftskeytastöðina, og mun bað vafalaust takast með góðu móti. Í öðru lagi má benda á það, að tæpur helmingur upphæðarinnar, sem um er beðið, eða 4500 kr., er viðbót við áætlun landssímastjóra, eftir ósk vitamálastjóra, til þess að fá úr því skorið, hvort hægt sje að nota miðunartækin í sambandi við svona litla loftskeytastöð. Í þessum efnum vantar reynslu, sem mikilsvert er að fá, og þarna er best afstaða til þess, þar sem fjölfarin leið er fyrir millilandaskip. Hjer er um að ræða sjálfvirkt miðunartæki, sem unnið getur um nætur og sett verður í samband við loftskeytastöðina um stundarsakir. Að lokinni reynslu þarna. má flytja það á annan stað, ef reglulegur miðunarviti kemur nærlendis, svo þess þurfi ekki.

Jeg ætla ekki að tefja tímann á því að tala um aðrar brtt., sem fyrir liggja; þær eru misjafnlega rjettmætar, eins og venja er til, og mun jeg við atkvgr. sýna skoðun mína á þeim. Jeg vil þó taka það fram, að jeg álít, að bending hv. frsm. um fjárveitingu af símafje í sambandi við Suðurlandslínuna, til símalagningar í Suður-Múlasýslu, er enginn fengur fyrir hjeraðið. Hjeraðsbúar hafa aldrei beðið um símalínu frá Fáskrúðsfirði til Hornafjarðar. Sú lína gerir aðstöðuna auðvitað hagkvæmari fyrir landssímann, en hefir sáralitla þýðingu fyrir hjeraðsbúa, og síst af öllu getur sú símalína jafngilt loftskeytastöðinni. Það hafa verið reistar loftskeytastöðvar hjer og þar annarsstaðar á landi hjer, þar sem minna tilefni var til en í Papey; má því til sönnunar nefna Fagurhólsmýri í öræfum og fleiri staði. Þó að jeg sje ekki kunnugur staðháttum á hverri stöð fyrir sig, þá þori jeg að fullyrða, að þörfin fyrir loftskeytastöð er hvergi meiri hjer á landi utan Reykjavíkur en í Papey. Aðiljarnir þrír hafa mælt með byggingu stöðvarinnar: Vitamálastjóri, veðurstofustjóri og landssímastjóri, eins og jeg hefi áður skýrt frá. En þyngstar á metunum eru þó og eiga að vera óskir þeirra mörgu manna, sem sífeldlega eiga leið um hættulegt siglingasvæði suðaustan lands, manna, sem lítið eða ekkert er gert fyrir af hálfu hins opinbera, þrátt fyrir það, þó að þeir sjeu meðal stærstu gjaldþegna ríkissjóðs.