17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

16. mál, fjárlög 1930

Hannes Jónsson:

Jeg á enga brtt. við þennan kafla fjárl. Stafar það af því, að jeg hefi verið að bíða eftir upplýsingum frá vegamálastjóra um, hvort þær 35 þús. kr. muni nægja, sem í þessa árs fjárl. eru ætlaðar til þess að gera bílfæran þjóðveginn um Vestur-Húnavatnssýslu, einkum vegarkaflann frá Miðfjarðará vestur á Hrútafjarðarháls. Jeg hafði ekki fengið fullvissu um þetta, en vegamálastjóri sagði mjer áðan í símtali, að þessi upphæð mundi nægja til þess að fullgera veginn vestur í Hrútafjörð. Þar er ekki um annað fje að ræða, því að í þessu fjárl.frv. er engin króna ætluð til vegagerða í Vestur-Húnavatnssýslu. Annars er ýmislegt undarlegt um stj. vegamálanna í Húnavatnssýslu. Þeir, sem farið hafa yfir Holtavörðuheiði, hafa vafalaust tekið eftir því, hvað vegirnir fyrir norðan hana eru ljelegir. Þeir eru á köflum svo illa bygðir, að eftir hálft missiri mega þeir heita ófærir fyrir bíla. Malarlagið er haft svo þunt, til þess að geta teygt vegina sem lengst fyrir sem minst fje, og stundum er ekki unnið upp það fje, sem ætlað er til þessara vega, og er því þá varið til vega á öðrum stöðum. Jeg sje ekki, að það sje nokkurt vit í slíkum frágangi á vegunum og álít, að þessi stj. á vegamálunum sje með öllu óhæf. Jeg býst við að flytja við 3. umr. brtt. við 13. gr. fjárl., því að jeg get ekki sjeð, að það þurfi að leggja svo mikið kapp á vegagerð á Holtavörðuheiði, að ætla til þess 70 þús. kr., þegar vegurinn er ófær fyrir norðan heiðina. Það er ekkert gagn í því fyrir menn að fara upp á heiðina á bílum, ef þeir komast ekki lengra.

Jeg hefi heyrt, að þær 10 þús. kr., sem standa í fjárlagafrv. til Hrútafjarðarvegar, væru ætlaðar til vegarins frá Holtavörðuheiði að Hrútafjarðará, og þaðan austanmegin fjarðarins. En vegamálastjóri telur nauðsynlegt að koma veginum til Borðeyrar og mun ætla þá upphæð til þess. Já, afskaplega er það víst nauðsynlegt! Á svo að láta ferðamennina synda þaðan austur yfir fjörðinn? Það væri fremur þægilegur vegur fyrir bílana! Því jeg geri ráð fyrir, að það muni þykja dýrt að leggja brú yfir fjörðinn. Jeg held, að það sje miklu nauðsynlegra að fá veginn fullgerðan sem fyrst austur um Húnavatnssýslu; þá leið fer aðalferðamannastraumurinn, enda er ætlast til þess, að póstur verði fluttur með bílum úr Borgarfirði norður um Húnavatnssýslu. Þó að oft sje vel fært fyrir bíla um sýsluna, þá eru víða kaflar á veginum, sem ómögulegt er að koma bílum yfir, ef nokkuð ber út af. Jeg álít sjálfsagt að láta það sitja fyrir að gera samfeldan, akfæran veg yfir sýsluna, og yfirleitt um sveitirnar, og taka svo heiðarnar á eftir. En að byrja á vegalagningu á miðri Holtavörðuheiði og halda þaðan bæði suður og norður af, það er fjarri öllu viti. — Nei, hjer er farið alveg öfugt að. Og akvegirnir í Húnavatnssýslu eru ekki svo góðir, að þeir megi við því, að ekkert sje að þeim unnið í heilt ár. Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir neinu framlagi þangað. En jeg býst við, að í sumar þurfi talsvert mikið fje þeim til viðhalds.

Jeg hefi álitið, að það væri stefnu þingsins og kappsmál að koma akveginum sem fyrst úr Borgarfirði um Húnavatns- og Skagafjarðarsýslu, alla leið til Akureyrar eins og aðalsímalínunni, áður en farið væri að hugsa um aukaálmur frá þeim vegi. En ef það á að hlaupa yfir heilar sýslur að miklu leyti, þá verður lítið gagn meðal annars að þeim 70 þús. kr., sem fleygt er í veginn á Holtavörðuheiði. Þær koma a. m. k. seinna að notum heldur en ef þær væru notaðar til þess að fullgera fyrst akveginn í sýslunum. Jeg fjölyrði ekki meira um þetta nú, en rökstyð það betur um leið og jeg ber fram brtt. mína.

Þá langar mig til að minnast á 12. gr. Við hana eru komnar fram allmargar brtt. um sjúkrastyrki til einstakra manna. Jeg álít, að það sje ekki fært að taka upp þá stefnu, að ríkissjóður styrki menn til lækninga. Jeg hefi verið beðinn að flytja till. um einn slíkan styrk, handa ungum manni, sem er að missa sjónina. Hann hefir enga bót getað fengið, en verið ráðlagt að sigla til að leita sjer lækninga, þó að engin vissa sje fyrir, að það beri árangur. Jeg hefi ekki ráðist í að bera fram slíka till., af því jeg lít svo á, að ríkissjóður geti ekki fullnægt slíkum kröfum. Það er ekkert vit í að leyfa einstökum mönnum að ryðja sjer til rúms með slíkar styrkbeiðnir og fá þeim framgengt alveg án tillits til rjettlætis. Það minsta, sem þingið getur gert, er að gæta samræmis í þessum efnum. En það gengur nú svo, að þeir, sem frekastir eru til fjárins, fá sínum kröfum framgengt. Hv. þdm. verða að gera sjer grein fyrir því, að þegar fyrsta sporið er stigið á þessari hálu braut, þá kemur annað á eftir. Og hlutdrægni í þessum efnum er þinginu ekki til sóma. Jeg verð því að þessu leyti sjálfum mjer samkvæmur og greiði atkv. á móti þessum styrkbeiðnum. En ef þær verða samþ. á ríkissjóðinn, þá getur skeð, að jeg komi með brtt. við 3. umr., sem hefir fullkomlega eins mikinn rjett á sjer eins og þessar til að komast að.