17.04.1929
Neðri deild: 47. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Ingólfur Bjarnarson):

Jeg vil aðeins með fáum orðum víkja að ummælum nokkurra hv. þm. Hv. þm. N.-Þ. vjek að því, að n. hefir lagt til að auka framlag ríkissjóðs til sýsluvega, og spurði, hvar sú aukning ætti að koma niður. N. hefir enga aðstöðu til þess að gera nokkrar ákvarðanir um það. Jeg hygg, að sýslumar sendi sínar beiðnir um fjé til sýsluveganna á móti því framlagi, er þær treystast sjálfar til að inna af hendi. Ef ekki eru meiri umsóknir úr sýslunum en fjárveiting er fyrir í fjárlagafrv., er hægt að fullnægja öllum slíkum óskum skilmálalaust. Verði umsóknirnar hinsvegar hærri en upphæð sú, sem veitt er í þessum fjárlagalið, skilst mjer að verði að draga hlutfallslega jafnmikið af hverjum umsækjanda, til þess að öllum sje gert jafnhátt undir höfði. Því hærri sem fjárveitingin er í fjárlögunum, því meiri líkur eru til þess, að viðkomandi sýslur fái óskir sínar uppfyltar.

Þá mintist sami hv. þm. á gistingastyrkina og einnig hv. 2. þm. Eyf. Vil jeg fyrst taka fram út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði, að n. gat ekki annað sjeð en að þær 1000 kr., sem veittar voru ábúandanum í Bakkaseli í núgildandi fjárl. sem byggingastyrkur, hlytu að falla niður þegar ríkið byggir þar upp. Hinsvegar hefi jeg talað við vegamálastjóraskrifstofuna um útbýting þessara árlegu styrkja undanfarið, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa skýrslu, er jeg hefi fengið hjá henni því viðvíkjandi. Hafa styrkirnir skiftst þannig:

Kleppustaðir 200 kr.

Tvísker 600 —

Hrauntangi 600 —

Bakkasel 700 —

Ytrikot 500 —

Arngerðareyri 200 —

Samt. 2800 kr.

Þá eru eftir af veitingunni 200 kr., sem gengið hafa til þess að greiða brunabótagjald af gistihúsinu í Fornahvammi og smáviðgerðir þar, málning o. fl. (Forsrh.: Það er til sjerstakur reikningur fyrir því). Við þessa skiftingu er það að athuga, að tillagið til Ytrikota er ekki fastur styrkur að öllu leyti og er hærra en venjulega. Sumt af tillaginu er styrkur til lítilfjörlegrar lagfæringar á húsinu það ár, en árlegur styrkur mun annars vera 300 kr.

Þá þótti hv. þm. N.-Þ. ábúandinn á Hrauntanga vera fyrir borð borinn í þessu efni undanfarið. Jeg vænti, að þetta hafi stafað af misskilningi hjá hv. þm., þar sem nú er upplýst, samkv. skýrslu frá vegamálaskrifstofunni, að manni þessum hafa verið greiddar 600 kr. árlega. Enda skildist mjer á hv. þm., að honum þykja sú upphæð nægileg. Aðeins vafi fyrir honum, hvort ábúandinn hafi fengið þá upphæð greidda. En það tel jeg nú upplýst. Eins og jeg áður tók fram er árlegi styrkurinn til Bakkasels ekki 1000 kr., heldur 700 kr. Eru þessar 1000 kr. veittar sem byggingarstyrkur auk hins árlega styrks, í eitt skifti. Áleit n., að sjálfsagt væri að fella þann styrk niður, er þessi breyt. hefir á orðið með jörðina, en árlegi styrkurinn, 700 kr., helst eigi að síður, þó líklegt sje, að önnur skipun verði þar á ger við það, að ríkissjóður byggir upp á jörðinni. Hygg jeg nú, að þetta sje upplýst.

Þá kem jeg að VIII. brtt., um uppbót til Friðriks pósts Jónssonar á Helgastöðum, vegna langvinnrar heilsubilunar, er hann hefir hlotið af ofreynslu í póstferðum, og er flm. hv. þm. N.-Þ. Er jeg ekki búinn að lýsa afstöðu n. til þeirrar till. Talaði hv. flm. mikið um það, að þessi maður hafi mist heilsuna fyrir áfall og erfiði, er hann hefir orðið fyrir í póstferðum, og nefndi sjerstaklega Tunguheiði í því sambandi. Í umsókninni, sem þinginu barst frá þessum manni, var að mestu talað um áfall, er hann hafði orðið fyrir á svo nefndum Hallbjarnarstaðakambi. En það skiftir í sjálfu sjer minstu máli. En jeg ætla sjerstaklega að taka það fram um þessa uppbót, að jeg veit ekki betur en að þegar manni þessum voru ákveðin eftirlaun fyrir póststörf, væru þau einmitt ákveðin nokkru hærri en venjulega vegna þessarar heilsubilunar, og það gert samkv. ósk hv. þm. N.-Þ. Hann hefir nú 450 kr. eftirlaun, sem að viðbættri dýrtíðaruppbót nema 630 kr., og eru það hæstu eftirlaun, miðað við aðra pósta, þó þau sjeu að vísu ekki mikil. Jeg býst við, að þetta hafi fallið úr minni hv. flm., en með þetta fyrir augum gat meiri hl. n. ekki mælt með því, að brtt. yrði samþ.

Þá á hv. þm. Ísaf. brtt. við 10 gr. HI. lið, og furðaði hv. þm. sig á því, að jeg skyldi telja þetta hækkunartill. Jeg sagði nú ekki, að till. væri hækkunartill., en benti á, að með breyttu skipulagi peningamálanna, sem meðal annars hv. þm. Ísaf. vill koma fram, gæti hún orðið til hækkunar. Hv. flm. gat þess, að það myndi vaka fyrir mjer, að jeg vildi ekki fella niður gengisuppbót á konungsmötunni. Er það rjett, að mjer finst slíkt ekki geta komið til mála, enda er engin trygging fengin fyrir því, að það verði gert, þótt till. hv. þm. Ísaf. verði samþ., heldur yrði gengisuppbótin þá að sjálfsögðu færð á óviss útgjöld, eins og hingað til.

Þá ámælti hv. 1. þm. S.-M. n. fyrir það, hvaða afstöðu hún hafði tekið til till. hans um loftskeytastöð í Papey. Það kann að vera, að n. eigi það ámæli að einhverju leyti skilið, en jeg held, að hv. flm. hafi tekið þar heldur djúpt í árinni. Hann gekk meira að segja svo langt að segja, að það, sem gengi til símans, t. d. frá Fáskrúðsfirði til Hornafjarðar, kæmi Austfjörðum ekki að neinum notum. Jeg veit þá ekki, hvað fyrir vakir um að veita nær 600 þús. kr. til Suðurlandslínunnar, ef ekki til þess fyrst og fremst að tryggja sambandið við Austfirði. N. gat ekki fallist á, að þessi till. væri svo rjettmæt, að hún ætti að ganga fyrir öðru. Einnig bar n. till. undir landssímastjóra, en hann lagði síður en svo kapp á, að hún næði fram að ganga. Forstjóri veðurstofunnar mælti að vísu með því, að þetta yrði gert, ef tök væru á, en ekki gat mjer skilist á honum, að um sjerstaka þörf vegna veðurathugananna væri þarna að ræða.

Hv. þm. V.-Húnv. þarf jeg litlu að svara fyrir n. hönd, en mjer fanst hv. þm. beina nokkuð hörðum ákúrum til vegamálastjóra fyrir framkomu hans og afskifti af vegamálum í Húnavatnssýslu, og finnast mjer þær ekki rjettmætar, því að hvergi hafa orðið eins miklar breyt. á vegum og einmitt í Húnavatnssýslu hin síðustu árin, þar sem jeg hefi farið um. Allar ár eru þar brúaðar og má komast á bíl um hjeraðið endilangt. Held jeg, að verið hafi fastar bílferðir milli Borgarness og Blönduóss alt síðastl. sumar, þótt þennan veg eftir sýslunni þurfi að sjálfsögðu að bæta, til þess að hann geti talist tryggur. Ef litið er til annara hjeraða að þessu leyti, er síst ástæða fyrir Húnvetninga að kvarta yfir því, að þeir sjeu afskiftir hvað vegi snertir, og fanst mjer þessi ásökun í garð vegamálastjóra því ekki sem rjettmætust.