18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg skal ekki eyða mörgum orðum í að skýra till. n., enda gerist þess varla þörf, þar sem allnákvæm grein er gerð fyrir þeim í nál.

Fyrsta brtt. n. er við 14. gr. B. I. c. og fer fram á, að 1000 kr. sjeu veittar til kenslu í söng. Þessi liður er í yfirstandandi fjárl. en hefir verið feldur niður í frv. stj. Fje þessu hefir verið varið til að kenna prestaefnum söng og tón. Lá fyrir n. till. frá rektor háskólans um það, að þessi fjárveiting fengi að standa áfram, og beiðni um hið sama frá öllum nemendum guðfræðideildar. Allir þeir, sem sækja kirkju að ráði, munu hafa tekið eftir því, hve mikill liður tónið er í guðsþjónustunni og hve mikið vantar í þann prest, sem ekki getur tónað vel. Jeg býst því við, að hv. þm. skilji, hve mikla þýðingu það hefir, að styrkur sje veittur í þessu skyni og geti því fallist á till. n. Jeg get bætt því við, að þessi kensla hefir farið fram í vetur og verið vel sótt.

Önnur brtt. n. er við 14. gr. B. I. k. Þetta er samfærsla á launum dyravarðar og ritara háskólans, og einnig gerð samkv. till. háskólarektors. Núv. dyravörður háskólans er orðinn aldraður maður, og er því gert ráð fyrir, að hann láti bráðlega af starfi, og telur háskólaráðið þá hentugra að sameina þessi störf og fela þau einum manni. Hefir háskólaráðið auga á ungum og efnilegum manni til þessa starfa. Launin verða þó því nær hin sömu og nú eru, eða 4000 kr., auk þeirra hlunninda, sem dyravörður hefir áður notið.

Þriðja brtt. n. er við 14. gr. B. II. c. og fer fram á, að þær 4000 kr., sem stj. leggur til að veittar verði í námsstyrki eftir till. Mentamálaráðs, verði hækkaðar upp í 8000 kr. Þetta er nýr liður í fjárl. og kemur í stað hinna ýmsu persónustyrkja. N. álítur þetta rjetta stefnu, að nema burt hina persónulegu nafnastyrki, en leggja til eina upphæð í þessu skyni, sem Mentamálaráðið úthluti. Þessir námsstyrkir hafa verið mesta vandræðamál og ilt við þá að eiga. Er ekki of fast að orði kveðið, þó að sagt sje, að þeir hafi verið eitthvert mesta bitbein þingsins. Þm. eru óánægðir með þá, þjóðin er óánægð yfir að sjá þessa nafnarunu í fjárl. og stúdentarnir sjálfir eru óánægðir með þá, vegna þess hve þeim er úthlutað af miklu handahófi, því að það er mest komið undir lagni og dugnaði einstakra þm., hvaða styrkir ganga fram. Þingið hefir engin tök á að afla sjer nægra upplýsinga í þessu og n. ekki heldur, og þó að hún gæti það, kemur það að litlu gagni, því að hún ræður ekki yfir atkv. þm. N. taldi því sjálfsagt að fara þessa leið, sem hæstv. stj. hefir tekið upp, en hinsvegar var n. sammála um, að 4000 kr. væri of lítið í þessu skyni og myndi því frekar leiða til þess, að persónustyrkirnir kæmust inn í fjárl. en ef upphæðin væri hærri. Leggur n. því til, að þessi liður verði hækkaður upp í 8000 kr.

Jeg verð að geta þess, að það var nokkur ágreiningur í n. um það, hvernig skilja bæri orðið „námsstyrkur“. Meiri hl. n. leit svo á, að þetta væri viðbót við 24000 kr., sem ætlaðar eru stúdentum til sjernáms erlendis í þeim lögum, sem hjer eru ekki kend, en nokkur hl. n. álítur, að ekki megi binda þetta eingöngu við stúdentastyrkina, heldur beri einnig að ætla þetta til styrktar kandidötum við framhaldsnám erlendis. Af þessu leiddi það, að meiri hl. n. leggur til, að tekinn sje upp nýr liður í 14. gr., um 1000 kr. styrk til Kristins Björnssonar læknis til framhaldsnáms í París. Vildi n. þar með sýna, að hún lítur svo á, að öðru máli gegni með þá stúdenta, sem orðnir eru fullnuma hjer í einhverri grein. Kemur þessi liður næstur á eftir námsstyrkjunum, undir B. II. e.

Þá kem jeg að bændakenslunni. Stj. hefir felt niður þá aths., sem er við þennan lið í yfirstandandi fjárl., en n. leggur til, að aths. verði tekin upp aftur, með því að hún lítur svo á, að verknámsstyrknum eigi eingöngu að verja til nemendanna sjálfra. Ætlast n. til, að skólastjórinn veiti piltum ókeypis fæði, húsnæði og kenslu. Er það í fullu samræmi við reglur þær, sem teknar hafa verið upp af B. F. Í. um verklegt nám, sem fram fer víðsvegar um landið hjá ýmsum bændum. Þeir verða að veita piltum hin sömu fríðindi, en auk þess mun piltum víðast greitt dálítið kaupgjald, og þegar þessi styrkur bætist við, mun það nálgast það kaup, sem greitt er í viðkomandi sveit. Þó að þetta mál verði tekið til meðferðar í milliþinganefnd, sá n. ekki ástæðu til að breyta um þetta að svo komnu.

Þá kemur 14. gr. B. XV. 3, til húsmæðrafræðslu í Vík í Mýrdal. Þessi liður er í núgildandi fjárl., en stj. hefir felt hann niður úr frv. Leggur n. til, að liðurinn verði tekinn upp aftur. Þetta fjelag, sem hjer á hlut að máli, fer fram á hærri styrk, en þótt n. viðurkenni fullkomlega, að starfsemi þess sje alls góðs makleg, sá hún sjer ekki fært að leggja til, að hærri upphæð yrði veitt, enda má gera margt gott fyrir 1500 kr.

Þá kemur nýr (rómv.) liður: Ýmsar íþróttir. N. áleit, að þetta ætti síður heima í 15. gr. innan um listir og vísindi, eins og nú er, og leggur því til, að það sje sett inn hjer, þar sem óneitanlega fer betur á því. Liðir þessir eru mest tilfærsla af 15. gr. Þannig haldast styrkirnir til Íþróttasambands Íslands og Björns Jakobssonar óbreyttir. En við bætast þó, eftir till. n., tveir nýir liðir. Sá fyrri er um 500 kr. styrk til Bandalags íslenskra skáta. Allir þekkja skátana. Þetta er mjög heilnæm og hressandi æskuhreyfing, sem mikið gott leiðir af. Skátarnir leggja stund á hollar útiíþróttir, sækja upp um fjöll og firnindi og læra auk þess ýmislegt gagnlegt, svo sem að binda um sár, „hjálp í viðlögum“ o. s. frv. Þeir sóttu um 1000 kr. styrk, en n. sá sjer ekki fært að ganga lengra.

Hinn liðurinn, sem n. leggur til að bætt sje við, er 4000 kr. styrkur til Glímufjelagsins Ármanns, til að sýna íslenska glímu í Þýskalandi. Þetta fjelag hefir tvisvar farið utan áður, í fyrra skiftið til Noregs, árið 1925, og til Danmerkur 1926, í bæði skiftin við góðan orðstír. Nú stendur til, að fjelagið sendi glímuflokk til Þýskalands á komandi sumri, undir stjórn hins ágæta íþróttafrömuðs Jóns Þorsteinssonar, og haldi þar glímusýningar í 20 borgum. Er þetta samkv. ósk og áskorun ýmsra Þjóðverja, sem kynst hafa íslenskri glímu. Fjelagið hefir aldrei áður notið opinbers styrks, en n. áleit sjálfsagt að sýna því viðurkenningu í eitt skifti fyrir öll og veita því 4000 kr. styrk til þessarar farar, til þess að standa undir förinni með því að nokkru leyti.

Þá kem jeg að 15. gr. Er þar fyrst 1. j., um ýmisleg gjöld Landsbókasafnsins. Af þessum lið er í núgildandi fjárl. heimilað að greiða 500 kr. upp í lækningakostnað dyravarðar safnsins. Er þessi upphæð þegar greidd, en gleymst hafði að fella aths. niður, þegar frv. var samið. Gerir n. það því að till. sinni, að svo verði gert, en hefir samt upphæðina óbreytta, samkv. eindregnum tilmælum landsbókavarðar.

Þá kemur 15. gr. 3. d. Fornmenjavörður fer fram á allmikla hækkun á þeirri upphæð, sem veitt er til Fornmenjasafnsins. N. sá sjer ekki fært að verða við kröfum hans nema að litlu leyti, en taldi þó nauðsynlegt að hækka þennan lið nokkuð. Svo er mál með vexti, að gerðar hafa verið allítarlegar fornmenjarannsóknir í sambandi við Bergþórshvol og víðar, en til þess að þær komi að fullum notum, þarf að kaupa ýms áhöld, sem fljótt ganga úr sjer. Er ætlast til þess, að nokkur hluti þessarar fjárveitingar gangi til þess, en hitt til viðgerðar á ýmsum fornmunum, sem nauðsynlegt er að gera við strax, svo að þeir skemmist ekki.

Þá kemur 15. gr. 3. e., til umbóta Hólakirkju, 1000 kr. Þessi liður er í yfirstandandi fjárl., en hefir verið feldur niður í frv. Hólakirkja er eina merkilega fornbyggingin, sem uppi stendur hjer á landi. Við erum algerlega sjerstæðir í þessu efni, miðað við aðrar þjóðir, sem eiga margar byggingar frá fornum tímum, því að allar þær byggingar, sem hjer hafa verið reistar, eru nú orðnar mold og aska. Af lýsingum á Hólakirkju má sjá, að hún hefir verið mjög merkileg, jafnvel listaverk á sínum tíma, enda mun það flestra manna mál, að sjálfsagt sje að gera við þessa merkilegu byggingu og færa til síns forna horfs. Í lok 19. aldar var Hólakirkja rænd í stórum stíl og gripir hennar seldir hingað til Reykjavíkur eða útlanda, en sem betur fer, er hægt að ná til flestra þeirra aftur eða fá „copiu“ af þeim. En til þess alls þarf fje, og væntanlega um nokkur næstu ár, en n. álítur, að hjer sje um gott mál að ræða, og leggur því til, að þessi upphæð, 1000 kr., sje veitt að þessu sinni.

Þá kemur 15. gr. 21. Þetta er nýr liður, 600 kr. ferðastyrkur til síra Jóns Sveinssonar. Lá fyrir beiðni frá vinum síra Jóns um, að hann fengi þennan styrk. Síra Jón hefir dvalið fjarri ættjörð sinni frá því að hann var barn, en hann hefir æ munað hana og meiri hluti hans víðfrægu sagna fjallar um ísl. efni og ísl. staðháttu. Nú mun hann ekki þrá neitt annað heitar en að líta ættjörð sína einu sinni áður en hann deyr, og þar sem hann er kaþólskur, virðist tilvalið, að hann komi hingað í sumar, því að þá á að vígja hina nýju og glæsilegu Landakotskirkju. Síra Jón er ekki svo efnum búinn, að hann geti farið þessa ferð upp á eigin spýtur, enda hefir hann ekki það frjálsræði vegna stöðu sinnar, að hann geti farið þessa för óboðinn, þótt aðrar ástæður leyfðu. En kunnugir menn telja víst, að honum muni förin kleif verða fjárhagslega og einnig auðsóttara um fararleyfi, ef hann fær opinbera hvatningu. Telur n. því sjálfsagt að verða við þessu.

15. gr. 22 þarf engra skýringa við. Viðkomandi maður er dáinn, svo sem kunnugt er, og fellur því þessi liður að sjálfsögðu niður. Sama er að segja um 15. gr. 35. og 36. Þessir liðir báðir hafa verið færðir yfir í 14. gr„ og hefi jeg gert grein fyrir þeim þar.

Þá kem jeg að 16. gr. Er þar fyrst liður 4, um gjöld samkv. jarðræktarlögunum. N. leggur til, að þessi liður verði hækkaður úr 300 þús. kr. upp í 375 þús. kr., sem er sama upphæð og goldin var árið 1928 til jarðabóta á árinu 1927. Má búast við, að þessi upphæð verði of lág, því að gera má ráð fyrir áframhaldandi aukningu í jarðabótum, eins og verið hefir undanfarið. Árin 1913–14 námu þessi gjöld 133 þús. kr., 1925 176583 kr., 1926 248 þús. kr. og 1927 374377 kr., eða samtals 932671 kr. Sýnir þetta, að sú upphæð, sem varið er í jarðræktarstyrk, fer vaxandi ár frá ári, og er það gleðilegur vottur um áhrif styrksins.

Þá kemur 16. gr. 15. g. Þetta er nýr liður, vegna flugferðanna, og settur samkv. tilmælum forstjóra veðurstofunnar. Það kom í ljós í sumar, að veðurstofan verður að afla sjer vegna flugferðanna veðurfregna víðar að og á öðrum tímum en ella. Verður þetta til að auka útgjöld stofunnar, og álítur n. því óhjákvæmilegt að veita fje til þessa. Þegar þess er gætt, að 1930 verður hjer óvenjumikið um flugferðir, vegna hátíðahaldanna, verður þessi upphæð síst of há.

Þá kemur 16. gr. 20 og 21. N. leggur til, að þessir liðir verði færðir inn í 13. gr. Hefir hv. frsm. fyrri kaflans gert grein fyrir þeim, svo að jeg get leitt það hjá mjer.

Þá kemur 16. gr. 24. N. leggur til, að þessi liður verði hækkaður úr 4000 kr. upp í 6000 kr., en það er sami styrkur og „Mjöll“ nýtur nú. N. sá ekki ástæðu til að lækka þennan styrk, með því að vitanlegt er, að þessi verksmiðja á við mikla örðugleika að stríða og litlar líkur eru fyrir því, að annar styrkur, sem verksmiðjan fer fram á, verði veittur.

Þá kemur 16. gr. 30. Þetta er nýr liður og fer fram á, að veittar verði 300 kr. til sambands austfirskra kvenna. Þetta samband er 3 ára og sótti nú um 500 kr. styrk. N. þótti þetta fullmikið, en það varð að samkomulagi í n. að leggja til, að veittar yrðu 300 kr., með tilliti til þess, að Samband norðlenskra kvenna nýtur nú 450 kr. í sama skyni.

Þá kemur 16. gr. 32. Er þetta sömuleiðis nýr liður. Landsfundur kvenna hefir tvisvar verið haldinn áður, og í bæði skiftin með styrk af opinberu fje. Konurnar fóru nú fram á 3000 kr. í þessu skyni, vegna þess, hve mikill kostnaður yrði af landsfundinum 1980, vegna hátíðahaldanna, en þær langar til að taka á móti ýmsum konum frá Vesturheimi. N. gat ekki orðið við þessari beiðni til fulls, en áleit rjett að veita til þessa svipaða fjárveitingu og áður, eða 1000 kr.

Þá kemur 16. gr. 35. leiðbeiningar um húsagerð í sveitum. Eins og kunnugt er, hefir þessi liður verið í fjárl. undanfarinna ára, en stj. hefir felt hann niður úr frv. vegna þess, að sá maður, sem að þessum málum hefir starfað, er orðinn fastur starfsmaður hjá byggingar- og landnámssjóði. Nú er ekki til þess ætlast, að allir bændur fái lán úr þessum sjóði, en hinsvegar má telja víst, að sjóðurinn telji sjer ekki skylt að gera teikningar fyrir aðra en þá, sem við hann skifta. n. þótti ekki sanngjarnt að gera bændum, er lán taka annarsstaðar til bygginga sinna, erfiðara um vik í þessu efni en nú er, og stingur því upp á, að þessi fjárveiting, 4000 kr., sje tekin upp aftur, svo öllum sje gert jafnt undir höfði með þessar leiðbeiningar. N. álítur, að heppilegast sje að fela þetta sama manni og um það annast fyrir byggingar- og landnámssjóð, og ætlast til, að hann noti þetta fje til að kaupa sjer þá aðstoð, sem þetta aukna starf krefur.

Þá kemur 16. gr. 35, og er nýr liður, um 5000 kr. byggingarstyrk til Hjálpræðishersins í Reykjavík.

Allir þekkja, hve þörf og góð stofnun Hjálpræðisherinn er. Einn liðurinn í starfi hans hefir verið að starfrækja gesta- og sjómannaheimili hjer í Reykjavík, og reyndar víðar. Hefir hann áður fengið styrk af opinberu fje til. bygginga sinna. Nú hefir reynslan sýnt, að hús hans hjer í Reykjavík er orðið of lítið, og hefir hann því í ráði að byggja 1 hæð ofan á það. Á þeirri viðbótarbyggingu að vera lokið 1930, og mun þess síst vanþörf. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefir ákveðið að veita til byggingarinnar 10000 kr., og fer yfirmaður Hjálpræðishersins hjer fram á 15000 kr. styrk frá Alþingi. N. sá sjer ekki fært að mæla með allri þeirri fjárhæð, en leggur til, að veittar verði 10 þús. kr. í þessu skyni, er greiðist á tveim árum. Er þetta fyrri greiðslan. N. álítur, að þessi fjelagsskapur sje þess fullkomlega verður, að að honum sje hlúð, auk þess sem forstjóri „hersins“ taldi líkur fyrir, að hægara yrði um að fá lán til byggingarinnar, ef fjelagið gæti sýnt, að almennur áhugi væri fyrir málinu hjer.

Þá er 58. brtt. n., við 16. gr. 36: Til framræslu á Eyrarbakka, kostnaðar, alt að 4000 kr. Þessu er lýst nokkuð nákvæmlega í nál. og því ekki þörf að endurtaka það, sem þar er sagt, nema að litlu leyti. Það vita allir, sem til þekkja, að landið í kringum Eyrarbakka er marflatt og lágt, svo að vatn liggur á því mikinn hluta ársins. En ef hægt væri að koma þessu vatni í burtu, þá er landið mjög vel fallið til hverskonar ræktunar. En það er og kunnugt, að sjávarútvegur og verslun, sem þarna hefir verið, hefir mjög gengið saman, svo að atvinnumöguleikar fólks þar hafa skertst mjög. Það er þess vegna ekki annað að gera fyrir fólkið en að flytja í burtu eða þá að snúa sjer að landinu, en til þess að geta fengið atvinnu við landbúnað, verður að sjá um að koma vatninu í burtu. Þetta er mjög rækilega undirbúið af starfsmönnum Búnaðarfjelags Íslands 2–3 síðastl. ár; leggur n. því til, að veitt verði sem svarar kostnaðar, alt að 4000 kr., til þessarar framræslu.

Þá er nýr liður við sömu gr. 37.: Til að gera laxgenga fossana Glanna og Laxfoss í Norðurá í Mýrasýslu, 1000 kr., sem er endurveiting og staðið hefir áður í fjárlögum. En eins og mönnum hlýtur að vera kunnugt um, ef menn muna eftir umr. um þetta mái í fyrra, stóð þannig á, að ráðunaut Búnaðarfjelagsins í þessum málum, Pálma Hannessyni, fanst ekkert vit í að vera að sprengja úr fossunum fyr en fengin væru full yfirráð yfir þeim, en svo gat ekki heitið á meðan hægt var með netum að hindra laxgönguna upp fossinn; en með lögunum um Nikulásarker í fyrra er fenginn greiður gangur um fossinn, og verður því hafist handa um framkvæmdir, þegar þessi fjárveiting fæst. Vonar n., að hv. þdm. samþ. hana.

Brtt. 60, við 16. gr. 41, er nýr liður, til innflutnings sauðnauta, 20000 kr. Ætla jeg ekki að tala langt mál um þann lið, því að það mál hefir verið rætt hjer allmikið, og síðast í dag, í þessari hv. deild. Mönnum mun vera það ljóst, hvað hjer er um að ræða. Það lá fyrir n. beiðni frá Vigfúsi Sigurðssyni Grænlandsfara um 20000 kr. styrk í því skyni að afla þessara dýra, sem hann ætlar að sækja til Grænlands. En þótt hjer sje um góðan mann og gegnan að ræða, þá leitst n. ekki rjett að binda fjárveitinguna sjerstaklega við nafn hans, en veitti þetta fje alment, enda mun ríkisstj. í lófa lagið, ef hún óskar þess, að tryggja sjer aðstoð hans við þessar framkvæmdir.

Þá er brtt. við 17. gr. 1, styrkur til berklasjúklinga. Leggur n. til, að fyrir 500000 kr. komi 600000. Þetta er ekki nema leiðrjetting, því eins og hv. þm. er kunnugt, hefir kostnaðurinn farið upp í 800000 kr., svo að það má gera ráð fyrir allmiklum sparnaði á þessum lið, ef þetta, sem hjer er áætlað, á að nægja.

Þá er 62. brtt. n., við 17. gr. 11, til Stórstúku Íslands, styrkurinn hækkaður úr 8000 kr. upp í. 12000 kr. N. klofnaði um þetta, en meiri hl. n. leit þannig á, að Stórstúkan væri fyllilega þess verð að fá þessa styrkhækkun, og vil jeg meira að segja geta þess álits hans, að þótt frá fjárhagslegu sjónarmiði sje gleðilegt að athuga þær tekjur, sem í ríkissjóð renna frá áfengissölunni, þá sýnir það þó, því miður, að áfengisnautn er að fara mjög í vöxt í landinu, og ríður þá á því, að starfskraftar þess fjelagsskapar, sem hefir það markmið að draga úr áfengisbölinu í landinu, verði ekki veiktir.

Þá er brtt. við 17. gr. 14, nýir liðir: Til styrktarsjóðs Hofshrepps, 400 kr., til styrktar- og sjúkrasjóðs verkakvennafjelagsins „Framsókn“ í Reykjavík, 500 kr., og til sjúkrasjóðs ,,Fjelags járnsmíðanema í Reykjavík“, 200 kr. — Það er öllum vitanlegt, að öll styrktar- og tryggingarstarfsemi í landinu er mjög ófullnægjandi og svo að segja hvergi heil brú í því starfi, en þörfin mikil. Víðast er þessi starfsemi þannig, að fjelagsskapur er myndaður í þessum tilgangi, og hefir Alþingi sýnt það áður, að það álítur slíkan fjelagsskap styrks verðan, með því að veita í fjárlögum styrk til ýmsra sjúkrasjóða; þess vegna gat n. ekki annað en orðið vel við beiðnum um þessa styrki, eins og áður, enda er ekki í annað hús að venda um hjálp í þessum efnum.

Þá er brtt. við 18. gr. II. b. 22, nýr liður, til Önnu Þorgrímsdóttur læknisekkju, 600 kr., auk 100 kr. með hverju barni hennar, 1200 kr. Þessi kona er ekkja Jóns heitins læknis Bjarnasonar frá Kleppjárnsreykjum og á 6 börn í ómegð. Maðurinn var fyrst og fremst ungur, er hann ljetst, og ekki búinn að losa sig úr skuldum frá námsárunum, var auk þess heilsulaus síðari árin, svo að við fráfall hans var konan mjög illa stödd efnalega Fór ekkjan fram á hærri styrk, en n. sá sjer þó ekki fært að verða við þeirri beiðni.

Næsta brtt. er við 18. gr. II. c. 6., og er aðeins um það, að liðurinn falli niður, vegna þess að maðurinn dó í vetur, svo sem kunnugt er.

Þá er brtt. við 18. gr. II. c. 10, til síra Jens V. Hjaltalín. Þetta er háaldraður maður, kominn yfir nírætt. Hann er gamall starfsmaður, en hefir samkv. eldri lögum ekki nema um 760 kr. í eftirlaun á ári, en er eignalaus og getur þess vegna ekki af því lifað, þótt hann sje sparsamur. Nú fer hann fram á nokkra hækkun, og hefir biskup mælt með því, að eftirlaun hans yrðu hækkuð, svo að hann hefði 100 kr. á mánuði. Er ekki við því að búast, að gamli maðurinn geti lifað af öllu minni upphæð hjer í Reykjavík.

Þá er 67. brtt. n. við 18. gr. II. i. 16, nýir liðir: Til Sigurveigar Jónatansdóttur og til Guðrúnar Guðmundsdóttur, ljósmæðra, 300 kr. til hvorrar. Þar sem Alþingi hefir áður tekið upp þá reglu að veita gömlum ljósmæðrum svipaðan styrk og þetta, getur n. ekki annað en tekið þessar umsóknir til greina, með því að n. álítur, að þessar ljósmæður sjeu jafnvel að honum komnar sem aðrar, sem slíkan styrk hafa fengið.

Þá er brtt. við 18. gr. II. i. 30. Þessi kona er ekkja Stefáns heitins Eiríkssonar, trjeskurðarmeistara, og hefir notið nokkurs styrks í fjárlögum, en dó í vetur og er því sjálfsagt að styrkurinn falli niður.

Þá er brtt. 69, við 18. gr. II. i. 41, til Jóh. Þorkelssonar, um að liðurinn falli niður. Þessi maður var fangavörður norður á Akureyri, og hefir verið í fjárlögum í nokkur ár, en dó í vetur; leggur n. því til, að styrkurinn falli niður.

Þá er brtt. við 22. gr. 5. Þetta er ekki annað en leiðrjetting, vegna þess að öll upphæðin er ekki nema 10000 kr.; svo stendur í aths.: „Og eigi meira en 8000 kr. fyrir hvern verkamann“, en á auðvitað að vera 800 kr.

Þá kem jeg að 23. gr. III., nýir liðir:

a. Að ábyrgjast alt að 450 þús. kr. lán fyrir Ísafjarðarkaupstað og Eyrarhrepp, til rafvirkjunar, gegn þeim tryggingum, er stj. metur gildar, — og

b. að ábyrgjast alt að 170 þús. kr. lán fyrir Hólshrepp í Ísafjarðarsýslu, til rafvirkjunar, gegn þeim tryggingum, er stj. metur gildar.

Jeg skal fyrst fara nokkrum orðum um þessar ábyrgðarheimildir.

Um ábyrgðarheimildina fyrir Ísafjarðarkaupstað skal jeg geta þess, að á þingi 1917 var heimilað að veita Ísafjarðarkaupstað viðlagasjóðslán, 45000 kr., en var á þinginu 1919 hækkað upp í 90 þús., sem ætlað var til rafveituframkvæmda, en eingöngu til ljósa. En verkið dróst, þar til nú, að það hefir verið rannsakað ítarlega; hafa Bræðurnir Ormsson gert mælingar þessar og komist að þeirri niðurstöðu, að úr tveim ám, sem þarna eru, Fossá og Selá, megi virkja alls 600 hestöfl. Steingrímur Jónsson rafveitustjóri hefir yfirfarið þessar athuganir og lækkað hestaflatöluna niður í 400, til öryggis. Um þessa rafstöð verður bæði Ísafjarðarkaupstaður og Eyrarhreppur, og er ætlast til, að hún veiti nægilegt rafmagn til ljósa, suðu, iðju og ennfremur til hitunar vor og haust. Kostnaðaráætlunin er 450000 kr., en íbúatalan þarna er 3000.

Nú er það vitanlega aðalatriðið, að stöðin geti staðið undir þeim kostnaði, sem af því leiðir að virkja, og eftir þeim skýringum, sem fyrir n. lágu, þá virtist n., að þetta myndi nokkurn veginn örugt. Til þess að bera sig þarf stöðin að geta greitt 86000 kr. á ári í kostnað, vexti og afborgun, en nú er borgað í kaupstaðnum eingöngu fyrir ljós, og eru það þó ekki nærri öll hús í bænum, sem taka þátt í því, um 42000 kr., eða nær helmingur af því, sem stöðin þarf að fá inn árlega. Auk þess er aðstaðan svo góð, að þegar búið er að virkja ána, sem nær er, Fossá, með um 400 hestöflum, þá má virkja þar aðra á, Selá, örlítið fjær, með um 200 hestöflum, fyrir tiltölulega mjög lítið fje.

Þá er rafmagnsveitan í Bolungarvík Þar er gert ráð fyrir að virkja 230 hestöfl fyrir 170000 kr. Það er að vísu ergin rafmagnsveita þar fyrir, og vantar því allar leiðslur og ljósáhöld, svo að það er dálítið óhentugri aðstaða þar, en n. áleit samt, að um svo mikið væri að ræða fyrir Bolungarvík, að sjálfsagt væri að veita ríkisstj. heimild til að ganga í þessa ábyrgð, þegar málið hefði verið rannsakað nægilega. Annars vil jeg taka það fram, að ýmsir líta svo á, að óheppilegt sje, að bæði þessi bæjarfjelög virki hvort í sínu lagi, heldur sje betra að þau virki saman, og Steingrímur Jónsson rafveitustjóri álítur hyggilegast að leggja leiðslu frá Ísafirði út í Bolungarvík, en geyma að virkja í Bolungarvík þangað til orkuþörfin verður fram yfir það, sem fæst úr Fossá og Selá. Gerir n. ráð fyrir, að þessar leiðslur verði að síðustu tengdar saman í eina.

Þá er c-liðurinn. Það er heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast alt að 60 þús. kr. lán fyrir Hvammshrepp í Vestur-Skaftafellssýslu. Þessa rafvirkjun á að framkvæma fyrir Vík í Mýrdal. Rafstöðin, sem þar er nú, er eingöngu til ljósa. En nú vilja kaupstaðarbúar efla stöð þessa með því að taka vatnið miklu hærra, og getur hún þá að minsta kosti framleitt nægilegt rafmagn til ljósa og suðu. Hafa kauptúnsbúar skuldbundið sig til að kaupa rafmagnið það háu verði, að nægi til að standa fyllilega undir kostnaði af verkinu. N. sjer því ekki ástæðu til annars en að mæla með þessari ábyrgðarheimild.

Þá er d-liður brtt., um að veita uppgjöf vaxta og greiðslufrest afborgana af dýrtíðarlánum Gerðahrepps og Innri-Akraneshrepps árin 1929 og 1930.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir Gerðahreppur fengið 37000 kr. hallærislán og ekki getað borgað neitt af því, og hefir áður fengið eftirgjöf á vöxtum af láninu. Nú sóttu þeir um uppgjöf alls lánsins. N. fanst það of langt gengið að verða við slíkri beiðni, þótt hún viðurkenni, að hreppurinn sje illa staddur, en vildi hinsvegar leggja það til, að honum yrði veittur gjaldfrestur um tvö ár og uppgjöf vaxta fyrir sama tíma. Einnig leggur hún það til, að Innri-Akraneshreppi sjeu veitt sömu hlunnindi.

Þá er undir e-liðnum heimild handa ríkisstj. til að taka ábyrgð, alt að 1100000 kr., til húsbyggingar handa landssímanum og til nýrrar bæjarmiðstöðvar í Reykjavík, enda teljist vextir og afborganir af láninu til árlegra rekstrargjalda landssímans.

Eins og öllum er kunnugt, þá er það húsnæði, sem landssíminn hefir við að búa, með öllu orðið óviðunandi fyrir starfrækslu hans, og óhugsandi, að sú viðbót, sem nauðsynleg er, geti fengist þar. Þess vegna er knýjandi nauðsyn að byggja nýtt hús til starfrækslu bæjarsímans og landssímans, og n. mælir eindregið með því, að stj. sje heimilað að taka lán til þessa, enda er það víst, að starfræksla símans mun fyllilega borga vexti og annan kostnað, sem af því leiðir, svo að þetta er ekki annað en tryggileg ráðstöfun fyrir landssímann, og þar að auki er það að nokkru leyti gróðavegur, samanborið við það að leigja hús annarsstaðar.

Þetta eru brtt. n., en auk þess er hjer kominn mesti fjöldi af brtt. frá hv. þdm.; ætla jeg ekki að leggja í að ræða þær fyr en hv. flm. hafa skýrt þær, ef tími þá vinst til þeirra hluta.