18.04.1929
Neðri deild: 48. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

16. mál, fjárlög 1930

Einar Jónsson:

Það er ekki tilætlun mín að álasa hv. fjvn. fyrir það, þó hún hafi kastað til hliðar ýmsu því, er að henni hefir borist af umsóknum o. þ. l., því eins og allir vita, þá er það skylda hennar að halda spart á fje ríkisins og gæta þess, að því sje ekki kastað út að óþörfu. Jeg komst best að þeirri skyldu, sem á fjvn. hvílir í þessum sökum, er jeg var skrifari þeirrar n. í hv. Ed. 1927, og minnist þess enn, hver óbotnandi fjöldi erinda n. bárust í hönd. Ekki get jeg heldur álasað einstökum þm. fyrir það, þó þeir leitist við að koma áfram ýmsum erindum, sem annaðhvort hafa ekki fengið áheyrn hjá hv. fjvn. eða ekki verið lögð fyrir hana. Vonast jeg því til þess, að hv. þdm. taki máli mínu vel og greiði þeim brtt., er jeg og samþm. minn berum hjer fram, atkvæði sitt.

Brtt. okkar, sem eru talsins 4, eru allar á þskj. 345. Eru það sjerstaklega 2, sem eru mikilsverðar fyrir alla hjeraðsbúa Rangárþings og sem við leggjum mikið kapp á, að verði samþ. Aðra þeirra tók jeg aftur í gær til 3. umr., því jeg þurfti að gefa hv. fjvn. frekari upplýsingar. Hún var um það að styrkja byggingu dragferju á Hólsá, sem er hið mesta nauðsynjamál þar eystra.

Hin aðaltill. okkar er við þennan síðari kafla fjárl. Er hún sú XXXIV. á þskj. 345. Hljóðar hún um það að hækka tillagið til sandgræðslunnar úr 40 þús. í 52 þús. kr. Skal svo verja þessum 12 þús. til sandgræðslugirðinga, sjerstaklega á Rangárvöllum.

Jeg býst ekki við því, að öllum hv. þdm. sje það kunnugt, hversu stór sandsvæði þar er um að ræða, sem nú þegar eru orðin örfoka og eru byrjuð að gróa upp aftur. Sá gróður er að vísu lítill, en mundi óðum aukast, ef honum væri hjálpað með því að girða og friða svæðið algerlega fyrir sauðfje. Reynslan hefir sem sje þegar sýnt, að gróðrinum fer örar fram en nokkurn ókunnugan grunar, ef landið er friðað. Á þessu svæði, sem hjer er ætlast til að girt verði, eiga hlut að máli 8 jarðir. Eru 5 þeirra bygðar, en 3 í eyði, en ýmist eru þær notaðar til slægna eða beitar. Alt þetta svæði mundi geta orðið í einni girðingu. Mundi hún kosta ca. 20 þús. En að lengdinni til mundi hún verða 20 km. Hefir reynslan þar eystra orðið sú, að hver km. kostaði um 1000 kr.

Samkv. sandgræðslulögunum frá 1927 á landeigandi að greiða en sandgræðslusjóður En þar sem kostnaður við þetta verður 20 þús. kr., þá er þó ekki farið fram á, að ríkissjóður greiði nema 12 þús., og er ætlast til, að hlutaðeigendur greiði hitt. Býst jeg við því, að landeigendur mundu sætta sig við þetta, þó þeir vildu vitanlega helst, að farið yrði eftir lögunum í þessu tilfelli sem öðrum.

Jeg hefi heyrt því lauslega fleygt, þó ekki hjer í þingsalnum, að mikill meiri hl. þess fjár, er fer til sandgræðslu, rynni til Rangárvallasýslu, Þetta er að vísu að nokkru leyti rjett, en þó ekki að öllu, því víða annarsstaðar á landinu hafa verið reistar sandgræðslugirðingar. En það er rjett, að byrjað mun hafa verið á þessari starfsemi í Rangárvallasýslu. Var það aðallega í Landhreppi og nokkuð á Rangárvöllum. Og nú síðast hefir nokkuð verið gert í Landeyjum. En það hefir líka verið farið vestur og norður um land, austur í Skaftafellssýslu og víðar, eins og líka rjett er og sjálfsagt.

Jeg hefi nú ekki að vísu átt tal um það við hv. samþm. minn, en jeg býst við því, að hann sje því samþ., að ekki sje síður þörf á því að fara fram á þetta, þegar þess er gætt, að Rangárvallasýsla hefir orðið mjög útundan í fjárlagafrv. hæstv. stj. Hefi jeg ekki getað komið auga á nema einar 200 kr., er renna til hennar sjerstaklega í fjárl. frá stj. hönd, og eru það þó drjúgar upphæðir, er renna til ýmsra annara sýslna, án þess þó jafnframt að vera til sameiginlegra þarfa landsmanna. En þessar 200 kr. eru læknisvitjunarstyrkur til Eyjafjallahreppa. Þegar þetta er alt athugað, efast jeg ekki um, að allir sanngjarnir þm. þessarar hv. d. muni fylgja okkur að málum. Þá er jeg heldur ekki í vafa um það, að hv. þm. þekkja nauðsyn þá, er knýr Rangvellinga til þess að biðja um vernd gegn sandfokinu, og best mundu þeir skilja þá nauðsyn, ef þeir væru nú í dag eða hefðu í gær verið staddir þar austur frá. Því eftir því sem mjer hefir verið símað, þá er þar nú, svo mikill sandbylur og moldrok, að víða sást ekki út fyrir túngarðinn. Vitanlega hverfur sandfokið ekki alt í einu, þó eitthvað sje girt. En hver blettur, sem græddur er upp, stuðlar þó að því að það minki.

Allir vita, að nauðsynlegt er að hafa sem mest og varanlegust not af landinu. En til þess að það geti orðið, er oft og einatt nauðsynlegt að kosta nokkru til. Vill þá fjárskorturinn oft standa einna mest í vegi fyrir framkvæmdunum. En það, sem þessi brtt. okkar miðar að, er einmitt það að útvega fje til þess að hægt sje að gera ráðstafanir til þess að sem mest og best not verði að landinu.

Til þess að spara umr., sem allir eru sammála um að rjett sje að verði sem stystar, höfum við hv. samþm. minn og jeg komið okkur saman um það að skifta með okkur verkum, svo hvor tali fyrir helmingi þeirra till., er við berum fram saman. Læt jeg því nægja að tala fyrir þessari, en eftirlæt hv. 2. þm. Rang. að tala fyrir hinum. Vænti jeg þess, að hv. þdm. sjái sjer fært að fylgja þessum till., þar sem ekki er um meiri upphæðir að ræða, sem þar að auki mun koma til með að borga sig margfaldlega. Hygg jeg, að oft hafi verið veitt fje til margfalt óþarfari hluta. Endurtek jeg svo von mína um það, að þetta mál fái góðar undirtektir hjá hv. þdm., og lýk þar með máli mínu.