19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

16. mál, fjárlög 1930

Ólafur Thors:

Jeg á eina brtt. við þennan kafla fjárl. Sú brtt. er á þskj. 345, XLIX og fer fram á, að veittar verði 800 kr. til styrktarsjóðs Margrjetar Bjarnadóttur frá Bergvík til hjálpar fátækum ekkjum og börnum sjómanna í Gerða- og Keflavíkurhreppum. Þessi sjóður var stofnaður 1917 með gjöf frá þessari konu, er nam liðugum 1300 kr. Sjóðurinn hefir, fyrir ötula forgöngu þeirra, sem honum stjórna, og vil jeg í því sambandi sjerstaklega nefna lækninn í Keflavík, herra Þorgrím Þórðarson, komist upp í 13000 kr. Úr sjóðnum hafa verið veittar 1500 kr. til ekkna og barna sjómanna, en umsóknir um styrk úr sjóðnum eru svo miklar, að hann nær ekki tilgangi sínum, nema tekið verði til þeirra ráða að afla honum tekna með nýjum leiðum, og því er farið fram á það, að ríkissjóður leggi sjóðnum eitthvað af mörkum. Jeg býst við, að segja megi með rjettu, að því fje sje vel varið, sem notað er í þessu. augnamiði, og þá rjett og sanngjarnt, að ríkissjóður styðji viðleitni einstaklinganna í þessum efnum. Vænti jeg því, að hv. d. taki þessu litla fjárframlagi vel, og hirði jeg ekki um að í hafa þessi orð fleiri, en bendi aðeins á, áður en jeg setst niður, að þetta hjerað hefir reynst drjúgt ríkissjóði til tekna, og ætti það ekki að veikja þessa málaleitan mína.