27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Baldvinsson:

Hæstv. forsrh. tók mjög vingjarnlega í það, sem jeg hefi lagt til þessara mála, enda þótt hann vildi ekki ganga svo langt að samþ. brtt. mínar. Aftur á móti var frsm. öllu erfiðari viðvíkjandi brtt. mínum. Hann áleit, að það myndi taka mikinn tíma að undirbúa lánadeildina og koma brtt. mínum í framkvæmd. Jeg er nú enn ekki búinn að ráða það við mig, hvort jeg tek brtt. mínar aftur til 3. umr. eða til fullnustu, vegna þess að jeg þyrfti fyrst að heyra yfirlýsingar af vörum hæstv. forsrh. um afstöðu hans til málsins og hvað hann vildi gera fyrir málið til næsta þings. Hæstv. ráðh. spurði, hvort jeg vildi falla frá brtt. mínum, ef jeg fengi skýlausa yfirlýsing um, að málið skyldi verða. tekið til rækilegs undirbúnings og lagt fyrir næsta þing, að því er mjer skildist. Ja, ef svo væri, þá skal jeg játa það, að á mig renna tvær grímur, enda býst jeg ekki við, að till. mínar nái framgangi á þessu þingi hvort eð er. En það væri þá einungis með því skilyrði, að málið væri undirbúið og lánadeild þessi yrði einskonar byggingar- og landnámssjóður fyrir kaupstaðina, líkt og núverandi byggingar- og landnámssjóður er fyrir sveitirnar. (Forsrh: Ekki alment fyrir kaupstaðina). Nei, en samkvæmt till. mínum.

Hæstv. ráðh. talaði alment um málið og svaraði ýmsum fyrirspurnum því viðvíkjandi. En jeg vil benda honum á, að ýmsu hefir verið kipt út úr frv. frá því það var lagt fram í upphafi. Má þar meðal annars nefna kirkjujarðasjóðinn. Geri jeg ráð fyrir, að hin geistlegu áhrif hafi þar orðið hinum verslegu yfirsterkari, því ekki hefir honum þótt ástæða til þess að láta viðlagasjóðinn fara sömu leiðina. Annars er það leitt, að viðlagasjóður skuli nú fallinn frá þeim notum, sem hann hefir áður fullnægt, því að mörgum var hann til mikils gagns. Hæstv. ráðh. sagði, að það, sem gert væri með stofnun þessa banka, væri ekki annað en að jafna aðstöðu landbúnaðarins við aðra atvinnuvegi landsins. En jeg vil benda hæstv. ráðh. á það, að það eru einungis atvinnurekendurnir í kaupstöðum, sem fjármagni lánsstofnananna hefir verið veitt til, en ekki til fjöldans. Almenningur hefir ekkert fengið. Jeg get því eftir atvikum sætt mig við að bíða eitt ár eftir því, að þessum till. mínum verði sint, og í von um góðar undirtektir þá, góðan undirbúning og góða lausn málsins get jeg fallist á að taka till. mínar aftur að þessu sinni.

Þá talaði hæstv. ráðh. um kjördæmaskipunina, að gefnu tilefni frá mjer. Jeg skal nú ekki fara út í þá sálma að sinni, en mig langar til að spyrja ráðh. að því, hvað bændur gerðu í þá daga, þegar þeir höfðu alt fjármagn þjóðarinnar í sínum höndum. (Forsrh: Hvaða fjármagn?). Það, sem til var. Jeg verð að leyfa mjer að segja, að þess sjást ákaflega lítil merki, því miður.

Hæstv. ráðh. talaði um, að till. mínar væru gallaðar að formi, og má það vel vera, en ef það verður nú ofan á, að jeg taki þær aftur að sinni, þá skiftir það atriði ekki svo miklu máli. En ekki eru þó gallarnir veigameiri en svo, að bæta þyrfti við ákvæðum um, að ríkisstjórnin setti nánari fyrirmæli um ýmislegt viðvíkjandi þessum lánveitingum úr lánadeildinni.

Þá vil jeg spyrja hæstv. ráðh., hvernig verði hagað lánum úr viðlagasjóði 1930. Ef allur sjóðurinn yrði tekinn, býst jeg við, að lítið yrði eftir til lánveitinga samkv. 22. gr. fjárlaganna til verkamanna í kaupstöðum og kauptúnum, en lánsheimild þessi nemur samtals um 14 þús. kr.; væri það illa farið, ef slíkar lánveitingar fjellu niður, þó ekki væri nema eitt ár, og ekkert kæmi í staðinn.

Hv. frsm. var ekki eins ljúfur í garð till. minna eins og hæstv. forsrh. Hann virtist ekki skilja þá nauðsyn, sem hjer liggur að baki. Jeg álít þess brýna og aðkallandi þörf að auka ræktun kringum kaupstaðina. Enda þótt nú sjeu aflabrögð í besta lagi og góðæri hið mesta til lands og sjávar, þá má ekki miða við það eingöngu. Illæri getur skollið yfir þegar minst vonum varir, og þá eru sjómenn og verkalýður ofurseldir atvinnuleysinu, ef þeir hafa ekkert að bakhjarli. Og erfitt reynist jafnan fyrir þá að fá opinbera vinnu, vegna andúðar gegn því, að ríkið hafi slíkt með höndum. Jeg álít, að í till. mínum felist varanlegar og öruggar atvinnubætur fyrir hinar efnaminni stjettir í kaupstöðunum. Með þessu væri atvinna trygð nokkurn hluta árs og stórt spor stigið til þess að firra þjóðina því böli, sem af atvinnuleysinu leiðir, og afstýra þeim vandræðum, sem því eru samfara, Sumstaðar er atvinnuleysið ekki einungis í borgum og bæjum, heldur jafnvel í sveitunum líka, en það þekkist nú ekki hjer ennþá. Þetta böl eigum við að geta forðast og fyrirbygt, þar sem við erum fáir og höfum því tiltölulega betri tök á að hafa yfirlit yfir hag almennings.

Að öðru leyti mun jeg leiða hjá mjer að deila við hv. frsm. um það. hvort bændur sjeu þjóðlegri en fólk í kaupstöðum alment. En það eitt þori jeg að fullyrða, að í kaupstöðunum er engu minni menning en í sveitunum, ef hún er ekki mun meiri.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Það fer eftir svari hæstv. ráðh., hvort jeg tek till. mínar aftur, annaðhvort til 3. umr. eða til fulls.