19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Ólafsson:

Jeg hefi ásamt hv. 1. þm. Reykv. borið fram 2 brtt. á þskj. 345, og af mikilli gætni í fjármálum og til þess að vera í samræmi við þann sparnaðaranda, sem nú ríkir í hv. fjvn., þá höfum við borið fram nýja brtt. við aðra þeirra, á þskj. 368, sem er varatill.

Fyrri brtt. er sú XX. á þskj. 345 og er um 3 þús. kr. styrk til gagnfræðaskóla Reykjavíkur, en hefir misritast í gagnfræðaskóli Reykvíkinga.

Jeg hygg, að öllum hv. þdm. sje kunnugt um það, hve Reykvíkingar hafa átt erfitt undanfarin ár með sín skólamál. Allir vita, hvernig fór með samskólahugmyndina, og þar við bættist, að bekkjum var fækkað í mentaskólanum, svo að þar komast að aðeins 25 nýir nemendur á ári. Úr þessu var að nokkru leyti bætt með stofnun ungmennaskóla Reykjavíkur, en nú eru bæjarbúar orðnir 26 þús. og hafa mikinn áhuga fyrir því að fá góða skóla, og þykir ekki nóg bætt úr þörfinni með ungmennaskólanum, svo að þeir rjeðust í að stofna þennan skóla. Aðsóknin að þessum skóla hefir verið afarmikil, svo að það sýnist alls ekki ófyrirsynju, að hann var stofnaður, enda var hans full þörf. Það er álit allra málsmetandi manna, að hjer hafi verið um mikla nauðsyn að ræða, og hv. fræðslumálastjóri, hv. þm. V.-Ísf., viðurkendi þetta fyllilega og taldi rjett, að þessi skóli fengi hlutfallslega jafnháan styrk og aðrir hliðstæðir skólar. Til vara höfum við farið fram á 2 þús. kr. styrk til skólans, og mun það láta nærri að vera 50 kr. á hvern nemanda, sem skólann sækir. Er þá ekki farið hart í sakirnar, þó að farið sje fram á þessa litlu upphæð, og þar sem meiri hl. fjvn. er þessu meðmæltur, þá vona jeg, að það nái samþ. þessarar hv. deildar.

Önnur brtt. er sú XXVIII. á þskj. 345, og er hún um lítilsháttar styrk til Sveinbjarnar Björnssonar skálds hjer í bænum. Þessi maður er eitt af þessum merkilegu alþýðuskáldum okkar, og hefir hann, þrátt fyrir marga og mikla erfiðleika og óslitna vinnu við steinsmíði, lagt til bókmentanna tvær ljóðabækur. Hann er nú kominn á áttræðisaldur, er efnalaus og farinn að heilsu og kröftum, og hefir hann ekki getað stundað atvinnu sína hin síðari árin, enda aldrei kunnað að hlífa líkamsburðum sínum meðan þeir entust. Þessar ljóðabækur hans ætla jeg ekki að dæma um, til þess hefi jeg ekki næga þekkingu á þeim hlutum, en það vill svo vel til, að nokkrir velmetnir fræðimenn og skáld hafa sent með þessu erindi meðmæli sín, og ætla jeg, með leyfi hæstv. forseta, að láta þá tala sjálfa:

„Við undirritaðir leyfum okkur hjer með að leiða athygli fjvn. hins háa Alþ. að ástæðum Sveinbjarnar Björnssonar skálds nú í elli hans, og teljum hann þess maklegan, að honum verði veittur nokkur styrkur af landsfje í viðurkenningarskyni fyrir ljóðagerð hans. Það eru því tilmæli okkar, að honum verði ætlaðar 1500–2000 kr. í fjárl. þeim, sem nú liggja fyrir“.

Brjefið er dagsett 5. mars 1929, og undir það hafa skrifað Þorsteinn Gíslason, Hannes Þorsteinsson, Hannes S. Blöndal, Guðm. Björnsson, Hallgrímur Hallgrímsson og Jak. Jóh. Smári.

Jeg hugsa að þetta sje nægilegt til þess að sýna hv. þdm., að hjer er um bókmentir að ræða, sem eiga viðurkenningu skilið, þegar þessir menn mæla með því. Þó að þessir menn fari fram á 1500 til 2 þús. kr., þá vorum við flm. svo hæverskir, að við fórum ekki af stað með meira en 1 þús. kr., sem auðvitað er styrkur og viðurkenning í eitt skifti fyrir öll, og er þetta, að jeg hygg, í samræmi við vilja meiri hl. fjvn. Jeg vona svo, að þar sem um litla fjárhæð er að ræða og mjög maklegur maður á í hlut, þá láti hv. dm. sig ekki muna um að veita þetta.