19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi aðeins segja örfá orð um einstakar brtt., sem hjer liggja fyrir.

Hv. 3. þm. Reykv. flytur hjer brtt.; þar sem farið er fram á, að gagnfræðaskóla Reykjavíkur sje veittur 3 þús. kr. styrkur. Jeg vil þá skýra frá því, að Reykvíkingar hafa til þessa haft gagnfræðaskóla nær eingöngu fyrir sjálfa sig, kostaðan af ríkinu, þar sem hver bekkur kostaði 8–9 þús. kr. árlega. Nú er svo háttað, að annarsstaðar á landinu verða bæjar- og sveitarfjelög að kosta slíka skóla nær eingöngu upp á eigin spýtur. Ísafjörður hefir t. d. haldið uppi skóla, sem er sóttur af nálægt 50 nemendum, og fær ekki nema 2 þús. kr. styrk til hans. Þetta er afarmikið órjettlæti og ósamræmi, að sumir kaupstaðir verði að kosta sína alþýðufræðslu nær eingöngu sjálfir, en aðrir fái allan kostnaðinn greiddan úr ríkissjóði. Þessu vil jeg láta bæta úr og koma á meira samræmi, eftir því sem því verður við komið. Að því er snertir þá takmörkun á inntöku í mentaskólann, sem hv. þm. talaði um, þá er því til að svara, að þar var svo komið, áð heilsu nemendanna var stórhætta búin af offyllingu, og úr því varð ekki bætt nema með því að fækka þeim. Núv. stj. og Alþ. komu hjer upp í fyrra byrjun að gagnfræðaskóla, og var það vitaskuld, að sú stofnun var hinn tilvonandi alþýðuskóli bæjarins. Svo þegar til kom, þá var mikill hluti bæjarbúa, sem ekki vildi sætta sig við þessa stofnun og settu á stofn sinn eiginn skóla. Við þessu var auðvitað ekkert að segja, ef stofnendur vildu kosta skóla sinn sjálfir, en það brýtur öll „princip“, þó að mönnum finnist börn sín of fín til þess að ganga í skóla með fátækum börnum, og er ekkert annað en frekja og ofsi, að ætla svo að láta landið kosta þennan skóla fyrir sig. Þetta er hrein uppgjöf þeirra manna, sem hlut eiga að máli, og sýnir það ljóslega, að þeir hafa ekki manndóm í sjer til þess að kosta sinn eiginn skóla, þegar þeir vilja ekki nota þann, sem ríkið útvegar þeim, heldur kalla á hjálp. Það er hrein og bein móðgun við foreldra barnanna að veita þennan styrk, og jeg vona, að hv. 3. þm. Reykv. sjái sóma sinn í því að taka brtt. aftur. Reykjavík á að kosta þennan skóla sjálf og bærinn getur veitt honum nægilegan styrk; það væri lofsverð sjálfsbjargarviðleitni bæjarbúa, og það stendur þeim opið.

Þá vil jeg víkja að brtt. frá hv. 1. þm. Reykv., sem er þess efnis, að hækka framlagið til kvennaskólans upp í það, sem áður var, eða úr 15 þús. kr. upp í 21 þús. kr. Jeg vil þá benda hv. þm. á það, að eins og sjest á skýrslu um kostnaðinn við kvennaskólann, þá kostar hann að meðaltali 300 kr. fyrir hvern nemanda. En aftur á móti eru aðrir skólar, eins og t. d. hjeraðsskólarnir, þar sem kostnaður hefir ekki orðið nema um 200 kr. á nemanda. Jeg álít því, að ef þessari fjárveitingu yrði eitthvað breytt, ætti að miða hana við tölu nemenda. Annars er það óhugsandi, að það ástand haldist um kvennaskólann, sem verið hefir. Alstaðar annarsstaðar en hjer leggja hjeruðin fje af mörkum til svipaðra skóla. T. d. hefir Norður-Ísafjarðarsýsla lagt 10 þús. kr. til Núpsskólans. Vestursýslan mun leggja annað eins til, og einstakir menn leggja sinn hlut fram. Svona er þetta alstaðar annarsstaðar en í Reykjavík. Hjer leggur hvorki bærinn nje nokkur einstaklingur nokkurn eyri fram til skólans, að talist geti, og jafnvel þær góðu konur, er þykjast bera hag skólans mest fyrir brjósti, láta sjer ekki til hugar koma að gefa neitt í byggingarsjóð skólans.

Þessi breyt. í stjfrv. er aðeins aðvörun um það, að ætlast sje til þess, að bærinn sjálfur eða einstaklingar hans leggi eitthvað af mörkum sjálfir. Ríkið hlýtur fyr eða síðar að segja: Við getum ekki gert alt fyrir þá, sem ekkert vilja hjálpa til sjálfir.

Þá vík jeg að brtt. um 2500 kr. fjárveitingu til Páls Ísólfssonar til að halda uppi kenslu í organleik. Með þeirri till. vil jeg mæla hið besta. Það er hættulegt, þegar þjóðin á ágætismenn í sinni grein, að lofa þeim ekki að njóta sín. Þessi maður stendur svo framarlega á sínu sviði, að við getum ekki búist við að hafa ávalt slíkum mönnum á að skipa. Hann hefir undanfarið kent organleik með kostgæfni og góðum árangri, svo að ávextir eru þegar farnir að sjást af starfi hans.

Jeg vil bæta því við þessi meðmæli mín, að það er og hefir verið einn af höfuðgöllunum á kirkjulífi mótmælenda, hvílík vöntun hefir verið á því, að messuformið væri hátíðlegt. Sökum fátæktar okkar hefir borið einna átakanlegast á því hjer, hve söngur og spil í kirkjum landsins hafa staðið á lágu stigi. Það er því mikilsvert fyrir íslenskt kirkjulíf, að Páll ísólfsson fái að njóta sinna miklu hæfileika.

Þá kem jeg að LVII. brtt. á þskj. 345. Hún er frá hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. N.-Ísf. um að veita Sigfúsi Vigfússyni og Guðmundi Einarssyni 5000 kr. styrk hvorum til að koma upp verkstæðum vegna rafstöðvabygginga í sveitum og til leiðbeininga í slíkum efnum á Austur- og Vesturlandi. Jeg vil bæta við þessa till. þeim meðmælum, að þessir menn eru báðir reyndir dugnaðarmenn og hugvitsmenn í þessa átt í Skaftafellssýslum. Þeir og aðrir þar eystra hafa nú þegar komið svo miklu til leiðar í þessu efni í Skaftafellssýslum, að ekki er lengur markaður fyrir starfskrafta allra slíkra manna austur þar. Jeg kynti mjer þetta mál nokkuð síðastliðið sumar og fjekk þessa menn, sem hjer um ræðir, til að ferðast um Austur- og Vesturland til að kynna sjer möguleika fyrir byggingum slíkra stöðva og til þess að komast í kynni við fólkið og hafa vekjandi áhrif á það í þessum efnum. Leiðandi menn á þessum slóðum voru mjög hrifnir af þessum mönnum og gera sjer miklar vonir um, að gott muni leiða af starfi þeirra. Til dæmis um það, hverju slík verkstæði geta afkastað, skal jeg geta þess, að Bjarni frá Hólmi, sem fjekk í fyrra samskonar styrk og hjer er farið fram á, hefir reist 15 stöðvar síðan. Ef árangurinn af starfi þessara manna á Austur- og Vesturlandi yrði svipaður, myndi landið bera eigi alllitlar menjar þessara manna eftir nokkur ár.

Þá hafa þeir hv. þm. V.-Ísf. og hv. 3. þm. Reykv. borið fram till. um að greiða Magnúsi Helgasyni skólastjóra full laun, ef hann lætur af embætti. Jeg er þeim þakklátur fyrir, að þeir hafa borið þessa till. fram, en annars hafði jeg hugsað mjer að bera fram till. sama efnis í Ed. Þessi merki maður mun nú láta af skólastjórastörf um á næsta hausti. Hjer er um einhvern mætasta skólafrömuð vorn að ræða og þann mann, sem sameinað hefir í sjer hið besta í íslenskri menningu. Allur ferill hans hefir verið óvenjuglæsilegur. Hinsvegar mun hann vera fátækur maður, enda hefir hann alla tíð verið verndarvættur og hjálparhella nemenda sinna í fjárhagsefnum sem öðrum. Að vísu mun hann hafa fengið mest það fje, er hann hefir látið af höndum rakna á þann hátt, endurgoldið, en hjálpsemi hans hefir þó verið svo mikil, að hún hefir hnekt efnahag hans. Það er þó ekki þetta, sem jeg tel aðalástæðuna til þess að samþykkja beri brtt., heldur að jeg álít, að óvenjulega mætan mann eigi að heiðra á óvenjulegan hátt. Hjer er ekki um fordæmi að ræða, því að öðrum góðum mönnum ólöstuðum hefir þessi maður haft óvenjulega mikla þýðingu fyrir okkar þjóð.