19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

16. mál, fjárlög 1930

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram nokkrar brtt. við þennan kafla fjárlaganna. Vík jeg þá fyrst að XXVI. brtt. á þskj. 345, sem jeg flyt ásamt fleiri þm., um að hækka styrkinn til útgáfu jarðabókar Árna Magnússonar. En þessa till. höfum við komið okkur saman um að taka aftur við þessa umr.

Þá jeg XXXI. brtt. á þskj. 345, um að Sigurði Skúlasyni verði veittur 1500 kr. styrkur til sagnfræðistarfa. Eins og menn munu minnast, hafa áður verið samþ. í þessu skyni 2000 kr. handa þessum manni, en Ed. lækkaði þann styrk niður í 1000 kr. Fjárlögin voru þá samþ. óbreytt eins og þau komu frá Ed. Nú hefir þessi maður stundað bókmentasögu miðalda, einkum einn þátt hennar. Hann hefir nú í nærfelt ár kynt sjer skjalasöfn erlendis. Hann þykir einkar efnilegur fræðimaður, er bæði ötull og ástundunarsamur og alls góðs maklegur. Það er oss eigi með öllu vansalaust, að það skuli oft og tíðum hafa verið útlendingar, sem hafa orðið til þess að bregða ljósi yfir ýms atriði í sögu vorri. Hefir það þó eigi stafað af því, að eigi hafi verið íslenskum efnismönnum til að dreifa á þessu sviði, heldur sökum þess, að þá hefir skort fjármuni, svo að þeir gætu notið sín. Sá þáttur bókmentasögunnar, er Sigurður Skúlason fæst við, er lítt rannsakaður, en er þó mjög merkilegur.

Þó að allar fjárveitingar til einstakra manna hafi löngum verið kallaðar bitlingar, þá er þó vafasamt, að nokkru fje hafi verið betur varið, þegar það hefir komið niður á rjettum stað. Mætti í því sambandi minna á Jón Sigurðsson, sem að vísu naut að miklu leyti styrks frá Dönum, en þó að nokkru leyti frá Íslendingum.

Jeg mun svo eigi fylgja þessari brtt. úr hlaði með fleiri orðum. Veit jeg, að menn munu bregðast við henni eftir því, hvaða hugarfar þeir bera til slíkrar starfsemi, sem styrkurinn er ætlaður til.

Þá á jeg enn brtt. um að styrkja bændur í Hraunamannahreppi til miólkurflutninga að bílvegi. Þessi hreppur er eigi síður vel fallinn til kúabúa en sauðfjárræktar. Hinsvegar vita allir, hve lítið verðmæti hefst upp úr mjólk með því að nota hana eingöngu heima fyrir og vinna úr henni heima. Nú hafa bændur í þessum hreppi gengið í mjólkurbúið í Flóanum og orðið að skuldbinda sig til að flytja mjólkina til búsins í 2 ár. Vegalengdin að mjólkurbúinu nemur um 70 km., og er sú leið ekki nærri öll bílfær. Bílvegur nær ekki nema að Laxá. Eftir sveitinni liggur ruddur óbílfær vegur, sem er að vísu fær með vagna á sumrum, en ófær þeim oft á vetrum. Þessi vegur er um 35–40 km. á lengd. Hjer er því um mikla vegalengd að ræða og ákaflega örðuga flutninga. Virðist því eigi ástæðulaust, þótt þessir menn væru styrktir nokkuð til að koma vöru sinni á markaðinn.

Vera má, að einhverjir telji, að hjer sje vafasamt fordæmi gefið. Jeg get ekki skilið, að svo sje. Fyrst og fremst er hjer um óvanalega vegalengd og erfiðleika að ræða, og í öðru lagi eru aðeins tvö mjólkurbú á öllu landinu, annað í Eyjafirði og hitt í Flóanum. Hið þriðja verður máske stofnað í sumar í Ölfusi.

Þessir menn vilja nú sjá, hversu starfsemin gefst við Ölfusá, áður en þeir ráðast í að byggja mjólkurbú hjá sjer. En jeg tel satt að segja hæpið, að búast megi við, að þessi langi flutningur borgi sig, ef ekki kemur sjerstök hjálp til. En hvað sem því líður, hafa bændurnir nú skuldbundið sig til að flytja mjólkina til búsins, og verður eigi hjá því komist. Við atkvgr. þá, sem fram fer um þessa till., reynir á þá menn, sem telja sig vilja styðja hag bænda í hvívetna. Og er nú að sjá, hversu kapparnir gefast.

Þá á jeg brtt. á sama þskj., undir tölulið XLIII.: Til Guðmundar Jónssonar frá Stokkseyri. til vjelfræðináms í Þýskalandi, til að læra að fara með dieselvjelar, kr. 1500.00. Þetta er mjög ötull maður. Hefir hann stundað járnsmíði í 3 ár og er fullnuma í því. Ennfremur hefir hann gengið í vjelstjóraskólann og farið námið prýðilega úr hendi. Nú hefir hann hug á að komast til Þýskalands og kynna sjer smíði og meðferð dieselvjela. Þessar vjelar eru nú mjög komnar í notkun hjer á landi, en enginn hefir enn kynt sjer meðferð þeirra til neinnar hlítar. Vjelbátaútvegurinn fer nú stöðugt vaxandi, og mega því allir sjá, hve bráðnauðsynlegt það er að vita góð skil á þessum vjelum. Má fullyrða, að dýrar vjelar hafi oft orðið ónýtar fyrir fákunnáttu eina. Vitanlega er best að afla sjer þekkingarinnar í því landi, þar sem vjelarnar eru smíðaðar.

Jeg vona, að hv. þdm. líti á það, að ekki þarf nema hluta af einu vjelarverði til að borga þann litla styrk, sem hjer er farið fram á. Myndi hann því áreiðanlega margborgast, þó að óbeint væri, þegar á fyrsta ári. Vænti jeg, að hv. deild láti nú fram koma víðsýni og nærgætni og felli eigi þessa till. Eiga hjer sæti þeir menn ýmsir, sem betri þekking hafa vafalaust á nauðsyn þessa máls en jeg. Væri mjer þökk á, að þeir ljetu til sín heyra, því að meira munu vega orð þeirra en mín, sem sjálfur hefi að mestu fengist við landbúnað, en eigi sjávarútveg.

Um brtt. annara hv þm. ætla jeg ekki að tala. Þó vil jeg taka undir með hv. 3. þm. Reykv. um styrkinn til Sveinbjarnar Björnssonar skálds. Eru mjer kunnar prýðilegar gáfur þess manns og hefir hann margt ágætlega kveðið. Þætti mjer vel, ef þingið veitti honum nú viðurkenningu fyrir starfsemi hans í þágu íslenskra bókmenta.