19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

16. mál, fjárlög 1930

Hannes Jónsson:

Við þessa umr. liggur fyrir fjöldi af brtt., og hafa allmargir hv. þm. þegar talað fyrir sínum till. Hafa að vanda mörg fögur orð fallið frá hverjum einum, og svo virtist í hvert sinn, sem heimurinn myndi forganga, ef hlutaðeigandi fengi ekki það, sem um er beðið. Stendur vafalaust nokkuð ólíkt á um þessar fjárbeiðnir, en erfitt er að greina milli þeirra, því að kunnugleik brestur og sýnist sitt hverjum. Jeg hefi yfirleitt, hvorki nú nje áður, sjeð ástæðu til að styðja þessar brtt. við fjárlagafrv. Verð jeg þó að gera þá undantekningu, að því fje, sem varið er til að efla atvinnuvegina og auka verðmætið í landinu, þegar vel árar, tel jeg vel varið. Tel jeg ástæðu til að vera örari á fje í þeim tilgangi en öðrum.

Jeg á brtt. undir tölulið XLII. á þskj. 345, sem fer fram á að styrkja tilraun til aukinnar framleiðslu í landinu. Hún er um að veita Magnúsi bónda Jónssyni á Torfastöðum í Vestur-Húnavatnssýslu 1200 kr. til eflingar laxa- og silungaklaki. Klakstöð hefir Magnús þegar bygt og starfrækt með miklum dugnaði.

Jeg býst við, að sagt verði, að það mætti æra óstöðugan að styrkja af ríkisfje allar klakstöðvar á landinu. En jeg vænti, að mjer takist að færa hv. deild heim sanninn um, að hjer sjeu alveg sjerstakar ástæður fyrir hendi. Vil jeg því með fáum orðum skýra frá því helsta, sem þessu máli kemur við.

Fram af Miðfirði er, eins og kunnugt er, heiði sú, er Tvídægra nefnist. Hún er einkum víðfræg fyrir þann fjölda vatna, sem á henni er. Eru vötnin á Tvídægru talin eitt af þrennu, sem óteljandi sje á landinu. Í mörgum þessara vatna er silungsveiði. En um hálsana, sem ganga frá hálendinu út í bygðina, úir líka og grúir af vötnum. En sá ljóður er á ráði þeirra vatna, að ekki er í þeim silungur, nema urriði á stöku stað. En við rannsóknir hefir það komið í ljós, að skilyrði fyrir silungsrækt eru mjög góð í mörgum þessara vatna. Eigi nú að flytja silung í þessi vötn, verður að sækja hann langar leiðir. Á Tvídægru eru, eins og jeg hefi tekið fram, mörg veiðivötn, og í þeim eru bæði góð og miður góð silungakyn. Magnús á Torfastöðum hefir nú leitað um alla heiðina og loks fundið í einu vatni mjög álitlegt silungakyn. Undanfarin 2 haust hefir hann gert mikið til að afla hrogna úr þessu vatni. Hefir hann klakið þessum hrognum út í klakhúsi sínu án verulegra vanhalda og slept silungum í vatn í landareign sinni, svonefnt Torfastaðavatn, en jafnframt reynt að útrýma urriðanum, sem þar var fyrir, því að urriði spillir yfirleitt silungsrækt í vötnum, nema þar sem hann er ræktaður eingöngu.

Jeg vil nú leyfa mjer að lesa upp kafla úr brjefi frá Pálma Hannessyni náttúrufræðingi um starfsemi Magnúsar. Vænti jeg, að hv. deild meti mikils orð hans. En brjefkaflinn hljóðar svo:

„Bóndinn á Torfastöðum, hr. Magnús F. Jónsson, er leiguliði. Hann er næsta áhugasamur um fiskirækt og hefir sýnt það í verki, sem nú skal greint verða.

Fyrir nokkrum árum bygði hann lítinn klakkofa á Torfastöðum, eftir fyrirsögn Þórðar Flóventssonar, til þess að koma upp bleikju í vatninu. En sá hængur var á, að hvergi var unt að fá bleikjuhrogn, fyr en suður á miðri Tvídægru. Bóndi tók sig nú upp laust eftir veturnætur og fór við annan mann suður á heiðina, að vatni því, sem Ketilvatn heitir. Það liggur um dagleið frá bygðum. En fyrir því var svo seint farið, að silungur hrygnir ekki fyr. Í vatninu aflaðist nokkuð af hrognbleikju. Flutti bóndi hrognin heim, og komst nokkuð af þeim upp.

Síðastliðið vor bygði Magnús bóndi lítinn kofa við Ketilvatn, til þess að geta legið þar við. Og á liðnum vetri fór hann 2 ferðir suður þangað við annan mann. Í fyrra sinni, þ. 6. nóv., var silungur ekki tekinn að hrygna, en í síðara skiftið, þ. 15. sama mán., fengust nóg hrogn.

Verður ekki annað sagt en að málið sje hjer kappsamlega sótt, og væri vel, ef svo væri víðar um þetta mál og önnur.

Á hálsunum beggja megin Miðfjarðar eru mörg vötn, en mjer er sagt, að ekki sje bleikja í neinu þeirra. Ýms þessara vatna eru óefað vel fallin til fiskiræktar. Ef bleikjurækt tækist á Torfastöðum, væri hægur vandi að koma upp bleikju í vötnum þessum, og gæti það orðið til mikilla hagsbóta, því að engan efa tel jeg á því, að bleikja sje betur hæf til ræktunar í fjallavötnum en urriði, og þó einkum á Norðurlandi.

Af þeim ástæðum, sem nú eru greindar, tel jeg sanngjarnt og æskilegt, að bóndanum á Torfastöðum, hr. Magnúsi Jónssyni, verði veittur styrkur af almannafje til starfsemi sinnar“.

Nú hefir Magnús í hyggju að bæta klakhús sitt og kaupa nýja klakkassa. En til þess vantar hann fje.

Auk þess sem Torfastaðir yrðu mjög hentug miðstöð fyrir silungsklak í hjeraðinu, mætti líka stunda þar laxaklak. Ár í Vestur-Húnavatnssýslu eru vel fallnar til laxræktar. Skal jeg minna á það, að síðastl. sumar var fluttur út lax frá Hvammstanga fyrir 16 þús. kr., og er þó ekkert gert til að vernda laxinn eða fjölga honum. En tilraunir í þá átt myndu áreiðanlega bera góðan árangur.

Hjer í hv. deild hefir mikið verið talað um innflutning sauðnauta. Mjer þykir einkennilegt, ef menn vilja efla landbúnaðinn með því að flytja inn með ærnum kostnaði sauðnaut, kanínur og refi, jafnvel frá öðrum heimsálfum, en vilja ekkert leggja fram til að hægt sje að hagnýta auðsuppsprettur landsins sjálfs. Jeg álít að þjóðin eigi fyrst og fremst að nota sjer þá möguleika, sem þetta land býður, og vafasamur hagnaður sje að dreifa kröftunum út fyrir þær atvinnugreinar, sem hún hingað til hefir stundað. A. m. k. verður að gæta fullrar varasemi, þegar slík spor eru stigin. Jeg skal raunar ekki bera á móti því, að gott sje að atvinnulífið sje sem fjölbreyttast. En þann atvinnuveg, sem haldið hefir lífinu í þjóðinni gegnum eldraun liðinna alda, ber fyrst og fremst að leggja stund á.

Jeg skal eigi fara fleiri orðum um þetta mál. Hjer eru fáir viðstaddir, og þó að jeg tali yfir tómum stólum, efast jeg um, að þeir sannfæri hv. þm., þegar þeir setjast á þá. En jeg vona, að þeir, sem mál mitt hafa heyrt, greiði ekki atkv. gegn þessari till. Sumir segja sjálfsagt, að fleiri muni á eftir fara. En jeg get gjarnan sagt það, að jeg teldi ekki fráleitt að styrkja aðra eins framfaraviðleitni og hjer er um að ræða á nokkrum stöðum í landinu, því að sú viðleitni miðar að því að auka atvinnu. En það hygg jeg, að Húnavatnssýsla muni öðrum hjeruðum betur fallin til slíkrar starfsemi.