19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg ætla aðeins að minnast á nokkrar brtt. viðvíkjandi lánum úr viðlagasjóði.

Fyrst skal jeg nefna brtt. hv. þm. Barð. undir tölulið LVIII. á þskj. 345, um að gefa eftir 30 þús. kr. af rafveituláni Patreksfjarðarhrepps. Þessi hreppur hefir tvisvar fengið lán, hið fyrra 1918, að upphæð 55 þús. kr., og hið síðara 1920, að upphæð 30 þús. kr. Námu því bæði lánin saman 85 þús. kr. Af þessu láni eru nú eftir kr. 66916,67. Hreppurinn hefir altaf staðið í skilum með rentur og afborganir, síðast á gjalddaga 1928.

Hv. fjvn. flytur brtt. undir tölulið 71,d á þskj. 293, um að veita uppgjöf vaxta og greiðslufrest afborgana af dýrtíðarlánum Gerðahrepps og Innri- Akraneshrepps árin 1929 og 1930. Till. er aðeins framhald till., sem samþ. var á þinginu 1927 um að veita sömu hreppum uppgjöf vaxta og greiðslufrest afborgana það ár og næsta. Vildu hrepparnir upphaflega fá lánin eftirgefin að fullu, eða a. m. k. nokkru leyti, en þingið sá sjer eigi fært að verða við beiðni þeirra. Lágu og enn fyrir þessu þingi beiðnir um eftirgjöf, en hv. fjvn. hefir enn sem fyr talið þá leið ófæra.

Gerðahreppur fjekk fyrst lán árið 1923, að upphæð 20 þús. kr. Af því hefir hann borgað 2000 kr., en vextir eru ógreiddir fyrir árin 1927 og 1928. Árið eftir, 1924, fjekk hreppurinn aftur 20 þús. kr. lán og hefir greitt af því 1000 kr. Skuld hans við viðlagasjóð er því alls 37 þús. kr. auk vaxta.

Innri-Akraneshreppur fjekk 3000 kr. að láni árið 1928. Af því láni hefir ekkert verið greitt. Ársvextir af því eru kr. 157,50, og hefir hreppurinn fengið uppgjöf þeirra fyrir árin 1927 og 1928, en fer nú fram á að fá hana einnig 2 næstu ár.

En þetta eru ekki einu hrepparnir, sem svona stendur á fyrir. Svipað er ástatt um Grunnavíkurhrepp í Ísafjarðarsýslu og Árneshrepp í Strandasýslu. Þykir mjer sennilegt, að þessir hreppar komi síðar og fari fram á ívilnanir. Sú leið, sem hv. fjvn. vill nú fara, er engin lausn þessara vandræða. Jeg lít svo á, að sumum hreppunum yrði ofþyngt, ef heimta ætti af þeim fulla greiðslu. Væri ilt, ef framkvæmdir manna þar sliguðust vegna þeirra þungu útgjalda, sem af því myndi leiða.

Rjettast myndi vera að taka þessar lánveitingar til fátækra hrepna allar til athugunar í einu lagi. Væri sú leið hugsanleg, að þingið fæli ríkisstj. að gera nýja samninga með meiri eða minni eftirgjöfum, eftir ástæðum. Jeg hafði ætlað mjer að bera fram till. í þessa átt, en fjell frá því, meðfram af því, að líkur eru til þess, að viðlagasjóður hverfi nú inn í búnaðarbankann. Tekur bankinn þá við öllum skuldabrjefum sjóðsins. Taki bankinn til starfa bráðlega, sem vel getur orðið í lok ársins, myndi ekki koma til kasta ríkisstj. að semja um lánin, heldur bankastj.

Ef gera ætti upp við hreppana, yrði að rannsaka fjárhag þeirra allítarlega. Og við væntanlega samninga yrði að líta á hag viðlagasjóðs, eftir því sem hægt er, en þó þannig, að gjaldendum fátækustu hreppanna verði ekki ofboðið. Skal jeg í þessu sambandi geta þess, að jeg tel vonlaust, að Gerðahreppur geti staðið straum af sínum skuldum. Hinsvegar er það svo, að þegar till. koma fram í þinginu um að gefa þessum eða hinum hreppnum upp ýmsar skuldir, er það ekki bygt á neinu samræmi milli hreppanna, og tilviljun ein, hvort samþ. eru eða ekki, en á þann hátt skapast órjettlæti milli hreppanna.

Jeg skal ekki beinlínis mæla gegn því, að till. verði samþ., en eins og á stendur get jeg ekki talið það hyggilegt. Það væri rjettara fyrir þingið nú að gera engar þær ákvarðanir viðvíkjandi þessum skuldum, sem gætu valdið meira ósamræmi milli hreppanna en nú er, og eftir því sem jeg þekki til, stendur nokkuð misjafnlega á fyrir þessum hreppum, sem hjer er um að ræða.

Jeg vildi ekki eiga frumkvæði að því. að sti. yrði falið að athuga þessi mál, meðfram vegna þess, að viðlagasjóður er nú á förum. En ef d. óskar þess. er hægt að koma með till. þar um við 3. umr.

Þá vil jeg með fáum orðum drepa á brtt. hv. þm. Dal. um uppgjöf á viðlagasjóðsláni til Tómasar Kristjánssonar. Að mínu áliti er lán þetta sama sem tapað, því að jeg tel tryggingar fyrir því einskis virði. Að öðru leyti er hv. deild sjálfráð um, hvað hún gerir.