27.04.1929
Efri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer er ljúft að verða við þeirri ósk hv. 5. landsk., að gefa honum þá yfirlýsingu, að jeg og minn flokkur höfum fullan skilning á nauðsyn aukinnar ræktunar í kaupstöðum og að við viljum vinna að því við fyrsta tækifæri að beina lánsfje með rjettlátum kjörum til þeirra, sem í kaupstöðum og kauptúnum búa, til þess að ljetta undir með þeim, sem við jarðrækt fást að meira eða minna leyti. Jeg skal aftur geta þess, að Búnaðarþingið samþ. till. um að skora á stjórn Búnaðarfjelagsins að láta undirbúa löggjöf um þessi mál. Jeg sem formaður Búnaðarfjelagsins tel mig skyldan til að verða við þessari áskorun, og jeg mun ekki, svo framarlega að jeg held heilsu, láta þetta undir höfuð leggjast. Mín skoðun er sú, að þjóðfjelaginu sje fyrir bestu, að hver einasti verka- og sjómaður á þessu landi eigi einhvern grænan blett eða að minsta kosti garð. Með því hygg jeg, að best sje trygð efnaleg, andleg og líkamleg velferð þeirra einstaklinga, og þá um leið þjóðarheildarinnar. Og fátt mun betur stuðla að friði og heilbrigðri þróun þjóðfjelagsins og festa verkamanninn betur við föðurlandið og kenna honum að elska sitt land. Af þessum meginástæðum, og mörgum fleiri, álítur Framsóknarflokkurinn skyldu sína að beita sjer fyrir þessum málum, og jeg get með glöðu geði gefið skýlausa yfirlýsing um, að mál þetta skal verða tekið til gagngerðrar yfirvegunar til næsta þings, og skal þá lagt fyrir þingið ítarlegt og vel undirbúið frv. um þessi efni. Það er ekki svo að skilja, að jeg gefi þessa yfirlýsingu vegna tilmæla hv. 4. landsk. eingöngu, heldur einkum og sjer í lagi með tilliti til þess, að þetta er einn liður í því að auka ræktun landsins, sem er aðalstefnumark míns flokks. Og það er skoðun Framsóknarflokksins, að þjóðfjelaginu beri að stuðla að aukinni garð- og jarðrækt í kaupstöðum og kauptúnum, með því að leggja fje af mörkum í því skyni beinlínis og með því að koma á fót lánsstofnun til þess að fullnægja lánsþörfum þeirra, sem við jarðrækt eða landbúnaðarframleiðslu fást.

Út af því, sem hv. þm. sagði um viðlagasjóðslánin samkv. 22. gr. fjárlaganna, þá skal jeg taka það fram, að það kemur ekki til mála, að neitt hlje verði á þeim lánveitingum við þær breytingar, sem hjer er um að ræða. Og það skal að lokum tekið fram, að í minni stjórnartíð hefir engin fyrirstaða verið gegn því, að slík lán væru veitt.