19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

16. mál, fjárlög 1930

Gunnar Sigurðsson:

1Ræðuhandr. óyfirlesið. Jeg skal vera stuttorður eins og minn er vani.

Jeg á hjer brtt. við 14. gr. B. II. c. Nýr liður: Til Gústafs Pálssonar, til verkfræðináms 1000 kr. Þetta er efnilegur maður, og gæti jeg lesið upp vottorð um það, ef þyrfti. Jeg skal lýsa yfir því, að jeg mun fylgja brtt. hv. þm. Ísaf. um að hækka námsstyrk, sem mentamálaráð úthluti, og vænti jeg þess, að ef till. mín fellur, þá verði hann tekinn upp þar.

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um sandgræðslustyrkinn, sem við þm. Rang. förum fram á. Þegar jeg var hjer fyr á þingi, fór jeg með landbn. til að skoða sandana eystra. Skal jeg fullyrða, að sumir munu ekki hafa verið ráðnir í að veita fje til sandgræðslu, er þeir fóru, en það sáu þeir, að fáu fje mundi betur varið en til uppgræðslu á landi því, er sandar höfðu eytt.

Þá flyt jeg till. um styrk til Dýraverndunarfjelags Íslands. Jeg hefi áður flutt samskonar till.; var hún þá samþ., en síðar var styrkurinn aftur feldur niður úr fjárlögunum, til minkunar fyrir þing og þjóð. Jafnframt því, sem dýraverndun er menningarmál, er hún og hagsmunamál. Og jeg er þess fullviss, að þessi fjárveiting muni margborga sig fyrir þjóðina, þó ríkistekjurnar eflist ekki beinlínis við það. En fjelagið er nú efnalega illa statt.

Þá vil jeg minnast á styrk til Kristjáns í Auraseli, 500 kr. Þessi fjárveiting var samþ. hjer í fyrra, en hv. Ed. gerði þann búhnykk að ætla sjer að laga fjárl. með því að fella upphæðina niður. Hjer er um fjárveiting í eitt skifti fyrir öll að ræða; finst mjer einkennilegt, ef hv. d. getur ekki fallist á að veita þessa litlu viðurkenningu. Hefir maðurinn oft lagt sig í lífshættu og bjargað með því mörgum mannslífum. Má t. d. bera þetta saman við allar þús., sem eytt er árlega í krossa til mismunandi verðugra manna.

Enn vil jeg minna á brtt. við 16. gr. um 500 kr. styrk til að endurreisa bygð í Haukadal. Þessi bær er gististaður þeirra, er sækja skóg í þennan hluta sýslunnar. Menn kunna að segja, að hann geti fengið lán til að koma þar upp byggingu, en það er oftast ekki auðhlaupið að því fyrir fátæka menn, er ekki hafa upp á neitt sjerstakt veð að bjóða.