19.04.1929
Neðri deild: 49. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

16. mál, fjárlög 1930

0734Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Jeg vildi óska, að hv. þm., þeir er ekki hafa því meir áríðandi störfum að gegna, vildu hlýða á mál mitt, er jeg segi hjer frá áliti n. um till. þeirra, þó það sje ef til vill ekki merkilegt. Þó hefi jeg sitt lítið við hvern að tala, og mættu þeir gjarnan sýna n. þann sóma að hlusta á álit hennar.

Jeg skal ekki álasa hv. þm., þó þeir komi fram með brtt. um fjárveitingar til framkvæmda og menningarmála, og þó n. geti ekki fallist á nema lítið eitt af þeim brtt., þá er það ekki af því, að ekki sje farið fram á það, sem er gott og gagnlegt og vert styrktar. Jeg hygg, að þó við ræddum fjárlögin í 365 daga, þá mætti ávalt finna nýja og nýja hluti, er hægt væri að tala fyrir með góðri samvisku. En það er skylda n. að vera þar nokkurskonar stífla. Það má gjarnan ásaka hana fyrir þröngsýni og fjandskap við þarfar framkvæmdir. En hitt er víst, að þjóðin lifir ekki lengi á ríkissjóðnum, ef öllum er þar að hleypt, er þangað vilja komast.

Það er þá fyrst brtt. XIII. á þskj. 345, um að veita rannsóknarstofu háskólans 3000 kr. rekstrarstyrk. Þessi till. er tekin aftur og þarf því ekki að ræða frekar um hana.

Næst kemur brtt. XIV. á sama þskj. Fer hún fram á, að námsstyrkirnir hækki úr 4 þús. kr. í 12 þús. Er það 4 þús. kr. hærra en n. leggur til. Hv. flm. þessarar brtt. (HG) talaði mjög sannfærandi fyrir henni, og efast fjvn. alls ekki um það, að hægt sje að koma þessum peningum í lóg. En hún lítur svo á, að fje það, er hún leggur til að veitt verði í þessu skyni, sje nægilegt til að styrkja þá stúdenta, er þess sjeu maklegir og nauðsynlegt er fyrir þjóðina. Hv. flm. brtt. sagði meðal annars, að ef litið væri á það, hve mikinn kostnað ríkið bæri af þeirri kenslu, er menn gætu fengið hjer innanlands, þá væri það ekki nema sjálfsagt, að þeir, er nema vildu erlendis, fengju og nokkurn styrk. Það má vel vera, að nokkuð sje til í þessu. En það verður þá fyrst að athugast, að við höfum hjer háskóla heima, sem ríkið kostar að mestu leyti. Er það því skylda þess að efla hann og hlúa að honum eftir föngum. Nú er kostnaðurinn svipaður, hvort fleiri eða færri stunda þar nám. Það verður því að gæta þess að beina ekki frá honum öðrum námsmönnum en þeim, sem nauðsynlegt er fyrir þjóðfjelagið, að sigli utan til þess að nema þær greinar, er ekki er hægt að fá kenslu í hjer á landi. En ef menn geta fengið styrk til þess að nema erlendis, má búast við því, að fleiri verði til þess en nauðsynlegt er. Þar sem nú ekki verður samt hjá því komist, að einhverjir sigli til að nema ýms fræði, sem ekki eru kend hjer, leggur n. til, að veittar verði í þessu skyni 8 þús. kr. Telur hún, að það muni nægja til viðbótar við hinar föstu 24 þús., sem veittar eru í sama skyni. — Hvað snertir persónustyrki til stúdenta frá ýmsum hv. þm., þá leggur n. á móti þeim öllum af þeim ástæðum, er jeg hefi þegar greint.

Um brtt. XVII á sama þskj. er það að segja, að n. er á móti henni. Því eftir þeim upplýsingum, er hún hefir fengið, þá mun innheimtu skólagjaldanna vera hagað svo, að efnilegir en fátækir nemendur munu yfirleitt losna við að greiða þau.

Þá er það brtt. XVHI., frá hv. þm. Ísaf., um að veita Iðnaðarmannafjelaginu á Ísafirði 1500 kr. í stað 500, og til vara 1200 kr. Hv. flm. brtt. hefir nú tekið aðaltill. aftur, en meiri hl. n. vill mæla með varatill.

Svo er það brtt. XIX., um að styrkurinn til kvennaskólans verði hækkaður úr 15 þús. og í 21 þús. kr. Um þessa till. hefir n. óbundnar hendur, en meiri hl. er henni meðmæltur. Lítur hann svo á, að meðan ekki sje Komið fast skipulag á húsmæðrafræðsluna í landinu, sje ekki ástæða til þess að fara að breyta til hvað þennan eina skóla snertir.

Þá er það brtt. XX., frá hv. 1. og 3. þm. Reykv., og er þess efnis, að gagnfræðaskóli Reykjavíkur fái 3000 kr. styrk. Þessi brtt. er nú tekin aftur, en síðar mun koma varatill., er meiri hl. n. mælir með.

Næst er XXI. brtt., frá hv. þm. Ísaf., um að veittur verði 20 þús. kr. byggingarstyrkur til húsmæðraskólans á Ísafirði. Hún hefir nú verið tekin aftur og kemur því ekki til atkvæða. (HG: Það er ekki rjett). Jeg skildi það svo og a. m. k. býst jeg við, að það væri það hyggilegasta fyrir hv. flm.

Svo er brtt. XXII., frá hv. þm. V.-Sk., um að hækka styrkinn til húsmæðrafræðslu í Vík úr 1500 kr. í 2500. N. efast ekki um það, að þessi starfsemi er góðs makleg, en getur þó ekki fallist á þessa hækkun. Það eru svo mörg kvenfjelög á landinu, sem hafa svipaða starfsemi með höndum, og býst jeg við, að mörg þeirra þættust góð, ef þau gætu fengið 1500 kr. styrk til sinnar starfrækslu. Virðist mjer því, að þetta hv. kvenfjelag geti verið vel ánægt með þann styrk er því er ætlaður.

Þá er brtt. XXIII, frá hv. þm Vestm., um að veita Björgu Sigurðardóttur 1500 kr. utanfararstyrk og 2000 kr. til þess að kenna mönnum síldarát. N. getur ekki mælt með þessum styrkjum. Því að þó að henni detti ekki í hug að neita því, að síld sje holl og góð fæða, þá virðist henni ekki ástæða til að leggja fram fje til þessa úr ríkissjóði. Auk þess hefir Kenslu verið haldið hjer uppi nokkurn tíma, og virðist lítill árangur af því. Hinsvegar efast n. ekki um það, að þessi kona er gegn og góð og þessu starfi vaxin. Og ef hún kann að búa til 20 rjetti, eins og skýrt hefir verið frá hjer í deildinni, þá ætti það að nægja fyrst um sinn. Því ef Íslendingar læra að jeta 20 rjetti síldar, ættu þeim ekki að verða vandræði úr því að notfæra sjer hana.

Þá er önnur brtt. frá þessum sama hv. þm., um að styrkurinn til Bandalags skáta verði 1000 kr. í stað 500. N. getur heldur ekki fallist á hana, en heldur sjer við það, sem hún hefir áður lagt til, að hin upphæðin, þótt lægri sje, verði látin nægja að sinni til að sýna þessum fjelagsskap þá viðurkenningu, er hann verðskuldar. Hv. þm. hjelt því nú reyndar fram, að fjelagsskapurinn myndi ekki komast af með þetta og yrði því að hætta að starfa, ef hann fengi ekki þessar 1000 kr. En jeg vil leyfa mjer að geta þess, að hann hefir nú starfað styrklaust í mörg ár, og ætti þessi styrkur því, þó lítill sje, heldur að verða til þess að auka starfsemi hans heldur en draga úr henni.

XXIV. brtt. er tekin aftur af flm. hennar, og þarf því ekki að ræða hana frekar.

Þá er XXV. brtt., frá hv. þm. Ísaf., að hækka styrkinn til Leikfjelags Ísafjarðar úr 600 kr. í 2500 og til vara í 1000 kr. N. getur ekki fallist á þetta. Því þó að hún viti, að Ísfirðingar sjeu listelskir og listhneigðir, þá finst henni þeir þó ekki þola samanburð við höfuðstað Norðurlands, Akureyri, og verði því að sætta sig við að standa skör lægra.

Hvað snertir XXVI. brtt., um að veita Páli Ísólfssyni 2500 kr. til þess að veita ókeypis kenslu í orgelleik o. fl., þá er það svo, að meiri hl. n. mælir á móti henni, en að öðru leyti hefir hún óbundnar hendur. Jeg hefi því ekki leyfi til að mæla með henni fyrir hönd n., þó jeg hefði mikla tilhneigingu til þess hvað sjálfan mig snertir. En aðrir hafa nú þegar gert það svo vel, að óþarfi. er þar nokkru við að bæta.

Þá eru nokkrir listastyrkir frá hv. þm. Ísaf. Er það brtt. XXVII. Verð jeg að hryggja hv. þm. með því, að n. mælir á móti þeim öllum. Hún hefir að vísu ekki ástæðu til að halda, að þetta fólk sje ekki styrks maklegt, en sjer sjer þó ekki fært að veita svona mikla upphæð að sinni.

Um brtt. XXVIII. er það að segja, að n. felst á varatill., að Sveinbirni Björnssyni verði veittar 1000 kr. Er hún samdóma því, er sagt hefir verið um mann þennan. Hann er skáld gott frá náttúrunnar hendi og hefir brotist áfram í lífinu gegnum mikla örðugleika. Hefir hann aldrei fengið neina viðurkenningu fyrir skáldskap sinn. Þykir n. því rjett, að honum í eitt skifti fyrir öll verði veittur þessi styrkur.

Þá er brtt. XXIX., þess efnis, að Þórbergur Þórðarson fái 2400 kr. í stað 1200. N. hefir óbundnar hendur um hana. Meiri hl. mun þó greiða henni atkv. sitt. Sama er að segja um brtt. XXX., um styrk til Magnúsar Ásgeirssonar. Hefir n. óbundnar hendur um hana. Þó mun meiri hl. hennar vera mótfallinn brtt.

Brtt. XXXI., frá hv. 1. þm. Árn., um að veita Sigurði Skúlasyni mag. art. 1500 kr. og til vara 1000 til sagnfræðistarfa, mælir n. eindregið á móti. Gat hún ekki sannfærst um það, að slík þörf lægi hjer fyrir hendi, að rjett væri að veita þennan styrk.

Sama er að segja um brtt. XXXII, frá hv. þm. Barð., um að veita Samúel Eggertssyni 2000 kr. til þess að semja og gefa út hlutfallauppdrátt af sögu Íslands. Mælir n. eindregið á móti henni, en fellir hinsvegar engan dóm um þetta verk.

Þá kemur brtt. XXXIII., frá hv. 1. þm. Reykv., um 1000 kr. styrk til íþróttafjelags stúdenta, til þess að senda glímumenn á samkomu í Kiel. Meiri hl. n. er á móti henni. Býst jeg við, að þar ráði nokkru, að n. hafði áður lagt til, að glímufjel. Ármann yrði veitt nokkurt fje til þess að sýna glímu í Þýskalandi. Álítur hún því síður þörf á að bæta þessu við, þó þetta sje að vísu nokkuð annað. Og hefði engin svipuð beiðni legið fyrir, mundi meiri hl. hafa mælt með henni.

Um brtt. XXXIV., frá hv. þm. Rang., um að 12 þús. kr. af sandgræðslufje gangi til girðingar á Rangárvöllum, gat n. ekki orðið einhuga um. En meiri hl. hennar mælir með brtt. Það væri nú ekki nema eðlilegt, þó mönnum þætti nokkuð mikið gert fyrir þetta hjerað í þessum efnum, ef á að veita því 12 þús. kr. af þeim ca. 50 þús., er fara til sandgræðslu. En þeir, sem þekkja ástandið þar, vita að það er mjög slæmt, þar sem hætta er á, að mikill hluti sýslunnar blási upp. Hinsvegar hafa þær ráðstafanir, er gerðar hafa verið til þess að hindra þetta, borið svo góðan árangur, að þær rjettlæta fyllilega, þó nokkru sje til kostað. Og jeg fyrir mitt leyti er fyllilega sannfærður um, að þessu fje sje vel varið. Hitt getur vel verið, að meir orki tvímælis, hvort ekki væri rjett að setja þeim mönnum, er þar eiga hlut að máli, harðari skilyrði en gert er hvað snertir þátttöku í kostnaði við byggingu girðinga, því þetta kemur að miklum notum fyrir gróðurlönd einstakra manna.

Þá er það brtt. XXXV., frá hv. þm. V.-Sk., um að veita 5 þús. kr. til áveitu og sandgræðslu í Meðallandi. N. viðurkennir fyllilega röksemdafærslu hv. þm., en getur þó ekki mælt með brtt. að sinni. Fyrir fjvn. lágu 2 umsóknir um fje til Skaftfellinga í svipuðu skyni, og get jeg glatt hv. þm. með því, að n. hefir ákveðið að mæla einhuga með þeirri lægri, en treysti sjer ekki til þess að leggja með þeim báðum.

Þá kemur XXXVI. brtt., frá hv. þm. Vestm., um að veita 12 þús. kr. til þess að byggja ræktunarveg í Vestmannaeyjum. Eftir því að dæma, er hv. þm. talaði fyrir þessari brtt., þá er hjer að ræða um áframhald af verki, sem þegar hefir verið byrjað á og borið góðan árangur. N. mælir því ekki á móti þessari brtt. En hinsvegar lágu svo litlar upplýsingar fyrir um þetta, að n. óskar þess, að flm. taki hana aftur til 3. umr., svo henni gefist kostur á að kynna sjer þetta betur með upplýsingum frá hv. þm. og Búnaðarfjelagi Íslands.

Næst er brtt. XXXVIII., frá hv. 2. þm. Skagf., hv. þm. Borgf. og hv. 3. þm. Reykv., um að veita 15 þús. kr. til að rannsaka og gera till. um raforkuveitur til almenningsþarfa utan kaupstaða. Hv. 2. þm. Skagf. talaði mjög rækilega fyrir þessu máli, og er enginn ágreiningur um meginatriði þess innan n. Aftur á móti eru það ýms smærri atriði, sem n. hefir ekki komið sjer saman um. Hefir það því orðið að samkomulagi við flm. brtt., að hún verði tekin aftur til 3. umr., svo n. geti komið sjer saman um öll atriði þessa máls.

Brtt. XXXVIII. er svo smávægileg, að ekki þótti ástæða til að taka afstöðu til hennar.

Þá flytur hv. 2. þm. Eyf. brtt. þess efnis, að veittar verði alt að 75 þús. kr. til bryggjubyggingar í Siglufirði. N. er algerlega ókunnugt um þetta mál, því það kemur eins og skollinn úr sauðarleggnum. Getur hún því ekki tekið afstöðu til þess að svo stöddu, en verður að kynna sjer það fyrst.

Þá er það brtt. XL., frá hv. 1. þm. Árn., um að bændum í Hrunamannahreppi verði veittar 5000 kr. og til vara 4000 til þess að flytja að bílvegi mjólk í mjólkurbúið í Flóanum. N. mælir á móti þessari till., að einum undanteknum. Hv. 1. þm. Árn. brýndi okkur með því, að við sýndum best áhuga okkar fyrir landbúnaðinum með því, hvernig við styddum þessa brtt. En mjer finst engin velvild felast í því að ausa út fje, áður en einhverjar þær ráðstafanir eru gerðar, er tryggja það, að gagn verði að því. Og hvað þetta snertir finst mjer, að þetta sje sama og kasta fjenu í sjóinn, því alt verður við það sama eftir sem áður. Þessu fje væri miklu betur varið til þess að bæta aðstöðu þessara manna á einhvern hátt, t. d. með vegum, brúargerðum, jarðræktarframkvæmdum eða því líku. En að ætla sjer að styrkja þá til þess að flytja mjólk á klökkum án þess að gera nokkuð til þess að bæta veginn, nær ekki nokkurri átt. Ef þessi till. hefði farið þess á leit, að veittar yrðu 5–10 þús. kr. til þess að bæta vegina þarna, þá var alt öðru máli að gegna. Þá var verið að búa í haginn fyrir framtíðina. En eins og till. er nú, er hjer aðeins um kák að ræða, og sem þar að auki gæti skapað hættulegt fordæmi. Því þó nú sjeu aðeins tvö mjólkurbú í landinu, þá er mjög líklegt, að fleiri rísi upp, og þá er hætt við því, að margir gætu farið fram á flutningsstyrk, er meiri ástæðu hefðu til þess en bændurnir í Hrunamannahreppi. N. leggur því á móti þessari fjárveitingu.

Þá er brtt. frá nokkrum hv. þdm. um að veita Dýraverndunarfjel. Íslands 2500 kr. og til vara 2000 kr. N. getur ekki mælt með þessari till. Henni er ekki ljóst, að svo mikið liggi eftir fjelagið, þó tilgangur þess sje góður, að bægt sje að búast við því, að stórvirki yrðu gerð fyrir þessa upphæð. Lítur hún svo á, að ekki sje ennþá ástæða til þess að styrkja fjelagið af opinberu fje.

Þá flytur hv. þm. V.-Húnv. brtt. þess efnis, að Magnúsi Jónssyni á Torfastöðum verði veittar 1200 kr. til eflingar laxa- og silungaklaki. Öllum hv. þdm. mun vera það kunnugt, að þessi hv. þm. er hinn mesti sparnaðarmaður. Ætti því að vera óhætt að treysta því, að þegar hann mælir með einhverju, þá sje þar um nytjafyrirtæki að ræða. Enda efast n. alls ekki um það, að hjer sje þarfamál á ferðinni. Hitt er meira vafamál, hvort hjer sje um vísa fjárvon að ræða. Niðurstaðan verður því sú, að meiri hl. n. mælir með þessari till., en að öðru leyti hefir hún óbundnar hendur.

Næst er brtt. frá hv. 1. þm. Árn., þess efnis, að Guðmundi Jónssyni á Stokkseyri verði veittar 1500 kr. til þess að læra að gera við Dieselvjelar. Þó þetta kunni að vera þarflegt, gat það þó ekki fundið náð fyrir augum nefndarinnar, og leggur hún móti því.

Þá kemur aftur á móti till. frá hv. 2. þm. Árn., sem fer fram á 1200 kr. styrk til Jakobs Gíslasonar cand. polyt., til framhaldsnáms í rafmagnsfræði. Meiri hl. n. mælir með því, að þessi styrkur verði veittur, því að hjer er efnilegur námsmaður, sem á hlut að máli, og í það starf, sem hann er að búa sig undir, vantar menn.

Næst kemur till. frá hv. báðum þm. Rang., sem gengur í þá átt, að Kristjáni Jónssyni í Auraseli verði veittar 500 kr. í viðurkenningarskyni fyrir leiðsögu yfir jökulvötn í Rangárvallasýslu um langt skeið. N. sjer ekki ástæðu til þess að mæla með þessari till., því að það er vitanlegt, að um alt land eru margir menn, sem fylgt hafa fólki yfir ár, og sjer hún því ekki ástæðu til að taka einn fram yfir annan. Sama er að segja um 2. till. þessara hv. þm., um 500 kr. styrk til að endurreisa bygð í Haukadal. Það virðist helber hjegómi, og slík fjárveiting sem þessi segir hvorki heilt nje hálft, enda álítur n., að fyrir þessu sje að nokkru leyti sjeð í byggingar- og landnámssjóði.

Þá kemur brtt. frá hv. þm. V.-Sk., hv. þm 6600 kr. styrk til að bæta úr skemdum, sem orðið hafa af völdum jökulárinnar Skálmar. Þetta er nú töluverð hækkun, en við nánari athugun fjelst n. á að mæla með þessari till., því að það er aðkallandi nauðsyn, að bætt verði úr þeim spjöllum, sem áin hefir valdið.

Þá kemur breytingartillaga frá hv. þm. V.-Ísf., sem fer fram á 2000 kr. styrk til minningarsjóðs frú Maríu Össursdóttur, til berklavarnastarfsemi. Meiri hl. n. mun hafa haft á móti þessu, en nm. hafa þó óbundnar hendur. Sama er að segja um svipaða till. frá hv. 2. þm. G.-K.

Þá kemur brtt. frá hv. þm. V.-Ísf., er fer fram á, að styrkur Páls Árdals verði hækkaður upp í 800 kr. Með henni mælir n.

Þá kemur till. frá hv. þm. Barð., er fer fram á 700 kr. styrk til ekkju Sigurðar heitins Þórólfssonar. Jeg vil að vísu undirstrika margt af því, er hv. þm. sagði um þann mann, því að það var margt gott um hann, en þótt Alþ. hafi gengið inn á þá braut, að styrkja ekkjur opinberra starfsmanna, þá er það hæpið, að það geti styrkt ekkjur svo að segja hvers góðs manns. Einu sinni var samþykt að veita gömlum ljósmæðrum styrk, en það dró dilk á eftir sjer, og n. vildi varast að opna nýjar leiðir með slíkum styrkveitingum sem þessum.

Þá kemur brtt. frá hv. þm. S.-M., við 18. gr., að fyrir 200 kr. komi 300, en hjer er um svo litla fjárupphæð að ræða, að n. sá ekki ástæðu til að mæla á móti henni.

Þá kemur nýr liður, styrkur til Sigurjóns Friðjónssonar skálds, 1200 kr. N. hefir hjer óbundnar hendur, og hefi jeg því ekki heimild til að tala frekar um það. Sama er að segja um brtt. frá hv. 1. þm. Skagf., að Guðm. Friðjónssyni verði veittar 2000 kr. í stað 1200. Um það hefir n. óbundnar hendur; í henni eru misjafnlega listhneigðir menn, en þeir munu sýna vilja sinn við atkvgr.

Þá kemur brtt. frá hv. þm. N.-Þ., um að Einari Þorkelssyni verði veittur 1800 kr. styrkur. N. leggur á móti því, sökum þess að hún álítur, að Alþ. hafi þegar farist svo vel við þann mæta mann, að ekki sje ástæða til frekari styrktar. Hann hefir nú 2500 kr. auk dýrtíðaruppbótar, og n. sjer því ekki ástæðu til að bæta ofan á það, sem þegar er fyrir.

Þá kemur brtt. LVI., en flm. hennar er nú veikur, svo að hann hefir ekki getað mælt með henni, en n. hefir snúist eins hjer og gegn ekkju Sig. Þórólfssonar. Hún sjer ekki annað en að ef þetta verður, þá verði að opna ríkissjóðinn til eftirlauna öllum hjúkrunarkonum landsins, en það vill hún ekki taka á sig að svo komnu.

Þá kemur brtt. LVII, frá hv. 1. þm. S.-M. og hv. þm. N.-Ísf., um styrk til Sigfúsar Vigfússonar og Guðm. Einarssonar. Það hefir verið talað vel fyrir þessari till., og þar sem áður hefir verið stigið svipað spor, getur n. ekki annað en lagt til, að þessum efnilegu hagleiksmönnum verði veitt svipuð aðstaða við þeirra þarfa starf — rafveiturnar.

Þá kemur brtt. frá hv. þm. Barð., er fer fram á 30000 kr. eftirgjöf af rafveituláni Patrekshrepps. N. getur á engan hátt lagt með því eins og það liggur fyrir, en viðurkennir hinsvegar, að það þarf að athuga gjaldþol hreppsins og aðstæður og endurskoða þá samninga er gerðir hafa verið. Ennfremur stendur nú til, að viðlagasjóður falli undir búnaðarbankann, og þá má gera ráð fyrir, að hann reyni að ná því inn, sem hægt verður að ná. Þing og stj. ættu því áður en lán þessi eru afhent bankanum að láta fara fram endurskoðun á högum og gjaldgetu skuldunautanna, og taka þær ákvarðanir um lánin, sem álitin eru landinu og viðkomandi hjeruðum fyrir bestu. Og því hefir n. dottið í hug að vísa öllum þesskonar málum til stj. til rannsóknar fram til næsta þings. Annars vill n. óska þess, að hv. þm., sem að slíkum till. standa, taki þær aftur til 3. umr. og reyni að bræða sig saman við n.

Þá kemur till. frá hv. 2. þm. Árn., um að Stokkseyringum verði gefið eftir lán það, sem þeir urðu að fá hjá viðlagasjóði sökum stórbruna haustið 1926. Hv. þm. hefir mælt með þessari till. og tekið fram það, sem fram þurfti að taka, og öllum er kunnugt um gjaldþol þessa sveitarfjelags, enda munu menn ekki hafa búist við, að lán þetta yrði endurgreitt. Þess vegna mælir n. með því, að lánið verði eftir gefið, þar eð hún sjer ekki ástæðu til, að þetta verði látið standa lengur sem skuld, því að vitanlega verður það aðeins á pappírnum.

Þá kemur næst brtt. frá hv. 1. þm. S.-M., er fer fram á 90000 kr. ábyrgð til rafvirkjunar í Reyðarfjarðarhreppi, gegn þeim tryggingum, sem stj. metur gildar. N. er sammála um, að af þeim heimildarumsóknum, sem henni hafa borist vegna rafvirkjana, er þessi lakast undirbúin, og henni er ekki einu sinni ljóst, hvernig stöð þessa eigi að starfrækja. N. vill þó ekki mæla á móti þessari till., en vill vísa henni til hæstv. stj., en vonar, að hún gangi úr skugga um, að verkið sje á tryggum grundvelli bygt, áður en ábyrgðarheimildin er veitt, og eins sje hitt athugað, hve mikið lán hreppurinn getur borið. Í þeirri von mælir hún með þessari till.

Þá kemur brtt. frá hv. 1. þm. Skagf., en vegna veikinda hefir hann ekki getað talað fyrir henni og hefir því tekið hana aftur til 3. umr.

Þá kemur brtt. frá hv. þm. V.-Ísf. og hv. 3. þm. Reykv., er fer fram á, að Magnúsi Helgasyni skólastjóra verði greidd full laun, ef hann skyldi fara frá embætti. Fyrir till. þessari hefir verið talað rækilega og n. leggur til að hún verði samþ.

Þá kemur brtt. frá hv. 2. þm. Reykv., um að bjóða Jóni rithöfundi Sveinssyni heim og greiða úr ríkissjóði allan kostnað við för hans. Þetta er eiginlega breyting á brtt. n., því að hún hafði ætlað honum 600 kr. styrk til ferðarinnar. N. er á móti því að greiða allan kostnaðinn við för hans, því að hún lítur svo á, að það, sem hann aðallega hafi þörf fyrir, sje opinber stimpill til fararinnar, svo að hann eigi hægara með að fá heimfararleyfi. Því að hann er bundinn í báða skó innan klaustursveggjanna. Ef honum væri veittur einhver opinber styrkur. myndi hann eiga hægara með að fá leyfið, en varla yrði hann í vandræðum með fje, hví að kaþólska kirkjan myndi kosta för hans, og hún er nú svo efnum búin, eins og menn vita, að hún þarfnast ekki styrks til slíks.

Á þskj. 355 er till. frá hv. þm. Dal., sem fer fram á, að Stefáni frá Hvítadal verði veittur 2000 kr. skáldastyrkur. Það er eins með þessa till. og aðrar slíkar, að n. hefir þar óbundnar hendur, þar eð hún gat ekki komið sjer saman um styrkinn.

Þá kemur brtt. frá hv. þm. Dal., sem fer fram á eftirgjöf á viðlagasjóðsláni til Tómasar Kristjánssonar. Eftir þeim upplýsingum, sem n. hefir fengið bæði hjá hæstv. fjmrh. og hv. þm., er þetta fje tapað, og því liggur sýnilega ekki annað fyrir en að gefa það eftir.

Þá kemur brtt. frá tveimur hv. þm. Reykv. um 2000 kr. styrk til gagnfræðaskólans í Reykjavík. N. mælir með þessari till., en einhverjir hafa þó óbundnar hendur.

Jeg sje, að hv. 1. þm. Reykv. er ekki viðstaddur, en jeg þurfti að beina nokkrum orðum til hans, en vona, að einhver af flokksbræðrum hans láti hann vita, hvað jeg hefi sagt. Hann ljet þau orð falla í gær, að n. vildi hliðra sjer hjá þeim málum, er snertu alþingishátíðina, en svo er mál með vexti, að alt önnur n. fjallar um það, sem lýtur að undirbúningi hátíðahaldanna, og öll störf hennar eru svo leyndardómsfull, að við höfum fengið að vita um fæst það, sem hún hefir haft með höndum. Henni hafa borist ýms mál til umsagnar, eins og t. d. umsókn um styrk til norræns stúdentamóts, og ýmsar aðrar styrkbeiðnir, en hún hefir ekkert látið frá sjer heyra til þessa. Líklega hefir hún stungið þessum málum undir sinn verndarvæng, og er því ósennilegt, að þessi n. hafi nokkuð þar að segja. En hvað sem því líður, er ekki að búast við, að við tökum nokkra afstöðu til þessara mála, meðan við höfum enga hugmynd um þær heildarfyrirætlanir um hátíðina, sem hátíðarnefndin kann að búa yfir.

Þá vildi jeg svara þeirri aths. hæstv. forsrh., er hann sagði, að ef till. n. næðu fram að ganga, væri sjeð fyrir því, að engin verkleg kensla gæti farið fram í búnaðarskólum, því að nemendur vildu ekki vinna við svo lítinn styrk. Ef það borgar sig fyrir bændur að taka menn og láta þá vinna sömu verk með því að gjalda þeim nokkurt kaup, ætti það að borga sig fyrir skólastjórana að greiða nemendum þeim, sem hjá þeim vinna, svipað kaup, því að verk nemendanna koma skólastjórunum til tekna; aðstaða þeirra er hin sama og bændanna. Mjer fyrir mitt leyti var nokkurnveginn sama, hvort það ætti að vera eins og það er, en n. þótti rjett að slá því föstu, að þessi styrkur skyldi renna til nemendanna sjálfra, en ekki skólastjóranna.

Þá spurði hæstv. forsrh., hvað við meintum með því að ákveða upphæðina til byggingar fyrir landssímann. Við fórum þar eftir áætlun landssímastj., en okkur var ekki fast í hendi að ákveða upphæðina, ef það bryti í bága við framkvæmd verksins. Legg jeg því til fyrir hönd n., að burt verði feld fjárupphæðin, en heimildin látin standa.

Jeg man svo ekki eftir, að það væri fleira, sem jeg þurfti að svara, en ef það er eitthvað, býst jeg við, að því verði skotið að mjer.