26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (744)

16. mál, fjárlög 1930

Fjmrh. (Einar Árnason):

Jeg ætla ekki að þessu sinni að gera einstakar brtt. að umræðuefni. Má vera, að tækifæri verði til þess síðar við umr. þessa. Það eitt, sem jeg vildi segja nú, er það, að jeg teldi því mjög miður farið, ef margar eða máske flestar þær brtt., sem hjer liggja fyrir frá einstökum þm., verða samþ. Með þessu vil jeg þó ekki segja það, að í mörgum þessum till. kunni ekki að felast þarflegir hlutir, þótt jeg í því efni geri mikinn mun á þessum till. En heildarlega er það um þær að segja, að það eru takmörk fyrir getu ríkissjóðs að leggja fram fje, jafnvel til nauðsynlegra framkvæmda. Eftir frv. því, sem nú liggur fyrir, er framlagið til verklegra framkvæmda óvenjulega mikið; sjerstaklega er mikið áætlað til samgöngubóta, enda þótt svo virðist, sem sumum þyki enn of lítið að gert. Útgjöldin eru nú þau hæstu, sem afgreidd hafa verið frá Alþingi. Þó stefna sumar brtt. að auknum framkvæmdum. Og þótt segja megi, að slíkar till. sumar væru æskilegar, ef geta leyfði, þá eru þó margar till. í þessum parti fjárl., sem engan rjett eiga á sjer að verða samþ. Jeg vil þó naumast ætla það, að hv. þm. hafi komið fram með neitt án þess þeim sje það alvörumál að fá það samþ. En jeg held þó, að þeir hv. þm. allir verði að greiða atkv. á móti flestum þessum till., sem setja hærra gætni í fjármálum heldur en gálausan bitlingaaustur. En þetta kemur vitanlega í ljós við atkvgr., hvorri stefnunni hv. þm. vilja fylgja.

Ef þessar brtt., sem hjer liggja fyrir, verða flestar eða allar samþ., þá leiðir það af sjer tekjuhalla á fjárl.frv., sem nemur alt að 1/3 milj. kr. Má þó enn búast við hækkun í Ed. og að tekjuhallinn vaxi þar frekar en minki. En þá get jeg ekki komist hjá því að leggja fyrir mig þá spurningu: Hvað ætlast hv. þm. fyrir með slíkri afgreiðslu fjárl.? Er það ekki tilgangur þeirra að stilla svo í hóf, að ætla megi, að tekjur og gjöld standist á? Jeg vil nú gera ráð fyrir því, að þetta sje vilji hv. þm. En þegar litið er yfir allar þær mörgu og stóru brtt., sem nú liggja fyrir, þá sjest, að hörðum höndum verður um þær að fara, eða þá að öðrum kosti að sleppa öllum tökum á því, hvernig fjárl. verða úr garði gerð. Ef hv. þm. ætla að samþ. þessar brtt. og hafa hugsað sjer að auka tekjur ríkisins að sama skapi, þá sje jeg nú ekki, að það sje mögulegt, með öðru þá en því að auka skattabyrðina. En að það sje gert, því er jeg algerlega mótfallinn. Eins og jeg er mótfallinn því, að niður sjeu feldir tekjustofnar nú, þá er jeg og einnig á móti því, að gripið verði til þeirra ráða að hækka skattana til þess að halda fjárl. í sæmilegu horfi.

Hvað till. þeim viðvíkur, er hv. fjvn. hefir borið fram, þá get jeg fallist á, að meiri hl. þeirra eigi fullan rjett á sjer. Verð jeg að segja, að hv. fjvn. hefir nú stilt þeim kröfum mjög í hóf, sem hún gerir um útgjöld ríkissjóðs.

Mjer hefir virst svo, að hv. fjvn. hafi reynt að stýra hjá öllum vandræðum að því er snertir afgreiðslu fjárl. Jeg vænti því, að jeg megi byggja á stuðningi hennar í því að halda enn í hófi öllum útgjöldum. Sömuleiðis vil jeg mega vænta stuðnings annara hv. dm. til hins sama, enda þótt þær brtt., er bornar hafa verið fram, beri þess vott, að menn hafa mikla þörf fyrir að fara í ríkissjóðinn. En þrátt fyrir það alt vænti jeg þess, að hv. dm. gæti hófs í útgjöldum og styðji að því, að afgreiðsla fjárl. verði svo góð, að vel megi við una.