26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

16. mál, fjárlög 1930

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á hjer tvær brtt., sem jeg vildi fara um örfáum orðum. Fyrri brtt. er á þá leið, að aftan við upphæðina, sem ætluð er mönnum til að fá sjer gervilimi, bætist sú aths., að styrkurinn greiðist aðeins þeim mönnum, sem kaupa gervilimi innanlands. (MG: Er hægt að fá þá alla hjer?). Já, og sá maður, er hefir lagt stund á smíði gervilima hjer, hefir jafnvel oft og tíðum smíðað erlenda gervilimi upp. Mjer finst það óþarfa eyðsla að láta fje, sem varið er í þessi skyni, fara út úr landinu, og þótt mönnum sje að vísu ekki of gott að prófa erlenda gervilimi, er óþarfi, að ríkið styrki menn til þess.

Sá maður, sem fengist hefir við smíði gervilima hjer á landi, er hagleiksmaður hinn mesti og svo prýðilegur frágangur á handaverkum hans, að stórum þykir bera af erlendu smíði af sama tægi. Mjer finst því rjett að setja þessa aths. aftan við upphæðina, því að hún tryggir, að menn fá góða smíði, jafnframt sem hún miðar að því að styrkja þennan mann. Þessi ráðstöfun yrði því báðum aðiljum til gagns. En að sækja gervilimina til útlanda er fordild, sem landið á ekki að borga.

Þá kem jeg að síðari brtt., sem fer fram á að veita 5000 kr. til umbóta á vegi í Hrunamannahreppi. Við 2, umr. bar jeg fram brtt. um að styrkja bændur þar í hreppnum til þess að koma mjólk sinni til mjólkurbúsins. Benti jeg þá á þá sjerstöku örðugleika, sem hjer er um að ræða, og mun jeg ekki endurtaka þá lýsingu mína hjer. Þessi till. mín var feld, og þóttust menn óttast fordæmi, ef hún yrði samþ. Jeg geri nú að vísu ekki mikið úr þeirri röksemd. Óvíða munu vera 70 km. til mjólkurbús. Nú eru heldur ekki nema 2 eða 3 mjólkurbú á öllu landinu. Styrkurinn skyldi ganga til að ljetta undir um mjólkurflutning á þeim hluta leiðarinnar, sem ekki er bílfær, en það er um 20–30 km. vegalengd. Frsm. fjvn. sagði, að þetta væri kák, og væri betra að bæta veginn. En þær endurbætur hljóta að ganga seint, ef hreppsbúar eru ekki að neinu leyti styrktir til þeirra. Vegurinn er mjög slæmur og ófullkominn eins og hann er nú. Hitt er rjett, að hið æskilegasta er, að hann verði bættur.

Nú hefi jeg verið svo hæverskur að biðja aðeins um 5000 kr. styrk í þessu skyni. Þetta er ákaflega lítið, en jeg bjóst við, að ekki þýddi að fara fram á meira þetta árið. Bændur eru bundnir tveggja ára samningum um sölu mjólkur til mjólkurbúsins, og auðvitað þurfa þeir að flytja fleira bæði að sjer og frá. Vegurinn verður ófullkominn eftir sem áður, enda þótt gera mætti talsverðar endurbætur á honum fyrir þessa fjárupphæð. Vona jeg, að fjvn. álíti ekki, að hjer sje um fordæmi að ræða, því að vegir hafa þó verið bættir áður.

Jeg get bætt því við, að styrkur sá, er mjólkurverksmiðjan „Mjöll“ nýtur, hefir að nokkru leyti gefið fordæmi, enda þótt hv. frsm. fjvn. mintist ekki á það; enda er jeg ekki um það að fást. Það er mín skoðun, að ríkið eigi að styrkja hvaða iðngrein sem er og ætla má, að til nytja geti orðið, þangað til fyrirtækin eru komin yfir byrjunarörðugleikana. Jeg vona, að hv. d. sjái, að hjer er um svo mikla sanngirniskröfu að ræða, að hún ljái málinu fylgi sitt.