26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

16. mál, fjárlög 1930

Sveinn Ólafsson:

Jeg er riðinn við tvær brtt. við þennan kafla fjárl., sem sje XIX. brtt. og XXI. brtt. áþskj.408. Síðari till. er borin fram af sjútvn., og mun jeg minnast á hana lítið eitt síðar, en fyrst vil jeg víkja að minni eigin till.

Þessi XIX. brtt. lá hjer fyrir í annari mynd við 2. umr. fjárl., og fjell þá með eins atkv. mun. Jeg þykist mega fullyrða, að misskilningur hafi valdið því, að till. fjell. Það kom ljóslega fram í ræðu hv. frsm., að hann talaði um till. eins og um það væri að ræða að reisa vita í Papey.

Jeg hafði þá farið fram á 12 þús. kr. til loftskeytastöðvar þar, sem jafnframt yrði notuð til þess að senda út miðunarmerki að nóttu til, með sjálfvirku miðunartæki, svo gerð yrði tilraun um, hvað sterk þessi miðunartæki þyrftu að vera. Hv. frsm. talaði um þetta eins og vitabyggingu, og er vel skiljanlegt, að n. hafi ekki viljað styðja byggingu nýs vita í Papey, því að þar hefir verið viti í 7 ár, og engin þörf fyrir annan til viðbótar. En þörfin er brýn fyrir loftskeytastöð og meðal annars vegna vitans.

Í reglugerð um starfrækslu vitanna er svo mælt fyrir, að vitaverðir skuli gera vitamálastjóra viðvart, ef eitthvað ber út af með vitaljós, og sjáanlega getur sjófarendum stafað mikil hætta af bilun vita, og það er sjerstaklega mikilsvert, að gera aðvart um bilun vita á þessum stað, þar sem mikill hluti þeirra skipa, sem sigla á milli meginlands Evrópu og Íslands, fer einmitt um þessar slóðir.

Jeg hefi þó ekki lagt aðaláhersluna á þetta, heldur hitt, að á þessum stað er betra að gera veðurathuganir en nokkrum öðrum eystra, og þær athuganir koma að gagni fyrir alt landið. Veðurathugun á þessum stað er því líklegri til gagns, sem þarna eru oft vinda- og veðramót og sýni langt til með ströndinni, eins og forstjóri veðurstofunnar hefir tekið fram í erindi sínu. Hann telur sjerstaklega æskilegt, að veðurathuganir fari fram daglega á þessum slóðum.

Í öðru lagi hefi jeg tekið það fram, að hjer væri um að ræða öryggisráðstöfun fyrir fiskiflotann við Austurland; og álít jeg með öllu óforsvaranlegt, að þingið neiti um þá tryggingu, að komið verði á hraðskeytasambandi milli Papeyjar og lands. — Jeg fjölyrði svo ekki meira um þessa till.; um hana var margrætt við 2. umr. En jeg vil geta þess, að eins og till. liggur nú fyrir, þá fer hún aðeins fram á, að einföld loftskeytastöð verði reist í Papey, en miðunartækin verður að fella niður, þar eð fjárveitingin er lækkuð, sem nemur þeim kostnaði, er til þeirra þarf. — Jeg hefi hjer gert ráð fyrir 10 þús. kr., eða álíka upp hæð og landssímastjóri áætlar að þurfi fyrir stöð með stuttbylgjum. Jeg býst ekki við, að hægt sje að setja upp miðunartæki í viðbót fyrir þetta fje þó æskilegt hefði verið að fá skorið úr því, hve öflug tæki þyrfti til miðunarinnar. Jeg vil segja, að eins og nú er ástatt hefði verið sjálfsagt og meira að segja skylt að fara eftir hærri áætlun landssímastjóra og byggja stöð fyrir 20000 kr., sem örugg væri að ná til Reykjavíkur á hverjum tíma. En um það þýðir ekki að tala framar Hv. fjvn. vildi ekki fallast á þessa till. þegar þess var leitað, og fyrir því er nú farið fram á stuttbylgjustöð, sem ekki er örugg með að koma skeytum svo langa leið, en mundi þó, að dóm landssímastjóra, oftast nægja. Jeg vil bæta því við, að ef til vill þarf stöðin ekki að kosta eins mikið og till. fer fram á. Ef önnurhvor loftskeytastöðin, sem nú er á leið Suðurlandslínunnar yrði tekin niður og flutt í Papey, þá fjelli niður nokkur hluti stofnkostnaðarins. (LH: Þær verða aldrei teknar upp; vötnin geta eyðilagt landssímalínuna). Þessi fjárveiting er þá til vara, ef hvorug loftskeytastöðin verður flutt.

Jeg vil taka það fram, að jeg þykist enga ölmusuför þurfa að fara með þessa till. eða fyrir þetta hjerað, sem í hlut á. Jeg bið einskis í þessu efni, heldur krefst jeg þess, að till. verði tekin til greina. Jeg held því fram, að þetta hjerað greiði svo rösklega í ríkissjóðinn, að hjer sje alls ekki um neina ölmusu að ræða, heldur sjálfsagða viðurkenningu. Og þó að hv. frsm. vildi við 2. umr. gera lítið úr þeim ástæðum, þá má sjálfsagt sannfæra hann með tölunum, og þeim verður eigi hnekt.

Þá kem jeg að XXI. brtt., sem er frá sjútvn. Þar er farið fram á 4000 kr. til þess að gefa út hafnsöguskrár með uppdráttum, eftir ósk vitamálastjóra. Um langt skeið hefir danska flotamálastj. gefið út ritling einn, „Den islandske Lods“, sem mikið hefir verið notaður á íslenskum skipum í siglingum hjer með ströndum fram. Þetta er allstór bók með góðum myndum og uppdráttum. En af því að bók þessi er einkum ætluð útlendingum, þá er hún mun stærri og ítarlegri um margt en þörf er á handa Íslendingum, sem hjer eru öllum staðháttum kunnugir, og er í bókinni eytt miklu máli til að lýsa þeim.

Þessi bók er á útlendu máli, og því ekki eins handhæg öllum Íslendingum, sem við siglingar fást, eins og ef hún væri á íslensku. Vitamálastjóri hefir gert nokkurn undirbúning að riti þessu, ásamt öðrum siglingafróðum manni, og hefir hann hugsað sjer að fara á næsta sumri í skoðunarleiðangur umhverfis landið, hafa handritið með í þeirri för og gera á því leiðrjettingar. Gerir hann ráð fyrir, ef styrkurinn fæst, að gefa ritið út næsta vetur, svo að það verði tiltækt árið 1930. Hann hefir samið við flotamálastj. dönsku og fengið loforð fyrir myndum og uppdráttum til afnota við útgáfu þessarar bókar. Fyrir þá skuld er gert ráð fyrir, að útgáfan verði tiltölulega ódýr; hyggur vitamálastjóri, að þessar 4000 kr. nægi, án þess að ritið þurfi að verða dýrt fyrir kaupendur.

Sjútvn. virðist einsætt að fara eftir óskum vitamálastjóra um þetta, því að hjer er eigi aðeins um nauðsynjarit að ræða fyrir sjómenn, heldur er það metnaðaratriði fyrir þjóðina að eiga slíkt rit á íslensku og þurfa ekki að sækja það til annara.

Nafnið, sem sjútvn. hefir valið þessu riti, er ekki bein útlegging á danska bókarheitinu, en jeg hygg, að við það megi una. Ætlast er til, að bókin verði í sama formi og danska útgáfan, „Den islandske Lods“.

Jeg býst ekki við að fara fleiri orðum um þessa till.; n. öll telur einsætt að samþ. hana. Það má auðvitað segja, að þetta hafi ekki stórvægilega þýðingu, því að sjómenn geti bjargast við danska ritið. En vel gæti komið fyrir, að það færi að strjálast um útgáfu þess. Jeg held, að undanfarið hafi ritið verið gefið út á 5 ára fresti með smábreytingum. En eftir því sem strjálast siglingar Dana hjer við land, má vænta, að ritið verði fágætara.