26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1503 í B-deild Alþingistíðinda. (752)

16. mál, fjárlög 1930

Hákon Kristóferson:

Jeg á nokkrar brtt. við þennan kafla fjárl., sem jeg vildi minnast á örfáum orðum, þó til lítils muni koma að upplýsa hv. deild um ýms atriði viðkomandi þessum till. mínum, þar sem 20 menn vantar í deildina. Mjer þykir lakara, að hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur, því að það gat ef til vill verið komið undir svari hans, hvort jeg tek aftur fyrstu brtt. mína: II. við 12. gr. Þar er farið fram á lítilfjörlegan styrk til tveggja hreppa, vegna erfiðleika við að ná til læknis. Þetta virðist ekki ósanngjarnt, því að það hagar svo til, að læknissetrið er á öðrum enda hjeraðsins, og þegar læknir er sóttur, verður að fara bæði á sjó og landi. Það er oft og einatt dýrt fyrir fátæka menn í hvert skifti, sem lækni þarf að sækja, að þurfa að leigja mótorbát eftir lækni frá Patreksfirði báðar leiðir, og þurfa svo að fara langan veg, hvort heldur það er inn á Barðaströnd eða út í ytri hluta Rauðasandshrepps; má það teljast fátækum mönnum mjög oft um megn að þurfa að vitja læknis eins og hjer til hagar. Upphæð sú, sem jeg fer fram á, er lítil og ætti hún því fremur að ná samþykki d. Eins og jeg hefi þegar tekið fram, er till. flutt samkv. ósk viðkomandi hreppa. Það hefir áður tíðkast að þingið hefir sjeð ástæðu til að veita fríðindi í svipuðum tilgangi. Jeg verð að geta þess í sambandi við þessa till., að það er ekki tekið fram, að liðurinn breytist samkv. henni, ef hún verður samþ., en auðvitað yrði það svo að vera, ef upphæðin hækkar sem þessu nemur. Jeg hefi leitt þetta í tal við skrifstofustjóra, og hyggur hann að þetta megi lagfæra í prentun.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þessa brtt., enda er hún ekki svo fyrirferðarmikil, að hún þurfi frekari skýringa við, og legg jeg hana undir dóm hv. d.

Þá kem jeg að annari brtt. minni, sem er undir X I., við 13. gr. B. III (brúargerðir), og legg jeg til að liðurinn hækki um 85 þús. kr. Við nánari athugun og eftir að hafa talað við ýmsa kunnuga menn hefi jeg látið prenta till. upp aftur með þeirri aths., að aukningunni skuli varið til þess að brúa Vatnsdalsá og Vattardalsá í Barðastrandarsýslu. Nú gæti komið til mála, að jeg fjelli frá aukningartill. minni, en til þess þarf jeg umsögn hæstv. atvmrh., að sömu upphæð verði varið af fjárhæð þeirri, er í fjárl. er ætluð til brúargerða, til þess að brúa þessar ár, því að það kæmi auðvitað í sama stað niður. Allir þeir, sem til þekkja, vita, að ár þessar liggja á endum hreppanna við langa heiði og er langt til bæja. Hafa menn mörgum sinnum orðið teptir sökum vaxtar í ánum. Þegar farið er yfir heiðina, er stundum hægt að komast yfir aðra ána á fjöru, en þegar komið er að hinni ánni, er hún ef til vill ófær, svo að menn hafa jafnvel orðið að bíða þar í 11–12 klukkustundir. Mjer og öðrum, sem orðið hafa fyrir óþægindum af þessum farartálma, er það fyllilega ljóst, að svo lengi hefir verið beðið eftir umbótum á þessum vandræða vatnsföllum, að frekari tafir á framkvæmdum eru alveg óforsvaranlegar. Á síðastl. sumri ljet vegamálastjóri gera áætlun um kostnaðinn af þessum brúargerðum, og er þessi upphæð í samræmi við þá áætlun. Mælingar þessar framkvæmdi Jón Ísleifsson, og reyndar á fleiri ám, því að þarna eru 8 allstórar ár óbrúaðar, og er það í hinu fylsta ósamræmi við það, sem gert hefir verið fyrir önnur hjeruð í þessum efnum, og mætti sem dæmi þess nefna veginn milli Borgarness og Stykkishólms, þar sem hver smáspræna hefir verið brúuð; og svo mun það vera á mörgum öðrum vegum. Mjer væri mikil þökk á því, ef hv. frsm. fjvn. gæti gefið mjer ákveðið svar viðvíkjandi því, hvort jeg gæti tekið aftur hækkunartill. mína í trausti þess, að þessar brúargerðir yrðu framkvæmdar nú á næsta ári, því að hæstv. atvmrh. er ekki staddur hjer nú og get jeg því ekki beint til hans orðum mínum. Jeg skal geta þess, að till. mín er fram komin fyrir ítrekaðar óskir hjeraðsbúa, sem gerst vita um þau vandræði, er af þessu brúarleysi stafa. Ef snjór er mikill, er vegurinn alveg ófær nema um fjöru, og eins og jeg tók fram áðan, er það mjög títt, að menn tefjist við árnar. Jeg hefi oft tepst við Vatnsdalsá, og það síðast í vetur. Vona jeg, að hv. fjvn. og hv. d. sjái, að hjer er aðeins um sanngjarna kröfu að ræða og verði vel við henni, enda styðst hún við þá till. vegamálastjóra, að brýrnar verði komnar á 1930. — Jeg mun svo ekki fara fleiri orðum um þessa till. mína, enda er fáskipuð deildin og hæstv. atvmrh. er ekki viðstaddur. En ef hv. frsm. treystist ekki að gefa mjer ákveðið svar við fyrirspurn minni, mætti vel vera, að hæstv. forseti veitti mjer leyfi til þess að beina spurningunni til hæstv. ráðh. síðar, þótt umr. um þennan kafla yrði þá lokið.

Þá kem jeg að síðustu brtt. minni, XXV., við 13. gr. E. VIII, nýr liður: Til lendingarbóta í Flatey á Breiðafirði, helmingur kostnaðar, alt að 3500 kr. — Það hefir verið svo, að á undanförnum þingum hefir verið veitt dálítil upphæð í þessu skyni, en hún hefir aldrei verið notuð. Undirbúningur var mjög ónógur, því að kostnaðarhliðin hafði ekki verið rannsökuð. Í Flatey er ekki einu sinni til sæmileg bátabryggja, því að þær, sem bygðar hafa verið, hafa ekki verið svo rammgerðar, að sjórinn hafi ekki unnið á þeim. Í fyrra kom Rútur Þorvaldsson verkfræðingur vestur og gerði teikningar og kostnaðaráætlun að þessu mannvirki. Því miður gat jeg ekki lagt þær áætlanir fram, þar sem hann er fjarverandi nú, en vitamálastjóri gat ekki fundið þær, og get jeg því ekki fullyrt, hve kostnaðurinn verður mikill nákvæmlega reiknað, en eftir því sem mig minnir, var kostnaðurinn áætlaður um 20 þús. kr.

Það, sem hjer er farið fram á, er aðeins hliðstætt kröfum úr öðrum áttum, sem þingið hefir tekið vel í, og vænti jeg þess, að hið háa Alþingi sýni þessari till. minni sömu sanngirni.

Mun jeg svo ekki fara fleiri orðum um till. þessa, enda er það mála sannast, að langt mál hefir litla þýðingu, og legg jeg till. mínar allar undir dóm hv. deildar. Að lokum vil jeg mælast til, að hæstv. forseti leyfi mjer að bera fram fyrirspurn mína til hæstv. ráðherra, þar eð hann er fjarstaddur nú.