26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

16. mál, fjárlög 1930

Lárus Helgason:

Í þessum kafla fjárl. eru tvær brtt., sem jeg vildi mæla nokkur orð fyrir. Hin fyrri er undir V. á þskj. 408. Jeg tók hana aftur við 2. umr. fjárl.

Það virðist kannske dálítið einkennilegt, að jeg skuli vera flm. að þessari till., en orsökin er sú, að þessi maður er ættaður úr mínu kjördæmi og er fluttur þaðan fyrir fáum árum. Hann hafði lært klæðskeraiðn og sett sig niður í Vestmannaeyjum sem klæðskeri. Í haust, í septembermánuði, veiktist hann hættulega af svokallaðri flogaveiki, sem lýsti sjer með mjög slæmum krampaköstum, og þurfti að vaka yfir honum nætur og daga, svo vikum eða jafnvel mánuðum skifti. Hann var lagður í sjúkrahús í Vestmannaeyjum um tíma, en var síðar fluttur eftir læknisráði hingað til Reykjavíkur, en fjekk þá ekki rúm á sjúkrahúsum hjer; fyrir það varð að koma honum fyrir í „prívat“-húsi, og var þar undir hendi Helga læknis Tómassonar í nokkra mánuði. En þetta varð mjög dýrt, því auk húslánsins varð að hafa tvo menn yfir honum, og varð að greiða þeim 20 kr. á dag. Er ekki að orðlengja það, að beinn kostnaður af þessum veikindum mannsins til þessa dags hefir numið um 3000 kr. Fólk þessa manns, einkanlega móðir hans, sem er þarna eystra, hefir mælst til þess, að jeg reyndi að fá einhvern ofurlítinn styrk til að ljetta undir þessa erfiðleika, og hefi jeg því gerst flm. þessarar till.

Jeg veit, að það er í mörg horn að líta, þegar um ríkissjóð er að ræða. En það er nú svo, þegar menn verða fyrir svona sjúkdómstilfellum, eins og þessi maður, að þá er náttúrlega mikil þörf á, að hið opinbera reyni að ljetta ofurlítið undir, og í þeirri meiningu hefi jeg ráðist í að flytja þessa brtt., og það því fremur, sem jeg hefi orðið þess áskynja, að líkt hefir oft átt sjer stað áður, og meira að segja, að á þessu þingi hafa verið samþyktar svipaðar till. Þar sem fyrri upphæðin er svo há, þá hefi jeg hugsað mjer að reyna, hvort hv. þd. gæti ekki fallist á að samþykkja lægri upphæðina.

Þessi maður mun nú orðinn eignalaus, því alt, sem hann átti, hefir gengið í kostnaðinn af þessum veikindum. Hann hefir verið ófær til vinnu frá því að veikindin hófust, en kvað nú vera orðinn nokkurnveginn heill heilsu. Þessi maður varð að leggja niður vinnustofu sína og selja fataefni, sem hann ætlaði að vinna úr, en á mjög óheppilegum tíma, því hann hafði pantað allmikið af fataefnum til að vinna úr og selja fyrir jólin, sem er besti tíminn fyrir þessa atvinnugrein, en veiktist þá og misti alls og varð að selja vörurnar með afföllum.

Jeg sje ekki neina þörf á að orðlengja frekar um þetta mál. Maðurinn er nú eignalaus og heilsulítill. Vil jeg því leggja það undir úrskurð hv. deildar, hversu fer um þetta mál, og vænta hins besta af hennar dómi.

Þá á jeg hjer aðra brtt., það er hin XV. í röðinni á sama þskj.: Til dragferju á Eldvatnið, helmingur kostnaðar, alt að 2000 kr. — Svo hagar til þarna, að nær öll sveitin, Meðallandshreppur, hefir verslun við Skaftárós; það eru ágætir vegir heim að hverju býli og út að vatninu, og svo þegar yfir það er komið, út að Skaftárósi. En á veginum er þetta vatn, sem er lygnt og djúpt sundvatn, það kemur undan hrauninu þar skamt fyrir ofan, hagar sjerstaklega vel til þar að koma á dragferju. Aðstoðarmaður vegamálastjórn, sem var sendur þangað til að athuga þetta, segir það sjerstaklega heppilegt og telur, að dragferja á þessum stað muni kosta um 4000 kr.

Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hver hagur það væri fyrir sveitina að fá dragferju yfir vatnið. Eins og nú er, verða þeir að leysa alt af vögnum sínum báðum megin við vatnið og ferja alt á smábáti yfir um, í staðinn fyrir að ef ferjan kæmi, þá gætu þeir teymt hvern hest með vagni út á ferjuna og flutt vagnana yfir vatnið án þess að leysa af þeim flutninginn.

Þetta er hið mesta nauðsynjamál fyrir sveitina og þess vegna vænti jeg, að hv. deild geti fallist að samþ. þessa upphæð. Upphæðin er ekki stór, þegar litið er á það, hvert gagn hún gerir þessari sveit. Það er ekki því fyrir mig að tala fleira fyrir þessari brtt., hún virðist liggja svo glögt fyrir og gagnið svo auðsætt, að jeg veit, að hver maður sjer og skilur, að þetta er sveitinni svo ákaflega dýrmætt, að ekki þarf orðum að því að eyða. Það er ekki lítill tími og erfiði, sem í það fer, þegar þarf að leysa af hverjum vagni við þetta sundvatn, — en vatnið hefir þann kost, að það frýs nær aldrei. Þessar ágætu aðstæður eru af því að vatnið sprettur undan hrauninu skamt fyrir ofan, svo það kemur mjög sjaldan fyrir, að veður spillist svo, að vatnið frjósi; í því er varmi þá það kemur upp undan hraunbrúninni. Leyfi jeg mjer svo að vænta þess, að hv. d. taki vel þessari brtt. minni, svo hún nái fram að ganga.