26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

16. mál, fjárlög 1930

Benedikt Sveinsson:

Þegar jeg hóf mál mitt áðan, var hv. þm. N.-Ísf. ekki viðstaddur, en hann er frsm. samgmn., og þykir mjer nú rjett að taka fram atriði viðvíkjandi efnum, sem við mundum eiga um saman að sælda. Það er viðvíkjandi Eyjafjarðarbátnum. Styrkurinn er hækkaður til bátsins, og sje jeg ekki glögt af þeim plöggum, sem legið hafa fyrir, á hverju það er bygt að hækka styrkinn, en býst þó við, að það sje til þess, að betur verði ræktar ferðir hans og ef til vill með dýrari bát en ella, eða að það verði þá ekki eins torvelt að fá menn til að fara þessar ferðir.

En jeg hefi áður talað um þetta mál hjer á þingi, í fyrra, þegar hv. samgmn. komst þannig að orði, að báturinn ætti að ganga frá Akureyri austur á bóginn til Húsavíkur. Þó var Langanes eitthvað nefnt í því sambandi, og neyddist jeg þá til að taka það fram til skýringar, að Húsavík væri ekki á Langanesi. Vona jeg, að hv. frsm. (JAJ) muni ennþá eftir þessu. En um leið og hv. n. hækkar styrkinn, kveðst hún ætlast til þess, að báturinn gangi til Húsavíkur, og jafnvel lengra austur, en það þykja mjer töluvert óákveðin orðatiltæki, og alveg nauðsynlegt að ákveða þetta með meiri nákvæmni, því fremur sem Norður- Þingeyingar kvarta um, að báturinn hafi farið of fáar ferðir á hafnirnar þar austur að undanförnu. Báturinn hefir slept að koma á hafnirnar austan Húsavíkur, Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn, bæði haust og vor, og er að því mikill skaði og óþægindi. Jeg fór þá fram á, að báturinn tæki á áætlun sína viðkomu í Kollavík í nokkrum ferðum milli Raufarhafnar og Þórshafnar, enda er það rjett í leiðinni. Þessu var vel tekið og heitið upp að taka, en eigi hefir það verið efnt, nema síður sje, því að báturinn mun hafa forðast þessa vík fremur en áður, og helst aldrei komið þar við í fyrra sumar.

Sá maður, sem kunnugastur er um nauðsyn á bátsferðunum til Kópaskers, Björn Kristjánsson kaupfjelagsstjóri, hefir tekið það fram við mig, að sá mikli ljóður væri á ferðunum, að báturinn kæmi þar ekki á þeim tíma, sem mest riði á, en það er í maí og í síðustu ferðinni í október, en þá þarf hann að koma við á öllum þremur höfuðhöfnum sýslunnar í báðum leiðum, austur og austan. Aftur mun ekki þurfa að átelja ferðir bátsins í júlí, ágúst og september, eftir því sem áætlanir hans eru nú, nema að því leyti, sem viðkomu vantar í Kollavík, sem jeg áður gat um og lagfæra þarf.

Jeg verð nú að bera fram þá eindregnu kröfu, að með auknum styrk úr ríkissjóði komi Eyjafjarðarbátur við í maí og minst eina ferð í október í báðum leiðum á þeim þremur höfnum, sem jeg hefi nú greint, umfram það, sem nú er ákveðið í áætlunum bátsins, og auk þess sjeu teknar á áætlun nokkrar viðkomur í Kollavík að sumrinu, þegar veður leyfir.

Jeg ætla ekki að halda hjer lengri ræðu, því að þegar hv. þm. er skýrt nokkurnveginn greinilega frá ástæðum, þá vona jeg, að þeir taki til greina það, sem sagt er.