26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1554 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

16. mál, fjárlög 1930

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Fjvn. á nokkrar brtt. við þennan kafla frv., og skal jeg fara um þær nokkrum orðum.

Jeg ætla þá fyrst að minnast á brtt. undir tölulið XXXVI á þskj. 408, um að fjárveiting til kvenfjelagsins óskar á Ísafirði hækki úr 5 þús. kr. upp í 6 þús. kr. Þetta fjelag hefir um nokkur ár haldið uppi skóla á Ísafirði, og er það sagður mjög góður skóli. Námsdvöl hefir orðið þar mjög ódýr. um 75 kr. á mánuði. En svo stendur á, að skólinn misti síðastliðið haust húsnæði það, er hann hefir áður haft, og verður nú að sæta lakari kjörum en hingað til. Því var það, að hv. þm. Ísaf. sótti til fjvn. um 20 þús. kr. byggingarstyrk handa skólanum. N. sá sjer þó eigi fært að verða við beiðni hans, en fjelst hinsvegar á að hækka rekstrarstyrkinn um 1000 kr.

Þá er brtt. undir tölulið XXXVIII á sama þskj.: Til Málfríðar Jónasdóttur frá Kolmúla, til blindranáms í Reykjavík, 500 kr. Þessi stúlka er ekki nema 20 ára gömul, en hefir verið blind helming æfi sinnar. Misti hún sjónina upp úr veikindum, en hafði þá lært nokkuð að lesa og skrifa. En hún er greind og námfús og hefir mikla löngun til frekara náms. Má vænta þess, að námið myndi gera hana hæfari en nú til að vinna fyrir sjer, og jafnframt stytta eitthvað það óslitna myrkur, sem fallið hefir yfir líf hennar. — Í fjárlögum er veitt nokkurt fje til blindranáms erlendis, en nauðsyn þykir til bera, að hún njóti nokkurs undirbúnings hjer í Rvík, áður en hún fer utan.

Þá er brtt. undir tölulið LII. á sama þskj., til norræns stúdentamóts í Rvík, 10 þús. kr. Norrænir stúdentar hafa síðan mörgum árum fyrir stríð haft með sjer fjelagsskap og haldið uppi heimboðum hverjir fyrir aðra. Á stríðsárunum fjellu þessi mót niður. En árið 1925 voru þau tekin upp aftur og hafa verið haldin bæði í Osló og Stokkhólmi. Hafa íslenskir stúdentar sótt þessi mót og hlotið alúðarviðtökur.

Er enginn vafi á því, að mótum þessum verður haldið áfram, og er uppi almenn ósk um, að næsta mót verði hjer á Íslandi árið 1930. Síðastl. sumar tók Stúdentafjelag Reykjavíkur málið að sjer og kaus nefnd til undirbúnings. Sneri sú nefnd sjer til hátíðarnefndarinnar og fjekk þar eindregna hvatningu til að hefjast handa. Er jafnvel svo að sjá, sem hátíðarnefndin hafi heitið nokkrum styrk til mótsins. Þegar svo var komið, sneri stúdentamótsnefndin sjer til erlendu stúdentanna og bauð þeim heim. Er ákveðið, að um 300 norrænir stúdentar sæki mótið hingað 1930. Stúdentamótsnefndin leitaði svo til fjvn. Alþingis um styrk til mótsins, en fjvn. sendi erindið til alþingishátíðarnefndar og ætlaðist til, að hún tæki það upp á sína arma. En hátíðarnefndin sendi það jafnskjótt frá sjer aftur með þeim ummælum, að það væri mál fjvn. og Alþingis. N. leit svo á, að ekki væri unt að neita um þennan styrk, fyrst og fremst vegna þess, að einhverntíma hlýtur að koma röðin að íslenskum stúdentum að stofna til stúdentamóts hjer á landi og endurgjalda þá gestrisni, er þeir hafa notið, enda skylda Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar. Í öðru lagi má ætla, að hugir margra mentamanna stefni sjerstaklega hingað til lands 1930, og í þriðja lagi er óhugsandi að kippa nú að sjer hendinni, þegar búið er að boða mótið. Jeg fyrir mitt leyti álít, að þessu fje sje vel varið, því að það er engan veginn einskis virði, ef við í hópi þeirra manna, er hingað kæmu 1930, eignuðumst góða vini, er síðar yrðu stoð og stytta Íslands meðal erlendra þjóða. Og hugir góðra manna eru ætíð mikils virði. — Þessar 10 þús. kr. eru auðvitað lítill hluti alls kostnaðar, en gestirnir borga sjálfir dvöl sína, þar sem þeir munu búa í skipunum, og auk þess er nokkurt aðgöngugjald til mótsins lagt á hvern stúdent. Fje þessu mun því einkum verða varið til þess að sýna hinum erlendu gestum eitthvað af nágrenni Reykjavíkur og til þess að greiða kostnað af fundarhöldum o. fl.

Þá kemur brtt. LVI., við 16. gr. 8, nýr liður: Til að rannsaka og gera till. um raforkuveitur til almenningsþarfa utan kaupstaða, gegn fimtungs framlagi frá hlutaðeigandi hjeruðum, alt að 15000 kr. — Þessi till. lá fyrir hv. d. við 2. umr. fjárl., en var þá tekin aftur, vegna þess að n. óskaði eftir að gera á henni þá breyt., sem nú er orðin. Flm. till. var þá hv. 2. þm. Skagf. og talaði hann þá fyrir henni, enda get jeg verið fáorður um hana. Áhugi manna fyrir rafmagnsnotkun hefir aukist mjög hjer á landi á síðustu árum, enda hefir Alþingi stutt að þeim áhuga með því að veita lán þeim mönnum, er staðið hafa fyrir einstaklingsveitum. Það er áreiðanlegt, að aukin rafmagnsnotkun til sveita er eitt af stærstu framfaramálum og nauðsynjum landbúnaðarins. En þótt einkaveitur eigi vel við sumstaðar, eru aðrar sveitir þannig í land komnar, að þeim verður ekki við komið, og verður þá að flýja til hinna stóru virkjana. Því verður að rannsaka, hvar einstaklingsveiturnar eiga best við og hvar heildarveitur, svo að ekkert það spor verði stigið, er gæti orðið til tjóns í framtíðinni. N. hefir gert þá brtt., að á móti framlagi ríkissjóðs komi ákveðið framlag annarsstaðar að, svo að sýnt væri um áhuga sveitanna í þessu máli, því að ella gætu kröfur þeirra um rannsóknir orðið hóflausar, og jafnvel út í bláinn, ef þær þyrftu engu til að kosta sjálfar.

Þá er brtt. LVIII,1: Til þess að varpa út veðurskeytum á erlendum málum, 3500 kr. Er hún tekin inn vegna samninga milli hæstv. forsrh. og Englendinga og Þjóðverja, að leyfa enskum og þýskum sjómönnum, sem sigla hjer við land, að verða aðnjótandi þeirra veðurskeyta, er varpað er út hjeðan á degi hverjum. Um leið vil jeg benda á það, að mikill hluti þessarar upphæðar, 2–3 þús. kr., rennur aftur í ríkissjóð gegnum landssímann.

Þá er brtt. LVIII,2, til landmælinga, 45000 kr. Eins og menn vita, er landmælingum hjer ekki lokið ennþá að fullu. Þær hófust árið 1900 og var haldið áfram til 1914, er þær stöðvuðust vegna ófriðarins. Árin 1918 og 1920 voru þær teknar upp aftur, en fjellu þá niður að fullu til þessa. Árið 1926 lá fyrir tilboð frá danska herforingjaráðinu að hefja mælingar að nýju, en kjör þess þóttu ekki aðgengileg. Nú hafa breyt. orðið á þessu sviði í Danmörku; herforingjaráðið hefir nú ekki lengur þessar mælingar með höndum, en komið hefir verið á fót stofnun, er nefnist Geodetisk Institut, sem tekið hefir við af ráðinu. Formaður þess hefir nú sent tilboð til Alþingis, gegnum Svein Björnsson sendiherra, að taka mælingarnar upp að nýju.

N. leit svo á, að ekki væri hægt að fresta þessum mælingum lengur, enda er það ekki skammlaust að eiga ekki greinilegt kort af landinu, auk þess sem það er mjög ilt vegna vega- og símalagninga, þar sem nauðsyn er á ítarlegu og greinilegu korti. — Nú er eftir að mæla nokkuð af Eyjafjarðarsýslu og allar Þingeyjarsýslur og Múlasýslur, og ætti það að vera okkur metnaðarmál að fá fylt upp í þessar eyður á korti landsins, og auk þess er eftir að mæla hálendið, sem bíða verður þangað til síðar. Þessari starfsemi má ætla, að lokið verði á 8–9 árum. Hálendið mun aftur á móti mega mæla á 4–5 árum, en þar munu einkum notaðar loftmælingar.

Það þykir sýnt, að Íslendingar eru ekki færir um að taka að sjer þessar mælingar á næstunni, en þar sem þessi stofnun hefir á að skipa ýmsum mönnum, sem starfað hafa hjer að mælingum áður, og n. finst tilboðið eins ódýrt og tök eru á að fá, leggur hún til, að fjárveitingin verði samþ. og tilboði þessu tekið.

Kem jeg þá að LXIV. brtt., 1. lið, til mælinga og rannsókna vatnasvæðis Þverár og Markarfljóts. Það er öllum kunnugt, hvern usla vötnin á Rangárvöllum gera í hjeraði, enda er það áhugamál allra, er til þekkja, að takast mætti að fella þessi vötn í skorður. Þetta er í senn samgöngumál, friðun fyrir landið og ræktunarmál. Síðastliðið haust var stofnað Vatnafjelag Rangæinga, til þess að vinna að því að fella vötnin saman, svo að hægt væri að brúa þau og auka þannig samgöngur, friða landið og gera áveitur. Til þess að þetta verði gert þarf nákvæma rannsókn og undirbúning, áður en byrjað verður á aðalframkvæmdunum, og leggur n. til að veita til þess 10 þús. kr. í fyrstu var farið fram á hærri upphæð, en n. skar af henni og virtist þessi upphæð mundu nægja.

Þá er næst brtt. LXIV,2, til ræktunarvegar í Vestmannaeyjum, fyrri greiðsla, 6000 kr. Frá þessu var skýrt við 2. umr., og get jeg vísað til þess, er þá var sagt. Þó vil jeg geta þess, að eyjarskeggjar hafa áður notið slíks styrks, og árangurinn af honum er sá, að búið er að úthluta nær öllu landi meðfram þessum vegi, og ræktun þess langt komið. Nú er þarna enn mikið land, sem að vísu ekki er vel fallið til ræktunar, en eyjarskeggjar samt eru ákveðnir í að gera að gróðurlandi, og það, sem hamlar, er vegleysið. Það hefir þótt rjettara að láta styrkinn koma á 2 ár, og er þetta fyrri greiðslan.

Þá er LXVII. brtt. frá n., til slysavarna; fyrir „10000 kr.“ kemur: 18000 kr. Eins og menn muna hefir Slysavarnafjelagið nýlega hlotið myndarlega gjöf, björgunarbát, frá prívatmanni hjer í bænum. Nú stendur til, að báturinn hafi aðsetur sitt þarna suðurfrá, í Sandgerði, vegna þess að þaðan að Stafnesi þykir hættulegastur staður skipum við strendur landsins, og hafa langflest slys orðið við þennan strandkafla, að því er skýrslur herma. En báturinn mun ekki koma að fullum notum þarna, nema hægt sje að flytja hann eftir landi, enda er hann þannig útbúinn. Til þess þarf að leggja breiðan veg, svo að hægt sje að draga bátinn fram og aftur, eftir því sem með þarf. N. gat ekki lagt á móti því, að þetta fje yrði veitt, því að leitt væri til þess að vita, að slys yrði fyrir það, að ekki væri hægt að koma bátnum áfram og horft hefði verið í þessa fjárveitingu. Þetta er að vísu aðeins byrjun, en vonandi verður þess ekki langt að bíða, að víðar á landinu verði hafnar slíkar björgunartilraunir, og má þá ekkert til spara, ef hægt væri með þessu móti að koma í veg fyrir eitthvað af þeim mörgu slysum, sem eru svo tíð hjer við land.

Þá er næst brtt. LXXII,1: Til Soffíu Johnsen læknisekkju, 500 kr. Hún er ekkja Þorgríms Johnsens læknis á Akureyri, er dó 1917. Átti hún nokkur efni, er maður hennar dó, en þau efni eru nú mjög til þurðar gengin, en hún orðin gömul og lasburða. Fyrir því fjellst n. á, að henni væri veitt þessi fjárhæð, svo að hún gæti lifað nokkurnveginn áhyggjulitlu lífi það sem eftir er æfi.

Brtt. LXXII, 2. a er um styrk til ekkju Jóh. L. L. Jóhannssonar, Elínar Helgadóttur, 132 kr., auk 100 kr. með hverju barni hennar í ómegð. Það er orðin föst venja á síðustu árum að veita prestsekkjum 300 kr. eftirlaun, og ef þau hafa ekki verið svo há úr eftirlaunasjóði, hefir verið bætt við því, sem til hefir vantað, af Alþingi. Stóð þannig á hjer og vantaði 132 kr. til þess að eftirlaunin næmu 300 kr.

Sömuleiðis eru í þessari brtt. fjárhæðir til annara ekkna: Til Arndísar Pjetursdóttur 137,93. Til Guðnýjar Þorsteinsdóttur 173,56. Til Valgerðar K. Guðmundsdóttur frá Grenivík 135,37. Stendur alveg eins á um þær, að þær hafa ekki getað fengið keyptan lífeyri samkv. lögunum og vantar þær þessar upphæðir til þess að hafa 300 kr. eftirlaun, og þetta því gert til samræmis.

Þá er LXXV,1: Til Ragnheiðar Bjarnadóttur, ekkju Þorleifs Jónssonar póstmeistara. Hann hafði eftirlaun í þessum fjárl., en nú er hann dáinn fyrir skömmu. Þótti því n. rjett að veita ekkjunni eftirlaun, eins og ekkjum fleiri póstmanna.

Þá kemur LXXV,2: Liðurinn fellur niður, — og er það af þeirri ástæðu, sem jeg hefi þegar sagt.

LXXVIII. brtt. er um styrk til Hólmfríðar Friðfinnsdóttur ljósmóður, 200 kr. Þessi ljósmóðir hefir ekki starfað eins lengi og flestar aðrar ljósmæður, sem hafa eftirlaun, en hún hefir starfað allan tímann í einhverju erfiðasta ljósmóðurumdæminu, svo að hún er nú orðin mjög slitin, og gat n. því ekki lagt á móti, að henni væri veitt þessi upphæð.

Þá kemur LXXX: til símalagninga:

a. í Austur-Skaftafellssýslu 4000 kr.

b. Í Vestur-Skaftafellssýslu 6000 kr.

c. Í Skagafjarðarsýslu 2000 kr.

Eins og kunnugt er, standa yfir miklar símalagningar í þessum sýslum, einkum Skaftafellssýslunum, og fer mikill hluti af því fje, sem veitt er til símalagninga, til þessara tveggja sýslna. Hinsvegar hafa sýslur þessar orðið að leggja mikið á sig, og fara þær nú fram á lán, sem dreifist á 10 ár með 6% vöxtum.

Þá er LXXXII, við 22. gr. 6. Á eftir liðnum kemur ný málsgrein: „Stjórninni er heimilt að veita Gerðahreppi, Innri-Akraneshreppi, Grunnavíkurhreppi, Árneshreppi, Patrekshreppi og Ostagerðarfjelagi Önfirðinga uppgjöf vaxta og greiðslufrest afborgana fyrir árið 1929 af skuldum þeirra við ríkissjóð, enda kynni stjórnin sjer til hlítar hag þessara skuldunauta og geri tillögur um endanlega samninga um lán þessi og leggi fyrir næsta Alþingi.

Við 2. umr. lágu fyrir beiðnir frá ýmsum hreppum um eftirgjöf á vöxtum og lánum. N. gat ekki vegna ókunnugleika lagt til ákveðna till., en þar sem viðlagasjóður mun falla inn í búnaðarbankann, þótti henni rjett að endurskoða skuldaskifti þessara skuldunauta áður, og fela stj. að rannsaka hag þeirra og leggja fram till. sínar fyrir næsta þing.

Þá er næst brtt. LXXXII,2: „Stjórninni er heimilt að veita Jóhannesi Jósefssyni gjaldfrest í 3 ár á tollum af nauðsynlegum innanstokksmunum og áhöldum til gistihúss hans í Reykjavík“.— Alþingi hefir áður sýnt, að það vill styðja þetta fyrirtæki, enda er það öllum ljóst, að það er eigi vansalaust, að ekki sje til fullkomið gistihús í höfuðborg landsins 1930. Hinsvegar er það vafamál, hvort það verður nokkurt gróðafyrirtæki fyrir þann, sem komið hefir fyrirtækinu af stað. Kostar það eigi alllítið fje að koma gistihúsinu á laggirnar, því að ekki er eingöngu um núsið að ræða, heldur einnig innanstokksmuni alla. Þar sem allur þessi kostnaður kemur á eitt ár, þótti n. rjett að veita þennan gjaldfrest, enda hefði fje það aldrei komið í ríkissjóð, ef ekki hefði verið byrjað á þessu fyrirtæki, og ætti því að vera hægara að veita þennan greiðslufrest.

Þá hefi jeg talað fyrir brtt. fjvn., en sjálfur á jeg tvær brtt., sem jeg vil minnast lítillega á áður en jeg lýk máli mínu. Það er þá fyrst brtt. LXXXIV, sem jeg flyt ásamt hv. þm. Borgf., að heimila stj. að greiða úr ríkissjóði þær 15 þús. kr., sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir vegna Hvítárbakkaskólans, þegar afráðið er, að skólinn verði fluttur. Hvítárbakkaskólinn var stofnaður af Sigurði Þórólfssyni, sem nú er nýlátinn, og var framan af rekinn af honum. En árið 1918 flutti hann til Reykjavíkur og seldi skólann og búið. Sá, sem keypti, ætlaði sjer að reka þarna búskap, en til þess að skólinn legðist ekki niður, keyptu nokkrir ungir og áhugasamir menn skólann og hafa rekið hann síðan með miklum myndarskap.

Á þeim tíma, sem þeir gerðu kaupin, stóð dýrtíðin sem hæst, en afleiðingin af því varð afarmikið verðfall á öllu. Auk þess hafa þeir lagt mikið í kostnað við að lagfæra húsin, sem sum voru orðin mjög hrörleg. Skólinn hefir verið rekinn með hana, því að þótt hann sje styrktur nú allríflega, var sá styrkur framan af mjög lítill. Þessir menn eru þegar búnir að leggja fram ca. 30 þús. kr. auk vaxta, og hvílir það, sem eftir er, á 5 mönnum, sem hafa orðið að taka á sig fjárreiður skólans.

Eftir að skólarnir á Laugum og Laugarvatni, sem hafa fullkomin hús og góða aðstöðu, eru komnir upp, er þess varla að vænta, að skólinn geti staðist þá samkepni, enda þótt hann hafi góðum kennurum á að skipa. Nú er mikil nauðsyn á því að skinna skólann upp, en það hlýtur þá að lenda á þessum mönnum, sem þegar eru búnir að greiða stórfje fyrir þetta hugsjónamál sitt. Treysti jeg Alþingi til þess að launa þeim nú fórnfýsi þeirra með því að veita þessa eftirgjöf. Mikill áhugi er vaknaður á því að flytja skólann á hið forna höfuðból Reykholt, og hafa þegar verið hafin samskot í þeim tilgangi um alt hjeraðið. Meðan skólinn starfar í sama horfi og nú, er máske síður ástæða til að gefa þetta eftir. En verði hann fluttur, þá virðist mjer siðferðisleg skylda þingsins að ljetta undir með þeim mönnum, sem borið hafa skólann uppi á undanförnum árum.

Þá er hin brtt. mín, XLVI á þskj. 408. Hún er við 15. gr. 21. Nýr liður: Til Guðmundar Kristjánssonar, til söngnáms í Ítalíu, 3000 kr., og til vara 1500 kr. Guðmundur Kristjánsson hefir um langt skeið barist á þessari erfiðu listamannabraut, og það mest af eigin dugnaði og áhuga. Hann er nú að ljúka námi og búa sig undir starf sitt, og mun hann eiga greiðan aðgang að „operum“ erlendis þegar þeim undirbúningi er lokið. Nú stendur hann slyppur og snauður á síðasta áfanganum, en þarf miklu til að kosta. Þessi braut, sem Guðm. Kristjánsson og fleiri hafa valið sjer, kostar afarmikið nám og afarmikið fje. Og jeg verð að segja það, að það er enginn velgerningur að hvetja unglinga til söngnáms, nema um leið sje sjeð fyrir námskostnaði þeirra. En þegar brotist hefir verið áfram um áraskeið og með góðum árangri, eins og er um G. Kr., þá er nauðsyn að hjálpa þeim síðasta áfangann. G. Kr. hefir hlotið ágæta tilsögn og hefir fengið glæsileg vottorð um leikni sína og ágæta hæfileika. Er því fje sannarlega ekki á glæ kastað, sem veitt er til þessa efnilega listamanns og farið er fram á í eitt skifti fyrir öll. Og mjer finst það skylda þingsins að styðja það, sem svo er vel á veg komið sem hjer er.

Læt jeg svo staðar numið að sinni þar til hv. þm. hafa talað fyrir sínum till.