26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

16. mál, fjárlög 1930

Halldór Stefánsson:

Jeg skal í stuttu máli gera grein fyrir till., er jeg flyt ásamt hv. 1. þm. S.-M. um styrk til að gera Lagarfoss laxgengan og byggja klakhús á Hallormsstað. Alþingi hefir borist erindi um þetta, merkt 389, en það er nýkomið og hefir ekki verið lagt fram í lestrarsal ennþá og hefir ekki heldur komið til fjvn.

Menn munu minnast þess, að í fjárl. áður hefir verið veitt fje til að gera Lagarfoss laxgengan, en þá komst verkið ekki í framkvæmd. Var styrkur sá lægri en hjer er farið fram á, og skal jeg gera grein fyrir því síðar, hvernig á því stendur. Búnaðarsamband Austurlands hefir látið rannsaka möguleikana fyrir fiskirækt í Lagarfljóti og þverám þess. Fyrst var dr. Reinsch þar við rannsóknir og síðan Pálmi kennari Hannesson. Þær till., sem hjer eru gerðar, eru bygðar á áliti Pálma. Báðir telja þeir vera góð skilyrði fyrir lax og silung í þverám þeim, er í fljótið falla, en það, sem á stendur, er, að fossinn í fljótinu er fyrir neðan þverárnar og kemst laxinn því ekki upp í þær. Skal jeg leyfa mjer, í stað þess að lýsa með eigin orðum því, sem mestu máli skiftir um þetta mál, að lesa hjer upp kafla úr skýrslu Pálma — með leyfi hæstv. forseta:

„Allar líkur eru á því, að rækta megi lax í þverám Lagarfljóts. Ef laxræktin tækist vel, gæti hún orðið til mikilla hagsbóta fyrir Fljótsdalshjerað. Hins er ekki að dyljast, að við mikla örðugleika er að eiga, og verður ekki sjeð að svo komnu máli, hver áhrif sumra þeirra kynnu að verða, en það er fyrirsjáanlegt, að laxræktin kostar mikið fje og fyrirhöfn. Ekki treystist jeg til að skera úr því, hvort laxræktin gefur hreinan ágóða eða hve mikinn, og hygg jeg, að miklar rannsóknir þyrftu til þess. Jeg lít þannig á, að hjer sje um tilraun að ræða, stórfelda og kostnaðarsama, sem geti orðið til mikils gagns, ef vel tekst, og varði landið alt. Þess vegna hvet jeg til þess, að tilraunin verði gerð, og helst sem fyrst, meðan áhugi á málinu er ófölskvaður. Því nú er mikill áhugi á máli þessu í Fljótsdalshjeraði, og það er í góðum höndum, þar sem Búnaðarsamband Austurlands hefir tekið það að sjer. Jeg tel sanngjarnt, að tilraun þessi yrði styrkt af almannafje, því að hún hefir alment gildi, en íbúar Fljótsdalshjeraðs geta tæpast gert hana af eigin rammleik. Virðist mjer standa líkt á um þetta mál og ýmsar aðrar stórfeldar tilraunir til eflingar landbúnaðinum, t. d. áveitur.

Lagarfoss er neðan við ósana á þverám þeim, er áður eru taldar. Verður því eigi hjá því komist að gera hann laxgengan, ef rækta á lax í þverám þessum. Mælt hefir verið fyrir í laxastiga í fossinum, og var áætlað að hann mundi kosta 10000 kr. Ef laxastiginn verður bygður, mun laxinn leita upp fyrir fossinn og sækja æ lengra upp fljótið, uns hann finnur þverárnar og nemur þar land. Mun þá smátt og smátt skapast laxastofn í þeim, sem gengur rakleitt upp í þær til hrygningar og elst upp í þeim. En þess háttar „landnám“ gerist ekki á skammri stundu. Mörg ár eða jafnvel áratugir mundu líða áður en þverárnar yrðu fullbygðar laxi. Þess vegna er nauðsynlegt að friða um laxastofninn svo vel sem unt er, meðan hann er að komast upp, og ennfremur að auka hann með klaki eins mikið og hægt er. Fyrstu árin að minsta kosti er ekki við því að búast, að hrognlax veiðist í fljótinu nje þverám þess, og yrði því að fá hrognin að. En eins og stendur er harla torvelt að fá keypt hrogn svo nokkru nemi. Samkvæmt ósk Búnaðarsambands Austurlands hefi jeg leitað fyrir mjer um kaup á hrognum bæði hjer á landi og í Noregi. Má vera, að hjer á landi megi útvega nokkuð af hrognum, einkum þá er fiskirækt er komin í betra horf en nú er. Í Noregi er þess enginn kostur. Hjer verður því fyrst og fremst að efla þann laxastofn, sem fyrir er, en síðan auka hann eftir megni með aðfluttum hrognum.

Af þeim ástæðum, sem nú hafa verið nefndar, tel jeg heppilegast að haga laxarækt í Lagarfljóti og þverám þess á þann hátt, er nú skal greina:

1. Að gerður verði laxastigi í Lagarfoss, og teldi jeg heppilegast, að að því yrði horfið þegar ástæður leyfa.

2. Að allur lax, sem gengur í Lagarfljót og þverár þess, sje friðaður um næstu 8 ár.

3. Að reist verði klakstöð á Hallormsstað. er klakið geti 500000 laxahrognum“.

Jeg gat þess áðan, að hjer er lagt til að styrkja verkið að 2/3 kostnaðar, í stað þess að venja hefir verið að leggja fram Það er bygt á því, er fram kemur í erindi P. H. Þess er ekki að vænta, að tekjur verði af þessu fyrst um sinn, kannske um áratugi. En við því er varla að búast, að menn þar verði fúsir að leggja svo mikið fje fram, þegar þeir ekki geta búist við að njóta hagnaðar af svo nokkru nemi. Einnig er þetta tilraun, er hefir þýðingu fyrir land alt, og er því rjett að styrkja nokkru frekar en venja er til. Fiskirækt í vötnum er einn þátturinn í ræktun landsins, og það mikilsverður þáttur, og leyfi jeg mjer því að vænta, þar sem hjer á þingi ríkir svo einróma áhugi fyrir ræktun landsins, að því er talið er, að ekki verði horft í að veita þetta fje til að auka ræktunarmöguleika, sem eru jafnmiklir og þessir gætu verið.