26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

16. mál, fjárlög 1930

Sveinn Ólafsson:

Jeg þarf að minnast hjer á 2 eða ef til vill 3 till., sem jeg á hjer þátt í. Sú fyrsta er undir XLIII. á atkvæðaskránni og fer fram á, að veittar verði 3000 kr. til útgáfu minningarrits Möðruvallaskóla á 50 ára afmæli hans 1930. Brtt. þessi er flutt af 9 þm. ásamt mjer, og eru þeir allir gamlir nemendur þessa skóla. Það stendur til, að minst verði 50 ára afmælis skólans með því, að yngri og eldri nemendur hans sæki hann heim á næsta ári, en skólastjórinn, Sigurður Guðmundsson, hefir óskað eftir því, að nemendur skólans styrktu sig til að koma út þessu riti. Fer hann að vísu fram á 5000 kr. styrk, en við sáum ekki fært að taka dýpra í ár en biðja um 3000 kr. Við búumst við, að það verði okkar hlutskifti að leggja fram það fje, sem á kann að vanta, en vildum takmarka beiðni okkar um ríkissjóðsstyrk sem mest. Jeg get búist við því, að mörgum finnist ekki ástæða til að kosta slíkt minningarrit, en vil þó vona, þar sem stofnun þessa skóla var stórvægilegt spor á menningarbraut landsmanna um 1880 og hefir að vissu leyti undirbygt alla alþýðumentun hjer síðan, að hv. þdm. líti ekki á þetta sem hjegómamál. Um aldamótin mættu ýmsir gamlir nemendur skólans á 20 ára afmæli hans, og var þá sú ákvörðun tekin, að stofna skyldi til þessa móts, sem á að fara fram á næsta ári. Þeir, sem hafa kynt sjer sögu fræðslumálanna hjer á landi, munu hafa veitt því eftirtekt, að fyrstu barnakennararnir komu frá þessum skóla út í sveitirnar, eftir að sett voru fyrstu almennu fræðslulögin, þ. e. lögin um uppfræðslu barna í skrift og reikningi frá 1882.

Hefir starf skólans haft óvenjumikil áhrif á menningu þessa lands, bæði vegna þessa byrjunarstarfs og dreifingar annarskonar alþýðufræðslu, og jeg þori að fullyrða, að þessi skóli mótar ennþá menningu sveitanna að miklum mun. Þegar jeg var í þessum skóla fyrir 48 árum, voru þar menn úr öllum landshlutum, og aðsókn mikil. Þess vegna mátti með sanni segja, að skólinn væri landsskóli og öllum aufúsugestur. Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, þar sem svo fáir hv. þdm. eru viðstaddir, en jeg leyfi mjer að vona, að þar sem þetta er svo lítil fjárupphæð, en á hinn bóginn óskin svo almenn, að samþ. verði að veita hana.

Þá vil jeg víkja að annari brtt., sem jeg á, sem sje brtt. LXXVI. Fer jeg þar fram á, að Einari Ólasyni fyrrum pósti verði veittar 300 kr. árlega í ellistyrk. Jeg býst við, að mörgum hv. þdm. sje ókunnugt um kjör þessa manns og fortíð, og vil því lýsa henni með nokkrum orðum. Þessi maður var 8 ár póstur á milli Borga og Eskifjarðar, en misti þá stöðu fyrir einkennilegt og hranarlegt atvik, sem fyrir kom. Það vildi svo til, að hastarlegt peningabrjef kom fyrir úr pósti milli Reykjavíkur og Borga, og fjell grunur á Einar og fleiri menn. Tveir eða þrír voru settir í gæsluvarðhald og var Einar meðal þeirra. Sátu þeir lengi í varðhaldi og misti Einar stöðuna. Sýkna þeirra sannaðist síðar og fjekk að minsta kosti einn bætur greiddar af opinberu fje fyrir óverðskuldaða fangelsun, en E. Ó. fór ekki fram á það, þótt hann væri saklaus. Misti hann þó stöðu sína og fjekk engar bætur fyrir eða uppreist, þótt sýkn væri saka og alls góðs maklegur. Nú er maður þessi 85 ára að aldri og örvasa. Hann getur ekki unnið lengur fyrir sjer, en verður að lifa af hjálp annara eins og munaðarleysingi. Jeg veit ekki, hvar hann er nú niður kominn, en hygg hann dvelja í Skriðdal. Erindi sitt og umsókn sendi hann til þingsins í vetur, og það mun hafa legið fyrir fjvn., en þar sem hún bar það ekki fram, ákvað jeg að gera það. Jeg er ekki einn til frásagna í þessu máli, því hjer liggja fyrir framan mig ummæli Friðriks Möllers póstafgreiðslumanns á Eskifirði fyrir og um aldamót síðustu, og skal jeg. með leyfi hæstv. forseta, lesa upp lofsamleg ummæli póstafgreiðslumannsins um Einar og starfsemi hans:

Þetta segir póstafgrm. um Einar, og jeg hygg, að hv. þdm. viðurkenni, að rjettur þessa manns sje ekki minni en annara þeirra pósta, sem nú eru í fjárl., heldur öllu ríkari. Engar líkur eru til, að hann muni lengi njóta þessara eftirlauna, því að eins og jeg sagði áður er hann nú orðinn örvasa og lasburða mjög. Jeg skal ekki fjölyrða frekar um þennan lið: vona jeg, að hv. þdm. setji ekki þennan gamla mann hjá, sem verðugri er þó flestum stjettarbræðrum sínum.

Jeg á þá eftir eina till., sem jeg hefi flutt með hv. 1. þm. N.-M. undir LXV, en hann hefir gert ítarlega grein fyrir því erindi og klakskilyrðum við Lagarfljót. Jeg vil þó benda á það, að þarna er um mjög stórt veiðisvæði að ræða, því að 12 ár renna í fljótið, sem virðast mjög líklegar til fiskræktunar, þar eð þær falla um frjósamt hjerað og gróðursælt, enda mun botngróður vera mikill í ánum, og kunnugir menn hafa sagt mjer, að leit muni vera á öðru eins klaksvæði. Jeg ætla svo ekki að fjölyrða frekar um þetta, en vil aðeins geta þess, að þótt ástæða hefði verið til fyrir mig að minnast á till. hv. fjvn. og einstakra þm., þá mun jeg þó ekki gera það, þar sem nú líður að miðnætti og deildin fámenn orðin.

*Afrit af meðmælunum vantar í handrit þingsskrifarans, og hefir ekki tekist að hafa upp á frumritinu.