26.04.1929
Neðri deild: 54. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

16. mál, fjárlög 1930

Sigurjón Á. Ólafsson:

Við 2. umr. fjárl. voru bornar fram 91 brtt., en þá átti jeg enga. Nú hefi jeg borið fram 4, og skal jeg víkja að þeim fáeinum orðum. Sú fyrsta er undir tölulið XXVIII. og fer fram á 1000 kr. styrk til Hólmfreðs Franzsonar, til háskólanáms í Þýskalandi. Þessi piltur sótti um styrk til þingsins í fyrra og var honum þá veittur hann, og nú fer hann fram á hið sama. Þessi piltur er námfús, gáfaður og mjög vinsæll. Það mun vera einsdæmi í sögu þingsins, er það í fyrra var búið að snúast öndvert gegn styrkbeiðni hans, þá brugðu skólabræður hans við og undirrituðu áskorun til þess um að veita þessum efnilega en fátæka manni styrk, svo að hann gæti stundað nám sitt áfram. Hólmfreður leggur stund á eðlisfræði og veðurfræði, en það er eins og kunnugt er dýrt nám, en mun koma landinu að góðum notum. Með umsókn þessa pilts fylgja meðmæli frá dr. Alexander Jóhannessyni, er segir, að hann muni geta komið honum á þýska veðurfræðistöð og þá sjerstaklega gefið honum tækifæri til að kynnast veðurspám, er snerta flugferðir. Hjer er brýn nauðsyn veðurfræðinga, fleiri en nú eru. Nú starfa hjer við veðurstofuna tveir menn með sjerþekkingu, en vitanlegt er, að með vaxandi flugferðum verður að gera meiri kröfur til þeirra, og má þá telja víst, að þeir geti ekki int af höndum þau störf, sem nauðsynleg eru í því efni. Kröfur manna vaxa um fullkomna veðurathugunarstöð og verkefnin vaxa að sama skapi fyrir þá, sem við hana vinna. Í þessu sambandi vil jeg þó geta þess, að í París dvelur nú einn Íslendingur við sama nám, en þrátt fyrir það mun þörfinni ekki fullnægt, og virðist landið hafa full not fyrir þennan unga mann, þar sem 2 menn með sjerþekkingu eru fyrir. Full nauðsyn er á því, að þessi ungi maður fái styrk, svo að hann geti notið sín, og því vona jeg, að hv. þdm. hafi skilið þörfina, sem landið hefir fyrir hann, og bregðist því vel við þessari styrkbeiðni.

Þá á jeg brtt. undir LIV., sem fer fram á 1500 kr. styrk til Kristins Þ. Pjeturssonar myndhöggvara, til framhaldsnáms í list sinni í Suðurlöndum. Þessi maður er nýfarinn af landi burt til að fullnema sig í þessari list, en mun hafa æðirýr efni við að styðjast. Hann sótti til hv. fjvn. um styrk, en hvernig hún hefir litið á það, veit jeg ekki. Þessi maður hefir stundað nám í Noregi hjá ágætum listamönnum og hefir hlotið hin bestu meðmæli frá þeim. Hann hefir gert myndir af ýmsum okkar þektustu mönnum, og eru hjer til sýnis prentaðar myndir eftir ljósmyndum af myndum hans, af Finni Jónssyni prófessor, Sveini Björnssyni sendiherra o. fl. Af erlendum blaðaúrklippum má sjá, að Kristinn nýtur mikils álits hjá fróðum mönnum í þessari grein. Hann hefir dvalið hjer um tíma, en til þess að fullkomna sig í list sinni, telur hann nauðsynlegt fyrir sig að fara til þeirra landa, sem lengst eru á veg komin í myndlist, Frakklands og Ítalíu, og hann gat þess við mig, að þessi fór sín væri algerlega háð því, hvort hann fengi styrk. Með synjun styrksins væri för sín til Ítalíu algerlega heft. Allir, sem þekkja þennan mann, segja hann ráðvandan til orðs og æðis og að í honum muni búa listamaður, sem muni verða þjóð sinni til sóma fyr eða síðar. Vænti jeg, að þessi ungi og ötuli maður finni náð hjá hv. deild og hún samþ. þennan litla styrk, sem hann fer fram á að sjer verði veittur.

Þá kemur brtt. LXVL, a–b. Jeg skal geta þess, að við a-lið hefir upphæðin fallið úr í prentuninni, 1000 kr. Á Alþingi í fyrra bar jeg fram styrkbeiðni fyrir þennan sama mann. Hann hefir ekki sent beiðni sína til hv. fjvn., heldur mun hann hafa talað við hæstv. stj. Hvaða undirtektir hann hefir fengið þar, er mjer ekki kunnugt. En samkv. beiðni hans ber jeg styrkbeiðnina fyrir hv. deild. Jeg gerði í fyrra grein fyrir þessari styrkbeiðni, og get jeg vísað til þess, sem jeg sagði þá. Oddur Valentínusson er viðurkendur dugnaðarmaður við alla sjósókn og með bestu sjómönnum talinn við sunnanverðan Breiðafjörð, enda hefir hann hlotið það starf að vera leiðsögumaður skipa vegna þekkingar sinnar á hinum þröngu og hættulegu leiðum þar um slóðir. Hann telur óumflýjanlegt að kaupa lítinn vjelbát, svo að ekki þurfi hann að kosta mikið mannalið. Það er oft langar leiðir að fara. Hafnarsjóður Stykkishólms ætlar að styrkja þetta að 1/3 ; hitt hefir hann trygt sjer. Jeg er þess fullviss, að þessu fje væri vel varið, því að hjer er um að ræða að tryggja öruggari hafnsögu hvernig sem á stendur með veður, og öllum, sem njóta eiga leiðsögu hans, trygð fljótari afgreiðsla.

B-liðurinn er þess efnis, að 6000 kr. verði veittar Freygarði Þorvaldssyni vjelstjóra, til þess að koma í framkvæmd uppfyndingu hans viðvíkjandi kolasparnaði á eimskipum, en til vara 4500 kr. Þessi maður, sem ekki mun mörgum hv. þm. kunnugur, hefir sent umsókn sína til fjvm. sem auðsjáanlega hefir ekki þótt málið þess vert að taka það upp. Hjer er um mál að ræða, sem jeg get ekki skýrt eins vel og skyldi. Hjer er um að ræða uppfyndingu, sem hann hefir fengið einkaleyfi á í Bretlandi. Hann hefir fundið út útbúnað í sambandi við gufuvjelina, sem minkar kolaeyðsluna um 1/4. Því miður get jeg ekki dæmt um það, hvort þessi uppfynding er á rökum bygð, þar sem jeg hefi ekki sjerfræðiþekkingu á vjelum. En legg aftur á móti svo mikið upp úr brjefi því, sem fylgir einkaleyfinu breska, og umsögn mannsins sjálfs, þar sem jeg þekki hann að því einu að vera skrumlaus maður, að jeg er þess fullviss, að hjer er merkilegt atriði á ferðinni. En ef svo er, þá er hjer um virkilega þýðingarmikið hagsmunamál að ræða. Það er vitanlegt, að við gufuskipaútgerðina er kolaeyðslan með stærri kostnaðarliðunum, ekki einungis við fisk- og síldveiðarnar, heldur líka við siglingar.

Sjálfur er þessi maður ekki svo efnum búinn, að hann geti af eigin ramleik klofið þennan kostnað. Hann gat þess, að hann mundi hafa einhver ráð til að bæta við því, sem þyrfti, ef hann fengi ekki nema lægri upphæðina, sem hann fer fram á. Þessi brtt. mín ætti að njóta stuðnings allra þeirra, sem við útgerð fást og vilja styðja að velgengni sjávarútvegarins, sem og hinna, er styðja vilja framfarir, er miða til almenningsheilla.

Jeg hefi þá gert grein fyrir brtt. mínum, en áður en jeg setst niður, vildi jeg mega segja nokkur orð til hv. fjvn. í fyrsta lagi vil jeg þakka henni fyrir góðar undirtektir að því er snertir styrk til Slysavarnafjelags Íslands. Jeg mæli þau þakkarorð í umboði stjórnar fjelagsins. Hv. n. hefir sýnt mikinn skilning og velvilja í þessu efni, og skal jeg nánar færa rök að nauðsyn þessa máls.

Slysavarnafjelagið, sem er mjög ungt fjelag, en berst fyrir góðum og göfugum málstað, hefir á sinni stuttu leið komið ýmsu góðu til leiðar. Jeg vil benda á, að vitinn á Stafnesi er reistur fyrir atbeina fjelagsins. Það átti frumkvæði að því, að hann var reistur, þrátt fyrir það, að á því ári var ekki veitt til þess í fjárlögum. En þó að vitinn sje kominn, verður aldrei örugt, að skip strandi þar ekki. Það næsta, sem Slysavarnafjelagið hafði hugsað sjer að vinna að, var að fá fullkominn björgunarbát. Jeg minnist þess, að fyrir 23 árum, þegar yfir 20 menn fórust fyrir augum allra Reykvíkinga, var það efst í hugum manna, að við þyrftum að fá stóran og traustan björgunarbát. Hugmyndin hefir legið niðri síðan, en hefir loks orðið að veruleika fyrir fáeinum vikum. Einn fjelagsmanna og stjórnarnefndarmaður í Slysavarnafjelaginu hefir sýnt þá rausn að gefa bátinn. Honum er ætlað að starfa þar, sem hættan er mest, frá Garðskaga að Reykjanesi. Síðan 1901 hafa strandað á þessum slóðum 62 skip, þar af 35 íslensk. Þetta hafa mestmegnis verið togarar, 28 útlendir togarar. 47 útlendir menn hafa látið lífið og 45 Íslendingar. Af þessu stutta yfirliti má sjá, að enginn staður hjer við land er jafnhættulegur og þessi. Slysavarnafjelagið hefir nú einkum beint athöfnum sínum í þá átt að reyna á ýmsan hátt að bæta úr þessu, ef takast mætti, að færri mannslífin týndust þar en á undanfarandi árum. Viti er kominn á Stafnes. Björgunarbátur er kominn. Fluglínustöð á að koma þarna suðurfrá, sennilega á Stafnesi, til þess að skjóta út línu með björgunartaugum. En til þess að báturinn komi að fullum notum, þarf að flytja hann suður eftir, frá Sandgerði, þar sem bátnum er ætlað uppsátur, og suður á Stafnes, á landi, en til þess þarf veg, sem þarf að vera 31/2 m. á breidd, svo vagn sá, sem bátnum fylgir og hann er dreginn á, hafi rúm á veginum. Menn hafa hugsað sjer bátinn dreginn af aflmiklum bílum. Venjulega hafa verið notaðir hestar á björgunarstöðvunum erlendis. En við álítum, að hjer eigi að nota bíla. Þeir munu fullnægja okkur í þessu efni.

Þetta er í stuttu máli meginástæðan til þess, að fjelagið fór þá leið að biðja um aukinn styrk. Það liggur fyrir umsögn vitamálastjóra. Hann mun hafa kynt sjer málið og álítur, að komast megi af með 10 þús. kr. til að byrja með. Sennilega verður síðar að fá viðbót við þessa vegarbót.

Í sambandi við þetta skal jeg geta þess, að nafnið „Slysavarnafjelag“ er miklu víðtækara en það, sem hjer er um að ræða. Í hvert sinn, sem um er að ræða lendingarbætur, er jeg að greiða atkv. með slysavörnum. Í hvert sinn, sem um er að ræða síma eða útvarp, vita eða hverja aðra menningarbót, sem miðar til þess að gera líf manna öruggara fyrir hættum, er jeg að greiða atkvæði með slysavörnum, og svona mætti lengi telja. Löngun manna nú á dögum er svo mikil til að gera alt, sem þeir geta til að lengja líf fólksins, t. d. með því að koma upp sjúkrahúsum, fyrirskipa berklavarnir o. s. frv. Hvers vegna á þá ekki að leggja í sölurnar það, sem unt er, fyrir þá, sem í blóma lífsins stunda erfiða og hættulega vinnu á hafinu, þá menn, sem mestan auð færa þjóð sinni? Jeg skal geta þess, svo að það komi engum á óvart, að með flestum þeim brtt., sem bornar eru fram í þessu skyni, mun jeg greiða atkv.

Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að grípa fram í fyrri kafla og tala um eina brtt. við hann. Hún er um að veita 4000 kr. til að gefa út hafnsöguskrá. Þetta ætti að vera metnaðarmál fyrir öllum Íslendingum. Alt fram á þennan dag hefir það viðgengist frá því Danir fóru að gera sjóbrjef meðfram ströndum landsins og semja leiðbeiningar fyrir sjófarendur inn á hafnir, firði og flóa, að íslenskir sjófarendur hafa orðið að notast við danska skrá um þetta efni. Hún hefir auk þess ekki verið eins fullkomin og vera þyrfti, heldur aðeins yfir stærri hafnirnar. En þegar íslensk skrá kemur, yrðu teknar hinar smærri hafnir, því að þar er mest nauðsynin á leiðbeiningum. Jeg man eftir því einu sinni, að jeg var á skipi og við sigldum mjög vandfarna leið, bara eftir þessum leiðbeiningum. En góðar leiðbeiningar eru alveg ómissandi, enda eru þær til hjá öllum þjóðum. Margir, sem eiga að nota þessa dönsku skrá, eru ekki ávalt svo vel færir í danskri tungu, að þeir hafi hennar full not. Jeg mæli því eindregið með því, að fje verði varið til þess að gefa út hafnsöguskrá á íslensku. Við getum tæplega verið þektir fyrir annað.