27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Ólafsson:

Jeg flyt ásamt tveimur öðrum þdm. tvær brtt. á þskj. 408. Sú fyrri (nr. LIII) fer fram á 7000 kr. styrk til Íþróttafjelags Reykjavíkur, til þess að senda fimleikaflokk kvenna undir stjórn Björns Jakobssonar á íþróttamót í Finnlandi. Þessi flokkur hefir farið tvisvar til útlanda og getið sjer hinn besta orðstír á Norðurlöndum, Englandi og Frakklandi. Þetta er vitanlega sú besta aðferð, sem við eigum kost á til þess að vekja athygli annara þjóða á okkur. Fræðandi fyrirlestrar, sem fluttir væru um land vort og þjóð erlendis, eru svo að segja áhrifalausir í samanburði við þetta; þar sem þeir eru fluttir eru áheyrendasalirnir hálftómir, eða þannig er það hjer á landi, þegar um er að ræða fyrirlestra erlendra fræðimanna. En þegar íþróttasýningar fara fram, þá er það þvert á móti orðin almenn venja, að áhorfendasalirnir fyllist af fólki. Það er ekkert, sem vakið hefir jafnmikla athygli á okkur erlendis upp á síðkastið eins og framkoma þessa fimleikaflokks undir stjórn hins merkilega kennara B. J. Honum hefir tekist að gera þennan fimleikaflokk kvenna svo úr garði, að hann hefir þótt skara fram úr fimleikaflokkum annara þjóða á sama sviði. Það mundi auka álit og þekking á íslensku þjóðinni og verða henni til mikillar sæmdar, ef íþróttafjelagið fengi hinn umbeðna styrk til þess að senda fimleikaflokkinn til Finnlands á íþróttamót þeirrar merkilegu íþróttaþjóðar, sem Finnar eru. Vona jeg því, að hv. þdm. verði ljett um að rjetta upp hendur sínar, þegar þessi brtt. kemur til atkv.

Þá kem jeg að síðari till., sem jeg flyt ásamt hv. þm. Borgf., LXVIII. á þskj. 408. Hún fer fram á að hækka styrkinn til Stórstúku ísl. úr 8000 upp í 10 þús. kr. — Það má segja, að ekki sje árennilegt að bera fram þessa till., eftir þá útreið, sem samskonar till. fjekk við 2. umr. fjárl. Þá fjekk sú hækkunartill. svo lítinn hluta af atkv. hv. þdm., að við, sem álitum, að málstaður bindindis- og bannvina ætti þar mikinn meiri hluta, urðum alveg hissa. Jeg verð nú að segja það, að þó jeg hafi ekki mikla trú á fagurgala frambjóðenda við kosningar um stuðning sinn við málstað templara, þá hefði jeg varla getað ímyndað mjer, að hin stóru orð þeirra og loforð reyndust eins mikið hjóm og tildur og sú atkvgr. bar vott um.

Það hefir altaf verið látið klingja, að Íhaldsflokkurinn sje ekki leiðitamur templurum. Satt er það, að hann hefir ekki lagt kapp á að hræsna í þessu máli, heldur sint því eftir ástæðum, eins og öllum öðrum málum. Verður það ekki sagt um hina flokkana, sem altaf eru að básúna það, bæði í ræðu og riti, að þeir sjeu hlyntir þessu máli, og þykjast meira að segja hafa gert það að stefnumáli, til þess að gera sig góða á þessu sviði. En jeg tel það illa farið, að menn skuli snúast svo illa við þessari styrkbeiðni, eftir að vera búnir að gefa templurum hinar glæsilegustu vonir.

Þegar íhaldsstj. ljet af völdum, sögðu margir templarar, að nú þyrfti enginn framar að kvíða. Og þeir af templurum, sem lengst gengu, fengu að ráða áfengislöggjöfinni, sem samþ. var hjer í þinginu í fyrra. Hjeldu nú margir, að framtíðarmarkinu væri náð og að taka mundi fyrir alla vínnautn. Eftirlitið var aukið, og náði nú ekki einungis til skipanna, heldur voru menn jafnvel eltir upp í sveit af löggæslumönnunum, ef líkur þóttu fyrir, að þeir væru groggaðir. Jeg hafði strax illan bifur á þessari njósnarstarfsemi, enda er jeg sannfærður um það, að hún var ekki sprottin af öðru en ástríðu vissra manna til þess að fá að vita meira um einkalíf náungans. Það þarf heldur ekki annað en benda á það, hversu nú á að sýna mikla smásmygli á hinum þýðingarmeiri sviðum, til þess að allir sannfærist um, að það er ekki af umhyggju fyrir reglunni, að 39 þús. kr. hefir verið varið til njósnarstarfsemi þessarar, heldur af öðrum og lægri hvötum sprottið. Dettur nokkrum í hug, að þessi eltingarleikur við ýmsa menn, þó að drukknir kunni að vera, sje gerður af umhyggju fyrir reglunni? Og hvaða gagn ætli reglunni sje unnið með áfengisskýrslunum? Nei, þetta er alt sprottið af sama grunni, lönguninni til að koma óhróðri á aðra menn. Að svo er, sjest best á því, að þegar þessi öflugi fjelagsskapur, sem telur c. 14000 manna, fer fram á 4000 kr. styrkviðbót, þá er ekki hægt að verða við því og borið við að þetta þurfi að ganga til annars. Hæstv. dómsmrh. sló því fram, að þetta ætti að fara til að „regulera“ tollana í landinu. Það kann að vera, að nokkur hlutinn gangi til þess, en meiri hlutinn af því mun hafa gengið til þefarastarfseminnar, af því að það þurfti nú að koma því á gang, hverjir það væru, sem drykkju Til þess að njósna um einkalíf manna og reyna að ófrægja þá og svívirða, til þess vill hæstv. dómsmrh. verja fje úr ríkissjóði, en ekki til hins, að efla regluna í sínu þjóðholla starfi á friðsamlegan og þarfan hátt. Lágar hvatir leita oft skjóls bak við góð málefni.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Jeg býst ekki við, að þessi till. verði samþ., en þó að svo verði ekki, nær hún að því leyti tilgangi sínum, að með henni fæst yfirlit yfir hugi þm. til reglunnar.

Jeg hafði gaman af því, að 9 þdm. skuli sækja um styrk til þess að halda afmæli skóla síns. En jeg vil leyfa mjer að benda á það, að sá skóli, sem hefir framleitt þessa hv. þm., hlýtur að vera mjög góður skóli, því að jeg verð að játa, að í þeim eru góðir kraftar. En mjer finst, að það hefði átt að vera þeim metnaðarmál að gefa sjálfir út minningarrit um skóla sinn — og reyndar sjálfa sig um leið.

Þó að full ástæða væri til að fara út í fleiri brtt. ýmissa hv. þm., skal jeg ekki gera það, heldur fara að dæmi annara og vera friðsamur og nægjusamur. Mjer er nokkuð sama, hvernig fer um þessar 2000 kr., hitt er mjer aðalatriðið, að með till. fæst yfirlit yfir hugi þm. til þessa máls og það, hvort þeir hafa meint nokkuð með öllum fagurgalanum, sem þeir hafa haft í frammi við kjósendur og landsmenn í heild sinni.