27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1613 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

16. mál, fjárlög 1930

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á eina brtt., ásamt hv. samþm. mínum (MT), við þennan kafla fjárl. Það er LXXXV. brtt. á þskj. 408, um það, að stj. verði heimilað að láta athuga ástand Skeiðaáveitunnar og fjárhagslegar ástæður bænda þar, og þá jafnframt að ljetta af bændum nokkru af áveitukostnaðinum, eftir því sem kann að verða álitið þeim um megn að greiða.

Það hefir verið útbýtt hjer meðal hv. þm. skýrslu um þetta mál, og þótt hún sje stutt og samandregin úr öllu því, sem mætti segja um málið í heild, þá hygg jeg þó, að þau fáu orð, sem í skýrslunni standa, sjeu nægileg til að sýna mönnum, hvernig ástatt er um þetta mál. Þar er frá greint, hversu miklar skuldir hvíla á áveitunni nú og hve fáir menn í sveitinni eiga að bera þann skuldabagga. Þeir, sem þekkja nokkuð til landbúnaðar og fjárhagsgetu hans og bænda alment, þeir geta alveg sagt sjer það sjálfir, hvernig fjárhagsástand þeirra manna sje, sem slíkan skuldabagga eiga að annast, umfram alt annað. Jeg tel algerlega óþarft að fara að fjölyrða frekar um þetta mál; það er svo augljóst hverjum manni, sem til þekkir, að það þarf ekki að gera þess neina grein, að það er bændum algerlega ofvaxið að eiga að annast slíka skuldagreiðslu sem þessa. Því er það, að við þm. Árn. leyfum okkur að bera fram þessa till., í því trausti, að Alþingi líti á nauðsyn þessa málefnis, hve hún er brýn. Jeg skal geta þess, áður en farið er frekar út í þetta, að það er leiðinleg ritvilla í skýrslunni, þar sem talað er um, hvað bændur á áveitusvæðinu hafi greitt upp í skuldirnar á síðastliðnum þrem árum; þar stendur 2200 kr., en á auðvitað að vera 22000 kr. Þetta vona jeg, að hv. þm. geri svo vel að leiðrjetta, svo að skýrslan verði ekki misskilin. Nú liggur það við borð, að bændur á Skeiðum verði að selja jarðir sínar upp í þessar skuldir, ef þeim ekki kemur liðsinni annarsstaðar frá, því þá verður að taka af þeim jarðirnar og selja þær, og yrðu þá flestir bændur sveitarinnar að hverfa frá jörðum sínum. Jeg get ekki sjeð, að sú peningastofnun, sem þarna á fjármuna að gæta, væri nokkru bættari fyrir þá aðferð; hún kann að fá eitthvað upp í skuldina, en hún fær aldrei alt, og það er alveg víst, að þótt aðrir menn tækju við búskap þar í sveitinni, þá mun þeim ekki farnast betur en þeim, sem nú eru þar, svo það sama mundi endurtaka sig með stuttu millibili, ef einhverjir væru svo áræðnir að reyna að takast þar búskap á hendur með þeim kvöðum, sem á jörðunum hvíla. Jeg get ennfremur sagt það, að jeg mundi ekki hafa leitað til ríkisins um þetta, ef önnur leið væri fyrir hendi. Jeg vil svo vísa til þeirra skýrslna, sem jeg hefi áður hjer á þingi gefið um málið, og ennfremur til þess, sem um málið hefir verið skrifað bæði í Frey og Búnaðarritinu; þegar skírskotað er til alls þessa, þá tel jeg ekki þörf á að fjölyrða meira um málið. Mjer þykir líka, satt að segja, alt annað en skemtilegt að þurfa að lýsa því ástandi eins og það er; en annars getur hver greinagóður maður, sem nokkuð þekkir til landbúnaðar, skapað sjer álit um það, hvernig ástandið er þarna, eftir þeirri stuttu skýrslu, sem útbýtt hefir verið hjer.

Við höfum valið þetta form, sem sjá má, en það skiftir í raun og veru ekki miklu máli, hvert formið er. Höfuðatriðið er, að góð lausn fáist á málinu og að sú niðurstaða sje rjettlát og sanngjörn. Með því, sem við leggjum til hjer, hygg jeg, að svo nærri sje stefnt farsælli lausn á málinu, að ekki verði betur á annan hátt fyrir því sjeð. Vænti jeg þess, að Alþingi líti á nauðsyn málsins fyrst og fremst, en bindi sig ekki við formsatriði. Það vill líka svo vel til, að nokkurnveginn hliðstæðar aðferðir hafa verið hafðar um mál, sem líkt stóð á um. Ætla jeg svo ekki að fjölyrða frekar um þetta; það er líka til lítils. þegar hjer eru, að jeg ætla, átta þm. eða níu viðstaddir, að meðtöldum forseta. Það er ellefta vika þingsins, sem nú er að byrja, og Nd. er með fjárl. ennþá, því þetta er hin 3. umr. þeirra. Það er nokkurnveginn greinilegur spegill af því, hvernig ástand ríkir hjer hjá okkur, hvernig skipað er á þingbekkjunum. En vonandi er þó, að góð málefni verði ekki látin gjalda þess tómlætis, sem ríkir hjer.