27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Af þeim brtt., sem nú hafa komið fram við fjárl., vil jeg fara nokkrum orðum um þá till. hv. 2. þm. G.-K., sem viðvíkur Flensborgarskólanum.

Í fjárlagafrv. var sú breyt. gerð með þennan skóla frá því, sem áður var, að styrkurinn til hans var feldur inn í almenna styrkinn til hinna ungmenna- og alþýðuskólanna í landinu. Nú vill þessi hv. þm. lækka almenna styrkinn, en hækka framlagið til Flensborgarskólans að sama skapi. Þetta er þó enginn velgerningur við þessa stofnun fyrirkomulagsins vegna, því að með þessu nýja ákvæði í fjárlagafrv. var verið að hjálpa Flensborgarskólanum inn á þá braut, sem hann verður að ganga fyr eða síðar, og koma honum í það rjetta horf, svo að hann verði í samræmi við aðra hliðstæða skóla í landinu. Sú venja, að hann fengi sjerstakan styrk, var eðlileg og sjálfsögð meðan hann var eini virkilegi alþýðuskólinn á landinu og engir voru honum hliðstæðir. Nú á seinni árum hafa vaxið upp aðrir alveg hliðstæðir skólar, og er til sjerstök löggjöf um þá, þar sem er ákveðið um þátttöku bæjar- og sveitarfjelaga í rekstrarkostnaðinum. Flensborgarskólann verður óhjákvæmilega að setja á bekk með þessum skólum, og þá hlýtur Hafnarfjörður og Gullbringu- og Kjósarsýsla að taka sinn þátt í rekstrarkostnaðinum, og það má ekki dragast lengur.

Núna í vetur fór jeg þarna suður eftir til þess að kynna mjer fyrirkomulag þessa skóla, og komst jeg þá að raun um, að það er að sumu leyti gott og að sumu leyti ilt. Skólinn er illa hirtur og vanræktur af öllum hlutaðeigendum nema gefandanum og ríkissjóði, og er það ekki að sjá, að Hafnarfjörður og Gullbringu- og Kjósarsýsla hafi fórnað miklu fyrir hann, og eru þau ekki annað en þiggjendur. Húsið er gamalt og uppfyllir ekki þær kröfur, sem þarf til þess að hægt sje að hafa þar skóla, og þá heimavist miklu síður. Þetta er gamalt verslunarhús frá einokunartímanum, sem Þórarinn Böðvarsson keypti og ljet laga, svo að það mátti víst heita gott þá, en er nú næstum orðið óhæft, vegna þess hve því er lítill sómi sýndur. Nú er húsið komið að hruni og það er vafasamt, hvort heilbrigðisstjórnin telur forsvaranlegt að hafa heimavist þar lengur, og þetta er alt að kenna vanrækslu Hafnfirðinga og tómlæti Annars hefir skólinn ýmsar góðar hliðar, hefir t. d. að mörgu leyti mjög laglega kenslu og góða aðsókn.

Jeg boðaði til fundar um skólamál í Hafnarfirði í vetur, og þann fund sótti allur þorri borgaranna. Jeg sagði þeim það sama og jeg hefi sagt hjer, að skólinn væri mjög vanræktur af þeirra hálfu og hver afstaða mín væri gagnvart honum. Og það var öðru nær en að þessu væri illa tekið. Það vaknaði einmitt ný hreyfing til endurbóta á skólanum í sambandi við þennan fund. Árið 1931 er skólinn 50 ára gamall, og ávöxturinn af þessari nýju hreyfingu er meðal annars sá, að nú hafa gamlir nemendur skóláns stofnað með sjer fjelag, til þess að verða ekki eftirbátar annara við þetta hátíðlega tækifæri, og ætla að vinna að endurbyggingu skólans, svo að hann svari til krafna framtíðarinnar. Alþ. hefir á engan hátt meiri skyldur við Flensborgarskólann heldur en t. d. Laugaskólann, Núpsskólann eða Ísafjarðarskólann. Hann er að vísu meiru vanur, en hinir skólarnir standa honum alveg jafnfætis og eiga jafnmikið tilkall til styrks af opinberu fje. Hafnfirðingar skilja það, að nú er verið að rumska við Flensborgarskólanum, og þeir hafa ekkert á móti því, og það er sjálfsagt, að þeir fái að vita það, að þeir verða sjálfir að taka að sjer að mestu leyti endurbyggingu og viðhald skólans. Af þessum ástæðum vil jeg mælast til þess við hv. deild, að hún felli brtt. hv. 2. þm. G.-K., því að með henni er verið að vinna á móti þeirri vakningu, sem sannarlega verður að ske.

Þá er brtt. frá hv. þm. V.-Ísf. um fjárveitingu til rafmagnsveitu við Núpsskóla, sem jeg vil minnast lítið eitt á og bæta nokkru við orð hv. flm. till. Skólinn á Núpi mun vera sá elsti af hinum eiginlegu hjeraðsskólum á landinu, og er hann nú orðinn gömul stofnun, sem er búin að gera mikið gagn, og það ber víst enginn maður á móti því, að hann hefir átt mjög mikinn þátt í menningu Vestfjarða. Nú hafa sýslubúar ákveðið að sýna rögg af sjer, og ungmennafjelögin þar eru búin að lofa 20 þús. kr. til þess að endurbyggja skólann. Báðar Ísafjarðarsýslurnar ætla að leggja fram sín 10 þús. hvor, og eru þá komin 40 þús. Þá er eftir ein nágrannasýsla, Barðastrandarsýsla, og ef jeg má dæma eftir fulltrúa hennar hjer í deildinni og vináttu hans við hæstv. forsrh., þá geri jeg fastlega ráð fyrir, að sú sýsla leggi fljótlega fram þriðju 10 þús. með fulltingi þessa ágæta manns. Nú stendur svo á á Núpi, að þar eru timburhús, sem eru viðunandi nú um stund, en verður ekki til frambúðar. Þau eru ekki fullnægjandi og koma ekki að fullu gagni. Fyrir neðan túnið rennur á, og þar má koma upp rafstöð með viðráðanlegum kostnaði. Það mætti sennilega fá þar 40–50 hestafla stöð til þess að byrja með fyrir ca. 35 þús. kr., og þá fyrst geta timburhúsin notið sín til fulls. Á sínum tíma ætla sýslubúar svo að endurbyggja skólann úr steini, þegar fjárhagurinn leyfir það.

Jeg býst við, að þessi útbygging þyrfti og ætti að gerast næsta sumar. Og jeg vil benda á það, að Vestfirðingar hafa sýnt svo mikla fórnfýsi í þessu máli, að þeir eiga stuðning þjóðfjelagsins fullkomlega skilið.

Þá hafa hv. þm. Rang. flutt till. um hækkun á fjárveitingu til mælinga og rannsókna vatnasvæðis Þverár og Markarfljóts. Jeg skal enga afstöðu taka til þess, hvort þessi till. verður samþ. eða ekki, því að ekki skiftir mjög miklu máli, hvort veittar eru 15 eða 10 þús. til verksins. Aðalatriðið er, að verkinu sje haldið áfram, og að því mun jeg styðja eftir megni. Að mínu áliti er fyrirhleðsla Markarfljóts eitthvert hið örðugasta, en jafnframt hið ánægjulegasta úrlausnarefni í landbúnaðarmálum vorum.

Mjer þótti hv. 3. þm. Reykv. vera allmisvitur í ræðu sinni, er hann var að mæla fyrir hækkuðum styrk til Stórstúkunnar, en helti sjer jafnframt út yfir það aðhald, sem reynt hefir verið að hafa með opinberum drykkjuskap undanfarið. Einkum má þetta undarlegt heita, þar sem hv. þm. mun telja sig mjög framarlega í hópi goodtemplara, sem eins og allir vita áttu meginþátt í löggjöf þeirri um áfengismál, er samþ. var hjer á þinginu í fyrra og hv. þm. bölsótast yfir að reynt hefir verið að framfylgja. Sjálfur greiddi hv. þm. frv. þessu atkv. sitt í fyrra. Lítur helst út fyrir, að hann hafi ekki verið fullkomlega vitandi vits, er hann gerði það, af hvaða ástæðum sem verið hefir.

Í frv. því um þessi efni, sem var samþ. hjer í fyrra, er tekið í lög að reyna að gera opinberan drykkjuskap hegningarverðan. Svo framarlega sem þessi lög áttu ekki að verða hjegómi einn, varð auðvitað að fylgja þeim fram með fullri festu og einbeitni, enda mun sú hafa verið tilætlun goodtemplara. Það getur ekki kallast annað en loddaraskapur, til þess að afla sjer kjörfylgis, að koma fram í þessu máli eins og hv. 3. þm. Reykv. gerir. Það er loddaraskapur að þykjast berjast fyrir stefnumálum goodtemplara, en vilja þó ekki láta draga þá til sektar, sem brjóta landslög með því að vera druknir á almannafæri.

Mjer er sagt, að það hafi komið fyrir í fyrra á opinberum veitingastað hjer í bænum, að þar hafi verið tveir borgarar bæjarins staddir inni og verið allölvaðir og viðhaft drykkjulæti og óspektir, brotið stóla, rutt borð o. þ. h. Þá á annar þessara borgara, sá er minna hafði sig í frammi um óspektirnar, en vildi þó taka afleiðingunum af þeim, að hafa sagt við þann, er ölóðari var: „Brjót þú, jeg borga“. (MG: Hverjir voru þetta?). — Jeg mun ekki nefna nöfn mannanna hjer. Þeir voru báðir sanntrúaðir íhaldsmenn. Þetta er ágæt saga, sem ætti að vera sönn, því að með lítilfjörlegri breytingu felur hún í sjer þá reglu, sem á að fylgja í áfengismálinu: Sá, sem brýtur landslög með því að vera drukkinn á almannafæri, á að borga fyrir það. Þessu á að fylgja fram, og það hefir verið gert. Hjer sem annarsstaðar á sambandið á milli orsaka og afleiðinga að vera í fullu gildi.

Þá sný jeg mjer að brtt. frá hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf. um að greiða úr ríkissjóði þær 15 þús. kr., sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir vegna Hvítárbakkaskólans, þegar afráðið er, að skólinn verði fluttur.

Ef þessi till. verður samþ. mun jeg, meðan jeg á sæti í stj., stuðla að því, að hún komi ekki til framkvæmda, nema skólinn verði fluttur á betri stað, og hjeraðsbúar sýni, að þeir vilji leggja kapp á að bæta skólann.

Jeg þykist vita, að hv. þdm. hafi kynt sjer þetta mál, en jeg vil aðeins bæta því við frá sjálfum mjer, að jeg tel hina mestu nauðsyn, að þessari till. verði sint. Hvítárbakkaskóli er upphaflega stofnaður af Sigurði Þórólfssyni og starfræktur af honum um hríð, en laust eftir stríð hættir hann að reka skólann, og ráðast þá fimm bændur í Borgarfirði í það að kaupa jörðina og skólahúsin fyrir 50 þús. kr., til þess að halda skólanum áfram, því að ella myndi hann hafa fallið niður. Virðist að vísu eðlilegra, að sýslan hefði skorist hjer í leikinn, en það gerði hún ekki. Það er því að þakka þessum fimm bændum, að skólanum hefir verið haldið uppi síðan. Þeir hafa borið hitann og þungann í þessu máli, síðan skóli Sigurðar Þórólfssonar var lagður niður.

En nú, þegar aðrir skólar rísa upp á hverastöðum, stenst þessi skóli ekki lengur samkepnina við aðra skóla. Hús þau, sem Sigurður Þórólfsson reisti af litlum efnum, svara ekki til krafna samtíðarinnar. Tvö þessara húsa eru steinhús, en eitt timburhús, og mega þau nú orðið teljast óhæf mannaíbúð. Sá læknir, er síðast var í Borgarfjarðarhjeraði, kvaðst gera það með samviskunnar mótmælum að telja þau hæf til íbúðar, og sá læknir, sem nú er þar efra, telur þau með öllu óhæf. Steinhúsin eru öll sprungin og timburhúsið er sá hjallur, að gusturinn stendur í gegnum það.

Þar við bætist, að skólinn stendur á sljettum grunni og verður að bjargast við vatn úr brunni eða Hvítá, og er hvorttveggja ilt. Möguleikar til vatnsleiðslu og rafmagnsleiðslu eru miklum örðugleikum bundnir. Auk þess má segja, að skólinn standi á stað, sem girtur er af torfærum, þar sem Hvítá er að norðan, Grímsá að vestan og flóar að sunnan. Í vatnavöxtum getur oft orðið mjög erfitt um ferðir og flutninga til skólans.

Þessir fimm bændur, sem jeg gat um áðan, eru nú orðnir skuldugir um 45 þús. kr. vegna skólans. Nú hefir verið samþ. í þessari hv. deild, að styrkir til skóla megi ekki notast til að greiða með þeim skuldir. Hingað til hefir þessu verið haldið gangandi, með því að klípa utan úr styrknum upp í afborganir og vexti af skuldum. Nú er slíkt ekki lengur hægt, og heldur ekki æskilegt. Aðsókn að skólanum rjenar, svo að ekki er unt að halda konum lengur uppi; og þá fellur allur hallinn á þessa fáu bændur, ef ekki er að gert. Jeg ætla, að jörðin með húsum muni ekki seljast fyrir meira en 18 þús. kr. Eftir eru þá um 30 þús. kr. Virðist það því ekki vera nema rjettmæt viðurkenning til þessara bænda, þó að ríkissjóður tæki á sig þessar 15 þús. kr. Allir vita, að ekkert annað en umhyggja fyrir skólanum hefir vakað fyrir þessum mönnum og áhugi á, að hjeraðsfræðsla fjelli eigi niður. Það er augljóst, að enginn fjárhagslegur gróði hefir vakað fyrir þeim, þegar litið er á það, hve fæði hefir verið ódýrt og lítill kostnaður á hvern nemanda. Þetta er því fullkomin sanngirniskrafa. Þó myndi jeg ekki leggja til, að þessi fjárveiting kæmi til framkvæmda nema því aðeins, að skólinn verði fluttur á betri stað. Jeg ætla líka, að það sje fullkomin alvara hjeraðsbúa að greiða fyrir því, að svo verði gert Tveir staðir hafa einkum vakað fyrir mönnum: Deildartunga og Reykholt. Mest líkindi eru til, að skólinn verði reistur í Reykholti. Mjer er kunnugt um, að ungmennafjelögin hafa lofað 20 þús. kr. framlagi til skólans, ef hann verður reistur þar, og auk þess munu aðstandendur skólans fara fram á það við sýslurnar, að þær styrki skólann, eins og Vestur-Ísafjarðarsýsla hefir gert við sinn hjeraðsskóla. Jeg get búist við, að þetta komist í framkvæmd í sumar eða næsta sumar. En þá verða þeir menn, sem staðið hafa að Hvítárbakkaskólanum, fyrir miklu áfalli. Þess vegna á þessi brtt. fram að ganga.

Þá er brtt. frá báðum þm. Árn. um að skipaðir sjeu 3 menn til að athuga ástand Skeiðaáveitunnar og fjárhagsgetu bænda á áveitusvæðinu. Hingað hefir komið skýrsla um málið og verið mælt fyrir málinu af þm. kjördæmisins. Vil jeg þó bæta því við, að meginið af áveitukostnaðinum hlýtur að falla á landið. Enginn vonarneisti getur verið um það, að bændur geti borið kostnaðinn af þessu fyrirtæki. Upphaflega var kostnaðurinn áætlaður 100 þús. kr., en varð 500 þús. kr.

Ef fara ætti eftir formi laganna, yrði að ganga að bændum og taka af þeim jarðirnar, og myndi þó ekki hrökkva til. Og þó þetta væri gert og reynt að fá nýja menn til að taka á sig þær byrðar, sem eftir yrðu, er hætt við, að engir fengjust til þess. Því verður þjóðfjelagið að slaka hjer til. Þessa menn á ekki að flæma burt og ekki taka af þeim nema það, sem þeir geta borgað, og síðan á að vinna að því, að þetta fyrirtæki geti farið að njóta sín. Hjer er um hið sama að ræða og þegar afskrifað er svo og svo mikið af stofnkostnaði fyrirtækja, svo að þau geti farið að bera sig. Þetta er vandamál, og sú lausn þess, er jeg hefi sýnt fram á, væri ekki keppikefli fyrir stj., ef ekki væri augljóst, að bændur geta ekki borið þessar byrðar.

Þá eru þrjár brtt. frá mjer við 23. gr., sem jeg vildi minnast á. Fyrsta till. er um heimild til lántöku til að byggja skrifstofubyggingu á Arnarhólstúni fyrir ýmsar skrifstofur landsins, að upphæð 225 þús. kr. Þetta mál var rætt á þingi í fyrra, en varð ekki útrætt, enda lítt undirbúið þá. Nú hefir málið verið rannsakað og undirbúið af húsameistara ríkisins, svo að ef þessi till. verður samþ. og fje fæst, er hægt að taka til óspiltra málanna. Stjórnarráðshúsið er svo lítið, að það hefir ekki nægt fyrir skrifstofur landsins síðan innlend stjórn fluttist inn í landið. Þar hafa aðeins stjórnarráðsskrifstofurnar komist fyrir, og munu verða áfram þótt þessi till. verði samþ. Hefir því ríkið orðið að leita til einstakra manna út um hvippinn og hvappinn um húsnæði handa skrifstofum sínum. Margar af þessum skrifstofum eru í timburhúsum. Ef þessi hús brynnu, sem altaf getur komið fyrir, myndi óbætanlegt tjón af því hljótast. Jeg vil benda á það, að í skrifstofu lögmanns, sem er í einu af þessum timburhúsum, varð einn af gróðamönnum þessa bæjar að eiga geymd skuldabrjef. 25 þús. kr. virði, um stuna. Nokkru síðar hringir þessi maður á skrifstofuna og spyr, hvort öll skjöl sjeu eigi geymd í eldtryggum skápum. Honum var svarað eins og var, að sumt væri geymt á þann hátt, en sumt ekki. Þessi maður treysti því auðvitað ekki að eiga slíkt verðmæti geymt þar nóttunni lengur, og tók skjölin heim. Þetta er lítið sýnishorn af mörgum. Skjöl í opinberum skrifstofum eru oft óbætanleg, ef þau brenna.

Vil jeg benda á það, að ef brynni hús það í Suðurgötu, sem skrifstofa lögmanns er í, myndi verða þar óbætanlegt tjón, því að þar eru geymdar veðmálabækur Reykjavíkur. Þótt jeg nefni þessa skrifstofu eina, eru fjölda margar aðrar opinberar skrifstofur, sem líkt er ástatt um. Fyrir þessa ástæðu eina væri þetta hin mesta nauðsyn.

Í öðru lagi er þess að geta, að þar sem ríkið rekur upp undir 20 skrifstofur víðsvegar í bænum, veldur það miklum óþægindum fyrir starfsmenn í þessum skrifstofum, sem oft hafa mikið saman að sælda, að þurfa að þjóta fram og aftur um bæinn til að finna hver annan vegna mála, er þeir þurfa að vinna að saman. Sama máli er að gegna um aðkomumenn, sem koma til bæjarins; það væri ekki lítill tímasparnaður fyrir þá að geta gengið að hinum ýmsu skrifstofum á einum stað.

Þá kemur þriðja röksemdin, og það er hin mikla húsaleiga, sem landið verður að borga fyrir allar þær skrifstofur, sem dreifðar eru út um bæinn, og er miklu hærri en ef skrifstofurnar væru í einni byggingu. Og það er ekki aðeins húsaleigan sjálf, heldur líka hiti og hirðing á þessum skrifstofum. Ef menn athuga tölur ríkisgjaldanefndar, má sjá, hve þetta skrifstofuhald hefir verið dýrt fyrir landið, og mun öllum augljóst, að reksturinn eins og hann nú er hlýtur að verða miklu dýrari en ef ríkið ætti eitt hús fyrir allar skrifstofurnar. Það er t. d. dýrara að láta 15 konur hreinsa skrifstofur, sem dreifðar eru um bæinn, en að láta hirða 15 skrifstofur í sama húsi.

Sá eini kostnaður, sem hægt er að komast hjá, er lóðakostnaður. Það er satt, lóðir eru mjög dýrar, en það kemur líka fram í húsaleigunni. Nú á landið mjög sómasamlega lóð á Arnarhólstúni, sem ekki er arðberandi sem stendur, og sparast beint stórfje á þeim lið. Sumir hafa talið óþarft að byggja slíkt hús, en þó byggir fjöldi manna hús aðeins til þess að leigja þau út. Hvers vegna skyldi þá ekki borgar sig fyrir landið að eiga hús fyrir skrifstofur sínar. — Einn af hv. þm. hefir nýlega bygt stórbyggingu við Austurvöll, aðeins til þess að leigja hana út. Þessi fjesýslumaður varð að reikna hvern fermetra á 400 kr. að sögn, og þegar þess er gætt, leynir sjer það ekki, hve það er heppilegt fyrir ríkið að geta notað lóð, sem það á. Nú hygg jeg, að ríkið leigi ekki í neinni byggingu, þar sem lóð er eins dýr og þessi, en þetta lóðarverð sýnir hinsvegar, hve mikið lóðaeigendur verða að leggja á vegna þessa kostnaðar.

Nú hefir húsameistari ríkisins, Guðjón Samúelsson, reiknað út byggingu við Ingólfsstræti norðanvert og væntanlegt framhald af Lindargötu. Áætlar hann bygginguna 27 m. á lengd meðfram Ingólfsstræti og 18 metra á breidd. Yrði húsið 3 hæðir, og áætlar húsameistari, að bað myndi kosta liðlega 200 þús. kr.

Gólfflötur á þessum þrem hæðum er sá sami og í skrifstofum, sem ríkið leigir fyrir úti í bæ. Vil jeg biðja menn að athuga leigumálann, sem sjest á skýrslum ríkisgjaldanefndar, og er þá augljóst, hve mikið mætti spara, þótt ríkið yrði að taka um 200 þús. kr. lán. Jeg álít, að þessi bygging ætti ekki að koma sem ný byrði á skattborgarana: ætla mætti, að landið ætti eignina skuldlausa eftir 20 ár, ef því, sem nú er varið til húsaleigu, væri varið til lántöku, og sjá allir, hve mikill munur er á því.

Jeg vil taka það fram, að þótt þessi till. yrði samþ., er óvíst, að ráðist yrði þegar í bygginguna. það færi algerlega eftir því, hvernig lánskjör fengjust, og lánið fengist til hæfilega langs tíma, svo að ekki þyrfti að grípa til sjerstakrar eyðslu, eins og jeg hefi áður tekið fram.

Næsti liður brtt. minnar er að ríkið geri kaup á 5 jörðum í Ölfusi. Þessi till. þarf meiri skýringar við en fyrri till. mín. Eigandi þessara jarða, Gísli Björnsson, hefir gert landinu bindandi tilboð að selja þessa eign alla fyrir 100 þús. kr. Þrjár af þessum jörðum, Reykir, Reykjahjáleiga og Reykjakot, eru miklar hverajarðir. Hinsvegar fylgja hinum jörðunum, Krossi og Völlum, engin slík hlunnindi, en Vellir eru með stærri jörðum í Ölfusi. Nú hefir eigandi tekið það í sig, að annaðhvort verði að kaupa alla eignina eða ekki. Frá mínu sjónarmiði er ekki nauðsynlegt að kaupa þessar tvær jarðir, sem ekki eru hverajarðir, en þar sem ekki er hægt að fá hinar 3 jarðirnar að öðrum kosti, tel jeg það ekki stórt atriði. Fyrir heimild til þessara jarðakaupa vil jeg færa tvennar ástæður: í fyrsta lagi eru þessar 3 jarðir vatns- og hitaauðugustu jarðir nálægt Reykjavík. Og þar sem nú með hverju ári vaxa þau not, sem menn gera her af jarðhita, er það trú mín, að ekki líði langur tími þar til það verður álitið gróðafyrirtæki fyrir ríkissjóð að hafa eignast þessar jarðir. Það er heldur ekki hægt að gera grein fyrir því, til hve margs má nota jarðhitann í framtíðinni, og ef til vill líður heill mannsaldur eða meira áður en hægt er að notfæra sjer allan þennan mikla kraft, sem þarna er. — En þetta er ekki eina ástæðan fyrir því, að jeg hefi borið þessa till. fram, sem jeg nú hefi bent á, þótt það sje mikil framtíðarnauðsyn að tryggja sjer slíka hveraorku. Það, sem kemur mjer til þess að óska eftir þessari heimild, er þörf ríkisins á slíkum stað vegna berklaveikra. Fjöldi þessara sjúklinga fer vaxandi með hverju ári, svo að kostnaður við berklavarnalöggjöfina hefir hækkað um 100 þús. kr. á ári á hinum síðari árum. Þessu er erfitt að breyta nema skipulaginu verði breytt. Það má segja, að ríkið kosti hvern berklasjúkling, sem ekki er efnum búinn, og greiðir fyrir hann 2000 —3000 kr. á ári, annaðhvort á heilsuhælum eða spítölum. Það er ekkert við þessu að segja um sjúklinga, sem verið er að lækna á öðruhvoru hælinu, þótt ríkið greiði þar 5 kr. á dag fyrir hvern sjúkling, þótt ríkið reikni ekki kostnað af þessum byggingum. En nú er það vitanlegt, að læknar hafa neyðst til þess að láta sjúklinga, sem ekki getur batnað, vera til langframa annaðhvort á heilsuhælunum eða spítölum, vegna sýkingarhættu, sem af þeim stafar. Á báðum hælunum má telja, að sjúklinga sje slíkir geymslusjúklingar, en við það bætist svo, að á öllum stærri spítölum landsins, í Reykjavík, Hafnarfirði, Ísafirði, Akureyri, Blönduósi, Hvammstanga, Seyðisfirði og víðar, verður ríkið að greiða 5–10 kr. á dag fyrir fjölda sjúklinga, til þess að þeir fái að liggja þarna.

Fyrir nokkrum árum hófust áhugasamar konur handa um að byggja hressingarhæli í Kópavogi. Kostaði hælið um 60 þús. kr., og dvelja þar nú um 20 sjúklingar. Átti þetta hressingarhæli að vera einskonar brú frá spítölunum út í hið starfandi líf. Veran í Kópavogi kostar 5 kr. á dag, og þó eru forstöðukonurnar í standandi vandræðum með að láta þetta bera sig.

Nú er það gömul reynsla, að mörgu brjóstveiku fólki batnar þessi veiki, ef það er á hverastöðum; að minsta kosti er það trú manna, að mörgum geti batnað við að anda að sjer hveragufu. Eigandi þessara jarða hefir átt þarna lítið timburhús og hefir batnað þar eigi allfáum berklasjúklingum. Jeg ætla ekki að fara nánar út í þetta atriði, enda get jeg ekki um það dæmt, en það fullyrði jeg, að svo fremi sem ríkið ætlar að taka að sjer alla þá sjúklinga, sem ekki eiga kost á því að komast á heilsuhæli eða hressingarhæli, verður kostnaðurinn við framkvæmd berklavarnalaganna ríkissjóði um megn áður en langt um líður. Hinsvegar gæti þessi kostnaður orðið öllu minni, ef ríkið tæki þá sjúklinga, sem að einhverju leyti eru vinnufærir, og hefði þá á hressingarhæli, sem bæði er sjúkrahús og vinnustöð.

Öllum er kunnur sá mikli sparnaður, sem af því leiðir að hagnýta sjer hverahita við heimilishald, og er því ljóst, að það myndi hafa feikna mikinn sparnað í för með sjer fyrir ríkið, ef komið væri upp heilsuhæli á Reykjum fyrir þá sjúklinga, sem enga eiga að, og gæti þeim liðið miklu betur þarna en í spítölum, sem eru inni í miðjum bæjum. Jeg hygg, að hægt væri að láta sjúklingana vinna á Reykjum, því að aðallega yrðu þar hafðir vinnufærir sjúklingar. Það væri hægt að reka þarna garðrækt og ef til vill blómarækt, bæði til þess að selja afurðirnar, en þó einkum handa hressingarhælinu sjálfu. Hinsvegar er hin harða og sendna jörð í Kópavogi ekki fallin til slíkrar yrkju og því ekki kleift að hafa mikið upp úr vinnu sjúklinga þar. Jeg mæli því eindregið með þessum lið till. minnar, því að í þessum hverajörðum er mikil auðlegð fólgin fyrir framtíðina, og í þessari uppástungu er falinn sá eini möguleiki að geta haldið uppi þessari mannúðarstarfsemi án þess að íþyngja ríkissjóði of mikið.

Um c-lið till., að kaupa eftir mati úttektarmanna peningshús þau á Eiðum, sem eru eign fyrv. skólastjóra, Ásmundar dócents Guðmundssonar, hefi jeg lítið eitt að segja. Þegar þessi maður kom að Eiðum, voru hús öll fallin þar, og neyddist hann til, vegna bús þess, er hann rak, að byggja þau upp, og á hann þau enn að nokkru leyti. Það má ef til vill segja, að hann geti sjálfum sjer um kent, að hafa byrjað á því að byggja húsin, en hann mun hafa haft vilyrði Jóns heitins Magnússonar fyrir því, að þau yrðu keypt, ef hann færi frá Eiðum. En þó svo væri ekki, mun öllum þykja sanngjarnt, að húsin verði keypt eftir mati úttektarmanna og að vel yfirlögðu ráði. Vænti jeg þess, að hv. deild samþ. till.