27.04.1929
Neðri deild: 55. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

16. mál, fjárlög 1930

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Aðeins fá orð til hv. 3. þm. Reykv. Mjer skildist hann vera að leggja út af óheilindum. En hver hefir sýnt óheilindi, ef ekki hann sjálfur? Hann biður hjer um peninga handa goodtemplurum. En til hvers á að nota þá peninga? Hann getur sagt til bindindisfræðslu. En jeg vil segja, að þeir noti þá í það, sem hann leyfir sjer að kalla njósnir um einstaka menn. Jeg er það síst að lasta, þó reglan fái kærða ýmsa drykkjudólga og noti styrkinn til þess. Hv. þm. var að áfella mig fyrir að vilja lækka styrkinn stórstúkunnar. En þar er jeg í fullu samræmi við vilja hv. deildar, er feldi með miklum atkvæðamun hækkun á þeim styrk. Enda hefir Alþingi nú tekið á ríkissjóð kostnað við lögreglueftirlit. er templarar höfðu áður með höndum.

Vilji hv. þm. vera að tala um njósnir í þessu sambandi, þá á hann um bað við vini sína. Drafnartemplarana. En það eru ekki njósnir, þó lögreglan líti eftir góðum siðum á almannafæri. Það er skylda þeirra. Það er svívirðing af blöðum þeim, er standa að hv. þm., er þau svívirða, uppnefna og ofsækja þessa menn. Þjófurinn hefir eins mikinn rjett til að ráðast að dómaranum, sem dæmir hann. (MJ: Þetta er framkvæmt svo asnalega!). Hv. þm. hefir engan rjett til að ráðast á þessa menn, er einungis hafa gert skyldu sína, enda hefir hvorki hann nje nokkur annar komið með nokkur rök um vanrækslu hjá löggæslumönnunum. Hann og fjelagar hans hafa látið sjer nægja með uppnefni, róg og dylgjur. En slíkt framferði er íhaldinu, blöðum þess og málsvörum til minkunar, en ekki löggæslumönnunum, sem með góðri vinnu hafa átt mikinn þátt í, að opinber ofdrykkja er nú miklu síður þjóðarsmán á Íslandi heldur en áður var.

Það gengur svo langt, að goodtemplarinn hv. 3. þm. Reykv. ræðst að þessum mönnum með ofsa og offorsi fyrir að gera skyldu sína.

Jeg veit ekki, hvar þeir menn ættu frekar að hafast við en í skúmaskotunum; þeir, sem eyða æfi sinni í ölæði, eiga ekki að sjá dagsins ljós. Þjóðin má blygðast sín fyrir slíka menn. Þá var hv. þm. að telja það eftir, að jeg hefði látið gefa út skýrslu um áfengisútlát læknanna, og sagði, að með því vildi jeg kasta skugga á þá. Því fer fjarri, og skal jeg sýna fram á það með nokkrum orðum. Í síðustu skýrslu kom það í ljós, að læknar höfðu látið mjög misjafnt úti af áfengi. Einn hafði t. d. látið 176 kg. af spíritus, en aðrir lítið eða alls ekkert, eins og t. d. Gunnlaugur Claessen Vilmundur Jónsson og Jónas Kristjánsson. Ef þessi skýrsla hefði ekki verið gefin út, hefðu allir læknar verið með sama markinu brendir og almenningur mundi ekki hafa getað skilið sauðina frá höfrunum. En eftir að skýrslan er komin út standa þeir hreinir, sem hreinir eru, en hinir, sem það verðskulda, fá rjettilega á sig smánarblettinn. Nú vildi jeg beina því til hv. þm., hvort hann álíti ekki, að skýrslan sje eins gefin út þeim til heiðurs, sem ekkert áfengi ávísa, eða hinum, sem nota 176 kg. á ári. Milli þessa tvens er mikið bil, og það get jeg sagt læknunum til hróss, að yfirleitt virðast þeir nota áfengi í hófi. En að lokum vildi jeg segja það, að hv. 3. þm. Reykv vill breiða út skömm yfir alla, til þess að hylma yfir bresti einstaklingsins. Þannig er hans rjettlæti.