01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram nokkrar brtt. á þskj. 461, og eru þær allar samstæðar og fela í sjer þá einu breytingu, að viðlagasjóður geti haldið áfram að vera sjálfstæð stofnun að öðru leyti en því, að skuldabrjefin, sem nefnd eru í brtt., verði bundin sem tryggingarfje við veðdeild og bústofnslánadeild Búnaðarbankans.

Jeg mintist á þetta við 2. umr. þessa máls og gat þess þá, að það væri í raun og veru óþarfi og gagnslaust fyrir Búnaðarbankann að eyðileggja viðlagasjóðinn og skifta honum upp milli hinna einstöku deilda bankans til eignar. Eftir frv. er viðlagasjóðnum alveg sundrað og hlutverk hans er þar fyrst og fremst það, að vera sem tryggingarfje fyrir vaxtabrjefum veðdeildar og bústofnslánadeildar Búnaðarbankans, og er það aðalmarkmiðið. Þessu markmiði er hægt að ná að fullu með þeirri tilhögun, sem jeg hefi stungið upp á í brtt. mínum, svo að bankinn þarf einskis í að missa, þó að þær verði samþ. Orðalagið á þeim brtt., sem um tryggingarfjeð fjalla, er sniðið eftir því orðalagi, sem haft var að því er snertir samskonar tryggingarfje, er lagt var fyrir 1. flokki veðdeildar Landsbankans og að nokkru leyti fyrir 2. flokki. Um þennan 1. flokk veðdeildarinnar var höfð sú tilhögun, að ríkissjóður legði til tryggingarfjeð, mest í dönskum ríkisskuldabrjefum, sem voru þar með bundin og lögð í sjerstaka vörslu til tryggingar skuldabrjefum veðdeildarinnar, en hjeldu samt áfram að vera í eigu ríkissjóðs Íslands. Þetta hefi jeg nú orðað eins í brtt. mínum með viðlagasjóðinn, þannig að hann verði bundinn sem trygging, en haldi áfram engu að síður að vera eign ríkissjóðs. Þetta þýðir það, að vextir, sem inn koma af eignum viðlagasjóðsins, renna ýmist í hann sjálfan eða ríkissjóð, og afborganir af lánum verða til umráða fyrir fjárveitingarvaldið, Alþ. og landsstjórn, til nýrra útlána. Ef nú svo illa færi fyrir veðdeild og bústofnslánadeild, að þær yrðu fyrir töpum, þá verður auðvitað að taka til tryggingarfjárins, og hlýtur slíkt að ganga fyrir, þar sem þetta veðband er komið á þessa eign ríkissjóðs. Brtt. mínar eru einnig leiðrjetting á þeirri missmíð frv., þar sem áskilið er, að þessum tveim deildum bankans skuli lagt út til eignar af skuldabrjefum viðlagasjóðs meira heldur en til er. Jeg hefi lagfært þessa missmíð með því að kveða svo á í brtt., að tryggingarfjeð skuli lagt fram í skuldabrjefum viðlagasjóðs, eða öðrum skuldabrjefum eigi ótryggari.

Jeg þykist svo ekki þurfa að mæla frekar með þessum brtt. mínum, en vil vona, að hv. deild taki þeim vel og samþ. þær. Það á ekki að vera nauðsynlegt, þó að löggjafarvaldið vilji hjálpa landbúnaðinum og gera alt sem hægt er fyrir hann, að leggja niður viðlagasjóðinn. Hann er eign ríkisins og hefir þýðingarmikil verkefni, og væri viðkunnanlegast og best, að svo megi vera áfram. Þar sem brtt. mínar eru allar ein heild, þá þykist jeg ekki þurfa að gera grein fyrir hverri einstakri, nema tilefni gefist. Þær fela aðeins í sjer þá einu breytingu, eins og jeg hefi áður tekið fram, að viðlagasjóðurinn skuli einungis vera hafður sem trygging, en halda áfram að vera eign ríkisins eigi að síður.

Mig langar svo til þess að bæta því við, að viðlagasjóðurinn er nú orðinn að upphæð um 2 milj. kr. Hann hefir yfirleitt vaxið frá því fyrsta að farið var að leggja í hann tekjuafganga ríkissjóðs, en á því var byrjað þegar Íslendingar fengu sjálfir fjárforræði 1874. Þessi vöxtur hjelt svo áfram fram til ársins 1924, þegar ákveðið var að nota vexti sjóðsins til árlegra útgjalda ríkissjóðs með því að telja þá tekjumegin í fjárlögunum. Þetta grundvallaðist á því, að þáverandi stj. taldi það ekki rjett að leggja stund á að auka viðlagasjóðinn þegar svo stóð á, að ekki var hægt að auka hann nema með verðföllnum peningum. Meðan svo var ástatt, þá var það alveg rjettmæt stefna að nota fjeð heldur til þess að greiða skuldir heldur en til þess að auka sjóðinn. Nú geri jeg mjer vonir um, þegar komin er full festa í peningamál landsins, að það sje óhætt að taka upp hina eldri aðstöðu og láta sækja aftur í gamla horfið. Það á að lofa sjóðnum að vaxa af vöxtum sjálfs sín og með því að leggja í hann þá tekjuafganga, sem kunna að verða á góðum árum, þegar svo vel tekst til, að tekjurnar eru meiri en útgjöldin. Jeg er þeirrar skoðunar, að það sje nauðsynlegt fyrir ríkið að eiga slíkan sjóð, sem hægt er að verja til þess að lyfta undir með þeim framkvæmdum, sem í byrjun eru styrksþurfa og eru maklegar og gagnlegar, en þar sem fyrirtækin eru hinsvegar ekki komin á þann fót, að þau hafi aðstöðu til að fá lán úr bönkum, og geta ekki skilað þeirri tryggingu, er bankarnir telja hæfa. Viðlagasjóðurinn hefir verið notaður sem lyftistöng á þessu sviði, og jeg álít það sjálfsagt og rjett, að ríkið haldi áfram að eiga hann og láta hann gegna sínu upphaflega hlutverki.

Það má ekki ganga út frá því, að Búnaðarbankinn verði fær um að taka að sjer til stuðnings öll þau framfarafyrirtæki, sem rjett er að styðja í byrjun með opinberu, ódýru lánsfje. Jeg er þess fullviss, að í framtíðinni verða nóg slík verkefni til fyrir viðlagasjóð, þó að Búnaðarbankinn taki nokkur þeirra að sjer. Vona jeg því, að hv. deild geti fallist á till. mínar, þar sem þær ganga alls ekki í þá átt að draga úr Búnaðarbankanum að neinu leyti.