01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Baldvinsson:

Mjer finst það ekki eiga síður við hjer en í hv. Nd. að tala við stj. um það, sem miður fer, og þótt það hafi nú verið vani að láta frv. þetta fara til 2. umr. órætt, finn jeg ekkert á móti því, að sami siður væri hjer tekinn upp og í Nd. Jeg vildi aðallega spyrja hæstv. atvmrh. að því, hvernig kaupgreiðslum ríkisins við opinbera vinnu sje hagað úti um landið, hverjir ráði því, og eftir hvaða reglum sje þar farið. Það er nefnilega vitanlegt, að afarlágt kaup er goldið úti um sveitir, sjerstaklega á vorin, og sumstaðar er það svo lágt, að það má heita algerlega óviðunandi. Jeg veit til þess, að menn hafa aðeins fengið 40–45 aura á tímann í Húnavatnssýslu, en í Eyjafirði var það 60 aurar og hækkaði síðan, er á sumarið leið, upp í 85 aura. Nú vil jeg spyrja, hvernig stendur á þessum mikla mun og lága kaupi. Er mismunur á kaupgjaldi á vorin og sumrin máske af því, að stj. eða ráðamenn hennar haldi, að ódýrara sje að lifa á vorin heldur en þegar grasið er sprottið, þannig, að menn geti bitið það til bjargar sjer? Jeg hefði talið rjett af ríkisstj., að hún hefði sett ákveðnar reglur um þetta og samið um kaup við verkalýðsfjelögin úti um land, í þeim hjeruðum, sem vinnan fer fram í. Það nær ekki nokkurri átt, að einhverjir verkstjórar ríkisins ráði þessu einir og ákveði kaup á hverjum stað eftir eigin höfði. Eins og því er nú komið fyrir eru það verkamennimir, sem við þetta vinna, sem borga mikinn hluta af kostnaði við opinberar framkvæmdir. Þeir leggja fram miklu meiri vinnu en þeim er borgað fyrir.

Næst vildi jeg spyrja hæstv. atvmrh. að því, hvað síldarverksmiðjunni líði og hvort hægt muni verða að starfrækja hana nú á þessu sumri. Heimild var veitt til þessarar verksmiðjubyggingar á síðasta þingi, og jeg minnist þess, að Magnús heitinn Kristjánsson fjmrh. var þeirrar skoðunar, að að þessu yrði að vinda bráðan bug, því að annars yrðum við að selja útlendum verksmiðjum afla okkar fyrir lágt verð. Ef verksmiðjan gæti tekið til starfa þegar á næsta sumri, hefði það mjög mikla þýðingu fyrir útgerðina í landinu og fyrir verkalýðinn. Þess vegna vildi jeg gjarnan fá að vita, hvað þessu liði. Jeg hefði náttúrlega ástæðu til að spyrja um ýmislegt fleira, en ætla mjer þó að láta þetta nægja í bili, en vil þá víkja lítið eitt að gerðum hæstv. dómsmrh.

Vil jeg þá minnast lítillega á, hvernig hæstv. ráðh. hefir komið fram gagnvart hjúkrunarkonunum á Vífilsstöðum. Mjer er sagt, að hann hafi gengið mjög fast fram í að lækka kaup þeirra, og var það þó sannast að segja síst of hátt fyrir. Þykir mjer undarlegt, að hæstv. ráðh. skyldi leggjast svo lágt að ráðast að þessum lágt launuðu starfsmönnum. Jeg álít, að hinir ýmsu lágt launuðu starfsmenn ríkissjóðs búi ekki við þau sældarkjör, að ástæða sje til að klípa af kaupi þeirra. Tel jeg, að hæstv ráðh. eigi vanþakkir skilið fyrir ráðsmensku sína í þessu máli. Ef til vill ætlar hann að hafa það sjer til rjettlætingar, að hann sje hjer að spara ríkisfje, en sannast að segja hygg jeg að fáir trúi því, að hann sje neinn sjerstakur sparnaðarmaður á landsfje. En ekki skal jeg neita því, að hann sje athafnamaður.

Þá vil jeg víkja að þeirri takmörkun, sem hæstv. dómsmrh. gerði á mentaskólanum. Jeg álít, að það hafi verið rangt af honum að meina þeim nemendum upptöku í skólann síðastliðið vor, sem stóðust prófið, sem heimtað er til fyrsta bekkjar. Jeg álít þetta sjerstaklega rangt vegna þess, að hæstv. ráðh. hefir með höndum nýja löggjöf um þennan skóla, og gat því leitað eftir vilja Alþingis um þetta efni. Slík takmörkun gat þá beðið þess tíma, ef hún á annað borð þurfti að eiga sjer stað.

Nú vil jeg að lokum spyrja hæstv. ráðh. um atvik, sem sagt er, að borið hafi við alveg nýlega. Í aðalblaði Íhaldsflokksins hjer í bænum er sagt frá því, að herforingi af þýsku varðskipi hafi verið í rjettinum í Vestmannaeyjum, þegar kveðinn var upp dómur yfir þýskum togara, og mjer er sagt, að rjettarhaldinu hafi verið frestað, til þess að þessi þýski liðsforingi gæti verið viðstaddur. Nú vil jeg spyrja hæstv. ráðh. um það, hvort þetta sje að hans tilhlutun, eða ef hann getur gefið upplýsingar um það, hvers vegna þessir menn voru viðstaddir. Þar sem þeir eru opinberir sendimenn þýska ríkisins, má segja, að þýska ríkið hafi verið viðstatt rjettarhöldin. Og það hefi jeg heyrt, að sje talin frekasta móðgun, ef haft er þannig eftirlit með dómstólum. Það má vera, að þarna sje farið með rangt mál, því að aðalheimild fyrir þessu er „Morgunblaðið“. En jeg læt þetta samt flakka og óska svars frá hæstv. ráðh.

Þá skal jeg víkja örlítið að því, sem hv. þm. Snæf. sagði út af öðru máli hjer á undan. Út af brtt. við búnaðarbankann um að heimila stj. að setja reglugerð um starfsemi einnar deildarinnar vjek hann því til mín, að jeg mætti vera ánægður með, að slík heimild væri víðtæk, af því að jeg treysti stj. svo vel. Það er náttúrlega svona og svona. Jeg treysti henni vel í sumu og ekki vel í sumu, alveg eins og Íhaldsflokkurinn treystir henni vel í þeim málum, þar sem hann og stj.-flokkurinn eru sammála. Að vísu er það rjett, að jafnaðarmannaflokkurinn hjálpaði hæstv. stj. að komast á laggirnar, svo að hún gæti sagt á Alþingi, að hún styddist við meiri hl. eða hefði hlutleysi svo margra þm., að hún væri þingræðisstj. Lengra þurfti stuðningur okkar jafnaðarmanna ekki að ná og náði ekki. Hæstv. stj. er minnihlstj., eins og vitanlegt er, og hún semur til beggja hliða í þinginu. Okkar traust til hennar fer eingöngu eftir því, hvernig hún reynist í málunum. Hitt skal jeg fúslega játa, að ef jeg væri viss um, að við ættum að fá aftur íhaldsstj., þá myndi jeg vilja hugsa mig um tvisvar, áður en jeg styddi að því, að stj. væri látin fara frá völdum, eftir því, sem enn er komið, því að núv. hæstv. stj. hefir víðar sýnt meiri skilning gagnvart okkur jafnaðarmönnum en íhaldsmenn, þegar þeir höfðu ráðin í annari deild þingsins.

Jeg ætla ekki að hafa mín orð fleiri að þessu sinni, en vænti svars við fyrirspurn minni frá hæstv. stj.