01.05.1929
Efri deild: 58. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

16. mál, fjárlög 1930

Jón Baldvinsson:

Hæstv. atvmrh. játaði, að hann bæri ábyrgð á kaupgjaldi víðsvegar um landið, þó að aðrir geri till. og ákveði eitt og annað um það. En þegar hæstv. ráðh. gerði grein fyrir, hvers vegna mismunandi kaup væri greitt, þá hefir hann annaðhvort misskilið mig eða snúið út úr því, sem jeg sagði. Það, sem jeg aðallega meinti, var það, hvers vegna mismunandi kaup væri greitt á vorin og sumrin. Hitt vissi jeg, að verkalýðsfjelög hafa mismunandi kaupgjald, sem er dálítið með hliðsjón af því, hvað dýrt er að lifa á hinum ýmsu stöðum. (Forsrh.: Dálítið, en ekki alveg?). Það má kannske segja, að kaupgjaldið sje ekki alveg miðað við dýrtíðina. Það mótast af mörgu, meðal annars af því, hve langt verkamenn geta komist í samningum við atvinnurekendur. En þar er þó ekki, að jeg ætla, mismunandi kaupgjald yfir vorið og sumarið við algenga verkamannavinnu. Kaupgjaldið í Reykjavík er það sama alt árið, og eins í Hafnarfirði, en að vísu eitthvað ofurlítið lægra þar. Hæstv. ráðh. hefir ekki svarað þessu fullnægjandi, hvers vegna verkstjórar og vegamálastjóri ákveða lægra kaup á vorin heldur en sumrin. Hann hefir heldur ekki svarað, hvers vegna ekki er leitað til verkalýðsfjelaganna af hálfu ríkissjóðs, alveg eins og einstakir atvinnurekendur víðast hvar. Jeg álít, að það eigi ríkissjóður að gera þar, sem slíkur fjelagsskapur er til.

Þá er aðgætandi, að þetta lága kaupgjald ríkissjóðs kemur niður á því fólki, sem versta aðstöðu hefir til að draga fram lífið. Auk þess eru margir fátækir námsmenn, sem nota sjer sumarvinnuna til þess að geta staðist námskostnað. Og það er hart að gengið af því opinbera að heimta, að þessir menn leggi sinn skerf til framkvæmdanna í landinu með því, að dregið sje af þeim kaupið. Því að vitanlega borga þeir líka sinn hluta af hinu beina framlagi ríkissjóðsins til framkvæmdanna.

Hæstv. forsrh. sagði, að þetta væri mest unnið í ákvæðisvinnu. En hvernig er sú ákvæðisvinna? Vegamálastj. gerir áætlanir um það, hvað verkið muni kosta, og miðar við þrælavinnu, 12–13 stunda vinnu á dag, en ætlar verkamönnunum samt ekki að ná nema meðalkaupi. Jeg tel þetta hvorki rjettlátt nje sanngjarnt. Það má vera, að verkamenn fái með þessu móti lítið eitt hærra tímakaup en alment er að greiða, þó að jeg efist um að svo sje, en það er þá af því, að þeir leggja á sig langsamlega meiri vinnu. Jeg áleit það óhjákvæmilegt, út af þessari framkomu stj., að hreyfa þessu máli hjer í þinginu, til þess að fá úr því skorið, hvort þm. fallast á, að kaupgjaldsgreiðslum ríkissjóðs sje hagað svona, því að það er fjarri því, að það sje sambærilegt við kauptaxta verkalýðsfjelaganna víðsvegar um land.

Jeg hefi fengið svar við fyrirspurn minni út af síldarbræðsluverksmiðjunni, og skal því ekki fara frekar út í það.

Hæstv. dómsmrh. hefir það til afsökunar á framkomu sinni gagnvart hjúkrunarkonunum, að menn sjeu svo óánægðir yfir, hve sjúkrahúskostnaður ríkisins sje mikill. Nú hefir ríkið einu sinni tekið á sig skuldbindingar gagnvart berklasjúklingunum og á samkv. ákvæðum berklavarnalaganna að kosta þetta. Og hví hefir ríkið tekið á sig skuldbindingar í þessu efni? Ekki vegna sjúklinganna sjálfra, heldur vegna þeirra, sem heilbrigðir eru, svo að þeir smitist ekki. Þetta er undirstaða berklaveikisl. Jeg er hræddur um, að hæstv. dómsmrh. hafi ekki skilið þetta, en eins og aðrir ráðh., sem um þessi mál hafa fjallað, orðið argur út af því, hve þessi kostnaður er mikill. Jeg hefi meira að segja orðið þess var, að sumir læknar, sem áttu þó að standa á verði í þessum efnum, hafa verið að tvístíga yfir því, hvort þeir ættu ekki að leggja til, að berklavarnirnar væru afnumdar. Þingið tók þennan kostnað á sig vitandi vits, en af því að hann skiftir hundruðum þúsunda, hefir hæstv. dómsmrh. fundið það snjallræði, til þess að bjarga ríkissjóði, að klípa 10–20 kr. af mánaðarlaunum hjúkrunarkvennanna. Með því var ríkissjóði svo sem bjargað. En það er nú upplýst, að þessi spítalakostnaður stafar ekki af því, að hjer sje greitt hærra kaup til starfsfólks en annarsstaðar, heldur af því, að önnur starfræksla er dýrari vegna meiri dýrtíðar hjer en annarsstaðar. Ætla jeg, að taka beri ekki einungis tillit til krónutölunnar, heldur líka til dýrtíðarinnar. (Dómsmrh.: Jæja, þær hafa nú alt frítt, svo að þær eru hafnar yfir dýrtíðina). Þær eru ekki hafnar yfir þann mismun, sem er á gengi peninganna. 200 kr. danskar eru t. d. meira virði en 200 kr. íslenskar. Það vita allir, að danska krónan hefir meira kaupmagn en ísl. krónan; við samanburð á kaupgreiðslu við spítala hjer og í Danmörku hefir hæstv. ráðh. flaskað á þessu atriði, líkt og Eimskipafjelagsstjórnin í verkdeilunni í vetur, sem hv. 3. landsk. þm. ætti sannarlega skilið að fá eldhúsdag fyrir, því að hann var einn af þeim, sem stöðvuðu skipin, og gerðu þannig tilraun til að koma þeim vöruflutningum, sem Eimskipafjelagið hefir haft, frá því og yfir á hendur keppinauta þess. Á hæstv. stj. þakkir skilið fyrir aðgerðir sínar í því máli, þó að hún gengi þar að vísu inn á óvenjulega braut. (JÞ: Mjer hefir verið sagt, að hann hjeti Sigurjón Á. Ólafsson, sá sem skipaði sjómönnunum að ganga af skipunum). Nei, það var hv. 3. landsk. þm., sem átti sökina á því, að Eimskipafjelagið stöðvaði skip sín í vetur, og það gerði hann til að þjóna vinum sínum og flokksbræðrum, sem höfðu stöðvað togaraútgerðina.

Hæstv. dómsmrh. bar það fyrir sig, að ekki hefði verið forsvaranlegt af heilsufræðilegum ástæðum að hafa eins mikinn nemendafjölda í mentaskólanum og verið hefði, en þó játaði hann, að ein deild skólans hefði verið höfð úti í bæ. En hann hefði átt að geta gætt þess, eins glögt auga og hann þykist hafa fyrir öllu því, sem aflaga fer í þessum efnum, að nægilegt eftirlit væri haft með því, að nemendur hlytu ekki heilsutjón af sóðaskap, hvorki í skólanum sjálfum nje þeirri deild hans, sem var úti í bæ. Skilst mjer, að slíkt eftirlit þurfi, hvort sem skólinn er á einum stað eða fleiri.

Því var hvíslað að mjer, að jeg hefði ekki farið í öllu með rjett mál í því, sem jeg sagði út af foringjum á þýska herskipinu Zieten og rjettarhöldunum í Vestmannaeyjum, en jeg hafði, sem betur fór, á því þann fyrirvara, að ekki væri víst, að það væri satt, vegna þess að jeg hefði lesið það. Í „Morgunblaðinu“. (Forsrh.: Það er nú heldur ljeleg heimild). Þetta er rjettmæt ásökun hjá hæstv. forsrh. Jeg hefði átt að vita það, að ekki er einu orði trúandi af því, sem í „Morgunblaðinu“ stendur. (Forsrh.: Alveg rjett).